Ferill 542. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 927 – 542. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 34 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Tollgæslufáni er tjúgufáni með silfurlitu upphafstéi (T) í efra stangarreit miðjum.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Fáni forseta Íslands er hinn íslenski tjúgufáni, en í honum, þar sem armar krossmarksins mætast, skjaldarmerki Íslands og skjaldberar í hvítum, ferhyrndum reit.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
a.     Í stað orðanna „samkvæmt 2. gr.“ í 3. mgr. kemur: skv. 2. og 3. gr.
b.     4. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Í stað orðsins „forsetaúrskurði“ í 7. gr. laganna kemur: reglugerð.

5. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Nú rís ágreiningur um rétta notkun þjóðfánans og fer þá um rannsókn málsins að hætti opinberra mála, en forsætisráðuneytið sker úr um ágreininginn.

6. gr.

    Í stað orðsins „dómsmálaráðuneytið“ í 9. gr. laganna kemur: forsætisráðuneytið.

7. gr.

    Á eftir orðunum „í samræmi við“ í 10. gr. laganna kemur: ákvæði laga þessara, þar á meðal.

8. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., er orðast svo:
    Lög þessi ná jafnframt, eftir því sem við á, til hvers konar skírskotana til eða eftirlíkinga af þjóðfánanum, svo sem áprentana og myndvarpana.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
a.     4. mgr. orðast svo:
         Heimilt er með leyfi forsætisráðuneytisins að nota fánann í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu, enda sé starfsemi sú sem í hlut á að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælir fyrir með reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð. Óheimilt er að nota fánann í firmamerki.
b.     Í stað orðsins „dómsmálaráðuneytisins“ í 5. mgr. kemur: forsætisráðuneytisins.
c.     6. mgr. orðast svo:
         Óheimilt er að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af íslenska fánanum.

10. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Forsætisráðuneytið skal gefa út reglugerð um notkun og meðferð fánans.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Um leið fellur brott 3. mgr. 29. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þegar reglugerð skv. 7. og 13. gr. laganna hefur verið sett falla úr gildi forsetaúrskurður nr. 5/1991, um fánadaga og fánatíma, og auglýsing nr. 4/1991, um liti íslenska fánans.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var áður lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97, en varð ekki útrætt. Það er nú lagt fyrir Alþingi á ný í meginatriðum óbreytt, en við það hefur verið aukið nokkrum minni háttar breytingum. Þær koma annars vegar til vegna þess að sérákvæði um póst- og símafána eiga ekki við lengur, en hins vegar til að hnykkja á og styrkja reglur um meðferð mála vegna brota á lögunum. Er nánar gerð grein fyrir þessum breytingum í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins, en að öðru leyti fer hér á eftir skýrsla nefndar þeirrar er forsætisráðherra skipaði til að endurskoða lög um þjóðfánann á útmánuðum 1995.
    Saga íslenska fánans er samofin sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Framan af voru menn ekki á eitt sáttir um gerð fánans og lengi mun ekki hafa verið gerður greinarmunur á fána og skjaldarmerki.
    Hinn 13. mars 1897 ritaði Einar skáld Benediktsson grein í blað sitt, Dagskrá, þar sem hann segir að þjóðlitir Íslands séu blátt og hvítt og að krossinn sé hið algengasta og hentugasta flaggmerki. Leggur hann til að fáni Íslands verði hvítur kross á bláum feldi.
    Á fundi Stúdentafélags Reykjavíkur 27. desember 1906 sýndi Matthías Þórðarson, síðar þjóðminjavörður, fánahugmynd sína: hvítan kross á bláum feldi með rauðum krossi innan í hvíta krossinum. Áttu litirnir að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn.
    Fánatillaga Matthíasar sigraði að lokum, en á þessu stigi hölluðust menn miklu fremur að hugmynd Einars, bláum fána með hvítum krossi. Varð sú fánagerð vinsæl víða, ekki síst eftir að danskt herskip gerði árið 1913 upptækan slíkan fána sem var á kappróðrarbáti á Reykja víkurhöfn. Hleypti þetta atvik miklum hita í fánamálið.
    Að tillögu Hannesar Hafstein ráðherra var 22. nóvember 1913 gefinn út konungsúrskurður um að fyrir Ísland skyldi löggildur vera sérstakur fáni. Gerð hans skyldi ákveðin með nýjum konungsúrskurði þegar ráðherra Íslands hefði haft tök á að kynna sér óskir manna á Íslandi um það atriði. Hér var einungis um að ræða sérfána fyrir Ísland, þ.e. fána sem nota mætti á Íslandi og í íslenskri landhelgi.
    Í næsta mánuði eða 30. desember 1913 skipaði svo ráðherra nefnd til þess að taka gerð fánans til rækilegrar íhugunar og koma fram með tillögur um lögun og lit hans.
    Í nefnd þessa voru skipaðir Guðmundur Björnsson landlæknir, formaður, Matthías Þórðar son þjóðminjavörður, Ólafur Björnsson ritstjóri, Jón Jónsson (Aðils) dósent og Þórarinn B. Þorláksson listmálari.
    Fánanefndin skilaði yfirgripsmikilli skýrslu 1914. Gerðar voru tvær tillögur um liti fánans:
a.         fáninn skyldi vera heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum, eða
b.         hvítur með heiðbláum krossi og hvítri og blárri rönd utan beggja vegna.
    Með tilvísun til konungsúrskurðarins frá 22. nóvember 1913 var gefinn út konungs úrskurður 19. júní 1915 um lögun og liti fánans þannig að þrílita gerðin var ákveðin. Þessi fáni varð svo þjóðfáni er Ísland varð fullvalda ríki 1. desember 1918, sbr. konungsúrskurð 30. nóvember 1918. Hér með var fáninn ekki lengur einungis sérfáni heldur hið þráða full veldistákn þjóðarinnar.
    Þegar lýðveldisstofnunin var undirbúin var rætt um fánann. Ekki kom til breyting á gerð fánans, lögun og litum, heldur notkun hans og meðferð. Þá voru sett gildandi lög um þjóðfána Íslendinga sem voru fyrstu lögin sem nýkjörinn forseti Íslands, Sveinn Björnsson, staðfesti og var það gjört á Þingvelli 17. júní 1944. Voru lögin meðundirrituð af forsætisráðherra, dr. juris Birni Þórðarsyni. Sama dag var gefinn út forsetaúrskurður um fánadaga o.fl.
    Hinn 22. júní 1987 skipaði Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra nefnd til þess að endurskoða reglur varðandi íslenska fánann. Í nefndinni áttu sæti Guðmundur Benediktsson, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti, Baldur Möller, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Pétur Thorsteinsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneyti, og Birgir Thorlacius, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætis- og menntamálaráðuneyti.
    Nefnd þessi gerði ekki tillögu um breytingar á lögunum um þjóðfánann. Hins vegar lagði nefndin til að ákveða skyldi og auglýsa staðla um liti fánans. Samkvæmt þessu gaf forsætisráðuneytið út auglýsingu um liti íslenska fánans 23. janúar 1991. Jafnframt lagði nefndin til nokkrar breytingar á forsetaúrskurði um fánadaga sem staðfestar voru með nýjum forsetaúrskurði 23. janúar 1991. Nefndin samdi leiðbeiningar um meðferð fánans sem birtar voru í riti um fána Íslands o.fl. sem forsætisráðuneytið gaf út 1991.

