Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 813 — 478. mál.



Frumvarp til áfengislaga.



(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að miða að hófsemd í meðferð áfengis.

2. gr.

    Samkvæmt lögum þessum telst áfengi hver sá neysluhæfur vökvi sem í er að rúmmáli meira en 2,25% af hreinum vínanda.
    Vínandastyrkur sem hlutfall af rúmmáli áfengis skal mældur við 20°C.

3. gr.

    Til að stunda í atvinnuskyni innflutning, heildsölu, smásölu, veitingar eða framleiðslu áfengis þarf leyfi samkvæmt lögum þessum. Einnig þarf leyfi til að veita áfengi í samkvæm um öðrum en einkasamkvæmum .
    Veita má einstaklingi eða lögaðila leyfi til að stunda í atvinnuskyni innflutning, heildsölu, smásölu eða framleiðslu áfengis, enda uppfylli hann þau almennu skilyrði fyrir leyfisveitingu sem lögin áskilja. Leyfisveitanda er heimilt að binda leyfi skv. 1. mgr. sérstökum skilyrðum sem talin eru nauðsynleg til að tryggja öryggi og eftirlit með atvinnustarfseminni.
    Leyfi sem gefin eru út samkvæmt lögum þessum eru bundin við nafn og kennitölu leyfis hafa. Taki nýr aðili við rekstri skal hann sækja um nýtt leyfi. Öll leyfi skulu gefin út með fyrirvara um að það varði ríkissjóð ekki skaðabótaskyldu þótt gildistími leyfis verði styttur eða skilyrðum leyfis á annan hátt breytt meðan það er í gildi.

4. gr.

    Innflutningur, heildsala, smásala, veitingar og framleiðsla áfengis, sem fram fer í atvinnu skyni án leyfis samkvæmt lögum þessum, varðar refsingu skv. 27. gr.
    Það varðar einnig refsingu skv. 27. gr., þótt ekki sé í atvinnuskyni:
     a.      að framleiða áfengi til einkaneyslu eða sölu,
     b.      að selja áfengi,
     c.      að veita áfengi með öðrum hætti en heimilt er samkvæmt lögum þessum.
    Ólöglegur innflutningur áfengis varðar refsingu samkvæmt ákvæðum tollalaga.
    Lögregla, tollgæsla og skattayfirvöld annast eftirlit með þeim sem hafa leyfi til atvinnu starfsemi samkvæmt lögum þessum. Um greiðslu löggæslukostnaðar vegna skemmtana sem fram fara á veitingastöðum sem leyfi hafa til áfengisveitinga fer samkvæmt lögreglulögum.

5. gr.

    Leyfi til innflutnings, heildsölu, smásölu eða framleiðslu skal einungis veitt þeim sem tilkynnt hefur Hagstofu Íslands um atvinnustarfsemi sína og verið færður á fyrirtækjaskrá samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá og sem tilkynnt hefur skattstjóra um starfsemi sína samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
    Til að fá útgefið leyfi skv. 1. mgr. 3. gr. skal umsækjandi vera orðinn 20 ára. Ef umsækj andi er félag með ótakmarkaðri ábyrgð skulu eigendur og framkvæmdastjóri þess vera orðnir 20 ára. Ef um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð skulu allir stjórnarmenn og fram kvæmdastjóri fullnægja aldursskilyrðinu.
    Fyrir útgáfu leyfa samkvæmt lögum þessum skal greiða gjald samkvæmt lögum um auka tekjur ríkissjóðs.
    Framleiðslu-, innflutnings-, heildsölu- eða smásöluleyfishafa er skylt að halda, eftir því sem við á, framleiðslu-, birgða- og sölubókhald. Ráðherra setur nánari reglur um færslu bókhalds samkvæmt þessari málsgrein.

II. KAFLI
Framleiðsla áfengis.
6. gr.

    Sækja skal um leyfi til framleiðslu áfengis til ríkislögreglustjóra.
    Með framleiðslu áfengis er átt við hvers konar bruggun, gerjun eða eimingu áfengra drykkja, sem og blöndun eða átöppun eins eða fleiri áfengra drykkja. Til framleiðslu í þessum skilningi telst þó ekki blöndun áfengra drykkja sem á sér stað samtímis og sem hluti af veitingu áfengis.
    Handhafa framleiðsluleyfis er jafnframt heimilt að selja áfengi í heildsölu.
    Framleiðsluleyfi sem gefið er út til umsækjanda í fyrsta sinn gildir í eitt ár. Ef leyfi er endurnýjað er gildistími þess ótímabundinn, sbr. þó afturköllun leyfis skv. 24. gr.

7. gr.

    Bannað er að eiga, flytja inn, útbúa eða smíða sérhæfð áhöld til að eima áfengi eða til að gera drykkjarhæft áfengi sem var ódrykkjarhæft, nema hafa til þess sérstakt leyfi. Dóms málaráðherra setur nánari reglur um fyrirkomulag leyfisveitinganna í reglugerð.

III. KAFLI
Innflutningur áfengis.
8. gr.

    Sækja skal um leyfi til innflutnings áfengis í atvinnuskyni til ríkislögreglustjóra.
    Innflutningsleyfi veitir leyfishafa jafnframt heimild til að selja eða afhenda innflutt áfengi til þeirra sem hafa leyfi til að framleiða, selja eða veita áfengi í atvinnuskyni. Handhafa inn flutningsleyfis er jafnframt heimilt að selja eða afhenda innflutt áfengi úr landi, til þeirra sem njóta úrlendisréttar eða í tollfrjálsar forðageymslur eða verslanir. Innflutningsleyfi veitir leyfishafa ekki heimild til að selja áfengi í smásölu.
    Innflutningsleyfi sem í fyrsta sinn er gefið út til umsækjanda gildir í eitt ár. Ef leyfi er endurnýjað er gildistími þess ótímabundinn, sbr. þó afturköllun leyfis skv. 24. gr.

IV. KAFLI
Sala áfengis.
9. gr.

    Sækja skal um leyfi til að selja áfengi í heildsölu til ríkislögreglustjóra.
    Handhafa heildsöluleyfis er heimilt að selja eða afhenda áfengi til þeirra sem hafa leyfi til að framleiða, selja eða veita áfengi í atvinnuskyni. Handhafa heildsöluleyfis er jafnframt heimilt að selja eða afhenda innflutt áfengi úr landi, til þeirra sem njóta úrlendisréttar og í tollfrjálsar forðageymslur eða verslanir. Heildsöluleyfi veitir leyfishafa ekki heimild til að selja áfengi í smásölu.
    Heildsöluleyfi sem í fyrsta sinn er gefið út til umsækjanda gildir í eitt ár. Ef leyfi er endur nýjað er gildistími þess ótímabundinn, sbr. þó afturköllun leyfis skv. 24. gr.

10. gr.

    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur einkaleyfi til smásölu áfengis.
    Sækja skal um leyfi til rekstrar áfengisútsölu til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi.
    Smásöluleyfi sem gefið er út vegna áfengisútsölu í fyrsta sinn gildir í eitt ár. Ef leyfi er endurnýjað er gildistími þess ótímabundinn, sbr. þó afturköllun leyfis skv. 24. gr.

11. gr.

    Áður en sveitarstjórn veitir leyfi til rekstrar áfengisútsölu skal hún leita álits viðkomandi byggingar- og skipulagsnefndar. Sveitarstjórn skal rökstyðja niðurstöðu sína og gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem henni réðu.
    Sveitarstjórn er heimilt að binda veitingu leyfis til rekstrar útsölustaðar áfengis skilyrðum um staðsetningu verslunar, afgreiðslutíma og önnur málefnaleg atriði.
    Sveitarstjórn skal tilkynna viðkomandi lögreglustjóra um leyfi sem hún veitir til rekstrar áfengisútsölu og um þau skilyrði sem leyfið er bundið


12. gr.

    Smásöluleyfishafi skal ábyrgjast fullnægjandi öryggis- og eftirlitsbúnað húsnæðis þess sem hýsa á útsölustaðinn, afmörkun og aðgreiningu húsnæðis og rekstrar frá öðrum versl unarrekstri, sem og hámarksafgreiðslutíma. Ráðherra kveður nánar á um hámarksafgreiðslu tíma og sérstök skilyrði varðandi smásöluleyfi í reglugerð.
    Áfengisútsölustaðir skulu vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst.


