Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 795 – 464. mál.Frumvarp til lagaum dánarvottorð o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)Ritun dánarvottorðs.
1. gr.

    Læknir skal rita dánarvottorð fyrir hvern mann er deyr hér á landi. Vottorðið skal ritað á eyðublað sem landlæknir lætur útbúa.

Líkskoðun.
2. gr.

    Læknir skoðar lík og athugar hvernig andlát hefur borið að, dauðaskilmerki og líklega dánarorsök.
    Andist maður á heilbrigðisstofnun ber læknir sá sem annaðist hinn látna á stofnuninni eða yfirlæknir viðkomandi deildar ábyrgð á að líkið verði skoðað.
    Andist maður utan heilbrigðisstofnunar skal læknir sá sem stundaði hinn látna í banaleg unni skoða líkið.
    Við óvænt dauðsföll eða ef ekki tekst að ná til læknis sem stundaði hinn látna í banalegunni skal tilkynna andlátið til viðkomandi héraðslæknis. Héraðslæknir ber þá ábyrgð á að líkið verði skoðað.

Tilkynning til lögreglu.
3. gr.

    Læknir sem kvaddur er til vegna líkskoðunar skal gera lögreglu viðvart ef:
     1.      ætla má að andlát tengist refsiverðu athæfi, sjálfsvígi eða andláti af völdum slyss,
     2.      maður hefur fundist látinn,
     3.      dauðsfall er óvænt,
     4.      maður andast í fangelsi eða á öðrum áþekkum stað eða
     5.      ætla má að dauðsfall megi rekja til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við læknismeðferð.

Réttarlæknisfræðileg líkskoðun.
4. gr.

    Þegar lögreglu er gert viðvart um andlát ákveður hún hvort lík skuli skoða réttarlæknis fræðilega. Slík skoðun skal að jafnaði gerð nema:
     1.      andlát beri að svo löngu eftir slys að lögregla telji slíka skoðun óþarfa í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga eða
     2.      lögregla og læknir eru sammála um að dauðdaginn hafi verið eðlilegur.
    Réttarlæknisfræðileg líkskoðun er gerð af lögreglu og lækni í sameiningu.

Krufning.
5. gr.

    Að lokinni líkskoðun má kryfja lík í læknisfræðilegum tilgangi og fjarlægja líkamsvef og annað líffræðilegt efni:
     1.      hafi hinn látni eftir að hann varð sjálfráða samþykkt krufningu skriflega eða
     2.      nánasti venslamaður hins látna hafi samþykkt krufningu, enda þyki sannað að hún sé ekki í andstöðu við vilja hins látna.
    Lík má ekki kryfja fyrr en a.m.k. sex klukkustundum eftir að nánasta venslamanni var til kynnt um krufningu nema hann hafi samþykkt hana fyrr.
    Ef gera á réttarlæknisfræðilega líkskoðun eða réttarkrufningu er óheimilt að kryfja lík í læknisfræðilegum tilgangi eingöngu.

Réttarkrufning.
6. gr.

    Réttarkrufning skal gerð:
     1.      þegar dauðsfall verður rakið til refsiverðrar háttsemi eða ef ekki reynist unnt að útiloka slíkt með fullnægjandi hætti, eða þegar slík krufning er talin nauðsynleg til að koma í veg fyrir að síðar vakni grunsemdir um að dauðsfallið megi rekja til refsiverðs verknaðar,
     2.      þegar dánarorsök verður ekki með viðunandi hætti ákvörðuð með réttarlæknisfræðilegri líkskoðun eða
     3.      í öðrum tilvikum þar sem lögregla telur réttarkrufningu nauðsynlega.

Dómsúrskurður um réttarkrufningu.
7. gr.

    Lögregla skal kynna nánasta venslamanni nauðsyn réttarkrufningar og leita samþykkis hans.
    Samþykki nánasti venslamaður ekki réttarkrufningu skal lögregla leita úrskurðar dómara um hana.

Útgáfa dánarvottorðs.
8. gr.

    Dánarvottorð ritar sá læknir, sem skoðar líkið, eða sá sem ber ábyrgð á að það sé gert.
    Hafi andlát verið tilkynnt lögreglu má ekki rita dánarvottorð fyrr en hún hefur ákveðið að ekki sé ástæða til réttarlæknisfræðilegrar líkskoðunar eða réttarkrufningar.
    Ef réttarlæknisfræðileg líkskoðun er gerð skal dánarvottorð ritað af lækninum sem tók þátt í skoðuninni. Læknir sem framkvæmir réttarkrufningu ritar dánarvottorð.

