Ferill 365. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 817 – 365. mál.



Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um bifreiðakaup ráðuneyta.

     1.      Hvaða reglur gilda um bifreiðakaup á vegum ráðuneyta?
    Um bifreiðakaup ráðuneyta gildir reglugerð nr. 580/1991, um bifreiðamál ríkisins, og jafnframt hafa verið settar sérstakar reglur á grundvelli þeirrar reglugerðar um innkaup og endurnýjun á bifreiðum í eigu ríkisins sem ráðherrar hafa til afnota. Reglurnar eru með fylgjandi.

     2.      Hversu margar bifreiðar hafa verið keyptar á vegum einstakra ráðuneyta á tímabilinu 1990–97, af hvaða bifreiðaumboðum var keypt og hver var kostnaður hvers ráðuneyt is, sundurliðað eftir árum?
    Samkvæmt upplýsingum, sem aflað hefur verið frá ráðuneytum, voru alls keyptar 25 bifreiðar á vegum þeirra á árunum 1990–97. Ráðuneytin eiga þó ekki allar þessar bifreiðar nú, því að sumar þeirra hafa verið seldar þegar nýrri hafa verið keyptar. Seldar hafa verið þær bifreiðar, sem keyptar voru á árunum 1991–94, að undanskilinni bifreið landbúnaðarráðu neytis. Eftirtaldar bifreiðar hafa verið keyptar á árunum 1990–97 samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytum:

Ráðuneyti Tegund bifreiðar Söluaðili Kaupverð
1990
Engin bifreið keypt.
1991
Forsætisráðuneyti Audi 100 2.8E Hekla hf. 3.273.066
Forsætisráðuneyti Mitsubishi Lancer Hekla hf. 1.442.387
Menntamálaráðuneyti Mitsubishi Hekla hf. 2.700.000
Landbúnaðarráðuneyti Ford Explorer Globus hf. 2.717.917
Fjármálaráðuneyti Mitsubishi L-300 Hekla hf. 2.030.226
Fjármálaráðuneyti Mitsubishi Pajero Jón E. Ingólfsson 2.884.000
Fjármálaráðuneyti Audi 100 Hekla hf. 2.560.807
1992
Fjármálaráðuneyti Mitsubishi Pajero Hekla hf. 2.815.000
Samgönguráðuneyti Ford Explorer Globus hf. 2.740.890
1993
Fjármálaráðuneyti Toyota Corolla P. Samúelsson hf. 1.138.270
1994
Utanríkisráðuneyti Hyundai Sonata Bifreiðar og landbúnaðarvélar 2.626.000
Utanríkisráðuneyti Ford Explorer árg. '91 Sala varnarliðseigna 1.714.962
1995
Forsætisráðuneyti Audi A8 Hekla hf. 5.896.506
Menntamálaráðuneyti Audi Hekla hf. 3.458.000
Félagsmálaráðuneyti Grand Cherokee árg. '94 Sala varnarliðseigna 2.858.619
Fjármálaráðuneyti Audi A6 Hekla hf. 3.219.256
Samgönguráðuneyti Mitsubishi Pajero Hekla hf. 3.802.612
1996
Forsætisráðuneyti Mitsubishi Space Wagon Hekla hf. 2.068.744
Utanríkisráðuneyti Cherokee Laredo árg. '94 Sala varnarliðseigna 2.633.175
Utanríkisráðuneyti BMW 728i Bifreiðar og landbúnaðarvélar 5.846.020
Sjávarútvegsráðuneyti Saab 9000 Globus hf. 3.316.449
Fjármálaráðuneyti Daihatsu Charade Brimborg hf. 1.237.189
Fjármálaráðuneyti Mitsubishi Pajero Hekla hf. 4.034.780
1997
Sjávarútvegsráðuneyti Renault Megane Bifreiðar og landbúnaðarvélar 1.048.000
Iðnaðar- og viðskiptarn. Mitsubishi Pajero Hekla hf . 3.531.000

     3.      Hvaða ráðuneyti hafa keypt bifreiðar og hversu margar af Sölu varnarliðseigna? Hvert var verð þeirra bifreiða?
    Utanríkisráðuneytið hefur keypt tvær bifreiðar af Sölu varnarliðseigna (nú Umsýslustofnun varnarmála): Ford Explorer árg. '91 á 1.714.962 kr. og Jeep Grand Cherokee Laredo árg. '94 á 2.633.175 kr. Félagsmálaráðuneyti hefur keypt eina bifreið af sömu stofnun: Grand Cherokee árg. '94 á 2.858.619 kr.