V. KAFLI
Veitingar áfengis.
13. gr.

    Sækja skal um leyfi til áfengisveitinga á veitingastað til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi.
    Leyfi til áfengisveitinga verður einungis veitt þeim sem hefur gilt veitingaleyfi samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði.
    Áfengisveitingaleyfi sem gefið er út í fyrsta sinn gildir í eitt ár. Sé leyfi endurnýjað má haga gildistíma þess með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af veitingarekstrinum, þó ekki lengur en til fjögurra ára í senn.
    Taki nýr aðili við rekstri veitingastaðarins eða að breytt er um heiti eða kennitölu leyfis hafa skal sótt um nýtt leyfi. Meðan sú umsókn er til meðferðar má sveitarstjórn gefa út leyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og fyrra leyfi.
    Leyfishafi skal tilnefna stjórnanda sem annast daglegan rekstur og ber ábyrgð á honum ásamt leyfishafa. Ef leyfishafi rekur fleiri en einn áfengisveitingastað skal slíkur stjórnandi tilnefndur fyrir hvern þeirra. Stjórnandi skal uppfylla skilyrði laga til að fá útgefið veitinga leyfi og vera orðinn 20 ára að aldri. Taki nýr stjórnandi við rekstri staðarins skal það til kynnt lögreglustjóra.

14. gr.

    Áður en sveitarstjórn veitir leyfi til áfengisveitinga á veitingastað skal hún afla umsagnar heilbrigðisnefndar sem metur innréttingu og annað svipmót veitingarekstrar. Einnig skal sveitarstjórn leita álits viðkomandi byggingar- og skipulagsnefnda. Sveitarstjórn skal rök styðja niðurstöðu sína og gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem henni réðu. Skal sveitar stjórn ákveða heimilan veitingatíma áfengis á hlutaðeigandi veitingastað, gildistíma og skil yrði leyfis.
    Áður en leyfi er gefið út skal umsækjandi setja tryggingu fyrir greiðslu krafna á hendur honum ef til gjaldþrotaskipta eða rekstarstöðvunar kemur. Dómsmálaráðherra ákveður með reglugerð upphæð og skilmála tryggingarinnar. Skal miðað við að upphæð tryggingar sé í samræmi við umfang þess reksturs sem tryggingin nær til.
    Heimilt er að synja útgáfu leyfis til áfengisveitinga þegar hlutaðeigandi skuldar skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð og samanlögð fjárhæð þessara skulda nemur hærri fjárhæð en 500.000 kr., eða ef hlutaðeigandi hefur á undanförnum fimm árum verið dæmdur til refsivistar vegna brots á almennum hegningarlögum, lögum þessum, lögum um ávana- og fíkniefni eða lögum um tekjuskatt og eignarskatt, um virðisaukaskatt, um staðgreiðslu opin berra gjalda, um gjald af áfengi eða um tryggingagjald, og ástæðurnar eiga við:
     a.      umsækjanda sem er lögaðili með ótakmarkaðri ábyrgð eða einhvern eiganda hans,
     b.      umsækjanda sem er lögaðili með takmarkaðri ábyrgð, meiri hluta eigenda hans, stjórnarmann eða framkvæmdastjóra,
     c.      umsækjanda sem er einstaklingur.
    Sveitarstjórn skal tilkynna viðkomandi lögreglustjóra um þau leyfi sem hún veitir til áfengisveitinga á veitingastað og þau skilyrði sem leyfið er bundið.
    Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari reglur um áfengisveitingar, þar á meðal um veitingatíma, útgáfu leyfa, flokkun veitingastaða, húsnæði og búnað og eftirlit með starfsemi leyfishafa. Áður en slík reglugerð er sett skal leita umsagnar áfengis- og vímuvarnaráðs og Sambands veitinga- og gistihúsa.

15. gr.

    Sækja skal um leyfi til áfengisveitinga um borð í skráningarskyldu skipi til sveitarstjórnar í því sveitarfélagi þar sem heimahöfn skipsins er samkvæmt lögum um skráningu skipa.
    Leyfi til áfengisveitinga verður einungis veitt þeim sem uppfyllir skilyrði laga um veit inga- og gististaði til að fá útgefið veitingaleyfi.

16. gr.

    Áður en veitt er leyfi til áfengisveitinga um borð í skipi skal leitað umsagnar Siglinga stofnunar Íslands.
    Sé leyfi veitt nær það einungis til áfengisveitinga um borð í skipulögðum hópferðum innan landhelgi.
    Að öðru leyti gilda ákvæði 13. gr. um umsókn um leyfi og gildistíma þess.
    Heimilt er að veita leyfi til áfengisveitinga um borð í skipi í hópferð sem farin er af sér stöku tilefni. Ákvæði 1. og 2. mgr. og 1. mgr. 15. gr. gildir um slík leyfi.
    Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um leyfi til áfengisveitinga um borð í skipum.

17. gr.

    Heimilt er, þegar sérstaklega stendur á, að veita ábyrgðarmanni húsnæðis leyfi til áfengis veitinga af sérstöku tilefni, enda uppfylli hann eftirfarandi skilyrði:
     a.      hafi veitingaleyfi samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði,
     b.      annist á eigin ábyrgð alla sölu og veitingar áfengis hverju sinni,
     c.      annist sjálfur og greiði fyrir áfengi, aðrar veitingar og þjónustu sem gestum er látið í té.
    Við útgáfu leyfa samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 3. og 4. mgr. 14. gr. eftir því sem við á.
    Dómsmálaráðherra er heimilt í reglugerð að takmarka útgáfu leyfa ábyrgðarmanns hús næðis við tiltekinn fjölda tilvika á hverju ári.

VI. KAFLI
Meðferð og neysla áfengis.
18. gr.

    Óheimilt er að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára. Ávallt þegar ástæða er til að ætla að kaupandi eða viðtakandi áfengis hafi ekki náð þessum aldri skal sá sem selur, veitir eða afhendir það láta hlutaðeiganda sanna aldur sinn með því að sýna skil ríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt.
    Á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 20 á kvöldin og fram til lokunar staðarins, nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka. Dyraverðir, eftirlitsmenn og framreiðslumenn skulu láta ungmenni er koma á slíka staði eða dveljast þar eftir kl. 20 að kvöldi án samfylgdar foreldra sinna eða maka sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt enda sé ástæða til að ætla, að hlutaðeigandi hafi ekki náð 18 ára aldri.

19. gr.

    Áfengi má hvorki afhenda né veita neinum sem er bersýnilega ölvaður.
    Bannað er að neyta áfengis í veitingastofum, veitingatjöldum eða öðrum þeim stöðum þar sem veitingar fara fram, sbr. þó 13., 15. og 17. gr. Sama gildir og um félagsherbergi.
    Bannað er að bera með sér áfengi inn á veitingastaði, annað en það sem þangað er flutt til heimilla veitinga. Á sama hátt er bannað að bera með sér áfengi út af veitingastað.
    Öðrum en þeim sem hafa til þess leyfi skv. 3. gr. er óheimilt að veita, selja eða láta af hendi áfengi til annarra gegn gjaldi eða öðru verðmæti.
    Það varðar mann refsingu samkvæmt lögum þessum láti hann viðgangast ólöglegan til búning áfengis, ólöglega sölu eða geymslu þess í húsum sínum eða á landi sínu. Sama gildir ef skip hans, bátur eða annað flutningstæki er með vitund og vilja hans notað til geymslu, flutnings eða sölu ólöglegs áfengis. Með sama hætti skal refsa þeim sem hefur áfengi í vörslu sinni sem látið hefur verið af hendi andstætt ákvæðum laga þessara.

20. gr.

    Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn frem ur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upp lýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.
    Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svip aður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.
    Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.
    Undanþegið banni við áfengisauglýsingum er:
     1.      Auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi.
     2.      Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á venjulegum búnaði til áfengisveitinga á veitingastað þar sem áfengisveitingar eru heimilaðar.
     3.      Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á flutningatækjum áfengisframleiðanda, vöruumbúðum, bréfsefni eða öðru sem beinlínis tengist starfsemi hans.

21. gr.

