Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 827 – 225. mál.Nefndarálitum frv. til l. um kosningar til sveitarstjórna.

Frá félagsmálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sesselju Árnadóttur og Sigríði Lillý Baldursdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Jón Thors og Ólaf Walter Stefánsson frá dómsmála ráðuneyti, Skúla Guðmundsson frá Hagstofu Íslands, Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hjörleif B. Kvaran borgarlögmann og Gunnar Eydal, skrifstofustjóra borgar stjórnar.
    Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Hjaltastaðahreppi, Bárðdælahreppi, Eyr arbakkahreppi, Borgarfjarðarhreppi, Broddaneshreppi, Reykholtsdalshreppi, Dalabyggð, Skorradalshreppi, Rangárvallahreppi, Sveinsstaðahreppi, Akureyrarbæ, Vestmannaeyjabæ, Þingvallahreppi, sýslumanninum á Akranesi, Stykkishólmsbæ, Skútustaðahreppi, Reykja nesbæ, Selfossbæ, Eyrarsveit, Reykjavíkurborg, Snæfellsbæ, Ísafjarðarbæ, Stöðvarhreppi, Torfalækjarhreppi, Kópavogsbæ, Tjörneshreppi, Djúpavogshreppi, Skeggjastaðahreppi, Djúpárhreppi, Hríseyjarhreppi, Bæjarhreppi, Holta- og Landsveit, Vatnsleysustrandarhreppi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skriðuhreppi, Þorkelshólshreppi, Hvammstangahreppi og dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að um kosningar til sveitarstjórna gildi ein lög og er þar m.a. fylgt fordæmi annarra Norðurlanda. Áfram munu þó gilda ákvæði laga um kosningar til Alþingis um atkvæðagreiðslur utan kjörfunda. Þetta fyrirkomulag þykir vera til þess fallið að auðvelda hinum almenna borgara sem valinn er í kjörstjórn starf sitt. Núna er fram kvæmdin sú að um kosningar til sveitarstjórna gilda annars vegar ákvæði laga um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, og hins vegar ákvæði III. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.
    Við samningu þessa frumvarps var fyrst og fremst stuðst við fyrrgreind sveitarstjórnarlög og lög um kosningar til Alþingis. Nefndin, sem samdi frumvarpið, fór þá leið að eyða öllum mun á kröfum til sveitarfélaga eftir íbúafjölda. Þá var viðmiðunardagur kjörskrár færður frá því að vera fimm vikum fyrir kjördag í þremur vikum fyrir, sbr. 5. gr., sá sem sæti á í kjör stjórn skal ætíð víkja sæti ef hann er í kjöri til sveitarstjórnar, sbr. 15. gr., almenna reglan verður sú að í sveitarfélögum verði bundnar hlutfallskosningar, en ef enginn framboðslisti berst eru kosningarnar óbundnar, sbr. 19. gr., framboðsfrestur verður þrjár vikur í stað fjög urra, sbr. 20. gr., og kjósendur eiga nú rétt á að greiða atkvæði utan kjörfundar frá og með þeim degi er átta vikur eru til kjördags, sbr. 42. gr.
    Félagsmálanefnd komst að þeirri niðurstöðu að þær breytingar sem nefndin lagði til væru algerlega ófullnægjandi. Félagsmálanefnd ákvað að gera verulegar breytingar á frumvarpinu og færa lögin til nútímahorfs þannig að mið verði tekið af reynslu undanfarinna ára og fram kvæmd kosninga gerð auðveldari.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Nefndin hefur gert breytingar á uppsetningu frumvarpsins svo að sem eðli legast samræmi sé milli greina. Breytingar þessar hafa ekki áhrif á efni frumvarpsins. Helstu efnisbreytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til viðbót við 1. gr. þar sem rétt þykir að kveða á um að félagsmálaráðuneytið skuli auglýsa formlega að almennar sveitarstjórnarkosningar skuli fara fram. Þótt lög segi hver kjördagurinn skuli vera þarf að ákveða kjördaginn formlega og þykir rétt að gera það með auglýsingu, m.a. með hliðsjón af því hvenær utankjörfundaratkvæða greiðsla má hefjast skv. 42. gr. sem verði 43. gr.