Umönnun líks.
9. gr.

    Lík skal geyma á stað við hæfi. Ef ekki er unnt að staðfesta andlát skal fylgjast með líkinu og ekki flytja það í líkhús fyrr en læknir hefur staðfest dauðaskilmerki.
    Lík má ekki leggja í kistu fyrr en það hefur verið skoðað og dánarvottorð ritað.

Meðferð dánarvottorðs og heimild til útfarar.
10. gr.

    Dánarvottorð skal afhent venslamanni hins látna.
    Venslamaður afhendir dánarvottorðið sýslumanni í því umdæmi þar sem hinn látni átti lög heimili á dánardægri eða ætla má að dánarbúi verði skipt samkvæmt ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl.
    Nú á ákvæði 2. mgr. ekki við, t.d. vegna búsetu hins látna erlendis, og skal þá afhenda dánarvottorðið sýslumanni í því umdæmi þar sem útför hins látna verður gerð.
    Sýslumaður afhendir venslamanni staðfestingu þess að andlát hafi verið tilkynnt og má ekki gera útför nema sá sem hana annast hafi fengið slíka staðfestingu.
    Sýslumaður sendir dánarvottorð svo fljótt sem kostur er til Hagstofu Íslands.
    Hagstofan semur upp úr dánarvottorðum skýrslur um dánarorsakir hér á landi.

Tilkynningar vegna andvana fæddra barna.
11. gr.

    Fæðist barn andvana skal ekki ritað dánarvottorð, en um það skal tilkynnt til Hagstofu Ís lands.

Flutningur líka úr landi.
12. gr.

    Nú er lík flutt úr landi og ber sá sem það flytur ábyrgð á að dánarvottorð sé afhent sýslu manni í því umdæmi þar sem maðurinn lést. Sýslumaður afhendir flutningsaðila staðfest afrit dánarvottorðs og skal það fylgja líkinu til viðtakanda erlendis. Ekki má flytja lík úr landi nema ákvæðum þessum sé fylgt.

Refsingar.
13. gr.

    Brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru eftir þeim varða sektum nema þyngri hegning sé við lögð í öðrum lögum.

Reglugerðarheimild.
14. gr.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um:
     1.      Ritun dánarvottorða, að fengnum tillögum landlæknis.
     2.      Framkvæmd réttarlæknisfræðilegrar líkskoðunar, þar á meðal um lágmarkskunnáttu      lækna sem gera réttarlæknisfræðilega líkskoðun.
     3.      Réttarkrufningu.
     4.      Hvernig Hagstofu Íslands verði tilkynnt um andvana fædd börn.

Gildistaka.
15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998.

Brottfall laga.
16. gr.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi tilskipun frá 4. ágúst 1819 um skyldu manna að bjarga mönnum, sem sýnast dauðir, lög um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum, nr. 42 10. nóvember 1913, og lög um dánarvottorð, nr. 64 25. apríl 1962.