    Hver sá sem sökum ölvunar veldur óspektum, hættu eða hneyksli á almannafæri, opin berum samkomum, í bifreiðum eða öðrum farartækjum eða skipum skal sæta ábyrgð sam kvæmt lögum þessum.

22. gr.

    Ef flugmenn, bifreiðarstjórar, skipstjórar, stýrimenn, bátsformenn eða vélstjórar eru undir áhrifum áfengis við flug, akstur, stjórn skips eða vélar varðar það missi réttar til að stjórna flugvél, bifreið, skipi, bát eða vél um stundarsakir eða fyrir fullt og allt ef miklar sakir eru eða brot er ítrekað.
    Sama gildir þótt annar hafi haft með höndum starf framangreindra manna ef þeir áttu sjálfir að annast starfið en vanræktu það sökum ölvunar og verulegt slys hlaust af því.
    Það varðar refsingu að veita mönnum þeim sem tilgreindir eru í 1. mgr. áfengi þegar þeir eru að störfum.

23. gr.

    Leiki vafi á hvort sakborningur skv. 21. og 22. gr. sé undir áhrifum áfengis skal bæði lög reglu og sakborningi heimilt að láta skera úr því með blóðrannsókn eða öndunarprófi sem læknir eða annar kunnáttumaður framkvæmir.

VII. KAFLI
Leyfissviptingar, refsingar o.fl.
24. gr.

    Leyfisveitandi skal afturkalla leyfi sem gefið er út samkvæmt lögum þessum ef leyfishafi fullnægir ekki lengur skilyrðum þeirra til að fá útgefið slíkt leyfi.

25. gr.

    Verði handhafi leyfis sem gefið er út samkvæmt lögum þessum uppvís að vanrækslu á skyldum sem á honum hvíla eða uppfyllir ekki skilyrði sem um reksturinn gilda skal veita honum skriflega áminningu. Áminningu vegna leyfa sem gefin eru út af sveitarstjórn veitir viðkomandi sveitarstjórn eða lögreglustjóri, en ríkislögreglustjóri veitir áminingar vegna leyfa er hann hefur gefið út. Áminning hefur gildi í tvö ár frá því að hún hefur verið birt leyfishafa.
    Verði leyfishafi uppvís að frekari vanrækslu meðan áminning er enn í gildi skal það varða sviptingu leyfis um ákveðinn tíma. Sveitarstjórn ber að svipta leyfi telji lögreglustjóri í við komandi umdæmi að skilyrði 1. málsl. 2. mgr. séu uppfyllt. Ef vanræksla er stórfelld eða ítrekuð skal lengd sviptingar ákveðin með hliðsjón af því.

26. gr.

    Misbeiti veitingamaður sem leyfi hefur til áfengisveitinga leyfi sínu með því að veita áfengi á öðrum tímum eða á annan hátt en honum er heimilt, eða aðrar áfengistegundir, svo og með því að selja eða afhenda áfengi án þess að neytt sé á staðnum, eða hann brýtur á annan hátt fyrirmæli sem um áfengisveitingar gilda varðar það refsingu samkvæmt lögum þessum.
    Brot þjónustumanna og stjórnenda varða einnig refsingu samkvæmt lögum þessum.

27. gr.

    Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að sex árum. Meðferð ávinnings af brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í 264. gr. almennra hegningarlaga. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
    Við ákvörðun sektar skal hafa hliðsjón af lögbundnu áfengisgjaldi.
    Innflutningur eða framleiðsla áfengis án leyfis varðar fangelsi auk sektar ef áfengið hefur verið ætlað til sölu eða veitinga fyrir borgun og brot er margítrekað eða að öðru leyti stór fellt.
    Sama gildir ef maður gerir sér að atvinnu ólöglega áfengissölu eða veitingar eða slíkt brot er margítrekað eða að öðru leyti stórfellt.

28. gr.

    Gera skal upptæk til ríkissjóðs öll áhöld sem með ólögmætum hætti á að nota eða hafa verið notuð við bruggun eða tilbúning áfengra drykkja eða til þess að gera drykkjarhæft það áfengi sem ódrykkjarhæft var. Áfengi það sem búið hefur verið til eða aftur gert drykkjar hæft með ólögmætum hætti skal og gert upptækt ásamt ílátum.
    Tæki sem talin eru í 7. gr., sem finnast hjá öðrum en þeim sem hafa til þess leyfi, skulu gerð upptæk án tillits til þess hvort þau hafi verið notuð til áfengisgerðar eða ekki.
    Einnig skal gera upptækt:
     a.      áfengi sem ólöglega er flutt til landsins,
     b.      áfengi sem borið er ólöglega inn á veitingastað eða út af honum,
     c.      áfengi sem ungmenni yngri en 20 ára hafa undir höndum,
     d.      áfengi í vörslu þeirra sem brotlegir gerast skv. 21. gr.

VIII. KAFLI
Úrskurðarnefnd um áfengismál.
29. gr.

    Heimilt er að bera ákvarðanir sveitarstjórnar samkvæmt lögum þessum undir úrskurðar nefnd um áfengismál sem úrskurðar um ágreininginn.
    Nefndin er sjálfstæð í störfum og verður úrskurðum hennar samkvæmt lögum þessum ekki skotið til annarra stjórnvalda.

30. gr.

    Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í úrskurðarnefnd um áfengismál til fjögurra ára í senn. Skal einn þeirra tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn af ríkislögreglu stjóra og einn af félagsmálaráðherra sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt.

31. gr.

    Mál skv. 1. mgr. 29. gr. skal borið skriflega undir úrskurðarnefnd um áfengismál.
    Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls. Ef atkvæði eru jöfn ræður atkvæði formanns.
    Um meðferð mála hjá úrskurðarnefndinni fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

IX. KAFLI
Gildistaka.
32. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1998. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 82/1969, áfengis lög, auk 3.–5. mgr. 2. gr. laga nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Leyfi til að stunda í atvinnuskyni innflutning, heildsölu, framleiðslu eða veitingar áfengis sem veitt voru í gildistíð eldri laga halda gildi sínu. Um eftirlit, áminningar og leyfissvipt ingar fer eftir þessum lögum.
    Sækja skal um smásöluleyfi fyrir þær áfengisútsölur sem starfræktar eru við gildistöku laganna til viðkomandi sveitarfélags innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.

    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Breytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpinu eru liður í umfangsmeiri breytingum á áfengis- og tóbaksmálum hér á landi.