     4.      Hvaða opinber gjöld eru greidd við innflutning og sölu þessara bifreiða í samanburði við þau gjöld sem greidd eru af innflutningi og sölu annarra bifreiða?
    Bifreiðaumboð sem annast innflutning bifreiðanna greiða aðflutningsgjöld af þeim. Greidd eru sömu opinber gjöld við innflutning og sölu bíla sem ráðuneyti kaupa og greidd eru af innflutningi og sölu annarra bifreiða.
    Umsýslustofnun varnarmála fer með sölu bifreiða til ráðuneyta með sama hætti og sölu bifreiða til einstaklinga eða fyrirtækja, þ.e. að fram fer útboð. Sá munur er þó á fyrirkomu lagi hjá bifreiðaumboðunum og Umsýslustofnun varnarmála að stofnunin greiðir einungis virðisaukaskatt en ekki önnur aðflutningsgjöld til innheimtumanna ríkissjóðs. Hins vegar rennur hagnaður af rekstri stofnunarinnar í ríkissjóð.

     5.      Eru í gildi sérkjör varðandi kaup ráðherra á bifreiðum til einkanota? Ef svo er, hversu margir ráðherrar hafa nýtt sér þau sérkjör á árunum 1990–97 og af hvaða bifreiða umboðum var keypt, sundurliðað eftir árum og ráðuneytum?
    Ekki eru í gildi sérkjör varðandi kaup ráðherra á bifreiðum til einkanota. Hins vegar eiga ráðherrar þess kost að nýta eigin bifreiðar til embættisstarfa og greiðir þá ríkissjóður kostnað af rekstri þeirra, þar með talið fyrningarfé, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 580/1991, um bifreiðamál ríkisins. Ráðherra, sem fær bifreið í eigu og rekstri ríkisins til afnota í þágu embættis síns og til takmarkaðra einkanota, er skattlagður vegna einkanotanna.

     6.      Hafa ráðherrar nýtt sér þau sérkjör til kaupa á bifreiðum af Sölu varnarliðseigna? Ef svo er, hversu margir, sundurliðað eftir ráðuneytum?
    Sjá svar við 5. lið.

Fylgiskjal.


Reglur um innkaup og endurnýjun á bifreiðum
í eigu ríkisins sem ráðherrar hafa til afnota.

(Fjármálaráðuneytið 21. janúar 1992.)


1. gr.

    Hver ráðherra getur fengið bifreið í eigu og rekstri ríkisins til afnota í þágu embættis síns og til takmarkaðra einkanota, svo sem aksturs milli vinnustaðar og heimilis og annarra ein stakra ferða. Bifreiðar þessar skulu auðkenndar með íslenska skjaldarmerkinu sem festa skal á skráningarplötur ásamt áletruninni: Ríkisbifreið, Stjórnarráð.

2. gr.

    Innkaupastofnun ríkisins sér um innkaup og endurnýjun á bifreiðum skv. 1. gr. að jafnaði á þriggja ára fresti, að höfðu samráði við bílanefnd ríkisins. Eingöngu skulu keyptar fólks bifreiðar að kaupverði allt að 3 millj. kr. miðað við verðlag í ársbyrjun 1992.
    Bifreiðar þessar skulu keyptar að öllu jöfnu að undangengnu útboði og sala skal fara fram með almennu útboði. Innkaupastofnun ríkisins annast afsöl og nauðsynlegar tilkynningar vegna slíkra viðskipta svo og afhendingu bifreiða og innheimtu söluandvirðis.

3. gr.

    Innkaupastofnun ríkisins skal hafa til reiðu jeppabifreiðar til afnota fyrir ráðherra vegna einstakra ferða eða verkefna.
    Fjármögnun og rekstur þessarra bifreiða greiðist af fjármálaráðuneyti.

4. gr.

    Reglur þessar eru settar skv. 10. gr. reglugerðar nr. 580 4. desember 1991 um bifreiðamál ríkisins og öðlast þegar gildi.