     2.      Lögð er til breyting á 1. mgr. 2. gr. sem fjallar um kosningarrétt þar sem ekki þykir nægilega skýrt tekið fram í ákvæðinu að kosningarréttur sé bundinn við það sveitarfélag þar sem viðkomandi á lögheimili.
     3.      Í 3. mgr. 2. gr. er lagt til að vísað verði til 1. mgr. 2. gr. um aldur og lögheimili í sveitarfélagi eins og gert er í 2. mgr. greinarinnar.
     4.      Lögð er til breyting á 3. gr. sem fjallar um kjörgengi. Rétt er að binda kjörgengi með skýrari hætti við lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Tilvísun til 2. gr. eins og hún er nú tryggir það ekki.
     5.      Lagt er til að við 7. gr. bætist að kjörskrá sé staðfest af sveitarstjórn. Nefndin telur að hér sé um nauðsynlegt formskilyrði að ræða, þ.e. að sveitarstjórn taki kjörskrá til um fjöllunar á fundi.
     6.      Lagt er til að við bætist ný grein, sem verði 8. gr., þar sem fram komi að félagsmálaráðuneytið skuli birta almenna auglýsingu um að kjörskrár skuli lagðar fram og um kærufrest, svo sem segir í 20. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987. Þar með þurfa sveitarstjórnir aðeins að auglýsa framlagningarstað.
     7.      Lögð er til breyting á orðalagi 2. mgr. 8. gr. sem verði 9. gr. Sveitarstjórn skal nú ætíð auglýsa hvar kjörskrá liggur frammi.
     8.      Lagt er til að í 3. mgr. 9. gr., sem verði 10. gr., sé tekið fram að breytingar geti einnig orðið á dönsku, finnsku, norsku eða sænsku ríkisfangi, jafnframt því íslenska, sem þá er hægt að leiðrétta fram á kjördag.
     9.      Lagt er til að 2. mgr. 12. gr., sem verði 13. gr., falli brott. Miðað við nútímasamgöngur er ákvæði þetta talið óþarft.
     10.      Lagt er til að við 3. mgr. 12. gr., sem verði 13. gr., bætist sá möguleiki að hægt sé að kenna kjördeild við kjörstað.
     11.      Lögð er til breyting á 13. gr., sem verði 14. gr., en hún fjallar um kjörstjórnir og undirbúning kosninga. Í stað 1.–3. mgr. er lagt til að komi fimm nýjar málsgreinar með ein faldari og skýrari framsetningu en nú. Bætt er við ákvæði um hverfiskjörstjórnir sem starfa þar sem fleiri en ein kjördeild er á sama kjörstað. Auk þess er kveðið á um að kjörstjórnarmenn skuli hafa kosningarrétt í sveitarfélaginu.
     12.      Lögð er til sú breyting á 3. mgr. 14. gr., sem verði 15. gr., að skilyrði um að gerðabækur þær sem sveitarstjórnir láta kjörstjórnum í té skuli vera gegnumdregnar og löggiltar af hlutaðeigandi lögbókanda verði fellt brott. Formfesta þessi varðandi gerðabækurnar er talin óþörf og í framhaldi af því bætt við ákvæði um að sérstök eyðublöð geti jafnframt komið í stað þeirra hjá undirkjörstjórnum og hverfiskjörstjórnum.
     13.      Lögð er til sú breyting á 15. gr., sem verði 16. gr., að bætt er við til frekari skýringar að ákvæði 1. mgr., eins og greininni verður breytt, eigi við um bundnar hlutfallskosning ar. Að lokum eru í 2. mgr. taldar upp ítarlegri vanhæfisástæður kjörstjórnarmanna.