II. Sögulegt yfirlit.

    Ákvæði um takmarkanir á meðferð áfengra drykkja hafa verið í íslenskri löggjöf frá alda öðli. Til að mynda er að finna í Jónsbók ákvæði þess efnis að ekki megi bera ölföng í Lög réttu, hvorki til sölu né veitinga. Þær reglur sem gilda í dag hafa þó ekki farið að mótast fyrr en eftir gildistöku bannlaga þann 1. janúar 1915, en með þeim var innflutningur og sala áfengis bönnuð með öllu.
    Árið 1922 var veitt undanþága frá bannlögum vegna hótana Spánverja um að setja toll á íslenskan saltfisk, en þeir töldu bannið vera brot á fríverslunarsamningi milli danska ríkisins og þess spænska. Undanþágan fól í sér að ríkið tók að sér einkasölu á spönsku víni sem innihélt ekki meira en 21% af vínanda. Sama ár var Áfengisverslun ríkisins stofnsett í þeim tilgangi að sjá um sölu spönsku vínanna og var þetta gert með lögum nr. 62/1921, um einkasölu á áfengi.
     Með lögum nr. 64/1928 var áfengislöggjöfin samræmd í einn lagabálk. Helstu nýmæli laganna voru að ríkisstjórnin hafði einkarétt til innflutnings og sölu á áfengi, áfengisaug lýsingar voru bannaðar og bruggunaráhöld skyldu gerð upptæk. Lögreglu var heimilað að framkvæma húsleit án dómsúrskurðar léki sterkur grunur á broti gegn áfengislöggjöfinni og refsiákvæði vegna brota á lögunum voru öll hert. Áfengi mátti ekki afhenda neinum undir 21 árs aldri. Jafnframt voru sett lög nr. 69/1928, um einkasölu á áfengi, en þau námu úr gildi lög nr. 62/1921 um sama efni.
    Með auglýsingu 13. september 1933 var kynnt sú ákvörðun dómsmálaráðherra að þjóðar atkvæðagreiðsla um bannlögin skyldi fara fram 21. október sama ár. Þátttaka var einungis 45% og var afnám bannsins samþykkt með 57,7% atkvæða. Í kjölfarið voru sett ný áfengis lög, nr. 33/1935. Með þeim var bann við innflutningi og sölu áfengra drykkja afnumið. Nokkur ákvæði bannlaga voru þó tekin upp óbreytt, m.a. til að hindra innflutning og bruggun á áfengi. Nýmæli var að settar voru á stofn áfengisvarnarnefndir, skipaður ráðunautur ríkis stjórnarinnar í áfengismálum og bindindisfræðsla fyrirskipuð í skólum. Þá var lagt bann við að fólk yngra en 21 árs neytti áfengis. Á þessum árum var Hótel Borg eina veitingahúsið í landinu með vínveitingaleyfi samkvæmt lögunum en þó var eitthvað um útgáfu sérstakra veitingaleyfa til vínveitingahúsa. Lögin heimiluðu þó ekki innflutning eða sölu áfengs öls sem innihéldi meira en 2,25% af vínanda að rúmmáli. Enn fremur voru á þinginu 1934 afgreidd lög um breytingu á lögum nr. 69/1928, um einkasölu á áfengi.
    Með lögum 47/1951 komu inn í áfengislög ákvæði vegna ólöglegrar sölu leigubifreiðar stjóra á áfengi. Óheimilt var að flytja eða geyma áfengi í leigubifreiðum nema í algerum undantekningartilvikum. Var lögreglunni heimilt án dómsúrskurðar að leita í bifreiðum að áfengi sem líklegt þótti að ætlað væri til ólöglegrar sölu.
    Endurskoðun áfengislöggjafarinnar leiddi til setningar nýrra áfengislaga, nr. 58/1954. Tilgangur laganna var að stuðla að hóflegri meðferð áfengis og vinna gegn misnotkun þess. Helstu nýmæli voru m.a. að dómsmálaráðherra var heimilt að veita fleiri veitingahúsum í Reykjavík en Hótel Borg vínveitingaleyfi. Meginregla laganna var að vínveitingaleyfi skyldu ekki veitt veitingahúsum utan kaupstaða, en undantekningu mátti gera ef þau veittu aðallega erlendum ferðamönnum. Leyfin skyldi veita til fjögurra ára í senn. Þá var bannað að senda vín í póstkröfu og kaupanda gert að sanna aldur sinn með vegabréfi. Þrengdar voru heimildir lögreglustjóra til útgáfu vínveitingaleyfa til ýmiss konar klúbbstarfsemi.
    Með lögum 47/1969 var aldurslágmarkið til neyslu áfengis fært úr 21 ári niður í 20 ár. Var sú breyting í samræmi við breytta löggjöf um kosningarétt, kjörgengi, lögræðisaldur og hjúskaparaldur. Þau lög voru felld inn í meginmál laga nr. 58/1954 og lögin gefin út á ný sem áfengislög, nr. 82/1969. Sama ár tóku gildi lög nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Tilgangur laganna var að steypa saman í einn lagabálk ákvæðum um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, en áður giltu lög nr. 65/1928, um einkasölu á áfengi, lög nr. 58/1931, um einkasölu á tóbaki, og lög nr. 65/1934, um einkasölu á eldspýtum og vindlinga pappír, auk laga nr. 3/1961, um sameiningu rekstrar Áfengisverslunar ríkisins og Tóbaks einkasölu ríkisins.
    Með lögum um breytingu á áfengislögum, nr. 52/1972, voru hækkuð öll sektarákvæði áfengislaga og refsiramma vegna brota á lögunum breytt. Lög nr. 7/1985 gerðu síðan smá vægilegar breytingar á áfengislögum til samræmis við breytt ákvæði í lögum um tollheimtu og tolleftirlit. Í þessum breytingum fólst að sömu reglur skyldu gilda um áfengi og annan tollskyldan varning. Síðast urðu svo breytingar á áfengislögunum með lögum nr. 38/1988 sem tóku gildi 1. mars 1989. Í þeim lögum var numið úr gildi bann við innflutningi áfengs öls.
    

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.
Um I. kafla.

    Í kafla þessum er að finna almenn ákvæði um tilgang frumvarpsins og leyfi samkvæmt því, auk skilgreiningar á hugtakinu áfengi.

Um 1. gr.

    Þeim tilgangi frumvarpsins er lýst í ákvæðinu að miða að hófsemd í meðferð áfengis.

Um 2. gr.

    Hér er að finna skilgreiningu á áfengi sem er í samræmi við gildandi lög. Þá er mælt fyrir um að vínandastyrkur skuli mældur við staðlaðar aðstæður.

Um 3. gr.

    Í greininni kemur fram sú meginregla frumvarpsins að leyfi þurfi til að stunda í atvinnu skyni innflutning, heildsölu, smásölu, veitingar eða framleiðslu áfengis. Undir leyfisskyldu skv. 1. mgr. fellur öll starfsemi sem fram fer í atvinnuskyni. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort starfsemin er stunduð af einstaklingum eða lögaðilum. Þá er sérstaklega tekið fram í 1. mgr. að leyfi þurfi til að veita áfengi á samkomum. Er hér um að ræða vísun til 17. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um tækifærisleyfi til áfengisveitinga. Gert er ráð fyrir því að leyfi til tækifærisveitinga skuli bundið við tiltekið húsnæði. Í þessu felst því ekki ráðagerð um rýmkun á þeim reglum um tækifærisveitingar sem gilt hafa og girða fyrir áfengisveitingar á útisamkomum. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. eru veitingar áfengis í einkasamkvæmum felldar undan leyfisskyldu. Er það í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur. Skýra verður hins vegar einkasamsamkvæmi í þessu tilliti í samræmi við þau sjónarmið sem að baki liggja, einkum þau að skylda til að afla opinberra leyfa gangi ekki of nærri friðhelgi einkalífs borgaranna. Ljóst má því vera að hér er einkum um að ræða veitingar áfengis í heimahúsum, en þó getur einnig komið til þess að samkoma sem haldin er utan heimilis, í salarkynnum félagasamtaka eða þess háttar, verði talin einkasamkvæmi ef tilefni samkomunnar er sérstakt og persónulegt. Áréttað er þó að sé slíkt samkvæmi haldið á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga, fer samkoman fram á grundvelli þess leyfis og á ábyrgð viðkomandi veitingamanns.
    Samkvæmt 2. mgr. skulu allir handhafar leyfa skv. 1. mgr. fullnægja þeim almennu skil yrðum sem lögin mæla fyrir um. Er ekki gert ráð fyrir að veittar séu undanþágur frá þeim. Þá er einnig heimilt að binda leyfi þessi frekari skilyrðum en þeim almennu, sé slíkt talið nauðsynlegt til að tryggja öryggi og eftirlit með atvinnustarfseminni. Skilyrði þessi geta því beinst að einstökum leyfishöfum eða hópum þeirra. Verði til að mynda uppvíst um misferli tiltekins leyfishafa hefur leyfisveitandi þann möguleika skv. 2. mgr. að setja frekari skilyrði fyrir áframhaldandi starfsemi til þess að auðvelda eftirlit.
    Í 3. mgr. kemur fram að leyfi sem gefin eru út á grundvelli laganna skuli bundin við nafn og kennitölu leyfishafa. Réttindi samkvæmt leyfum verða því ekki framseld eða öðrum veitt hlutdeild í þeim. Skyldur samkvæmt leyfum geta á hinn bóginn hvílt á fleirum en leyfishafa einum, sbr. t.d. 5. mgr. 13. gr. Þá er tekin upp í frumvarpið almenn regla, svipuð þeirri sem gilt hefur gagnvart áfengisveitingahúsum, sbr. 3. mgr. 12. gr. i.f. gildandi áfengislaga, þess efnis að leyfi skuli gefið út með fyrirvara um að það varði ríkissjóð ekki skaðabótaskyldu þótt leyfi sé afturkallað, gildistími þess styttur eða skilyrðum þess á annan hátt breytt á meðan leyfið er í gildi. Þykir rétt að taka reglu þessa upp og að hún gildi almennt gagnvart öllum leyfum sem gefin eru út á grundvelli laganna. Rétt er þó að benda á að ákvörðun um styttingu leyfis eða breytingu á skilyrðum er háð málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum.