Skipun nefndar.
    Hinn 9. mars 1995 skipaði forsætisráðherra, Davíð Oddsson, nefnd til að endurskoða lög nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga, einkum verndarákvæði þeirra í 12. gr., sem og önnur þau lagaákvæði sem sett hafa verið fánanum til verndar. Var þetta gert í samræmi við ályktun Alþingis frá 6. maí 1994 sem mælti fyrir um þessa nefndarskipun.
    Nefndinni var einnig falið að gera tillögur að reglum um meðferð og notkun skjaldarmerkis Íslands — ríkisskjaldarmerkisins.
    Í nefndinni áttu sæti Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður, Haraldur Blöndal hæsta réttarlögmaður og Þorvaldur Garðar Kristjánsson, fyrrverandi forseti sameinaðs Alþingis, skipaðir án tilnefningar, Andrés Pétursson upplýsingafulltrúi, tilnefndur af Útflutningsráði Íslands, og Magnús Oddsson ferðamálastjóri, tilnefndur af Ferðamálaráði Íslands.
    Formaður nefndarinnar var Þorvaldur Garðar Kristjánsson og ritari Kristján Andri Stefánsson, deildarstjóri í forsætisráðuneyti.

Vinnubrögð.
    Starf nefndarinnar hefur ekki einungis lotið að sjálfum lögunum um þjóðfánann heldur einnig að viðfangsefnum sem varða auglýsingu forsætisráðuneytisins 23. janúar 1991 um liti íslenska fánans og forsetaúrskurð 23. janúar 1991 um fánadaga og fánatíma, auk forseta úrskurðar um skjaldarmerki Íslands, nr. 35 17. júní 1944.
    Nefndin hefur leitast við að vinna að verkefni sínu af kostgæfni. Gagna, heimilda og upplýsinga hefir verið aflað á ýmsa vegu. Saga fánans hefir verið skoðuð, svo sem umfjöllun Alþingis fyrr og síðar og skýrsla fánanefndar 1913. Til umráða hafa verið margháttuð gögn nefndarinnar sem forsætisráðherra skipaði 1987 til að endurskoða reglur varðandi fánann. Leitað hefur verið eftir ráðgjöf og áliti hjá þeim sem hafa til að bera sérfræðilega þekkingu og kunnáttu, einkum að því er varðar staðla til að tengja aukið frjálsræði til notkunar fánans við gæðastjórnun og umhverfisvernd, svo og til að velja nothæfan litastiga til að ákvarða fánalitina. Litið hefir verið á reglur og venjur sem tíðkast um notkun og meðferð þjóðfána og ríkisskjaldarmerkja í öðrum ríkjum, einkum annars staðar á Norðurlöndum. Hafðar hafa verið í huga venjur og starfshættir sem nú tíðkast hjá forsætisráðuneytinu fánanum til verndar. Nefndin hefur haldið marga fundi þar sem málin hafa verið skoðuð af gaumgæfni og ítarlega rædd.
    Hér verður gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum og viðhorfum sem liggja til grundvallar tillögum nefndarinnar er varða þjóðfánann.
    Tillögur, sem nefndin gerir um skjaldarmerkið, eru settar fram í sérstöku frumvarpi til laga um skjaldarmerki Íslands.

Verkefni.
    Þó að skipunarbréf nefndarinnar hljóði upp á endurskoðun laganna í heild er litið svo á að þar undir heyri ekki að breyta gerð fánans, hvorki að lögun né litum. Þá lítur nefndin svo á að ekki komi til mála að setja að formi til ný fánalög og fella úr gildi þau sem fyrir eru. Kemur þar til sögulegt gildi laga sem voru undirrituð á helgistund á Þingvelli við Öxará 17. dag júní mánaðar 1944.
    Endurskoðun slíkra laga einskorðast því við breytingar einar og þær óhjákvæmilegar. Slíku er fyrir að fara um nokkur atriði í lögunum auk þess sem nefndinni er sérstaklega falið að endurskoða verndarákvæði 12. gr. og þau lagaákvæði önnur sem sett hafa verið fánanum til verndar.

