Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 778 – 451. mál.



Frumvarp til laga



um breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Kristín Halldórsdóttir.
    

1. gr.


    Á eftir 1. mgr. 81. gr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Fyrning sakar skv. 200., 201. og 202. gr. hefst ekki fyrr en þolandi brots hefur náð sjálf ræðisaldri.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 202. gr.:
     1.      1. mgr. orðast svo:
                  Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 14 ára, skal sæta fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að 12 árum. Önnur kynferðisleg áreitni varð ar fangelsi allt að 4 árum.
     2.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Nú hefur sá sem dæmdur er sekur um brot á ákvæðum þessarar greinar áður verið dæmdur samkvæmt ákvæði þessu eða hann hefur verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn börnum, og má þá hækka refsingu í allt að 16 árum.     

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga er varða kyn ferðisbrot gegn börnum. Í fyrsta lagi er lögð til breyting þess efnis að fyrningarfrestur varð andi kynferðisbrot gegn börnum hefjist ekki fyrr en þolandi brots hefur náð sjálfræðisaldri, þ.e. er orðinn 18 ára. Í öðru lagi er lagt til að mælt verði fyrir um eins árs lágmarksrefsingu vegna kynferðisafbrota gegn börnum og loks er lagt til að bætt verði við 202. gr. sérstakri ítrekunarheimild, þannig að hækka megi refsingu ef um endurtekið brot er að ræða.
    Kynferðisleg misnotkun á börnum er einn alvarlegasti glæpur sem framinn er. Því er mikilvægt að Alþingi ásamt framkvæmdarvaldinu komi fram með aðgerðir sem leiða til úrbóta. Í svari við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns þessa frumvarps til félagsmálaráðherra á síðasta löggjafarþingi kom í ljós mjög alvarleg og ógnvekjandi staða þessara mála. Megin atriðin fara hér á eftir:
     1.      Barnaverndarnefndir hafa á sl. fimm árum fengið 465 mál til meðferðar vegna meintrar kynferðislegrar misnotkunar á börnum og eiga þar hlut að máli 560 börn yngri en 16 ára. Að meðaltali hafa nefndirnar haft árlega 93 mál til meðferðar þar sem 112 börn koma við sögu.
     2.      Áætlað er að hlutfall mála sem fá lögreglurannsókn sé a.m.k 50% eða um 240–250 mál. Af þeim hefur verið talið efni til ákæru í 126 málum, sem vörðuðu 153 börn. Þeim mál um var vísað til ríkissaksóknara til ákvörðunar um hvort höfðað skyldi opinbert mál af hans hálfu. Ríkissaksóknari hefur síðan birt ákæru í 45 málum, sem vísað hefur verið til dómstólanna. Vitað er að dómstólarnir hafa sakfellt í a.m.k. 32 þeirra.
     3.      Engin hópmeðferð stendur börnum sem beitt eru kynferðislegu ofbeldi til boða og áfallameðferð skortir yfirleitt hérlendis. Þá er lítið eða ekkert skipulag á því hvernig langtímameðferð í þessum málum er veitt, sé hún veitt á annað borð.
     4.      Samkvæmt upplýsingum Barnaverndarstofu sýna allar erlendar rannsóknir að hin raunverulega tíðni kynferðisofbeldis er margfalt hærri en opinberar tölur segja til um. Ekki síst eru þessar tölur ógnvekjandi þegar allar erlendar rannsóknir sýna að einungis lítill hluti þessara mála kemur fram í opinberum göngum og engin ástæða er til að ætla að staðan sé önnur hér á landi en annars staðar. Komið hefur fram að ætla megi að aðeins 10% mála þar sem börn eru beitt kynferðislegu ofbeldi komi fram í opinberum gögnum.
    Aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til varða stöðu brotaþola kynferðisofbeldis í réttar kerfinu. Einnig er ljóst að verulega þarf að bæta þann stuðning og meðferðarúrræði sem fórnarlömbum kynferðisbrota stendur til boða.
    Sanngjörn refsistefna verður að fela í sér að ætla megi að hún hafi tilætluð varnaðaráhrif og að eðlilegt samræmi sé í refsingum eftir grófleika brota. Að öllu jöfnu má segja að refsi ramminn sem löggjafinn hefur sett sé bæði rúmur og sveigjanlegur, en það sem fyrst og fremst hefur verið gagnrýnt er refsimat dómstólanna. Refsiframkvæmdin hefur sætt tölu verðri gagnrýni, en refsiákvarðanir dómstóla eru almennt mjög vægar miðað við refsihámark laga. Það hefur beint sjónum manna að því hvort setja eigi í lög ákveðið refsilágmark vegna grófra ofbeldisverka eða fíkniefnabrota, en ekki síst hefur verið til umræðu í því sambandi að sett verði ákveðið refsilágmark vegna kynferðisbrota.