     14.      Í 21. gr., sem verði 22. gr., eru lagðar til breytingar á fjölda meðmælenda eftir stærð sveitarfélaga. Í stað þess að hafa sveitarfélög með 2.001 –16.000 íbúa í sama flokki er lagt til að í sveitarfélagi með 2.001–10.000 íbúa þurfi að lágmarki 40 meðmælendur, í sveitarfélögum með 10.001–50.000 þurfi 80 meðmælendur og í sveitarfélagi með 50.001 íbúa og fleiri þurfi að lágmarki 160 meðmælendur.
     15.      Lögð er til sú breyting á 23. gr., er verði 24. gr., að í stað þess að yfirkjörstjórn haldi fund á næsta virkum degi eftir að frestur sá er liðinn sem ákveðinn er um framboð verði haldinn fundur næsta dag án tillits til hvort sá dagur er frídagur.
     16.      Lögð er til einföldun á orðalagi 33. gr. er verði 34. gr.
     17.      Í 1. málsl. 2. mgr 36. gr., sem verði 37. gr., er lögð til ítarlegri skýring á útliti framboðslista við prentun þeirra hvað varðar lágmarksbreidd fyrir hvern lista.
     18.      Í 3. mgr. 36. gr., sem verði 37. gr., er lagt til að auk þess að geta þess um hvern lista fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er í kjöri skuli jafnframt tekið fram að einnig geti verið um að ræða annað framboð en frá stjórnmálasamtökum. Ástæða þess er sú að þeir sem standa að framboði til sveitarstjórna fullnægja naumast alltaf kröfum til að teljast stjórnmálasamtök.
     19.      Í 40. gr., sem verði 41. gr., er lagt til að í stað orðsins „hreppstjórar“ komi orðin „eða fulltrúar sýslumanna“ og þannig geti aðrir fulltrúar sýslumanna en hreppstjórar varð veitt milli kosninga þá atkvæðakassa sem notaðir eru við kosningarnar.
     20.      Í 1. mgr. 42. gr., sem verði 43. gr., er lögð til einföldun á orðalagi þar sem fjallað er um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Þá bætast við tvær nýjar málsgreinar þar sem lögin þurfa að taka á því tilviki að kosningar kunni að verða ákveðnar þannig að ekki verði átta vikur til kjördags, t.d. þegar kosning hefur verið úrskurðuð ógild eða fram fara kosningar samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Jafnframt er tekið skýrt fram hvern ig atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram þegar kosning er óbundin.
     21.      Í 2. mgr. 42. gr., sem verði 4. mgr. 43. gr. og fjallar um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, er lagt til að bætt sé við að eftir því sem við eigi verði farið eftir lögum um kosningar til Alþingis því að nauðsynlegt er að hafa í huga að ekki er líklegt að unnt verði að tryggja að við hinar ýmsu aukakosningar sem lögunum mun verða beitt um geti at kvæðagreiðsla utan kjörfundar farið fram hjá öllum kjörstjórum, svo sem í skipum, hjá kjörræðismönnum eða á öðrum stöðum erlendis á sama hátt og við almennar kosningar.
     22.      Lögð er til sú breyting á 2. mgr. 43. gr., sem verði 44. gr., að skilyrðislaus skylda verði að auglýsa kjörstað almenningi á undan kjörfundi með nægum fyrirvara. Ákvæði núgild andi laga um að slíkt þurfi ekki sé kjörstaður öllum kjósendum innan kjördeildar nægi lega kunnur þykir óljóst og því eðlilegra að kjörstað skuli auglýsa án undantekninga.
     23.      Í 1. mgr. 44. gr., sem verði 45. gr. og fjallar um kjörklefa, er lögð til einföldun á orðalagi. Ítarleg útskýring í 1. og 2. mgr. 44. gr. núgildandi laga á því hvernig tjaldað skuli fyrir klefana svo ekki fáist séð inn í þá ásamt fleiri lýsingum eru taldar óþarfi.
