Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 782 – 453. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um ritun sögu heimastjórnartímabilsins 1904–18.
Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir.
Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta rita sögu heimastjórnartímabilsins 1904–18. Ritið fjalli um aðdraganda þess að Íslendingar fengu heimastjórn, hugmyndir sem að baki lágu, helstu forvígismenn sjálfstæðisbaráttunnar um aldamótin, bæði karla og konur, aðgerð
ir stjórnvalda á tímabilinu og umræður og átök sem þá urðu. Einnig verði fjallað um þau áhrif sem atburðir úti í heimi höfðu á líf landsmanna og loks þróun samfélagsins á þessum tíma sem lagði að stórum hluta grunn að því atvinnulífi, stjórnkerfi og mannlífi sem hér þrífst nú. Stefnt sé að því að ritið verði tilbúið til útgáfu á 100 ára afmæli heimastjórnarinnar árið 2004.
Greinargerð.
Árið 2004 verða 100 ár liðin frá því að Íslendingar fengu heimastjórn og framkvæmdar
valdið fluttist til landsins. Þá tóku Íslendingar stjórn samfélagsins að mestu leyti í eigin hendur, sem auðvitað gekk ekki átakalaust. Aðdragandi þess að Íslendingar fengu heima
stjórn einkenndist af hörðum deilum og átökum þar sem landráðabrigsl og alls kyns ráða
brugg komu við sögu, enda svipmiklir einstaklingar sem réðu ferð. Þar má nefna menn eins og Hannes Hafstein, Valtý Guðmundsson, Benedikt Sveinsson eldri og Þorbjörgu systur hans, ásamt Skúla Thoroddsen, Birni Jónssyni o.fl. o.fl. Í kjölfar heimastjórnarinnar hófst mikið framfaraskeið með verklegum framkvæmdum, fræðslulögum, auknum réttindum kvenna og vexti sjávarútvegs, að ógleymdum hinum umdeilda síma, svo eitthvað sé nefnt. Ráðherrar komu og fóru og mikil átök voru í kringum bankana tvo. Fólk streymdi úr sveitun
um á mölina og verkalýðshreyfingin steig sín fyrstu spor. Undir lok tímabilsins urðu til tveir nýir stjórnmálaflokkar sem byggðu á allt öðrum grunni en áður þekktist og starfa þeir enn. Þá hafði heimsstyrjöldin fyrri töluverð áhrif á lífskjör landsmanna sem m.a. leiddi til þess að ríkiseinokun var komið á í innflutningi, t.d. með áfengi og tóbak. Pólitísk átök voru mikil enda tók þjóðfélagið örum breytingum.
Þessu tímabili Íslandssögunnar þarf að gera verðug skil í góðu yfirlitsriti. Að sjálfsögðu hefur margt verið skrifað um einstaka þætti heimastjórnartímans og ævisögur nokkurra þeirra sem þar komu mest við sögu eru til, en þær eru afar misjafnar að gæðum miðað við þær kröfur sem nú eru gerðar til sagnfræðirita. Með þessari tillögu er lagt til að hafist verði handa um ritun sögu þessa merka og spennandi tímabils sem mikill áhugi er á og stefnt að því að verkið verði tilbúið til útgáfu árið 2004. Þannig getum við minnst á verðugan hátt þeirra karla og kvenna sem ruddu brautina og skópu það samfélag sem síðar varð kleift að bjóða börnum sínum upp á meira öryggi, betri menntun og jafnari lífskjör en finna má víðast hvar annars staðar í heiminum.