    Í framkvæmd virðist meginreglan varðandi langflest brot, nema þá helst manndráp, vera sú að refsing er ákveðin mjög neðarlega innan refsirammans, auk þess sem mjög stingur í augun það ósamræmi sem virðist vera í dómum, bæði innan sömu brotaflokkanna og milli þeirra. Vafalaust á það sér skýringu, en forsendur dóma eru iðulega ekki nægilega ljósar þegar gerður er samanburður á mismunandi dómaframkvæmd innan einstakra brotaflokka, þótt verknaðurinn virðist áþekkur.
    Líklegt er að það sé fyrst og fremst það sem gerir að verkum að stór hluti almennings hef ur oft og tíðum gagnrýnt dómaframkvæmdina, ekki síst vegna kynferðis- og ofbeldisbrota, og finnst mikið ósamræmi í dómum og refsingar of lágar.
    Kynferðisbrot gegn börnum eru í augum þjóðarinnar einn alvarlegasti glæpur sem framinn er, enda ljóst að sá glæpur getur eyðilagt líf þolenda um alla framtíð. Uppi hafa verið mjög háværar kröfur um þyngingu refsinga, en nokkurra mánaða dómar fyrir slíka glæpi hafa oft misboðið þjóðinni. Í yfirliti um refsingar í kynferðisbrotamálum, sem birt var á Alþingi, komu fram fimm dómar vegna kynferðisbrota gagnvart börnum þar sem refsing var ákveðin 2–30 mánaða fangelsi, en í tíu dómum sem gengu í nauðgunarmálum var refsing ákveðin 12–48 mánaða fangelsi, en þar er kveðið á um eins árs refsilágmark. Það er skoðun flutn ingsmanna að refsingar fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum eigi ekki að vera minni en refsingar vegna nauðgunar. Með þessu frumvarpi er lagt til að sett verði refsilágmark vegna kynferðisbrota gagnvart börnum, sem verði það sama og vegna nauðgunar og þannig kveðið á um eins árs lágmarksrefsingu við brotum sem fela í sér samræði eða önnur kynferðismök við barn. Lengi hefur verið kveðið á um eins árs lágmarks refsingu við brotum gegn 194. gr. almennra hegningarlaga, nauðgunarbrotum. Er þetta lagt til að norrænni fyrirmynd, en í norskri og sænskri refsilöggjöf er að finna ákvæði um lágmarksrefsingu vegna kynferðisafbrota gegn börnum. Þykir flutningsmönnum síst ástæða til að hafa refsingar vægari þegar um er að ræða kynferðisbrot gegn börnum en fullorðnum.
    Refsilágmarkið er aðeins lagt til hvað varðar 202. gr., en ekki þau ákvæði sem lýsa refsiverð kynferðisbrot gegn barni, niðja, kjörbarni, stjúpbarni, fósturbarni, sambúðarbarni eða ungmenni sem viðkomandi hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis. Rökin á bak við þetta eru reynsla nágrannaþjóðanna af víðtækum refsilágmörkum. Þannig má nefna sem dæmi að árið 1927 var ákvæðum um kynferðisbrot breytt nokkuð í Noregi með það fyrir augum að þyngja refsingar. Var m.a. lágmarksrefsing fyrir kynferðisbrot gegn barni undir 14 ára aldri hækkuð úr einu ári í þrjú og lágmarksrefsing fyrir kynferðisbrot gegn barni á aldrinum 14–16 ára sett sex mánaða fangelsi. Voru þessar breytingar gagnrýndar harðlega og í dómum Hæstaréttar Noregs var nokkrum sinnum tekið fram að refsingin hefði verið ákveðin öðruvísi ef ekki hefði verið kveðið á um svo háa lágmarksrefsingu í lögunum. Einnig var nokkuð um að brot væru færð undir önnur ákvæði en þau í raun áttu undir og jafnvel að menn væru sýknaðir þegar lágmarksrefsingar þóttu of háar. Í kjölfar gagnrýni var lögunum breytt árið 1963 þannig að lágmarksrefsing fyrir kynferðisbrot gegn barni undir 14 ára aldri varð aftur eitt ár. Nokkrar umræður hafa orðið um þetta í Noregi síðastliðið ár og varð niðurstaðan sú að halda inni refsilágmarki í ákvæðum um kynferðisbrot gegn börnum undir 14 ára aldri, þar sem um mjög alvarleg brot væri að ræða.
    Ástæða þess að ákvæðið er ekki látið ná til brota gegn niðjum og börnum í umsjá brotamanns er að því hefur verið haldið fram að það geti falið í sér hættu á að fólk veigri sér frekar við að kæra slík brot ef ljóst er að refsingin muni ekki verða undir eins árs fangelsi. Því er lagt til að ákvæðið nái aðeins til 202. gr. Flutningsmenn telja þó rétt að þetta sé sérstaklega skoðað í umfjöllun þingsins um málið.