Verndarákvæði 12. gr. laganna.
    Mælt var fyrir ályktun Alþingis um endurskoðun fánalaganna með skírskotun til þess að auka þyrfti frjálsræði um notkun fánans með sérstöku tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Ekki getur orkað tvímælis að rétt sé að gera allt sem verða má til eflingar og fram dráttar atvinnulífi og efnahag landsmanna, en notkun fánans í þessum tilgangi er óhjákvæmi lega háð því að í engu sé skert þýðing hans sem þjóðfána sem er tákn og ímynd þjóðarvitundar og fullveldis. Það verður því að hafa í heiðri verndarákvæði 12. gr. fánalaganna.
    Með tilliti til þessa má í engu lina á hinu almenna ákvæði laganna um verndun fánans þar sem segir að enginn megi óvirða fánann, hvorki í orði né verki. Það ákvæði á að standa áfram að óheimilt sé að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða öðru þess háttar. Sömuleiðis skal óbreytt að stjórnmálaflokkum sé óheimilt að nota þjóðfánann í áróðursskyni við kosninga undirbúning eða kosningar.

Sérheimild til notkunar fánans.
    Sérstaklega hafa verið tekin til endurskoðunar ákvæði 4. mgr. 12. gr. laganna þar sem segir að óheimilt sé að nota fánann í firmamerki, vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða í auglýsingu á vörum. Hefur þá meginviðfangsefnið verið fólgið í því að leita leiða til að samræma annars vegar tillitið til helgi og virðingar við fánann og hins vegar notkun hans til markaðssetningar á vöru og þjónustu. Niðurstaðan hefur orðið sú að heimila beri þessa tilteknu notkun nema að því er varðar firmamerki.
    Gert er ráð fyrir að þetta sé heimilt svo framarlega að framleiðslan eða þjónustan sem í hlut á fylgi ákveðnum íslenskum stöðlum um gæðastjórnun og stjórnun umhverfisáhrifa. Gæðastjórnun felur hins vegar í sér að stjórnendur fyrirtækja viðhafi vinnubrögð, starfsvenjur og stjórnunaraðferðir sem marka og framfylgja þeirri stefnu að tryggja gæði vöru og þjónustu. Stjórnun umhverfisáhrifa felur í sér að gætt sé umhverfisverndar og reksturinn sé svo vistvænn sem verða má. Þannig geta þeir notfært sér fánann til markaðssetningar sem fullnægja til teknum skilyrðum. Með þessu móti stuðlar heimildin til notkunar fánans að bættri gæða- og umhverfisstjórnun. Þegar á allt er litið hljóta þó gæði vöru og þjónustu jafnan að vera traustasta markaðssetningin. Hlýtur þá að vera af hinu góða að fáninn sé notaður í þessu skyni þegar þess er jafnframt gætt að honum er engin óvirðing gerð þar sem hann er ekki tengdur því sem enginn sómi er að. Með þetta að markmiði er gert ráð fyrir skilorðsbundinni heimild til að nota fánann til markaðssetningar og er það veigamesta breytingin á lögunum sem gerð er tillaga um. Hefur nefndin notið sérfræðikunnáttu og ráðgjafar Staðlaráðs Íslands um aðferðir og leiðir við að binda notkun fánans til markaðssetningar við gæðastjórnun og stjórnun umhverfisáhrifa.
    Staðlaráð Íslands hefur að leiðarljósi í starfi sínu að auka vöxt og nýsköpun í atvinnulífi landsmanna og bæta starfsskilyrði þess og vernd og öryggi neytenda. Með því að tengja notkun fánans til markaðssetningar við slíka starfsemi er stuðlað að eflingu íslensks atvinnu- og efnahagslífs.

Aðrar breytingar á lögunum.
    Í lögum um þjóðfánann er mælt fyrir um fána hafnsögumanns. Slíkur fáni hefur ekki verið notaður og er ákvæði um hann úrelt. Fylgt er alþjóðareglum um merki hafnsögumanns. Því er lagt til að þetta ákvæði laganna verði fellt niður.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að engin merki önnur en þau sem tilgreind eru megi nota í þjóðfánanum. Hér er ekki tiltekið merkið í fána forseta Íslands samkvæmt forsetaúrskurði 8. júlí 1944. Er lagt til að bætt verði úr þeirri vangá með því að nefna merki forsetans með öðrum merkjum sem lögin heimila að séu í fánanum.
    Samkvæmt lögunum skal með forsetaúrskurði kveða á um fánadaga og fánatíma. Þar sem nauðsyn krefur og gert er ráð fyrir að reglugerð verði sett um notkun og meðferð fánans þykir rétt til samræmis að þar verði mælt fyrir um fánadaga og fánatíma. Því er gerð tillaga um slíka breytingu.
    Þá er í nokkrum tilvikum vísað til dómsmálaráðuneytisins í lögunum um þjóðfánann. Hér er um að ræða verkefni sem forsætisráðuneytið hefur nú með höndum, sbr. auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969, 2. gr. Þykir því rétt að lögfesta þetta þannig að í stað dómsmálaráðuneytis komi forsætisráðuneyti. Gerðar eru tillögur um þessar breytingar sem þykja óhjákvæmilegar enda í samræmi við það sem hefur viðgengist í þessum efnum.
    Í samkeppnislögum er lagt bann við að selja vörur af erlendum uppruna ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af íslenska fánanum. Þykir rétt að þetta sé í lögum um þjóðfánann sem annað er fánann varðar. Er gerð tillaga um að svo sé.
    Engar aðrar breytingar gerir nefndin að tillögu sinni við sjálf lögin um þjóðfánann.

