Ferill 459. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 789 – 459. mál.


Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, 8. tölul., svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. b-liðar 36. gr. laganna er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að endurgreiða sjúklingum sem leituðu til sérfræðinga sem sagt höfðu sig af samningi við Trygg ingastofnun ríkisins hlut almannatrygginga í kostnaði vegna læknisþjónustu. Skilyrði endurgreiðslu er að sjúklingur framvísi fullnægjandi reikningi og að viðkomandi sérfræðingur hafi endurnýjað samning sinn við Tryggingastofnun ríkisins. Endurgreiðslan skal miðast við gjaldskrá 1. september 1997 samkvæmt samningi Læknafélags Reykjavíkur og Trygg ingastofnunar ríkisins, dags. 7. mars 1996.


2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Sérfræðingar sem vinna læknisverk á lækningastofum utan sjúkrastofnana fá annars vegar greitt frá sjúklingum og hins vegar frá Tryggingastofnun ríkisins. Um heildargreiðslur fyrir læknisverk fer samkvæmt samningi Læknafélags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. mars 1996. Viðræður samningsaðila um endurskoðun á þeim samningi hafa staðið yfir með hléum allt síðasta ár, en samningar hafa ekki tekist er frumvarp þetta er lagt fram á Alþingi. 1. júní 1997 tilkynntu nokkrir læknar að þeir mundu hætta störfum fyrir sjúkratrygg ingar frá og með 1. september 1997 og síðar hafa fleiri bæst í hópinn. Nú eru starfandi 70 sérfræðingar, einkum í skurðlæknisgreinum, sem ekki starfa samkvæmt samningi við Trygg ingastofnun ríkisins, en starfandi sérfræðingar eru samtals um 370.
    Í samræmi við b-lið 36. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, hefur sjúkratrygg ingadeild Tryggingastofnunar ríkisins ekki greitt fyrir læknisverk sem unnin hafa verið af þeim sérfræðingum sem samkvæmt framansögðu hafa verið án samnings við stofnunina. Þeir sjúklingar sem leitað hafa til fyrrgreindra sérfræðinga hafa því þurft að greiða læknisverkin að fullu og hafa greiðslur verið samkvæmt ákvörðun sérfræðings í hverju tilviki.
    Í frumvarpinu er lagt til við lögin bætist bráðabirgðaákvæði þar sem Tryggingastofnun ríkisins verði heimilað að endurgreiða sjúklingum sem leituðu til sérfræðinga sem sagt höfðu sig af samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Ekki þykir þó rétt að láta ákvæðið ná til þeirra sérfræðinga sem kynnu að vilja starfa áfram án samnings við Tryggingastofnun ríkisins. Því er gert ráð fyrir að sjúklingar fái ekki endurgreiðslu fyrr en viðkomandi sérfræðingur hefur endurnýjað samning sinn við Tryggingastofnun ríkisins. Endurgreiðslur miðast við gjaldskrá 1. september 1997 samkvæmt samningi Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Reykja víkur frá 7. mars 1996 þannig að Tryggingastofnun ríkisins greiði ávallt það sama og hún hefði greitt ef viðkomandi sérfræðingur hefði verið með samning við stofnunina.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er áformað að Tryggingastofnun ríkisins verði heimilt að endurgreiða hlut almannatrygginga í sérfræðilækniskostnaði þrátt fyrir að viðkomandi læknir hafi sagt samningi sínum lausum við stofnunina. Skilyrði fyrir endurgreiðslu er að sjúkratryggður fram vísi fullnægjandi reikningi og að viðkomandi sérfræðilæknir hafi endurnýjað samning sinn við Tryggingastofnun ríkisins.
    Ef miðað er við meðaltalskostnað Tryggingastofnunar á hverja komu til sérfræðilæknis og að 70–80 sérfræðilæknar af um 380 hafi þegar sagt sig af samningi má áætla að endurgreiddur kostnaður Tryggingastofnunar af störfum þeirra hefði numið á bilinu 50–60 m.kr. Engar upplýsingar eru til um þá sem sótt hafa þjónustu til þeirra lækna sem sagt hafa upp samningi. Einhver hluti sjúkratryggðra hefur leitað annað eða frestað komu til sérfræðilæknis. Þá er kostnaður Tryggingastofnunar meiri að meðaltali í árslok vegna áhrifa afsláttarkorta og óvíst er í hve miklum mæli sjúkratryggðir krefjast endurgreiðslu og hvort reikningar uppfylla kröfur Tryggingastofnunar. Nokkurri óvissu er háð hve mikið frumvarpið kostar Tryggingastofnun ríkisns verði það að lögum. Í ljósi framangreinds má þó áætla að greiðsla á hlut almannatrygginga í lækniskostnaðinum geti numið um 30–50 m.kr. eftir þeim forsendum sem gefnar eru. Er þá miðað við að samið verði í febrúar eða mars og að flestir eða allir sérfræði læknar komi aftur á samning viðTryggingastofnun í kjölfar samninga.