    Umboðsmaður barna lét á síðasta ári vinna skýrslu um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum. Í töflu sem er fylgiskjal með frumvarpinu kemur fram yfirlit og samanburður á refsirammanum á Íslandi og í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í þessum samanburði kemur m.a. fram að löggjöf í Noregi og Svíþjóð kveður á um sérstaka lágmarksrefsingu. Í Noregi skal dæma mann í fangelsi ekki skemur en eitt ár hafi verknaðurinn falið sér samræði við barn eða ungmenni og er það óháð því hvort brot telst að öðru leyti sérlega gróft eða ekki. Í Svíþjóð er í lögum ákvæði um að lágmarksrefsing fyrir kynferðisbrot af þessu tagi sem telst mjög gróft verði ekki skemmri en fangelsi í tvö ár. Í skýrslu umboðsmanns kemur einnig fram að samanburður á almennu ákvæði um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum leiðir í ljós að viðmiðunaraldur er lægstur hér á landi eða 14 ár. Í Danmörku og Svíþjóð er hann 15 ár, en 14–16 ár í Noregi. Einnig kemur fram að almennt refsihámark vegna brota á almennu ákvæði um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum er hærra hér á landi en í samanburðar löndunum. Þó kemur fram að í Noregi er kveðið á um þyngri hámarksrefsingu, eða fangelsi í allt að 21 ár, þegar brot telst sérstaklega gróft. Þetta á t.d. við þegar barn er yngra en 10 ára og þegar um síendurtekin brot hefur verið að ræða.
    Um kynferðisbrot gegn börnum gilda nú almennar fyrningarregur í 80.–82. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt þeim ákvæðum fer lengd fyrningarfrests eftir þyngd refsingar sem við brotinu liggur. Meginreglan er að öll brot eru fyrnanleg nema þau sem ævilangt fangelsi liggur við. Þessu var breytt árið 1981, en fram að þeim tíma voru mun fleiri brot ófyrnanleg. Samkvæmt almennum hegningarlögum eru fyrningarfrestir fjórir. Sök fyrnist á tveimur árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi eða refsing sú sem unnið er til fer ekki fram úr sektum. Sök fyrnist á fimm árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en fjögurra ára fangelsi. Sök fyrnist á tíu árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en tíu ára fangelsi og undir þennan flokk falla flest kynferðisbrot nema þau alvarlegustu. Þá fyrnist sök á 15 árum ef þyngsta refsing við broti er 16 ára fangelsi eða lengra tímabundið fangelsi og falla m.a. brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga undir þessa fyrningarreglu. Ófyrnanleg brot eru þau brot sem við getur legið ævilangt fangelsi, svo sem manndráp af ásetningi. Flutningsmönnum þykir rétt að sérákvæði gildi um fyrningu kynferðisbrota gegn börnum og því eru lagðar til nokkrar breytingar á þeim.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að bætt verði við 81. gr. almennra hegningarlaga ákvæði þar sem mælt er fyrir um að fyrning sakar að því er varðar brot gegn 200., 201. og 202. gr. hefjist ekki fyrr en þolandi brots hefur öðlast sjálfræði, þ.e. náð 18 ára aldri. Rök fyrir þessari breytingu lúta að eðli kynferðisbrota gegn börnum, en algengt er að ekki sé upplýst um slík brot fyrr en löngu eftir að þau voru framin. Þannig fyrnast mörg kynferðisafbrot gegn börn um löngu áður en börnin verða fullorðin og eru orðin sjálfstæð og líkleg til að tjá sig um brot sem framin hafa verið gegn þeim í æsku. Sem dæmi má taka brot gegn 202. gr., samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára. Samkvæmt núgildandi ákvæðum fyrnist slíkt brot á 10 árum, en samkvæmt tillögum frumvarpsins yrði áfram um 10 ára fyrningarfrest að ræða en hann hæfist ekki fyrr en við 18 ára aldur og því fyrnist brotið ekki fyrr en brotaþoli er orðinn 28 ára. Ef breytingar þær sem lagðar eru til í 2. gr. um ítrekun eru teknar með í reikninginn þá fyrnist slíkt brot á 15 árum og yrði þolandinn þá orðinn 33 ára þegar brotið fyrntist.
    Öðru máli gegnir um brot gegn 194. gr., nauðgun, en þar er fyrningarfrestur 15 ár og þol andinn a.m.k. 14 ára þegar brotið er framið og því eru yngstu brotaþolarnir farnir að nálgast þrítugt þegar brotið fyrnist. Flutningsmönnum þykir því ekki ástæða til að gera breytingartil lögu við það nú, en hér er þó um að ræða ákvæði sem e.t.v. væri rétt að kanna nánar í með förum þingsins.
    Varðandi fyrningarfrest er sérstaklega vert að benda á að hertum fyrningarreglum má ekki beita afturvirkt, því eiga þær aðeins við um brot sem framin eru eftir að lög þessi taka gildi.