Auglýsing um liti fánans.
    Mikilvægt er við gerð fánans að nákvæmni sé gætt í litum hans. Ber að hafa þá fánaliti sem fyrir er mælt. Það þýðir að litir fánans eiga ekki að vera breytilegir. Miklar brotalamir hafa verið í framkvæmd á þessari óhjákvæmilegu reglu.
    Þetta kann að eiga sér rætur að einhverju leyti í þeim breytingum sem í tímans rás hafa orðið á orðalagi í fyrirmælum um liti fánans, sbr. konungsúrskurð 19. júní 1915, konungs úrskurð 30. nóvember 1918 og fánalögin 17. júní 1944. Í konungsúrskurðunum er heiðblái liturinn auðkenndur ultramarine-blár en þeirri skilgreiningu sleppt úr gildandi lögum. Óljóst er hvaða litur heiðblár er því að heiðbláminn getur verið mismunandi. Sama óvissa er um ultramarine-bláma og ekki einhlít skýring á þeim lit. Stöðugleika bláa litarins hefur þannig einkum verið áfátt í gerð fánans, en einnig kemur hér til sögu rauði liturinn þó að litamismunar gæti þar síður en í bláa litnum. Samt hefur viðgengist talsverður munur á ljósrauðustu litunum og hinum dekkstu. Þess er og að geta að samkvæmt fánalögunum skal rauði liturinn vera eldrauður en í konungsúrskurðunum var hann skilgreindur hárauður. Hvíti liturinn, sem áður var óskilgreindur, er nú í fánalögunum auðkenndur mjallhvítur. Þessi litur sést samt yfirleitt ekki skjannahvítur eða línhvítur heldur gráhvítur eða jafnvel kremhvítur.
    Það ræður af líkum að breytilegir fánalitir hafa ekki verið til sóma og raunar vanvirða við það þjóðartákn sem fáninn er. Ekki einungis hafa mismunandi litir í fánanum stungið almenning í augu heldur og stundum valdið hvimleiðum vanda, svo sem fyrir sendiherra Íslands víða um lönd. Svo rammt kvað að þessu að á fyrstu árum lýðveldisins tók forseti Íslands sig fram um að vekja athygli á vandanum og benda á leiðir til úrbóta. Það virðist hafa komið fyrir ekki. Lítið sem ekkert var löngum gert til úrbóta. Furðulegt má raunar heita að framkvæmdinni var jafnt ábótavant varðandi ríkisfánann og almenna fánann. Ættu þó að hafa verið hæg heimatökin hjá ríkisvaldinu að sjá svo um að fánarnir sem það sjálft notaði væru rétt til gerðir að lögum.
    Skipulegar aðgerðir til að ráða bót á þessu ástandi komu ekki til fyrr en með fánanefndinni 1987. Nefnd þessi lagði til að hagnýtt yrði sérstök tækni sem nota mætti við gerð fánans. Litir fánans skyldu miðaðir við tiltekna litaformúlu til að leitast við að tryggja að hann verði ávallt í réttum litum. Samkvæmt þessu gaf forsætisráðuneytið út auglýsingu 23. janúar 1991 um liti íslenska fánans. Þar segir að litirnir miðist við svokallaðan Scotdic-litastiga. Þá voru litir fánans í fyrsta sinni tilgreindir í litastiga.
    Reynslan af þessari skipan er sú að greining fánalitanna í þessari auglýsingu hefur ekki gagnast sem skyldi. Er þetta annars vegar vegna þess að Scotdic-litastiginn er lítt þekktur eða óþekktur hjá birgjum sem íslensk fyrirtæki í saumaskap og prentiðnaði skipta við og því virðist einsýnt að kerfið hentar ekki til þeirra nota sem það er ætlað. Hins vegar getur þetta litakerfi aðeins gagnast við litun á textíl. Að vísu má líta svo á að fánaliti þurfi ekki að skilgreina nema fyrir taudúka vegna þess að fánar til flöggunar verði ekki gerðir úr öðrum efnum. Fáni prentaður á blað eða varpað á skjá sé aðeins skírskotun eða eftirlíking af hinum raunverulega fána og því þurfi ekki að hirða um nákvæmni lita þegar svo háttar til. En með því að nú er lagt til að rýmka reglur um notkun fánans sérstaklega til markaðssetningar og nota hann þannig áprentaðan við framboð vöru og þjónustu er, þó að ekki sé af öðrum ástæðum, full þörf á og e.t.v. óverjandi annað en að hægt sé að skilgreina hann jafnframt í litastiga fyrir prentun.
    Með tilliti til þessa þykir einsýnt að taka beri upp annan litastiga fyrir fánann en mælt er fyrir í auglýsingunni frá 1991. Er þá að velja milli ýmissa litastiga sem notaðir eru í þessu skyni.
    Við val á litakerfi fyrir íslenska fánann eru nokkur atriði sem gera verður væntingar um. Litakerfi verður að fullnægja vissum kröfum. Skilgreining á litum þarf að vera skýr. Í litakerfinu á að vera hægt að lýsa litum fánans þannig að enginn vafi leiki á hvort litirnir séu innan ákveðinna, heimilaðra marka. Kerfið þarf að vera eins einfalt í notkun og kostur er án þess að fórnað sé kröfum um vel skilgreinda liti. Þá þarf litakerfið að vera vel þekkt á alþjóðlegum markaði. Er þetta nauðsynlegt til að tryggja aðgengi að réttum litum til nota við gerð fánans, hvort sem er úr textíl eða með prentun. Hægt þarf að vera að nota litakerfið til að lýsa litum á textíl, í prentun og á skjá. Til þess að þetta megi verða verður kerfið að vera þekkt og notað í öllum þessum greinum. Að auki þarf að vera rekjanlegt samræmi á milli lita frá einni notkunargrein til annarrar. Enn fremur er nauðsynlegt að hægt sé að nota kerfið á einfaldan hátt til þess að fylgjast með og ganga úr skugga um að litir á fánanum í notkun séu innan settra marka. Jafnframt þarf að tryggja að litir fánans séu innan leyfilegra marka í textílfánum þó að um mismunandi efni sé að ræða.
    Svo vill til að við eftirgrennslan hefur komið í ljós að það litakerfi sem framleiðendur notast við og er þekktast hér á landi er svokallað Pantone-litakerfi. Þetta kerfi má nota alhliða, jafnt fyrir prentun sem textíl. Af þessum ástæðum hefur nefndin haft augastað sérstaklega á Pantone-kerfinu. Það hefur verið tekið til gagngerðrar yfirvegunar og sérstaklega metið hvernig það svarar þeim væntingum sem gera verður í þessum efnum. Eftir vandlega skoðun og ítarlega athugun er það mat nefndarinnar að Pantone-litakerfið fullnægi þeim kröfum sem gera verði til litakerfis fyrir íslenska fánann. Nefndin hefur notið ráðgjafar og sérfræðilegrar kunnáttu við þetta viðfangsefni frá Iðntæknistofnun Íslands og sérmenntuðum textílhönnuði.
Með frumvarpi þessu fylgir tillaga að auglýsingu um liti íslenska fánans.