Breyting annarra lagaákvæða.
17. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36 4. maí 1993:
                  Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
            a.      1. mgr. orðast svo:
                       Óheimilt er að greftra lík eða brenna nema staðfesting sýslumanns um að andlát hafi verið tilkynnt liggi fyrir.
            b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                       Óheimilt er að setja lík andvana fædds barns eða látins ungbarns í kistu með öðru líki nema hlutaðeigandi presti eða safnaðarstjóra hafi áður verið tilkynnt það. Út fararstjóri ber ábyrgð á því að þessu ákvæði sé fylgt.
     2.      Lög um meðferð opinberra mála, nr. 19 31. desember 1991:
                  2. mgr. 70. gr. laganna orðast svo:
                  Réttarlæknisfræðileg líkskoðun skal fram fara þegar rannsóknari telur það nauðsyn legt. Einnig skal framkvæma réttarkrufningu, ef nauðsyn þykir, og skal leita úrskurðar dómara um krufningu nema nánasti venslamaður eða nánustu venslamenn hins látna leyfi.
     3.      Lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54 27. apríl 1962:
            a.      3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
                 3.      Skýrslur héraðsdómara til Hagstofunnar um úrskurði þar sem heimilað er að fara með bú horfinna manna sem látinna og dóma um að horfnir menn skuli taldir látnir.
            b.      Í stað orðsins „sóknarpresta“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: sýslumanna.
            c.      2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög um dánarvottorð, nr. 64 25. apríl 1962, hafa verið í endurskoðun um alllangt skeið. Samhliða hafa ákvæði laga um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum, nr. 42 10. nóvember 1913, verið til endurskoðunar. Í þessari endurskoðun hafa tekið þátt Dögg Pálsdótt ir hrl., áður skrifstofustjóri, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Matthías Hall dórsson aðstoðarlandlæknir og Haraldur Briem yfirlæknir, tilnefndir af embætti landlæknis, Þorsteinn A. Jónsson fangelsismálastjóri, áður skrifstofustjóri, tilnefndur af dóms- og kirkju málaráðuneyti, og Skúli Guðmundsson skrifstofustjóri, tilnefndur af Hagstofu Íslands. Ragnhildur Arnljótsdóttir deildarstjóri, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, starfaði með nefndinni til 1. október 1996.
    Með frumvarpi þessu um dánarvottorð o.fl. er leitast við að setja skýrar reglur um hvernig bregðast skuli við þegar andlát ber að höndum. Með frumvarpinu er sameinuð löggjöf um dánarvottorð og um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum. Við samningu frum varpsins var litið til löggjafar á þessu sviði á annars staðar Norðurlöndum, einkum í Dan mörku.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 1. mgr. 1. gr. laga um dánarvottorð, nr. 64/1962. Ákvæðið felur í sér að fyrir hvern mann sem deyr á landinu skuli rita dánarvottorð. Læknar einir geta skrifað dánarvottorð og nota til þess eyðublöð sem landlæknir lætur útbúa og afhendir. Í 14. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að ráðherra setji, að fengnum tillögum landlæknis, nánari reglur um ritun dánarvottorða. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ekki sé ritað dánarvottorð vegna andvana fæddra barna en kveðið er á um þau tilvik í 11. gr. frumvarpsins.
    Í lögum um ákvörðun dauða, nr. 15/1991, er fjallað um hvenær maður telst vera látinn.

Um 2. gr.

    Í greininni er fjallað um líkskoðun og hvaða læknar skuli skoða lík.
    Með líkskoðun er átt við skoðun læknis á líki þar sem hann athugar hvernig andlát hefur borið að og dauðaskilmerki. Við skoðunina reynir læknirinn einnig að ákvarða hver dánar orsök hafi verið.
    Í 2. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar maður andast á heilbrigðisstofnun. Með heilbrigðis stofnun er átt við stofnanir sem falla undir lög um heilbrigðisþjónustu, sbr. nú lög nr. 97/1990, með síðari breytingum. Í þeim tilvikum ber læknir sá sem annaðist hinn látna á stofnuninni eða yfirlæknir deildarinnar ábyrgð á því að lík verði skoðað. Hér er eingöngu fjallað um hver ber ábyrgð á slíkri skoðun. Í flestum tilfellum mun hins vegar sá læknir sem er á vakt skoða líkið.
    Algengast er að andlát beri að höndum á heilbrigðisstofnunum. Engu síður er nauðsynlegt að ákveða hvaða læknir skoði lík í þeim tilvikum þegar maður andast utan heilbrigðisstofnana. Í 3. mgr. er fjallað um þessi tilvik og þar ákveðið að sá læknir sem stundaði hinn látna í bana legunni skoði líkið.
    Í lokamálsgrein 2. gr. eru loks fyrirmæli um hvað gera skuli þegar óvænt dauðsföll verða. Í þeim tilvikum skal tilkynna andlát til viðkomandi héraðslæknis og ber hann þá ábyrgð á að lík sé skoðað. Sama gildir þegar maður andast utan heilbrigðisstofnunar og ekki tekst að ná í þann lækni sem stundaði hinn látna í banalegunni.

Um 3. gr.