Um 2. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 202. gr. almennra hegningarlaga, en í gildandi ákvæði er að finna almenna reglu sem lýsir samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 14 ára, refsiverð. Um þvingað samræði við eldri börn gilda ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgunarbrot. Þannig er lagt til að sett verði inn í ákvæðið eins árs refsilágmark.
    Einnig er lagt til í frumvarpinu að við ákvæðið verði bætt sérstakri ítrekunarheimild, þannig að heimilt verði að hækka refsingu í allt að 16 ára fangelsi, ef sá sem dæmdur er sek ur um brot á ákvæðum 202. gr. hefur áður verið dæmdur samkvæmt ákvæðinu eða honum hefur verið refsað fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Þykir nauðsynlegt að hækka refsiramm ann vegna ítrekaðra kynferðisbrota gegn börnum, þar sem um mjög alvarleg brot er að ræða. Má sem dæmi nefna að í Noregi var árið 1992 gerð breyting á refsiramma hegningarlaga vegna kynferðisbrota gegn börnum og var markmið breytinganna að auka viðbrögð við slík um brotum. Fólust breytingarnar aðallega í því að hækka hámarksrefsingu í málum vegna kynferðisbrota gegn börnum í allt að 21 árs fangelsi ef um ítrekað eða gróft brot er að ræða.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.





Fylgiskjal.


Yfirlit og samanburður á refsiramma á Íslandi, Danmörku,


Noregi og Svíþjóð hvað varðar kynferðisbrot gegn börnum.

(Úr skýrslu umboðsmanns barna um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum 1997.)