Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 900 – 524. mál.


Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á c-lið 69. gr. laganna:
a.    Á eftir 1. málsl. 4. mgr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Framangreint hlutfall skal þó lækkað um 0,5 á hverju ári sem maður á rétt á vaxtabótum samfellt vegna sama íbúð arhúsnæðis umfram 25 ár. Hafi maður fengið vaxtabætur samfellt vegna sama íbúðarhús næðis í 36 ár skal frádráttur á grundvelli tekjuskattsstofns falla niður.
b.    Á eftir 5. málsl. 4. mgr., er verður 7. málsl., koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Við ákvörðun vaxtabóta á því ári þegar maður aflar sér íbúðarhúsnæðis, en hefur ekki fengið vaxtabætur árið áður, skal þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar reikna vaxta bætur frá og með þeim ársfjórðungi sem fyrsta fasteignaveðlán vegna kaupanna er tekið. Skal hámark vaxtagjalda, tekjuskattsstofn og hámark vaxtabóta þá ákveðið hlutfallslega miðað við það.
c.     Á eftir 8. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar er orðast svo:
         Heimilt er að greiða fyrir fram ársfjórðungslega áætlaðar vaxtabætur til þeirra sem festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á árinu 1999 og síðar. Skulu áætlaðar vaxtabætur greiddar út fjórum mánuðum eftir lok hvers ársfjórðungs.
         Áætlaðar vaxtabætur skal miða við gjaldfallna og greidda vexti hvers ársfjórðungs af þeim veðlánum sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis, þó ekki meira en fjórðung af hámarki vaxtagjalda, sbr. 3. mgr.
         Frádrátt frá vaxtagjöldum hvers ársfjórðungs sbr. 4. mgr., skal miða við fjórðung af stað greiðsluskyldum tekjum síðustu 12 mánaða á undan honum að viðbættum þeim tekjum utan staðgreiðslu sem fram koma á skattframtali fyrra árs. Fyrirframgreiddar vaxtabætur fyrir hvern ársfjórðung skulu eigi vera hærri en fjórðungur af hámarki vaxtabóta, sbr. 4. mgr.
         Sá sem rétt kann að eiga til fyrirframgreiðslu vaxtabóta á því ári sem hann aflar sér íbúðarhúsnæðis skal sækja um fyrirframgreiðluna og leggja fram tilskildar upplýsingar. Lánastofnanir, lífeyrissjóðir og aðrir aðilar sem veita lán til íbúðarkaupa gegn veði í fast eign skulu veita skattyfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar til að ákvarða fyrirframgreiðslu vaxtabóta. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um ákvörðun og fyrirfram greiðslu vaxtabóta.
d.    Á eftir orðunum „Innheimtustofnunar sveitafélaga“ í 10. mgr. kemur: svo og gjaldföllnum afborgunum og vöxtum af lánum Íbúðalánasjóðs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við útborgun vaxtabóta vegna árs fjórðungs er hefst 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með þessu frumvarpi er lagt til að vaxtabætur til þeirra sem kaupa fasteignir eftir að lögin taka gildi verði greiddar fyrir fram í stað þess að greiðast eftir á líkt og verið hefur. Með þessari breytingu munu vaxtabætur koma til greiðslu á kaupári en ekki ári síðar líkt og nú er. Í frumvarpinu er einnig lagt til að heimilt verði að skuldajafna vaxtabótum, sé um vanskil að ræða, til greiðslu á afborgunum og vöxtum af húsnæðislánum. Jafnframt er lagt til að skerð ingarhlutfall vaxtabóta, sem er 6% af tekjuskattsstofni, lækki um hálft prósentustig fyrir hvert ár sem bótaþegi á rétt á vaxtabótum vegna sama íbúðarhúsnæðis umfram 25 ár. Hafi bótaþegi fengið vaxtabætur samfellt vegna sama íbúðarhúsnæðis í 36 ár falli frádráttur á grundvelli tekjuskattsstofns niður.