    Oftast er enginn vafi á því að andlát hefur borið eðlilega að, jafnvel þótt dánarorsök sé ól jós. Stundum er hins vegar óvissa um það hvernig andlát bar að og skal þá sá læknir sem skoðar líkið undantekningalaust tilkynna lögreglu um slíkt andlát. Ákvæðið setur ekki reglur um hvernig tilkynna skuli slík andlát lögreglunni. Í flestum tilvikum yrði það gert símleiðis. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglur um viðbrögð lögreglu við slíkum tilkynningum, ekki síst þeim sem ætla má að séu vegna mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks í sambandi við læknismeðferð eða forvarnir vegna sjúkdóms. Rétt er að undirstrika að hér er fjallað um til kynningar til lögreglu. Telji lögreglan rannsókn vegna andláts á heilbrigðisstofnun nauðsyn lega er gert ráð fyrir að í sérstökum vinnureglum verði fjallað um samskipti lögreglu og heil brigðisstofnunar í þeim málum.
    Í 3. gr. eru talin upp þau tilvik sem hér koma til greina, þ.e. ef ætla má að andlát tengist refsiverðu athæfi, sjálfsvígi eða slysi, ef maður finnst látinn eða ef dauðsfall er óvænt. Einnig er hér átt við dauðsföll í fangelsi eða á öðrum ámóta stað eða dauðsföll sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks í sambandi við læknismeðferð.

Um 4. gr.

    Í greininni eru nánari fyrirmæli um viðbrögð lögreglu er henni berst tilkynning um andlát skv. 3. gr.
    Samkvæmt frumvarpinu er meginreglan sú að í þessum tilvikum skal lögregla ásamt lækni gera réttarlæknisfræðilega líkskoðun.
    Með réttarlæknisfræðilegri líkskoðun er átt við líkskoðun sambærilega þeirri sem fjallað er um í 2. gr. frumvarpsins. Munurinn felst einkum í því að réttarlæknisfræðileg líkskoðun er gerð af lækni og lögreglu í sameiningu.
    Réttarlæknisfræðileg líkskoðun er þó ekki nauðsynleg ef svo langur tími líður milli slyss og andláts að lögreglan telur slíka skoðun óþarfa með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fyrir liggja eða lögregla og læknir eru sammála um að dauðdaginn hafi verið eðlilegur.

Um 5. gr.

    Ef læknir telur nauðsynlegt að kryfja lík til að rannsaka það nánar, t.d. til að staðfesta dánarorsök, er talað um krufningu í læknisfræðilegum tilgangi. Slík krufning er eingöngu heimil ef hinn látni hefur eftir að hann varð sjálfráða, þ.e. 18 ára eftir gildistöku nýrra lög ræðislaga, nr. 71/1997, 1. janúar 1998, samþykkt krufningu skriflega eða ef nánasti vensla maður hans samþykkir hana og sannað þykir að hinn látni hafi ekki verið krufningu mótfallinn. Með nánasta venslamanni er átt við maka, ef honum er til að dreifa, en ella börn hins látna. Ef hinn látni lætur hvorki eftir sig maka né börn teljast foreldrar eða foreldri nánustu venslamenn. Séu foreldrar báðir látin teljast systkini til þessa hóps. Ef í hópi nánustu venslamanna eru fleiri en einn, t.d. börn, systkini eða foreldrar verða allir að samþykkja krufninguna. Reynist ekki unnt að ná til venslamanna eða reynist þeir engir skal aflað samþykkis þeirra sem annast útför hins látna.
    Um krufningar í læknisfræðilegum tilgangi er einnig fjallað í II. kafla laga um brottnám líf færa og krufningar, nr. 16/1991.

Um 6. og 7. gr.