Reglugerð um notkun og meðferð fánans.
    Nefndin gerir tillögu að reglugerð um notkun og meðferð fánans. Kemur þar þegar til að nauðsyn ber til að útfæra hina veigamiklu breytingu sem frumvarpið felur í sér á 12. gr. fánalaganna.
    Hins er svo að gæta að hvergi er að finna í heilsteyptu formi þær alþjóðavenjur um þjóðfána sem viðgangast og helgaðar eru af venju hér á landi. Þó er við að styðjast leiðbeiningar um meðferð fánans sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið gaf út 1. desember 1965. Einnig er um þetta efni samantekt fánanefndarinnar frá 1987. Leiðbeiningar þessar hafa ekki verið teknar upp með formlegri stjórnvaldstilskipan, svo sem ákvæðin um fánadaga.
Í reglugerð þeirri sem lögð er til er að finna efni sem verið hefur á víð og dreif auk veigamikilla viðbóta sem ýmist eru allsendis nauðsynlegar eða rétt þykir að láta fylgja með.
Vegna þessa ræður af líkum að efni reglugerðarinnar er mjög misjafnt að vægi, allt frá ófrávíkjanlegum fyrirmælum til þess sem er í átt að leiðbeiningum eða tilmælum um æskilega meðferð og notkun fánans.
    Með frumvarpi þessu fylgir tillaga að reglugerð um notkun og meðferð fánans.

Notkun fánans og virðing fyrir honum.
    Á árinu 1944 samþykkti Alþingi ályktun þar sem lýst var yfir þeirri ósk og beint áskorun til landsmanna að efld sé og aukin notkun fánans og virðing fyrir honum sem tákni hins íslenska þjóðernis og fullveldis.
    Þingsályktun þessi fól ríkisstjórninni að hvetja bæjarstjórnir, sýslunefndir og hreppsnefndir um allt land og félög og félagasamtök er vinna að menningar- og þjóðernismálum til þess að beita áhrifum sínum í þá átt að sem flest heimili, stofnanir og fyrirtæki eignuðust íslenska fána, kæmu sér upp fánastöngum og drægju íslenska fánann að hún á hátíðlegum stundum. Þetta gerðist í aðdraganda að stofnun lýðveldisins og hafði áhrif fyrir og eftir þann mikla viðburð. Eftir það er ekki vitað að unnið hafi verið markvisst eftir þingsályktun þessari. Samt er vilji Alþingis enn í fullu gildi. Naumast verður þó annað sagt en að á skorti að almenningur tileinki sér æskilega notkun fánans og virðingu fyrir honum sem sæmir.
    Hér er því fullkomin ástæða til að taka til hendi en ekki verður komið við fyrirmælum heldur hvatningu. Hugarfarsbreyting þarf að koma til og er þá mest um vert til framtíðar litið að æsku landsins sé innrætt gildi fánans og virðing fyrir honum. Ber því auk þess að beita þeim ráðum, sem þingsályktunin gerir ráð fyrir, að efla sem mest skilning og tilfinningu fyrir fánanum í öllum grunnskólum landsins.
    Nefndin telur að forsætisráðuneytið eigi að taka til sinna ráða í þessu efni þar sem fáni Íslands heyrir nú undir það ráðuneyti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna hefur póst- og símafáni verið ríkisfáninn, tjúgufáni, með sérstöku merki í efra stangarreit miðjum. Eftir að Póst- og símamálastofnun var færð úr opin beru í einkaréttarlegt rekstrarumhverfi og póst- og símaþjónusta að mestu gefin frjáls á hvorki við að slík fyrirtæki hafi heimild til að auðkenna fána sína með sérstöku merki né heldur til að nota fána, sem eingöngu eru ætlaðir opinberum stofnunum, en heimild til að setja póst- og símamerkið í fánann náði, eðli máls samkvæmt, eingöngu til tjúgufánans.
    Ákvæði um tollfánann er efnislega óbreytt.