    Lagt er til að fyrirframgreiðsla vaxtabóta vegna gjaldfallinna og greiddra vaxta verði fjórum sinnum á ári. Í fyrsta skipti fimm til átta mánuðum eftir kaup á fasteign í stað þess að bæturnar séu greiddar út einu sinni á ári, allt að tveimur árum frá kaupdegi líkt og nú er. Fyrirframgreiðsla vaxtabóta á tekjuárinu er bráðabirgðagreiðsla og miðast við vexti af veð lánum sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis. Að tekjuárinu liðnu verður síðan endanleg vaxtabótaupphæð hvers bótaþega ákvörðuð í tengslum við álagningu opinberra gjalda.
    Fyrirframgreiðsla vaxtabóta mun hafa í för með sér tímabundna útgjaldaaukningu. Sam kvæmt upplýsingum frá embætti Ríkisskattstjóra fengu um 9.300 einstaklingar (hjón talin sem tveir einstaklingar) greiddar vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda árið 1997 sem ekki höfðu fengið greiddar vaxtabætur árið 1996. Samtals námu greiðslur vaxtabóta til þessa hóps um 500 m.kr. árið 1997.
    Sé gert ráð fyrir svipuðum upphæðum við gildistöku laganna mun fyrirframgreiðsla til nýrra bótaþega auka árleg útgjöld ríkissjóðs um allt að 500 m.kr. næstu fimm til átta árin. Áætlað er að útgjaldahækkun ríkissjóðs á gildistökuári laganna verði um þriðjungur fyrr greinds kostnaðar eða um 170 m.kr. Afgangurinn af útgjaldahækkuninni kemur fram ári síðar. Algengasti útborgunartími vaxtabóta vegna kaupa á íbúð er áætlaður fimm til átta ár og mun framangreind útgjaldaaukning því ganga að mestu leyti til baka á því árabili.
    Í fjárlögum fyrir árið 1998 er gert ráð fyrir að greiðslur ríkissjóðs vegna vaxtabóta verði um 3.800 m.kr.
     Hækkun á vöxtum til félagslegra lána. Í frumvarpi félagsmálaráðherra til laga um húsnæðismál er lagt til að niðurgreiðslu vaxta vegna íbúðarkaupa verði hætt og að vextir á lánum til félagslegs húsnæðis verði hækkaðir úr 2,4% í 5,1%. Fyrirframgreiddar vaxtabætur munu þannig koma í stað vaxtaniðurgreiðslu. Hér verður gerð grein fyrir þeim áhrifum sem þessi breyting mun hafa á ríkissjóð og þá aðila sem fá lán til kaupa á félagslegu húsnæði.
     Íbúðarkaupendur. Til að gera grein fyrir áhrifum af breytingunni verður borin saman greiðslubyrði af láni fyrir og eftir hækkun vaxta, að teknu tilliti til vaxtabóta. Sýnd verða alls ellefu dæmi með tilliti til hjóna, einstæðra foreldra og einstaklinga og mismunandi tekna og lánsupphæða.
    Í dæmunum er stuðst við eftirfarandi forsendur:
—    Lánstími er 40 ár og vextirnir eru annars vegar 2,4% og hins vegar 5,1%.
—    Lánsupphæð nemur 90% af húsnæðisverði.
—    Afborgun er einu sinni á ári.
—    Hámark vaxtabóta er á fyrsta ári 2,5% hærra en nú er og hækkar árlega til jafns við verðbólgu.
—    Vaxtabætur skerðast um 6% af tekjuskattsstofni.
—    Tekjuskerðingarhlutfallið lækkar um ½ prósentustig á ári frá 26. til 37. árs.
—    Vaxtabætur skerðast hlutfallslega fari eignir umfram skuldir upp fyrir ákveðin mörk.
—    Útreikningar vaxtabóta taka miða af gildandi lögum.
—    Ekki er gert ráð fyrir hækkun launa eða verðlags.
    Í eftirfarandi töflu eru bornar saman nettógreiðslur, þ.e. heildarafborgun að frádregnum vaxtabótum, fyrir hjón, einstætt foreldri og einstaklinga miðað við mismunandi laun og láns upphæðir. Greiðslubyrðin er sýnd annars vegar sem summa allra ársgreiðslna og hins vegar núvirði þeirra miðað við 5,1% raunvexti.