    Með réttarkrufningu í frumvarpinu er átt við gjörkrufningu sem gerð er að beiðni lögreglu yfirvalda, að fengnu samþykki nánasta venslamanns eða samkvæmt dómsúrskurði. Tilgangur réttarkrufningar er að skýra dauðsfallið. Öll helstu líffæri eru skoðuð og er m.a. höfuð opnað. Tekin eru sýni sem þykja nauðsynleg til skýringa á dauðsfallinu, þar með taldir vessar eða vefir til efnarannsókna, vefjasýni til smásjárrannsókna, sýni til ræktana á sýklum o.fl., allt eftir atvikum hverju sinni. Að lokinni réttarkrufningu er skýrsla skráð þar sem fram kemur efnisleg úttekt á krufningunni með skipulegri lýsingu á niðurstöðum hennar ásamt álitsgerð þar sem niðurstaða krufningar er felld inn í það sem þekkt er um aðdraganda dauðsfallsins.
    Samkvæmt 6. gr. skal gera réttarkrufningu á líki þegar dauðsfall verður rakið til refsiverðr ar háttsemi eða ef ekki reynist unnt að útiloka slíkt með fullnægjandi hætti, eða þegar slík krufning er talin nauðsynleg til að koma í veg fyrir að síðar vakni grunsemdir um að dauðsfall megi rekja til refsiverðs verknaðar. Réttarkrufningu skal einnig framkvæma ef dánarorsök verður ekki með viðunandi hætti ákvörðuð með réttarlæknisfræðilegri líkskoðun. Lögregla getur í öðrum tilvikum talið réttarkrufningu nauðsynlega.
    Í 7. gr. er fjallað um það verklag sem þarf að vera undanfari réttarkrufningar. Leita skal samþykkis nánasta venslamanns fyrir slíkri krufningu. Lögregla hefur þetta verkefni með höndum og skal útskýra fyrir hlutaðeigandi af hverju réttarkrufning er nauðsynleg. Ef nánasti venslamaður, sbr. og 5. gr. og umfjöllun um hana, samþykkir ekki réttarkrufningu óskar lög reglan eftir dómsúrskurði fyrir krufningunni.

Um 8. gr.

    Hér er fjallað um hvaða læknir skuli rita dánarvottorð.
    Meginreglan kemur fram í 1. mgr. en hún er sú að það sé gert annaðhvort af lækni sem skoðar lík eða þeim sem ber ábyrgð á að lík sé skoðað. Undantekning er í 3. mgr. en þar er fjallað um ritun dánarvottorð í kjölfar réttarlæknisfræðilegrar líkskoðunar. Í þeim tilvikum er það læknirinn sem framkvæmir réttarkrufningu sem ritar vottorðið.
    Í 2. mgr. eru fyrirmæli um að dánarvottorð megi ekki rita fyrr en lögreglu hefur gefist tóm til að ákveða hvort gera þurfi réttarlæknisfræðilega líkskoðun eða réttarkrufningu.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. er fjallað um umönnun líks. Samkvæmt ákvæðinu skal geyma lík á stað við hæfi. Ekki má flytja lík í líkhús fyrr en læknir hefur staðfest dauðaskilmerki og óheimilt er að leggja lík í kistu fyrr en það hefur verið skoðað og dánarvottorð ritað.

Um 10. gr.

    Ein meginbreytingin á gildandi framkvæmd felst í þessu ákvæði. Samkvæmt frumvarpinu skulu sýslumenn taka við dánarvottorðum og bera ábyrgð á skilum þeirra til Hagstofu Íslands. Fram til þessa hafa prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga annast þessi skil. Með breytingunni er fækkað þeim aðilum sem standa Hagstofunni skil á dánarvottorðum og reynt að tryggja að vottorðin berist fyrr til skráningar en nú er. Við núverandi aðstæður sjá vel á annað hundrað prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga um að skila Hagstofunni dánarvott orðum mánaðarlega en verði frumvarpið að lögum mun þessum aðilum fækka í tæplega þrjátíu sýslumenn sem stæðu skil á vottorðunum jafnóðum. Hagstofan hóf fyrir rúmum áratug að vinna breytingar í þjóðskrá í sívinnslu. Fluttust þá mánaðarleg skil presta á fæðingarskýrslum til fæðingarstofnanna sem senda nú Hagstofunni skýrslurnar jafnóðum. Þessi verklagsbreyting var til mikilla bóta fyrir foreldra nýfæddra barna, t.d. hvað varðar réttindi á sviði skatta-, heilbrigðis- og tryggingamála, og hefur komið á betri skilvirkni hjá þeim sem um þessi mál fjalla. Hliðstæð breyting var ekki gerð á þessum tíma varðandi skil á dánarvottorðum og hefur það æ oftar í för með sér ýmsa vankanta við skráningu látinna. Þess eru mörg dæmi að látnir einstaklingar eru skráðir lifandi í þjóðskrá vikum saman eftir andlátið með ýmsum óþægindum fyrir aðstandendur og töf á réttindanautn. Með breyttum skilum á dánarvottorðum munu látnir hverfa af þjóðskrá fljótlega eftir að aðstandendur skila dánarvottorðum til sýslumanna.
    Þegar læknir hefur ritað dánarvottorð afhendir hann það venslamanni. Ef venslamanni er ekki til að dreifa skal vottorðið afhent þeim sem annast útför hins látna.
    Meginreglan verður sú að venslamaður afhendir dánarvottorðið sýslumanni í því umdæmi þar sem hinn látni átti lögheimili. Einnig verður unnt að afhenda vottorðið sýslumanni í því umdæmi þar sem ætla má að dánarbúinu verði skipt samkvæmt ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl.
    Þess eru dæmi að hingað komi lík til greftrunar án þess að hinn látni eigi hér lögheimili eða að dánarbúi hans verði skipt hér á landi. Í þeim tilvikum skal dánarvottorðið afhent sýslu manni í því umdæmi þar sem útför verður gerð.
    Óheimilt verður að gera útför manns fyrr en prestur eða annar sá sem útförina annast hefur fengið staðfestingu sýslumanns á því að andlátið hafi verið tilkynnt.
    Sýslumenn skulu senda dánarvottorðin jafnóðum til Hagstofu Íslands sem semur upp úr þeim skýrslu um dánarorsakir hér á landi.