Um 4. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. er refsivert að stunda leyfislaust starfsemi þá sem mælt er leyfisskyld skv. 1. mgr. 3. gr. Þá er og í 2. og 3. mgr. mælt refsiverð ýmis meðferð áfengis sem ekki verður talið að sé þáttur í atvinnustarfsemi og sem andstæð er markmiði laganna.
    Samkvæmt 4. mgr. skulu lögregla, tollgæsla og skattayfirvöld annast eftirlit með þeim aðilum sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt lögunum. Ríkislögreglustjóri mun hafa yfirumsjón með og annast skipulag áfengiseftirlits á landsvísu. Hann mun gefa fyrirmæli til lögregluembætta og setja þeim starfsreglur um áfengiseftirlit, auk þess að skipuleggja sér stök átaksverkefni í samráði við einstök lögregluembætti og eftir atvikum skatta- og tollyfirvöld. Þá mun ríkislögreglustjóri halda heildarskrá yfir birgðageymslur, áfengisveit ingahús og áfengisútstölustaði og heildarskrá yfir leyfishafa til innflutnings, framleiðslu, sölu og veitinga áfengis. Lögreglustjórar munu hafa eftirlit með birgðageymslum, áfengis útsölum og áfengisveitingahúsum, hver í sínu umdæmi. Eftirlit lögreglustjóra mun m.a. bein ast að því að haldið sé tilskilið birgðabókhald og að birgðum beri saman við bókhaldið, að yngra fólki en tvítugu sé ekki selt áfengi, að geymslustaðir áfengis séu nægilega tryggir og að leyfishafar selji einungis áfengi til þeirra sem heimild hafa til að kaupa áfengi. Þá munu lögreglustjórar annast eftirlit með áfengisauglýsingum, eftirlit með bruggi og landa á markaði og eftirlit með framboði á áfengi til ungmenna, m.a. í samráði við skólayfirvöld.
    Almennt eftirlit lögreglu með framkvæmd laganna fellur undir hefðbundna starfsemi lögreglunnar og greiðist því kostnaður við það úr ríkissjóði, sbr. 33. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Kostnaður vegna tilvikabundins eftirlits á áfengisveitingastöðum, þar sem skemmt anir fara fram, kann þó að vera innheimtur hjá leyfishafa, sbr. 1. mgr. 34. gr. lögreglulaga.

Um 5. gr.

    Í greininni eru tilgreind þau almennu skilyrði sem handhafar leyfa til innflutnings, sölu, veitinga eða framleiðslu áfengis skulu ætíð fullnægja. Komi fram að leyfishafi hafi ekki fullnægt eða fullnægi ekki lengur skilyrðum fyrir leyfi skal fella leyfið úr gildi með aftur köllun skv. 24. gr. að undangenginni málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum.
    Skilyrði þau sem sett eru í 1. mgr. lúta að því að viðkomandi stundi í raun atvinnu starfsemi.
    Aldursskilyrðið í 2. mgr. er í samræmi við fjölmörg önnur lagaákvæði er varða opinber leyfi.
    Í 3. mgr. er ekki gert ráð fyrir breytingum á því að gjöld séu innheimt vegna útgáfu leyfa.
    Eitt skilvirkasta úrræði opinberra aðila til að hafa eftirlit með starfsemi samkvæmt frumvarpinu er að kanna með reglubundnum hætti framleiðslu-, birgða- og sölubókhald leyfishafa. Lagt er til að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um það hvernig innflytjendur, framleiðendur, söluaðilar og veitingastaðir hagi bókhaldi sínu og skýrslugerð, en gert er ráð fyrir því að allar upplýsingar sem aflað er verði aðgengilegar þeim lögreglu-, toll- og skatt rannsóknarembættum sem eftirlitið annast.

Um II. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um leyfi til framleiðslu áfengis í atvinnuskyni.

Um 6. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum er fjármálaráðherra heimilt að leyfa framleiðslu áfengis. Þess í stað er lagt til að ríkislögreglustjóri veiti leyfi til framleiðslu áfengis.
    Í 2. mgr. er að finna almenna skilgreiningu á framleiðslu áfengis. Fram kemur að ekki skipti máli hvort framleiðsluaðferðin er bruggun, gerjun, eiming, blöndun eða átöppun. Áréttað er þó að blöndun áfengis sem á sér stað samtímis og sem hluti af veitingu áfengis telst ekki til framleiðslu. Sé blöndunin þannig þáttur í veitingastarfsemi fellur hún eðlilega undir leyfi til hennar.
    Framleiðsluleyfi er samkvæmt orðanna hljóðan bundið við framleiðslu. Með vísan til þess að framleiðsla í atvinnuskyni fer að jafnaði fram með sölu fyrir augum þykir rétt að leggja til í 3. mgr. að leyfi til framleiðslu áfengis feli jafnframt í sér leyfi til heildsölu áfengis skv. 9. gr. Hins vegar felst ekki í framleiðsluleyfi heimild til þess að veita áfengi eða afhenda það með öðrum hætti en sölu.
    Eðlilegt þykir að leyfi samkvæmt þessari grein séu fyrst gefin út til reynslu, en síðan ótímabundið, enda er um rekstur að ræða sem brýnt er að fari fram á föstum grundvelli.

Um 7. gr.

    Greinin er samhljóða 1. og 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. gildandi áfengislaga.

Um III. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um leyfi til innflutnings áfengis í atvinnuskyni.

Um 8. gr.

    Lagt er til að ríkislögreglustjóri veiti innflutningsleyfi í stað fjármálaráðherra. Einnig að í innflutningsleyfi felist jafnframt leyfi til þess að selja eða afhenda áfengi til þeirra sem framleiða, selja eða veita áfengi í atvinnuskyni. Hins vegar er innflutningsleyfi ekki ætlað að veita handhafanum heimild til þess að selja áfengi í smásölu eða afhenda áfengi til annarra en þeirra sem leyfi hafa skv. 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. Þó er innflutningsleyfishafa heimilt að selja eða afhenda innflutt áfengi aftur úr landi, til þeirra sem njóta úrlendisréttar eða í tollfrjálsar forðageymslur eða verslanir. Er tilhögun þessi í samræmi við gildandi reglur.
    Lagt er til að um gildistíma þessara leyfa gildi sömu reglur og um gildistíma framleiðslu leyfa skv. 6. gr.

Um IV. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um leyfi til sölu áfengis. Gert er ráð fyrir því að greint verði á milli heildsöluleyfa annars vegar og smásöluleyfa hins vegar.
    

Um 9. gr.

    Í greininni er fjallað um leyfi til heildsölu áfengis í atvinnuskyni. Til samræmis við aðrar breytingar á leyfisveitingum er lagt til að ríkislögreglustjóri veiti heildsöluleyfi í stað fjár málaráðherra. Sölu- og afhendingarheimild heildsöluleyfishafa er ætlað að vera takmörkuð með sama hætti og leyfi til innflutnings. Því mætti heildsali áfengis ekki selja eða afhenda einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum áfengi beint til neyslu, og skiptir þá ekki máli þótt það sé gert í kynningarskyni.
    Lagt er til að gildistími þessara leyfa fari eftir sömu reglum og eiga við um gildistíma framleiðsluleyfa skv. 6. gr. og innflutningsleyfa skv. 8. gr.

Um 10. gr.

    Með greininni er lagt til að viðhaldið verði einkarétti Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) til smásölu á áfengi.
    Í frumvarpinu er ráðgert að ÁTVR þurfi sérstakt leyfi sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi fyrir einstökum áfengisútsölum.
    Lagt er til að gildistími leyfa til smásölu fari eftir sömu reglum og eigi við um gildistíma heildsöluleyfa. Ætti gildistími í eitt ár, þegar leyfi er upphaflega gefið út, að nægja til þess að unnt verði að ganga úr skugga um, að framfylgt sé tryggilega þeim skilyrðum sem gilda um leyfið, sbr. 11. gr. og 1. mgr. 12. gr.

Um 11. gr.