Yfirlit yfir greiðslubyrði í vaxtabótakerfinu af 40 ára jafngreiðsluláni.



     Nettógreiðslur m.v. 5,1% vexti      Nettógreiðslu, m.v. 2,4% vexti
    Húsnæðis-     Tekjur     Summa     Núvirði     Summa     Núvirði
Þús. kr.     verð     á mán.     ársgreiðslna     ársgreiðslna     ársgreiðslna     ársgreiðslna

Hjón
Dæmi 1.     7.000     150     9.659     3.593     9.488     3.889
Dæmi 2.     7.000     200     10.757     4.142     9.856     4.163
Dæmi 3.     7.000     225     11.306     4.416     9.870     4.177
Dæmi 4.     8.000     150     10.713     3.947     10.562     4.265
Dæmi 5.     8.000     200     11.734     4.431     11.118     4.640
Dæmi 6.     8.000     225     12.281     4.705     11.253     4.749
Dæmi 7.     4.500     150     7.817     3.033     7.050     2.983
Einstætt foreldri
Dæmi 8.     5.500     80     6.917     2.452     6.880     2.710
Dæmi 9.     6.000     80     7.657     2.756     7.386     2.882
Einstaklingur
Dæmi 10.     5.000     80     6.549     2.426     6.383     2.536
Dæmi 11.     5.500     80     7.387     2.796     6.880     2.710

    Meginniðurstaðan er að sé tekið tillit til vaxtabóta er núvirt greiðslubyrði lánanna svipuð í flestum dæmanna hvort sem vextir eru 2,4% eða 5,1%. Í öllum dæmunum nema 3, 7 og 11 er núvirt greiðslubyrði af láni með 5,1% vexti lægri en af láni með 2,4% vexti. Þess má einnig geta, þó að það sjáist ekki í töflunni, að í öllum tilfellum er árleg greiðslubyrði af láni með 5,1% vöxtum lægri á fyrri hluta lánstímans en hærri á seinni hlutanum.
    Nánari umfjöllun um greiðslubyrði er í frumvarpi félagsmálaráðherra um húsnæðismál.
     Ríki. Með hækkun vaxta í félagslega kerfinu mun kostnaður ríkissjóðs af vaxtabótum til þess hóps sem fær félagsleg lán aukast. Sé gert ráð fyrir að allt að 1.000 einstaklingar komi árlega inn í vaxtabótakerfið, sem að óbreyttu hefðu farið inn í félagslega eignaíbúðakerfið, er áætlað að vaxtabætur muni hækka að jafnaði um 120 m.kr. á ári næstu tíu árin við fyrr greinda breytingu. Árleg útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna hækkunar vaxtabóta verður því í heild um 1.200 m.kr. þegar upp er staðið. Á móti vegur framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna sem var 275 m.kr. í fjárlögum ársins 1998. Jafnframt mun kerfisbreytingin leiða til þess að Íbúðalánasjóður verður leystur undan kostnaði við niðurgreiðslu vaxta þegar félagslegar íbúðir koma til innlausnar og rekstrarkostnaður húsnæðiskerfisins lækkar til muna.
    Sjóðurinn verður fjárhagslega sjálfstæð stofnun óháð framlögum ríkissjóðs. Með því að hækka vaxtaniðurgreiðslu úr innlausn íbúða og styrkja þannig fjárhagsstöðu sjóðsins, verður í náinni framtíð hægt að afnema ríkisábyrgð á lántökum sjóðsins og bæta þjónustu hans með aukinni þátttöku bankakerfisins.
    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