Um 2. gr.

    Hér er að finna ákvæði um fána forseta Íslands sem er óbreytt tekið úr forsetaúrskurði nr. 40/1944, en rétt þykir að taka það upp í lögin, m.a. með tilliti til 4. gr. þeirra.
    Jafnframt er fellt brott ákvæði 3. gr. um fána hafnsögumanns. Þar var svo mælt fyrir að sá fáni væri hinn almenni þjóðfáni með hvítum jöðrum á alla vegu jafnbreiðum krossunum.
    Fáni þessi mun ekki hafa verið notaður á Íslandi. Almennt nota skip alþjóðamerkjafána til þess að kalla á leiðsögu- eða hafnsögumann og til að gefa til kynna að skip hafi hafnsögumann um borð. Hafnsögubátar nota alþjóðamerkjafánann til auðkennis frá öðrum skipum.

Um 3. gr.

    Í 3. mgr. 5. gr. er fjallað um heimild til að nota tjúgufánann á skip sem ríkið tekur á leigu til embættisþarfa. Rétt þykir að heimild til að flagga tjúgufánanum á slíkum skipum taki eftir atvikum jafnframt til fána forseta Íslands, sbr. a-lið.
    Breyting í b-lið miðar að því að fella brott heimild til að nota póstfánann á slíkum skipum, sbr. þá breytingu sem 1. gr. frumvarpsins felur í sér.

Um 4. gr.

    Í stað þess að kveðið hefur verið á um fánadaga og fánatíma með forsetaúrskurði er hér mælt fyrir um að það skuli gert í reglugerð. Með því að nú þykir nauðsyn að setja reglugerð um notkun og meðferð fánans sem ekki var áður fyrir að fara er eðlilegt að allt efni sem slíkt varðar sé fært þar undir.

Um 5. gr.

    Reglur laganna um málsmeðferð við brotum á þeim hafa valdið nokkrum vafa um hvernig á skuli haldið. Í 14. gr. laganna er að finna refsiheimildir og viðurlagaákvæði, sem eðli máls samkvæmt fara að hætti opinberra mála. Samkvæmt 8. gr. laganna ber forsætisráðuneyti hins vegar að skera úr um ágreining um rétta meðferð fánans. Til að taka af öll tvímæli þykir rétt að á því verði hnykkt að lögreglan rannsaki þau mál sem upp kunna að koma en skili þeirri rannsókn til forsætisráðuneytisins. Ráðuneytið kveður þá upp úrskurð á grundvelli þeirrar rannsóknar og getur, eftir atvikum, vakið athygli ríkissaksóknara á niðurstöðu sinni.

Um 6. gr.

    Hér er gerð breyting til samræmis við auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969, 2. gr.

Um 7. gr.

    Eftirlit lögreglu hefur skv. 10. gr. laganna einungis tekið til þess hvort fáninn sé að gerð og lögun eins og reglur gera ráð fyrir og ekki svo upplitaður eða slitinn að verulega víki frá réttum litum hans. Ástæða þykir til að hnykkja á því lögreglunni ber að hafa eftirlit með að meðferð fánans sé í samræmi við öll ákvæði fánalaganna, en ekki einungis að því leyti sem þegar er getið.

Um 8. gr.

    Gildissviðsákvæði laganna hefur verið orðað þannig að þau taki aðeins til fána sem notaðir eru á venjulegan hátt, þ.e. þegar þeir eru dregnir að húni til flöggunar. Á hinn bóginn má ljóst vera að verndarákvæðum laganna er jafnframt ætlað að ná til margvíslegrar annars konar notkunar. M.a. vegna þess að meginbreyting frumvarps þessa felst í því að rýmka reglur um notkun fánans í öðru skyni en til flöggunar þykir rétt að gildissvið laganna verði fært út með þeim hætti sem hér er lagt til.

Um 9. gr.

    4. mgr. 12. gr. laganna fjallar um firmamerki, vörumerki, söluvarning, umbúðir og aug lýsingar á vöru eins og í gildandi lögum en sá er munur á að hér er það heimilað sem áður var óheimilt, nema óheimilt er áfram að nota fánann í firmamerki. Þá er í upptalningu máls greinarinnar bætt við orðinu „þjónusta“ þannig að aukið frjálsræði um notkun fánans nær ekki einungis til vöru heldur og til þjónustu.
    Við þessari breytingu eru slegnir varnaglar. Leyfi forsætisráðuneytisins þarf að koma til svo að heimilt sé að nota fánann svo sem hér greinir. Það skilyrði er sett að sú starfsemi sem í hlut á fullnægi vissum gæðakröfum. Áréttað er ákvæði 1. mgr. 12. gr., um að eigi megi óvirða fánann, þannig að aukið frjálsræði breytir engu þar um. Gert er ráð fyrir að forsætisráðuneytið setji reglugerð sem kveði nánar á um þessi efni í framkvæmd.
    5. mgr. er breytt til samræmis við reglugerð um Stjórnarráð Íslands.
    Í c-lið er lagt til að núverandi ákvæði 6. mgr. um að dómsúrskurðar skuli aflað vegna brota á verndarákvæðunum falli brott, enda fer það hvorki saman við nútímastjórnarfar né önnur málsmeðferðarákvæði. Þess í stað er lagt til að ákvæði sambærilegt því sem er í 3. mgr. 29. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, verði tekið upp í þessi lög og fellt brott úr samkeppnislögum, sbr. 11. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.