    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu að sveitarstjórnir annist leyfisveitingar í sveitarfélögum, en hingað til hefur ekki þurft að afla slíkra leyfa.
    Í 1. mgr. er að finna reglu þess efnis að sveitarstjórn leiti álits viðkomandi byggingar- og skipulagsnefndar áður en leyfi til rekstrar áfengisútsölu er veitt. Er þetta m.a. gert til að tryggja að rekstur sá sem óskað er eftir leyfi fyrir raski ekki lögmætum hagsmunum annarra.
    Sérstaklega er kveðið á um að sveitarstjórn rökstyðji álit sitt og geri grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ráðið hafa niðurstöðu hennar. Í samræmi við almenn viðhorf skal rök stuðningur vera ítarlegur ef sveitarstjórn ákveður að leggjast gegn því að leyfi verði veitt. Ætti þar m.a. að koma fram lýsing á þeim hagsmunum sem fyrirhugaður rekstur væri talinn andstæður.
    Í 2. mgr. kemur fram að sveitarstjórn er heimilt að binda veitingu sína á leyfi til rekstrar útsölustaðar áfengis skilyrðum um staðsetningu verslunar, opnunartíma og önnur málefnaleg atriði.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldu sveitarstjórnar til að tilkynna lögreglustjóra í því umdæmi þar sem rekstur áfengisútsölu er leyfður um leyfisveitinguna og þau skilyrði sem hún er bundin. Er þetta gert til að gera eftirlit lögreglu öflugra og skilvirkara.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu eru talin lágmarksskilyrði sem fullnægja þarf til að fá útgefið leyfi til þess að reka útsölu fyrir áfengi. Húsnæði það sem reksturinn hýsir verður að vera búið fullnægjandi búnaði til þess að auðvelda lögreglu og öðrum opinberum aðilum eftirlit. Þá er með vísan til heilbrigðis- og áfengisvarnasjónarmiða mælt fyrir um að húsnæðið og reksturinn sem þar fer fram skuli afmarkaður og aðgreindur frá öðrum verslunarrekstri. Þetta er eðlilegt í ljósi þess að lagt er til grundvallar að áfengi sé ekki venjuleg verslunarvara, heldur skuli sala þess ætíð fara fram með sérstökum hætti.
    Þá skal leyfishafi halda reglur um hámarksafgreiðslutíma, en gert er ráð fyrir því að nánar verði kveðið á um afgreiðslutíma, sem og önnur atriði, í reglugerð.
    Ákvæði 2. mgr. koma í stað 1. mgr. 14. gr. gildandi áfengislaga. Lögð er til óbreytt sú skipan að smásala áfengis fari ekki fram á helgidögum þjóðkirkjunnar og helstu hátíðis dögum öðrum. Sú breyting er á hinn bóginn lögð til að ekki verði lengur bannað með lögum að selja áfengi í smásölu á aðfangadögum stórhátíða og þá daga sem almennar kosningar til Alþingis og sveitarstjórna fara fram. Rétt þykir einnig að leggja til með vísan til breyttra verslunarhátta að lagt verði af ákvæði um að áfengisverslanir skuli vera lokaðar frá hádegi á laugardögum.

Um V. kafla.

    Með bréfi dags. 20. september 1995 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að gera tillögur um endurskoðun á gildandi ákvæðum laga um skilyrði fyrir veitingu leyfa til áfengisveitinga og um rekstur skemmtistaða. Var nefndinni einnig falið að gera tillögur um eftirlit með áfengisveitingahúsum og gjaldtöku í því sambandi. Hvatinn að skipun nefndarinnar var m.a. mikil umræða sem hafði verið um málefni áfengisveitingahúsanna, einkum í Reykjavík. Borgaryfirvöld voru áhugasöm um úrbætur á þessu sviði og höfðu m.a. velt því upp hvort eðlilegt kynni að vera að leyfisveitingarnar færðust frá lögreglu til sveitarfélaganna.
    Tillögur nefndarinnar bárust í ágúst 1996 og voru meginatriði þeirra varðandi áfengis veitingaleyfi þessi:
    Lagt var til að útgáfa leyfa yrði áfram í höndum lögreglustjóra, en að álit sveitarstjórnar fengi aukið vægi við leyfisveitinguna, m.a. hvað varðaði heimilan veitingatíma áfengis og gildistíma leyfis.
    Lagt var til að numin yrði úr lögum sú viðmiðun að veitingastaður þurfi að vera fyrsta flokks til að fá almennt leyfi til áfengisveitinga. Var í þessu sambandi og lagt til að mats nefnd áfengisveitingahúsa yrði lögð niður.
    Lagt var til að hert yrðu þau skilyrði sem umsækjendur um leyfi til áfengisveitinga skulu fullnægja til þess að fá leyfi útgefið.
    Þá var lagt til að leyfi til áfengisveitinga skyldi ætíð gefið út á nafn og kennitölu umsækj anda, hvort sem hann er einstaklingur eða félag. Auk þessa var í tillögunum gert ráð fyrir að umsækjandi tilnefndi ávallt stjórnanda sem ábyrgð bæri á rekstrinum.
    Að lokum var lagt til að sérákvæði í 12. gr. áfengislaga um eftirlit með áfengisveitinga húsum yrði afnumið ásamt heimild til að krefja veitingamenn um endurgreiðslu löggæslu kostnaðar.
    Varðandi tækifærisleyfi til áfengisveitinga var það tillaga nefndarinnar að slík leyfi yrðu aðeins veitt ábyrgðarmanni staðar sem ekki hefur leyfi til áfengisveitinga.
    Það nýmæli var að finna í tillögum nefndarinnar að heimila ætti útgáfu leyfa til áfengis veitinga um borð í skipum í skipulögðum hópferðum innan lands.
    Í V. kafla frumvarpsins er í mörgum atriðum byggt á tillögum nefndarinnar. Þó er vikið frá þeim í því veigamikla atriði að samkvæmt frumvarpinu er útgáfa leyfa til áfengisveitinga á veitingastöðum í höndum sveitarstjórna.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um útgáfu leyfa til áfengisveitinga á veitingastöðum. Sú grund vallarbreyting er lögð til frá gildandi reglum að útgáfa leyfa til áfengisveitinga á veitinga stöðum verður í höndum sveitarstjórna í stað lögreglustjóra.
    Í 2. mgr. er lagt til að lögfest verði að grunnskilyrði þess að fá leyfi til áfengisveitinga sé að hafa gilt leyfi til rekstrar veitingastaðar samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985. Hér er gert ráð fyrir að mat á veitingastaðnum sjálfum hafi þegar farið fram að verulegu leyti, svo sem mat á heilbrigðisþáttum, eldvörnum o.s.frv.
    Í 3. mgr. koma fram almenn atriði um gildistíma leyfa til áfengisveitinga, en skv. 1. og 2. mgr. 14. gr. er reiknað með að sveitarstjórnir ákveði gildistíma einstakra leyfa, innan þeirra marka sem hér eru sett, en hámarksgildistími í fjögur ár er í samræmi við gildandi reglur.
    Efnislega felst sama regla í 4. mgr. og í 3. mgr. 12. gr. gildandi laga. Sérstaklega er tekið fram að sækja þurfi um nýtt leyfi taki nýr aðili við rekstrinum. Í því felst m.a. skylda til að sækja um nýtt leyfi sé breytt um heiti á leyfishafa eða kennitölu.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um að tilkynna skuli lögreglustjóra um breytingu að því er varðar stjórnanda veitingastaðar. Þetta er mikilvægt til að ávallt liggi ljóst fyrir hver sé réttur leyfishafi.
    Til viðbótar þessu skal leyfishafi tilnefna stjórnanda sem annast hina leyfisskyldu starf semi frá degi til dags. Er lagt til að tilnefndur stjórnandi beri ábyrgð á rekstrinum ásamt leyfishafa. Ákvæði þetta er sett að danskri fyrirmynd en því er ætlað að leiða til þess að ávallt sé á viðkomandi stað einstaklingur sem ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart lögreglu og öðrum yfirvöldum. Einnig er mælt fyrir um þau skilyrði sem stjórnandi þarf að fullnægja. Skal þess sérstaklega getið að leyfishafa er heimilt að tilnefna sjálfan sig sem stjórnanda staðar, en þá undirgengst hann jafnframt það skilyrði að annast raunverulega reksturinn en fela hann ekki öðrum.