a.    Lagt er til að dregið verði úr tekjutengingu vaxtabóta þegar vaxtagreiðslutímabil vegna sömu eignar er lengra en 25 ár. Tekjutengingin fellur alfarið niður eftir 36 ár. Þessi breyt ing er lögð til í tengslum við heildarendurskipulagningu á íbúðalánakerfinu.
b.    Þessu ákvæði er ætlað að jafna út misræmi sem orðið getur á fyrsta ári bótaréttar milli ársfjórðungsgreiðslna og vaxtabóta þar sem útreikningur þeirra miðast nú við heilt ár.
c.    Með þessu ákvæði er áformað að koma á nýju greiðslufyrirkomulagi vaxtabóta, þ.e. fyrirframgreiðslu. Stefnt er að því að flýta útborgun vaxtabótanna og mun hún eiga sér stað fjórum sinnum á ári. Gert er ráð fyrir að þeir sem uppfylla skilyrði til að njóta vaxtabóta vegna íbúðarhúsnæðis sem aflað er á árinu 1999 eða síðar geti sótt um að fá bæturnar greiddar á þennan hátt. Umsókn skal afhent skattstjóra. Samhliða umsókninni liggja fyrir upplýsingar um tekjur umsækjanda á ákveðnu tímabili. Á grundvelli þessara gagna og upp lýsinga mun skattstjóri síðan afgreiða umsóknina. Loks byggir þessi tilhögun á þeirri forsendu að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um vaxtagjöldin. Verður slíku best fyrir komið með beinni samvinnu milli skattyfirvalda og lánastofnana.
         Fyrirframgreiðsla vaxtabóta á tekjuárinu er bráðabirgðagreiðsla. Að tekjuárinu liðnu verður síðan tekin endanleg ákvörðun um vaxtabótaupphæðir hvers bótaþega í tengslum við álagningu opinberra gjalda.
d.    Lagt er til að heimild verði til skuldajöfnunar við gjaldfallnar afborganir og vexti til íbúðalánakerfisins.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,


með síðari breytingum


    Frumvarp þetta miðar að því að vaxtabætur til þeirra sem festa kaup á húsnæði eftir 1. janúar 1999 verði greiddar út ársfjórðungslega fyrirfram á kaupári eignar, en ekki árið eftir, eins og ákvæði núgildandi laga segja til um. Frumvarpið er lagt fram í tengslum við frumvarp til laga um húsnæðismál sem miðast við að vextir vegna lána til félagslegs húsnæðis verði hækkaðir úr 2,4% í 5,1% en að í þess stað verði greiddar vaxtabætur. Nánari umfjöllun um heildaráhrif þessara breytinga á útgjöld ríkissjóðs er að finna í umsögn með því frumvarpi.
    Verði frumvörp þessi að lögum mun það leiða til aukningar á útgreiðslum vaxtabóta. Annars vegar er gert ráð fyrir aukningu að fjárhæð 120 m.kr. árlega næstu 10 árin vegna um 1.000 einstaklinga sem öðlast munu rétt til vaxtabóta en hefðu annars tekið lán með niður greiddum vöxtum í félagslega húsnæðiskerfinu. Hins vegar er er áætlað að útstreymi vaxta bóta aukist um 170 m.kr. árið 1999 og um 500 m.kr. á ársgrundvelli næstu 5–8 árin þar á eftir vegna flýtingar á greiðslum til kaupárs fasteignar. Að samanlögðu er því gert ráð fyrir að miðað við núgildandi lög aukist vaxtabætur um 290 m.kr. árið 1999, um 740 m.kr. árið 2000 en síðan um 120 m.kr. því til viðbótar á hverju ári fram til ársins 2004 og verði árlegur kostnaðarauki þá orðinn um 1.200 m.kr. alls. Í þessu sambandi skal bent á að samhliða þessu fellur niður 275 m.kr. framlag til Byggingasjóðs verkamanna sem veitt hefur verið í fjárlögum til að mæta vaxtamun veittra og tekinna lána sjóðsins.
    Kostnaður við breytingar á framkvæmd vaxtabótagreiðslna fellur til á árinu 1999 og eftir leiðis og þá einkum hjá Ríkisskattstjóraembættinu. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir stofnkostnaði sem nemi um 2,5 m.kr. vegna uppsetninga og breytinga á tölvuvinnslu bótakerfisins, m.a. til þess að gera það kleift að upplýsingar um lán og vaxtagreiðslur bótaþega berist vélrænt frá lánastofnunum. Í öðru lagi er reiknað með að rekstrarkostnaður vaxi um 7,5 m.kr. Þar af eru 1 m.kr. aukning á aðkeyptri tölvuvinnslu, 4,5 m.kr. útgjöld við eitt og hálft starf í skattkerfinu og 2 m.kr. póstburðargjöld vegna bréfasendinga til bótaþega.