Um 11. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglur um það hvaða aðilar tilkynni Hagstofu Íslands um andvana fædd börn og með hvaða hætti, sbr. og 14. gr. frumvarpsins. Sambærilegt ákvæði var í 2. mgr. 10. gr. laga um dánarvottorð, nr. 64/1962.

Um 12. gr.

    Í greininni eru ákvæði um hvernig standa skuli að flutningi líka úr landi. Efnislega er ákvæðið samhljóða 6. mgr. 5. gr. laga um dánarvottorð, nr. 64/1962.

Um 13. gr.

    Hér er fjallað um refsingar vegna brota gegn lögunum. Ákvæðið er efnislega samhljóða 12. gr. laga um dánarvottorð, nr. 64/1962, eins og því var breytt með 30. gr. laga nr. 116/1990.

Um 14. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð á grundvelli laganna um ritun dánarvottorða. Skal leita tillagna landlæknis um efni slíkrar reglugerðar. Þá skal setja í reglugerð ákvæði um réttarlæknisfræðilegar líkskoðanir og þá m.a. um lágmarkskunnáttu lækna sem þær annast. Jafnframt skal setja reglugerð um það hverjir skuli tilkynna Hagstofu Íslands um andvana fædd börn og í hvaða formi slíkar tilkynningar skuli vera, sbr. og 11. gr. frumvarpsins.

Um 15. og 16. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.

    Nauðsynlegt er að breyta nokkrum lagaákvæðum við gildistöku nýrra laga um dánarvottorð o.fl.
    Breyta þarf 3. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993. Annars vegar þarf að breyta orðalagi 1. mgr. 3. gr. til samræmis við breytingar á hlutverki sýslumanna vegna dánarvottorðsins. Hins vegar er sett inn í 3. gr. nýtt ákvæði um að óheimilt skuli að setja lík andvana fædds barns eða látins ungbarns í kistu með öðru líki nema um það hafi áður verið tilkynnt samkvæmt ákvæðum laganna. Sambærilegt ákvæði var í lögum um dánarvottorð en eðlilegra þykir að það sé í lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.
    Nauðsynlegt er að færa orðalag 2. mgr. 70. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, til samræmis við ákvæði frumvarpsins um réttarlæknisfræðilega líkskoðun og réttar krufningu.
    Loks þarf að breyta lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, vegna þeirra breytinga að sýslumenn skuli framvegis senda Hagstofu Íslands dánarvottorð. Prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga skulu eftir sem áður standa Hagstofunni skil á svokölluðum dánarskýrslum.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um dánarvottorð o.fl.

    Með frumvarpinu eru ákvæði um útgáfu dánarvottorða endurskoðuð og framkvæmdin gerð skilvirkari en nú er. Ef frumvarpið verður að lögum mun það aðeins hafa minni háttar kostnað arauka í för með sér vegna prentunar á nýjum eyðublöðum fyrir dánarvottorð og rúmast sá kostnaður innan fjárveitinga þess embættis er hefur með málið að gera.