Um 14. gr.

    Í greininni er fjallað um sérstök skilyrði sem umsækjandi verður að fullnægja til þess að fá útgefið leyfi til áfengisveitinga á veitingastað.
    Í 1. mgr. er tiltekið að sveitarstjórn beri að afla umsagnar heilbrigðisnefndar auk álits viðkomandi byggingar- og skipulagsnefnda. Þá er tekið fram að sveitarstjórn skuli ákveða heimilan veitingatíma áfengis á hlutaðeigandi veitingastað, gildistíma og skilyrði leyfis. Í 1. mgr. er því að finna sams konar ákvæði og í gildandi lögum um heimild til að setja frekari skilyrði fyrir leyfisveitingu. Slíkt kemur eðli málsins samkvæmt einvörðungu til við sérstakar aðstæður. Getur þetta m.a. tekið til þess að sveitarstjórn ákveði að veita leyfi til áfengis veitinga með því skilyrði að einvörðungu verði veitt létt vín og áfengt öl.
    Í 2. mgr. er að finna það nýmæli að lagt er til að allir umsækjendur um áfengisveitinga leyfi leggi fram tryggingu áður en leyfi er gefið út. Er tryggingunni ætlað að standa straum af greiðslu krafna á hendur leyfishafa ef til gjaldþrotaskipta eða rekstrarstöðvunar kemur. Er með þessari tilhögun komið til móts við þau viðhorf sem uppi eru um hert skilyrði gagnvart þeim einstaklingum sem reka atvinnustarfsemi sem þessa.
    Í 3. mgr. er lagt til að lögfest verði það nýmæli að heimilt verði að synja um útgáfu leyfis til áfengisveitinga eigi umsækjandi, eigandi eða framkvæmdastjóri í verulegum gjaldföllnum skuldum við hið opinbera eða lífeyrissjóði, sem nemur a.m.k. 500.000 kr. Þetta er lagt til í því skyni að styrkja enn frekar það markmið frumvarpsins að herða skilyrði sem beinast að þeim einstaklingum er stunda rekstur á þessu sviði. Er ákvæði þetta tekið upp að danskri fyrirmynd. Með skuldum við hið opinbera er átt við skuldir vegna skatta og lögboðinna gjalda, hvort heldur um er að ræða skuld við ríki eða sveitarfélög. Jafnframt er mælt fyrir um að heimilt sé að synja um leyfi ef hlutaðeigandi hefur á síðustu fimm árum verið dæmdur til refsivistar vegna brota á tilgreindum lögum.
    Í 4. mgr. er kveðið á um skyldu sveitarstjórnar til að tilkynna viðkomandi lögreglustjóra um leyfi til áfengisveitinga og þau skilyrði sem það er bundið. Er þetta gert til að gera eftirlit lögreglu öflugra og skilvirkara.

Um 15. gr.

    Lagt er til að lögfest verði nýmæli sem felst í því að heimilt verði að veita leyfi til áfengisveitinga um borð í skipum sem bjóða skipulagðar hópferðir innan lands. Bakgrunnur þessarar tillögu er sá að á undanförnum árum hefur færst í vöxt að boðið sé upp á skipulagðar skoðunarferðir með skipum þar sem ferðamönnum er gefinn kostur á að sjá náttúru landsins frá sjó. Í ferðum þessum er gjarnan boðið upp á málsverð og hefur verið eftirspurn eftir því að fá að veita áfengi. Í framkvæmd hafa verið veitt leyfi til áfengisveitinga um borð í skipum sem þessum við einstök tækifæri og má með hliðsjón af því segja að með þessu sé lagt til að framkvæmdinni verði komið í fastara horf.
    

Um 16. gr.

    Hér er lagt til að leitað verði umsagnar Siglingastofnunar ríkisins sem meti aðstöðu til áfengisveitinga í viðkomandi skipi út frá öryggisþáttum. Önnur ákvæði greinarinnar þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.

    Í ákvæðinu er að finna undantekningarreglu. Er lagt til að sveitarstjórn verði heimilt að veita leyfi til áfengisveitinga á stað sem ekki hefur almennt leyfi til áfengisveitinga. Gildandi ákvæði 2. mgr. 20. gr. áfengislaga hefur verið túlkað rúmt undanfarin ár og hafa í umtals verðum mæli verið gefin út leyfi til áfengisveitinga við ýmis tækifæri. Vegna þessa er talið nauðsynlegt að breyta þessu fyrirkomulagi en ástæða er til að ætla að í skjóli þessa ákvæðis hafi farið fram óréttmæt starfsemi sem erfitt hefur reynst að sporna við. Lagt er til að útgáfa leyfa þessara verði einungis heimil við sérstakar aðstæður og að uppfylltum tilteknum skil yrðum. Er með því leitast við að halda opnum möguleika til útgáfu áfengisveitingaleyfis á stað sem ekki hefur áfengisveitingaleyfi en heldur samkomu af sérstöku tilefni. Fari hins vegar fram á viðkomandi stað starfsemi sem telst vera reglubundin veitingastarfsemi með áfengisveitingum ber að sækja um áfengisveitingaleyfi og er þess vegna lagt til í 3. mgr. að ráðherra verði heimilt að takmarka útgáfu leyfa þessara við tiltekinn fjölda á ári. Þau sér stöku skilyrði sem sett eru fyrir leyfum sem þessum beinast að því að tryggja svo sem kostur er að óréttmæt atvinnustarfsemi fari ekki fram á grundvelli leyfa þessara. Er í því skyni lagt til að ábyrgðarmaður viðkomandi staðar verði að fullu ábyrgur fyrir þeim rekstri sem þar fer fram án tillits til þess rekstrarforms sem er á viðkomandi starfsemi.

Um VI. kafla.

    Í VI. kafla frumvarpsins er að finna reglur um meðferð og neyslu áfengis. Ekki eru lagðar til veigamiklar breytingar frá gildandi lögum. Gert ráð fyrir því að sömu reglur gildi að meginstefnu til um meðferð og neyslu áfengis, þó með nokkrum breytingum sem nauðsyn legar þykja með hliðsjón af réttarþróun í landinu og breyttum samfélagsháttum. Þannig er lagt til að felld verði niður ákvæði 17. gr. gildandi laga sem lýtur að tilhögun áfengissend inga og hlutverki póstafgreiðslumanna þar að lútandi og ákvæði í 3., 4. og 5. mgr. 19. gr. sem hafa að geyma reglur um heimildir til að leita í bifreiðum að áfengi sem ætla má að hafa eigi til ólöglegrar sölu, um öfuga sönnunarbyrði í tilteknum málum er varða bifreiðarstjóra og bann við því að ökumenn leigubifreiða og annarra almenningsbifreiða taki ölvuð ungmenni til flutnings í bifreiðum sínum. Almennar reglur um heimildir til leitar og um sönnun er að finna í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og þykir mega vísa til þeirra laga um meðferð mála vegna brota sem hér um ræðir. Ákvæði um öfuga sönnunarbyrði samrýmist ekki grundvallarreglu laga um meðferð opinberra mála um að sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik sem telja megi honum í óhag hvíli á ákæruvaldinu, sbr. 45. gr. laganna, og það sama leiðir af 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasátt mála Evrópu, sem lögfestur hefur verið hér á landi, um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

Um 18. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um aldursmark til kaupa og neyslu áfengis. Gert er ráð fyrir því að haldið verði 20 ára aldursmarki til kaupa og neyslu áfengis.

Um 19. gr.

    Í greininni er að finna almenn ákvæði um meðferð áfengis. Sambærilegar reglur er að finna í gildandi áfengislögum.

Um 20. gr.

    Greinin er samhljóða 16. gr. a. gildandi áfengislaga.

Um 21. gr.

    Greinin er samhljóða 21. gr. gildandi áfengislaga.
    

Um 22. gr.

    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir ákvæðum samsvarandi 22. og 23. gr. gildandi áfengis laga varðandi ölvun embættismanna, opinberra starfsmanna og tiltekinna starfsstétta, en ákvæði um þetta er nú að finna í starfsmannalögum og lögum um lækna og lyfjafræðinga. Hins vegar er lagt til að haldið verði að mestu óbreyttu ákvæði um réttindasviptingar skv. 24. gr. gildandi áfengislaga, en í sérlögum um starfsstéttir sem ákvæðið tekur til skortir nokkuð á að afdráttarlaust sé kveðið á um hvernig með skuli fara við brot sem hér um ræðir.