    Þessi grein mælir svo fyrir að gefin skuli út reglugerð um notkun og meðferð fánans en áður mátti gera það ef þörf krefði.

Um 11. gr.

    Gildistökuákvæði þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið skýrir sig sjálft.



Fylgiskjal I.

Tillaga að auglýsingu um liti íslenska fánans.


    Litir þjóðfána Íslendinga miðast við Pantone-litakerfið þannig:

Textíl.
    Heiðblái liturinn:    Pantone nr. 19-4056 TC
    Mjallhvíti liturinn:     Pantone nr. 11-0602 TC
    Eldrauði liturinn:     Pantone nr. 19-1663 TC

Prentun í sérlit.
    Heiðblái liturinn:     Pantone nr. 287
    Mjallhvíti liturinn:     Hvítt
    Eldrauði liturinn:     Pantone nr. 1795

Prentun í fjórlit.
    Heiðblái liturinn:     C: 100%     M: 69%     Y: 0%     BK:11,5%
    Mjallhvíti liturinn:     C: 0%     M: 0%     Y: 0%     BK: 0%
    Eldrauði liturinn:     C: 0%     M: 94%     Y: 100%     BK: 0%

Skjár.
    Heiðblái liturinn:     C: 42%     M: 45%     Y: 0%     BK:60%
    Mjallhvíti liturinn:     C: 0%     M: 6%     Y: 23%     BK: 3%
    Eldrauði liturinn:     C: 0%     M: 70%     Y: 80%     BK: 36%

    Leyfileg frávik frá skilgreindum litum eru 2,5% samkvæmt Basic Colorimetric Display framsetningunni. Taka skal úr notkun fána ef einhver litur hans er utan leyfilegra marka.
    Nánari upplýsingar um fánalitina veitir forsætisráðuneytið og erlendis sendiráð Íslands.
    Fáninn í réttum litum og hlutföllum skal vera til sýnis í Þjóðminjasafni Íslands og hjá lögreglustjórum landsins.
    Ákvæði þessi eru sett skv. 13. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 34 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga.
    Auglýsing um liti íslenska fánans 23. janúar 1991 er hér með felld úr gildi.


Skýringar við auglýsingu þessa.

    Samkvæmt 1. mgr. eru litir fánans miðaðir við tiltekna litaformúlu, svokallað Pantone-litakerfi. Þessi aðferð er byggð upp með sýnishornum af litum sem raðað er í kerfi og sett saman á litaspjöldum þar sem fæst yfirlit yfir hvaða liti kerfið hefur upp á að bjóða. Hverju sýnishorni er gefið ákveðið númer. Hagnýting þessa kerfis er fólgin í tilvísun til þeirra litasýnishorna sem miða skal liti fánans við.
    Hér eru litir fánans tilgreindir í textíl, prentun og á skjá. Textíllitir eru grunnviðmiðun fyrir liti fánans en samsvarandi afleiddir litir í prentun og á skjá eru fundnir samkvæmt forskrift sem Pantone Color Drive forrit gefur um samsvörun lita. Prentlitir fánans eru gefnir upp bæði fyrir prentun í sérlit og í fjórlit vegna þess að þær prentaðferðir eru notaðar jöfnum höndum og því eru fánalitirnir settir fram á báða vegu. Í prentun í sérlit eru Pantone-númer ekki notuð fyrir mjallhvíta litinn þar sem gert er ráð fyrir að prentað sé á hvítan bakgrunn.
    Tilvísun er í númer fyrir hvern lit. Þessi númer vísa til lita sem samsvara fánanum eins og hann er ákveðinn í fánalögunum og á mynd sem var birt með fylgiskjali þeirra í Stjórnar tíðindum 1944. Svo er og miðað við tausýnishorn frá 1944 með litum fánans eins og upphaf lega var gert ráð fyrir þegar fánalögin voru sett. Sýnishorn þessi eru varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands. Enn fremur er tekið mið af sýnishornum sem forsætisráðuneytið gaf út 1991, Litir íslenska fánans.
    Í 2. mgr. er kveðið á um leyfileg frávik frá hinum tilgreindu litum fánans í 1. mgr. Kemur það til af því að gera verður ráð fyrir að blæbrigði geti orðið á lit fánans. Vegna mismunandi þéttleika í vefnaði getur áferð orðið misglansandi. Einnig taka efni misvel við lit og af þeim ástæðum geta einnig komið fram blæbrigði. Hafa þarf og í huga að fánar upplitast með tíð og tíma. Með því að hjá blæbrigðum verður ekki komist er viðfangsefnið að setja takmörk fyrir því hvað litir fánans megi bregða mikið út frá hinum rétt tilgreindu. Er slíkt gert erlendis þar sem vandað er til verka við gerð þjóðfána.
    Leyfileg frávik frá skilgreindum litum til notkunar í fána eru ákveðin 2,5% frá uppgefnu litanúmeri. Nota skal CMC-jöfnu við útreikninga. Litur er þá mældur í litmæli og niðurstöður settar fram með „Basic Colorimetric Display“ aðferðinni sem samanstendur af töflu með upplýsingum um niðurstöður mælinga á sýni og viðmiðunarsýni, ásamt upplýsingum um tækjastillingar og litamun. Auk þess er sýnt á grafi hver afstaða sýnisins er í litrúminu í samanburði við viðmiðunarsýni. Lagt er til að efni, sem keypt er inn og ætlað til notkunar í fána, sé mælt á þennan hátt áður en framleiðsla á fánum úr því hefst. Þessi aðferð er kunn innan þeirra iðngreina sem málið varða og eiga því birgjar og framleiðendur að geta nýtt sér þessa tækni.
    Með þessum viðbúnaði má meta hvort fánar eru réttir að lit eða notkun þeirra heimil. Þeir fánar, sem eru með einhvern lit utan leyfilegra marka, eru ólöglegir og taka skal þá úr notkun. Þetta ákvæði á við fána sem koma til eftir að reglur þessar eru settar. Til að framfylgja reglum um fánaliti skiptir meginmáli að séð sé um að taudúkar, sem framleiðendur og birgjar hafa á boðstólum til fánagerðar, séu í tilskildum litum og eigi séu fánar til sölu nema rétt gerðir.
Fyrirmæli um skjáliti fánans geta einungis átt við um tölvuunnar myndir, svo sem í upplýsingakerfum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að forsætisráðuneytið og sendiráðin veiti nánari upplýsingar um fánalitina. Hér er meðal annars átt við að forsætisráðuneytið gefi út og hafi á reiðum höndum sýnishorn af litum fánans jafnframt skilagóðri lýsingu á meðferð og hagnýtingu Pantone Color Drive forrits og Basic Colorimetric Display aðferðarinnar.
    Ekki gerist þörf á að skýra 4.–6. mgr.


