Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 891 – 520. mál.Frumvarp til lagaum breytingu á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996 (eftirlit með meðferð áfengis).

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)    1. gr.


    Við 2. mgr 5. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að starfrækja áfengiseftirlits deild sem annist eftirlit með meðferð áfengis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1998.     

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til áfengislaga. Í frumvarpi til áfengislaga er gert ráð fyrir því að lögregla, tollgæsla og skattayfirvöld annist eftirlit með þeim aðilum sem hafa leyfi til að stunda í atvinnuskyni innflutning, sölu, veitingar og framleiðslu áfengis. Lagt er til að ríkislögreglustjóri hafi yfirumsjón með og annist skipulag áfengiseftirlits á landsvísu. Hann mun gefa fyrirmæli til lögregluembætta og setja þeim starfsreglur um áfengis eftirlit, auk þess að skipuleggja sérstök átaksverkefni í samráði við einstök lögregluembætti og eftir atvikum skatta- og tollyfirvöld. Þá mun ríkslögreglustjóri halda heildarskrá yfir birgðageymslur, áfengisveitingahús og áfengisútstölustaði og heildarskrá yfir leyfishafa til innflutnings, framleiðslu, sölu og veitinga áfengis.
    Þetta er viðbót við það hlutverk sem ríkislögreglustjóra er nú þegar falið í lögreglulögun um, nr. 90/1996. Gert er ráð fyrir að innan embættisins verði sett upp sérstök deild til að hafa umsjón með þessu hlutverki. Mun þetta stuðla að virkara og öflugra eftirliti með meðferð áfengis.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á
lögreglulögum, nr. 90/1996.

    Í frumvarpinu er lagt til að ríkislögreglustjóri starfræki áfengiseftirlitsdeild. Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi til áfengislaga en þar er gert ráð fyrir að lögreglu-, tollgæslu- og skattyfirvöld annist eftirlit með þeim sem hafa leyfi til innflutnings, heildsölu, framleiðslu og veitingu áfengis. Í þessu frumvarpi er við það miðað að ríkislögreglustjóri hafi yfirumsjón með og annist skipulag áfengiseftirlits á landsvísu og að í því skyni verði sett á fót sérstök deild. Kostnaðarauki vegna launa, ferðakostnaðar og annars tengds kostnaðar er talinn nema 3–4 m.kr.
    Gert er ráð fyrir að ákveðið hlutfall tekna af áfengisgjaldi fari til að mæta þessum kostnaði.