Um 23. gr.

    Greinin er að mestu samhljóða 25. gr. gildandi áfengislaga, að viðbættu ákvæði um önd unarpróf, en samkvæmt umferðarlögum er nú heimilt að ákvarða ölvunarástand ökumanns á grundvelli vínandamagns í lofti sem hann andar frá sér.

Um VII. kafla.

    Í VII. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um leyfissviptingar, refsingar og eigna upptöku. Með vísan til röksemda sem reifaðar eru í athugasemdum við VI. kafla er einnig lagt til að felld verði niður ákvæði 35., 37. og 47. gr. gildandi laga.

Um 24. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði að afturkalla skuli leyfi, fullnægi leyfishafi ekki lengur skilyrðum til að fá útgefið leyfi. Með þessu skapast skýr lagaheimild til afturköllunar jafnskjótt og leyfishafi uppfyllir ekki einhver skilyrði sem krafist er.

Um 25. gr.

    Greinin fjallar um áminningar og leyfissviptingar. Ákvæðið útilokar ekki að svipta megi handhafa leyfi ef brotið er gegn öðrum lögum en áfengislögum sem um rekstur hans gilda. Í því felst m.a. að svipta má áfengisveitingaleyfi gerist leyfishafi brotlegur við skattalög í rekstri sínum, heilbrigðisreglur o.fl.

Um 26. gr.

    Greinin er samhljóða 38. gr. gildandi áfengislaga.

Um 27. gr.

    Greinin er samhljóða 33. gr. gildandi áfengislaga að öðru leyti en því að lagt er til að við ákvörðun sektar vegna brota á lögunum verði tekið mið af áfengisgjaldi samkvæmt reglum sem um það gilda.
    Um tilraun og hlutdeild í brotum á lögunum fer eftir ákvæðum almennra hegningarlaga og er því ekki lengur þörf á sérstöku tilraunarákvæði skv. 46. gr. gildandi laga.

Um 28. gr.

    Gert er ráð fyrir að í megindráttum gildi sömu reglur um upptöku og skv. 8. og 34. gr. gildandi áfengislaga.

    
Um VIII. kafla.

    Í þessum kafla er lagt til að sjálfstæðri stjórnsýslunefnd, úrskurðarnefnd um áfengismál, verði falið að leysa úr ágreiningsmálum vegna úrskurða sveitarstjórna samkvæmt lögum þessum. Þessi háttur er fallin til að auka réttaröryggi og skilvirkni á þessu sviði þar sem þeim sem aðild geta átt að kærumáli gefst færi á að skjóta ákvörðunum þessum með einföldum og skjótum hætti til úrskurðar sjálfstæðrar og óháðrar nefndar. Þá er þetta fyrirkomulag mjög til þess fallið að tryggja samræmi í framkvæmd laganna.

Um 29. gr.

    Í greininni er að finna almenna heimild til að bera ákvarðanir sveitarstjórnar samkvæmt lögum þessum undir úrskurðarnefnd um áfengismál.
    Samkvæmt 2. mgr. er úrskurðarnefndin sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem skipað er til hliðar við hið almenna stjórnsýslukerfi ríkis og sveitarfélaga. Úrskurðum nefndarinnar verður því hvorki skotið til ráðherra né nokkurs annarrs stjórnvalds. Ráðherra getur því síður gefið nefndinni bindandi fyrirmæli um úrlausn mála. Úrskurðir nefndarinnar verða hins vegar bornir undir dómstóla skv. 60. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem bera má úrlausnir hennar undir umboðsmann Alþingis.

Um 30. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir því að dómsmálaráðherra skipi þrjá menn í úrskurðarnefnd um áfengismál. Einn skal hann skipa samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitar félaga, einn samkvæmt tilnefningu ríkislögreglustjóra og einn samkvæmt tilnefningu félags málaráðherra. Skal sá síðastnefndi jafnframt vera formaður nefndarinnar.

Um 31. gr.

    Í greininni er að finna ákvæði um meðferð kærumála hjá úrskurðarnefnd um áfengismál.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að kærur til nefndarinnar þurfi að vera skriflegar.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að meiri hluti nefndarinnar ráði niðurstöðu hennar ef nefndin er ekki einhuga í afstöðu sinni. Meginreglan er sú að allir nefndarmenn skuli sitja fundi. Forfallist aðalmaður án þess að ráðrúm gefist til að boða varamann í hans stað er nefndin engu síður ályktunarhæf þegar meiri hluti nefndarmanna situr fund, sbr. 34. gr. stjórnsýslu laga. Við þær aðstæður er gert ráð fyrir að atkvæði formanns ráði úrslitum þegar atkvæði falla eitt á móti einu.

Um 32. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í 1. mgr. kemur fram að leyfi til innflutnings, heildsölu, veitinga eða framleiðslu sem veitt voru í tíð eldri laga halda gildi sínu. Um eftirlit, áminningar og leyfissviptingar fer þó eftir reglum þessara laga. Leyfishafar þurfa því að uppfylla þau skilyrði sem lög þessi setja fyrir veitingu nýrra leyfa og ber að bregðast við vöntun á því með úrræðum laganna.
    Í 2. mgr. er fjallað um þær áfengisútsölur sem starfræktar verða við gildistöku laganna. Lagt er til að veittur verði frestur til að sækja um leyfi til rekstrar þessara útsala í þrjá mánuði og að heimilt verði að starfrækja útsölurnar á því tímabili og síðan þar til afstaða hefur verið tekin til umsóknar þeirra af viðkomandi sveitarstjórn samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til áfengislaga.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða öðrum frumvörpum sem kveða á um breytingar í áfengismálum. Það felur í sér nokkrar veigamiklar breytingar á gildandi áfengislögum og eru þær helstar að leyfi til að stunda innflutning, heildsölu og framleiðslu áfengis verður veitt af ríkislögreglustjóra í stað fjármálaráðuneytis eins og nú er. Einnig færist veiting leyfis til áfengisveitinga og smásölu áfengis til sveitarstjórna en hið fyrrnefnda var áður veitt af lög reglustjórum.
    Umsögnin er unnin í samráði við dómsmálaráðuneyti en að mati fjármálaráðuneytis munu eftirtaldir þættir helst hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs:
1.    Lagt er til að lögreglunni verði falið eftirlit með vínveitingastöðum í stað víneftirlitsmanna og að eftirlitið verði aukið. Að mati dómsmálaráðuneytis er talið að kostnaður aukist um 1–2 m.kr. Á móti kemur að matsnefnd vínveitingahúsa verður lögð niður en framlag til hennar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1998 er áætlað 1,5 m.kr.
2.    Kveðið er á um að dómsmálaráðherra skipi þriggja manna úrskurðarnefnd en heimilt verður að bera ákvarðanir sveitarstjórna undir nefndina. Ekki er ljóst hvert verður starfs umfang þessarar nefndar en ætla má að kostnaðurinn geti orðið á bilinu 0,5–1 m.kr.
    Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum en þar er gert ráð fyrir að starfrækt verði áfengiseftirlitsdeild hjá ríkislögreglustjóra. Kostn aðarauki vegna hennar er áætlaður 3–4 m.kr., sbr. umsögn um það frumvarp. Það er því mat fjármálaráðuneytis að kostnaður ríkisins við breytingar í áfengis- og tóbaksmálum sam kvæmt þessum tveimur frumvörpum aukist samtals um 4–6 m.kr.
    Í frumvarpi til laga um gjald af áfengi er lagt til að ákveðið hlutfall teknanna renni til lög regluyfirvalda til að standa undir kostnaði við áfengiseftirlit, samtals um 15 m.kr. á ári. Á móti fellur niður heimild til að leggja gjöld á vínveitingastaði vegna starfa víneftirlitsmanna sem hefur skilað um 9 m.kr. tekjum. Tekjuaukinn, nettó, verður því um 6 m.kr. eða áþekkur fyrrnefndum kostnaðarauka sem leiða mun af samþykkt þessara tveggja frumvarpa.