     24.      Lögð er til sú breyting á 1. mgr. 46. gr., sem verði 47. gr., að meginreglan verði sú að kjörfund skuli setja á kjörstað kl. 9 árdegis en að yfirkjörstjórn geti ákveðið að kjör fundur hefjist síðar, þó eigi síðar en kl. 12 á hádegi.
     25.      Lagðar eru til breytingar á 54. gr. sem verði 55. gr. Orðalag 1. málsl. er einfaldað en jafnframt er því bætt við að hægt sé að framvísa kennivottorði til að sanna á sér deili jafnframt því sem áfram verði notast við nafnskírteini. Með kennivottorði er þá átt við önnur persónuskilríki, svo sem ökuskírteini, vegabréf og greiðslukort með mynd. Þá er gerð sú breyting á 2. málsl. að í stað þess að oddviti afhendi kjósanda kjörseðil geti það verið hvaða fulltrúi í kjörstjórn sem er.
     26.      Í 2. mgr. 55. gr., sem verði 56. gr., er lögð til breyting á 3. málsl. Greinin fjallar um rétt manns til að kjósa þó svo að hann sé ekki á kjörskrá ef hann getur framvísað ákveðnu vottorði máli sínu til stuðnings. Lagt er til að niður falli ákvæði um að vottorð sé einnig gilt sé það undirritað af sveitarstjórn í því sveitarfélagi þar sem kjósandi er á kjörskrá enda er aðeins um eitt sveitarfélag að ræða. Jafnframt sé málsliðnum breytt þannig að það sé oddviti eða framkvæmdastjóri sveitarstjórnar sem geti undirritað slíkt vottorð. Þá er lögð til orðalagsbreyting á 4. málsl.
     27.      Lagt er til að 4. mgr. 58. gr., sem verði 59. gr., falli brott. Ákvæðið fjallar um hvenær skuli ekki meta atkvæði ógilt. Efnisregla þessi kemur fram í X. kafla frumvarpsins, nán ar tiltekið í 77. gr., sem verði 79. gr., og er því óþarft að tvítaka það.
     28.      Lagt er til að 67. gr. færist, ásamt kaflafyrirsögn X. kafla, og verði 75. gr. þar sem greinin á þar betur heima. Þá er lagt til að í 1. málsl. 1. mgr. sé gert ráð fyrir að kjör deild geti verið ein og því sé rétt að bæta því við, þar sem segir að yfirkjörstjórn skuli með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa stund og stað þess að hún komi saman til að opna atkvæðakassana og telja atkvæðin, að það sé gert nema kjördeild sé ein og talning fari fram í lok kjörfundar.
     29.      Lagt er til að við 73. gr., sem verði 72. gr., sé bætt nýrri málsgrein þess efnis að undirkjörstjórn geti afhent yfirkjörstjórn ákveðin kjörgögn óinnsigluð að viðstöddum um boðsmönnum lista ef yfirkjörstjórn er viðstödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis. Ákvæði þetta er samhljóða 1. mgr. 101. gr. laga um kosningar til Alþingis.
     30.      Lagt er til að við bætist ný grein, sem verði 73. gr., þar sem fjallað er um að kanna skuli hvort samræmi sé milli tölu kjósenda í kjördeildarbókum og afhentra atkvæðaseðla.
     31.      Í 74. gr., sem verði 76. gr., er lagt til að á eftir orðinu „stjórnmálasamtökum“ í 2. mgr. komi orðin „eða tengda listunum“ þar sem framboð þurfa ekki ætíð að tengjast stjórn málasamtökum.
     32.      Lagðar eru til breytingar á 1. málsl. 1. mgr. 75. gr., sem verði 77. gr. og fjallar um opnun atkvæðakassa við lok kosninga, þar sem hafa ber í huga að um er að ræða kosningu í einu sveitarfélagi og að oft er einungis um að ræða eina kjördeild. Þá fer talning fram í beinu framhaldi af því að kosningu lýkur. Þá þarf að gera ráð fyrir að yfirkjörstjórn, þar sem eru margar kjördeildir, hafi borist utankjörfundaratkvæði. Þá er lagt til að ákvæði 1. mgr. 82. gr. um talningu við óbundna kosningu verði flutt fram í 75. gr., sem verði 77. gr., og verði 3. mgr.
