Ferill 506. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 873 – 506. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um jarðabréf.

Flm.: Gunnlaugur M. Sigmundsson, Egill Jónsson.



    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að auðvelda nýliðun í landbúnaði með því að koma á nýj um lánaflokki, „jarðabréfum“, er bjóði upp á svipaðan lánstíma og lánskjör við kaup á bú jörðum og húsbréf við kaup á íbúðarhúsnæði. Heimilt verði að lána allt að 65% af kaupverði bújarða, þ.e. til kaupa á landi, fasteignum, vélum og bústofni.

Greinargerð.


    Nýliðun í landbúnaði hefur á undanförnum árum verið allt of lítil til að greinin geti þróast eðlilega. Ástæðurnar má einkum rekja til lélegrar afkomu af búrekstri og erfiðleika nýliða við að afla langtímalána til jarðakaupa. Afkoma af búrekstri eins og hún er nú gerir bónda sem er að hefja búskap ekki mögulegt að standa undir greiðslubyrði af fjárfestingarlánum þegar lánstími er einungis til nokkurra ára. Þótt margir eldri bændur vilji hætta búskap í því skyni að hleypa yngri bændum að jörðinni ráða ungir bændur ekki við að kaupa miðað við þá fjármögnun sem er í boði. Afrakstur ævistarfs flestra bænda er bundinn í jörðum þeirra og bústofni og þeir eiga ekki hægt um vik að selja jörð og bústofn nema þeir fái umtalsverðan hlut söluverðsins greiddan á öruggan hátt.
    Með því að bjóða upp á húsbréf eykur ríkisvaldið öryggi í viðskiptum með íbúðarhúsnæði jafnframt því sem slík kaup eru aðgengilegri fyrir kaupanda og seljanda. Jarðakaup fela að sjálfsögðu í sér kaup á fleiru en íbúðarhúsnæði þar sem íbúðarhús, land, útihús, vélar og bú peningur eru órjúfanleg heild eigi jörð að haldast í ábúð. Hugmyndin að jarðabréfum gengur út á að stofnaður verði nýr lánaflokkur þar sem lánað verði til allt að 40 ára til kaupa á jörð um ásamt fasteignum, vélum og búpeningi. Ekki er óeðlilegt þegar lán er veitt til jarðakaupa að líta á búrekstur eins og annan rekstur þar sem einn rekstrarþáttur verður ekki skilinn frá öðrum (going concern). Á sama hátt og með húsbréf fær kaupandi jarðar veðleyfi fyrir skuldabréfi með heildarveði í viðkomandi jörð. Kaupandinn skiptir á skuldabréfinu fyrir rík istryggð jarðabréf sem útgefandi sér um að afhenda seljanda jarðarinnar. Seljanda jarðarinn ar er síðan í sjálfsvald sett hvort hann selur jarðabréfin öll eða hluta þeirra eða notar þau sem greiðslu upp í aðra fasteign. Markaður fyrir jarðabréf mun án efa verða með svipuðum hætti og nú er fyrir húsbréf. Hagur seljanda jarðar eftir tilkomu jarðabréfa er, auk þess að geta frekar selt jörð sína, sá að hann fær tryggingu fyrir því að staðið verði í skilum með stærstan hluta söluverðs. Kaupanda er jafnframt auðveldað að ráða við kaupin með því að fá að greiða 65% af kaupverði jarðarinnar á allt að 40 árum.
    Búnaðarsamband Eyjafjarðar samþykkti á fundi í janúar 1997 tillögu í þessa veru. Bændablaðið greindi frá því að hugmynd Búnaðarsambandsins miðaðist við að jarðabréf gætu numið allt að 65% kaupverðsins. Í grein sem Ævarr Hjartarson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar, ritar í Bændablaðið 21. maí 1997 rekur hann þann vanda sem við er að etja varðandi nýliðun í landbúnaði. Ævarr nefnir sem dæmi að þokkalega uppbyggð jörð með vélum og greiðslumarki í mjólk upp á 100.000–120.000 lítra kosti vart undir 30 millj. kr. Slíkur búrekstur er talinn gefa af sér um 7 millj. kr. í brúttótekjur en af þeirri fjár hæð fara 3,5 millj. kr. beint í rekstur búsins þannig að einungis eru eftir 3,5 millj. kr. fyrir launum bóndans og fjölskyldu hans og til að greiða vexti og afborganir af lánum. Miðað við hefðbundna fjármögnun við jarðakaup má ætla að vextir og afborganir af 30 millj. kr. jarða kaupaláni nemi um 3,6 millj. kr. á ári svo ljóst er að slíkt dæmi gengur engan veginn upp. Bóndi sem er eingöngu með sauðfjárbúskap er að öllu jöfnu með mun lægri brúttótekjur en í því dæmi sem rakið var hér að framan. Góð sauðfjárjörð þar sem framleidd eru um 10 tonn af kindakjöti gefur vart af sér nema 4–4,5 millj. kr. í brúttótekjur. Ljóst má því vera að greiðslugeta sauðfjárbænda til að standa straum af vöxtum og afborgunum af jarðakaupum er mjög lítil og nýliðun í sauðfjárbúskap nánast háð því að bóndi sé tilbúinn að afhenda af komanda sínum jörðina til ábúðar án þess að fá fullt verð fyrir hana. Með tilkomu lánaflokks sem gerði mögulegt að fjármagna allt að 65% af kaupverði jarðar, véla og búpenings til 40 ára lækkar árleg greiðslubyrði vaxta og afborgana um nálægt 2 millj. kr. á ári eða úr um 3,6 millj. kr. í 1,7 millj. kr. (Reikniforsendur eru að jarðarverð sé 30 millj. kr. og jarðabréfalán með húsbréfavöxtum nemi 65% af kaupverði eða 19,5 millj. kr. í stað eftirstöðvaláns/banka láns upp á 15,5 millj. kr. til sjö ára á 10% vöxtum.)
    Þótt tilkoma jarðabréfa muni mjög auðvelda ungu fólki að ráðast í kaup bújarða verður engu síður erfitt að hefja búrekstur meðan rekstrarskilyrði í landbúnaði eru jafnerfið og þau eru í dag. Margt bendir þó til þess að rekstrarskilyrði muni batna á komandi árum. OECD spáir því t.d. að verð á kjöti fari hækkandi í Evrópu á næstu árum samfara auknum kaupmætti alls þorra almennings. Þingsályktunartillaga þessi miðar að því að auðvelda nýliðun í land búnaði eins og nauðsynlegt er ef greinin á að þróast og dafna eðlilega. Verði tillagan sam þykkt mun slíkt stuðla að því að eldri bændur geti á tryggan hátt fengið eðlilegt verð fyrir jarðir sínar er þeir láta af búskap og ungu fólki sem vill hefja búskap er gert auðveldara að ráðast í jarðakaup.