     33.      Lagt er til að við 77. gr., sem verði 79. gr., bætist ný málsgrein um mat á gildi atkvæða við óbundnar kosningar. Ákvæði þetta þykir nauðsynlegt til að tryggja réttarstöðu í þessum tilvikum.
     34.      Lagt er til að 84. gr. verði 83. gr. og jafnframt sé bætt við greinina ákvæði um söfnun og varðveislu kjörskráa.
     35.      Þá er lagt til að við bætist ný grein, sem verði 84. gr., þar sem sérstaklega er tekið fram að tilkynna skuli úrslit kosninga og geta þess sérstaklega hve margir atkvæðaseðlar eru auðir og hve margir ógildir.
     36.      Lagt er til að 2. mgr. 82. gr. verði með lagfæringu á orðalagi að 1. mgr. 87. gr. Þá er orðalag í upphafi 1. mgr., sem verður 2. mgr., gert skýrara.
     37.      Lagt er til að við bætist ný grein, sem verði 88. gr., um að yfirkjörstjórn skuli senda Hagstofu Íslands skýrslu um kosninguna ritaða á eyðublöð er Hagstofan lætur í té, sbr. ákvæði í 117. gr. laga um kosningar til Alþingis.
     38.      Lögð er til breyting á 1. og 2. mgr. 85. gr., sem verði 1. mgr. 89. gr., þannig að það sé yfirkjörstjórn, í stað undirkjörstjórnar, sem boðar til kjörfundar að nýju ef kosning hefur farist fyrir af óviðráðanlegum orsökum. Þá er jafnframt lögð til sú breyting í 3. mgr. 85. gr., sem verði 2. mgr. 89.gr., að það sé yfirkjörstjórn sem getur frestað kosningu í kjör deild eftir að hún er hafin ef um óviðráðanlegar ástæður er að ræða.
     39.      Lögð er til sú breyting á 86. gr., sem verði 90. gr., að skýrt sé tekið fram að það sé sitjandi sveitarstjórn sem í samráði við yfirkjörstjórn boðar til nýrra kosninga í sveitarfé lagi ef nauðsynlegt verður að kjósa á ný.
     40.      Í 88. gr., sem verði 92. gr., er lagt til að a- og b-liður falli brott. Ákvæði þessi voru sett í upphafi aldarinnar til að vernda kjósendur gegn því sem þá var talinn óæskilegur kosn ingaáróður. Í dag er ekki farið eftir þessum ákvæðum og þau í raun þverbrotin án þess að gripið sé til viðeigandi viðurlaga, sbr. refsiheimild c-liðar 98. gr. laganna. Það er því skoðun nefndarinnar að ákvæðin séu úrelt.
     41.      Í 91. gr., sem verði 95. gr., er lagt til að við bætist nýr málsliður þar sem ástæða þykir til að taka fram að jafnframt því sem yfirkjörstjórn gefur út kjörbréf til aðalfulltrúa í sveitarstjórn og til jafnmargra varamanna skuli hún einnig ef þörf krefur gefa út kjörbréf til annarra varamanna sem sæti taka í sveitarstjórn og kjörnir hafa verið í bundnum hlut fallskosningum.
     42.      Lagt er til að c-liður 98. gr., sem verði 102. gr., falli brott með vísan til þess sem fyrr segir um breytingu á 88. gr. um óleyfilegan kosningaáróður.

Alþingi, 19. febr. 1998.         

Kristín Ástgeirsdóttir,


    form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Siv Friðleifsdóttir.Kristján Pálsson.


Pétur H. Blöndal.Magnús Stefánsson.Arnbjörg Sveinsdóttir.Rannveig Guðmundsdóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.