Fylgiskjal II.

Tillaga að reglugerð
um notkun og meðferð þjóðfána Íslendinga.


I.
Hinn almenni þjóðfáni.

Heimild til að nota fánann.

1. gr.

    Öllum er heimilt að nota hinn almenna þjóðfána, enda sé farið að lögum og reglum sem um hann gilda.
    Fánann má nota við öll hátíðleg tækifæri, jafnt þau sem tengjast einkalífi sem önnur, eða á sorgarstundum.

Fánastengur og fánastærð.
2. gr.

    Þjóðfánann skal draga að hún á þar til gerðri stöng. Á húsum getur stöngin verið annaðhvort beint upp af þaki hússins eða gengið út frá hlið þess, enda sé stönginni í báðum tilfellum komið fyrir á smekklegan hátt. Enn fremur má nota stöng sem reist er á jörðu.

3. gr.

    Þegar fánastöng er reist á jörðu skal lengd hennar vera fimm sinnum breidd fánans. Ef stöngin er upp af þaki húss eða skáhallt út frá húsi skal hún vera 21/2 sinnum breidd fánans.

Fáni dreginn á stöng.
4. gr.

    Fána á að draga að hún með jöfnum hraða og skal efra horn hans falla að húninum. Fánalínan skal vera vel strekkt svo að fánajaðar liggi ávallt við stöng. Þegar fáni er dreginn niður á það að gerast með jöfnum hægum hraða. Gæta skal þess að fáni snerti ekki jörð, vatnsyfirborð eða gólf hvort heldur hann er dreginn á stöng eða dreginn niður.

Fánadagar.
5. gr.

    Sérstaklega er við hæfi að fáni sé dreginn á stöng eftirgreinda daga:
  1.     Fæðingardag forseta Íslands.
  2.     Nýársdag.
  3.     Föstudaginn langa.
  4.     Páskadag.
  5.     Sumardaginn fyrsta.
  6.     1. maí.
  7.     Hvítasunnudag.
  8.     Sjómannadaginn.
  9.     17. júní.
10.     1. desember.
11.     Jóladag.
    Alla framangreinda daga skal draga fánann að hún nema föstudaginn langa, þá í hálfa stöng.

6. gr.

    Hverja daga aðra en segir í 5. gr. og við hvaða tækifæri skal flagga fer eftir ákvörðun forsætisráðuneytisins.

Fánatími.
7. gr.

    Fána skal eigi draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skal hann eigi vera uppi lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.
    Ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir, en þó aldrei lengur en til miðnættis.

Fáni í hálfa stöng.
8. gr.

    Þegar draga skal fána í hálfa stöng skal það gert með þeim hætti að fáninn er fyrst dreginn að hún og síðan lækkaður svo að 1/3 stangarinnar sé fyrir ofan efri jaðar fánans.
    Við jarðarfarir skal fáninn dreginn að hún þegar greftrun er lokið og skal hann blakta þar til kvölds til virðingar við hinn látna.

Fáni á líkkistu.
9. gr.

    Sé líkkista sveipuð fánanum skal krossmarkið vera við höfðalag og eigi skal leggja neitt ofan á fánann. Hvorki má kasta rekunum á fánann né láta hann síga niður í gröf.

Fánahylling.
10. gr.

    Þegar hylla á fána er hann borinn á hyllingarstað samanbrotinn og liggjandi á öxl eða handlegg þess sem kemur með hann eða þaninn milli handgripa fjögurra til átta manna.
    Fari fánahylling fram undir berum himni er fáninn dreginn að hún. Fari hylling fram innan húss er æskilegt að fáninn sé borinn inn á stöng sem komið verði fyrir á hyllingarstað.

Þjóðfáninn með sérfánum.
11. gr.

    Ekki má hafa þjóðfánann inn á milli merkja eða fána héraða, sveitarfélaga, stofnana, félaga og fyrirtækja. Skal þjóðfánanum haldið aðskildum frá slíkum fánum eða fánaborgum. Sé sérfánunum hvirfilraðað má þó íslenski fáninn vera í miðju milli þeirra.

12. gr.

    Heimilt er að hafa þjóðfánann uppi á samkomum með sérfánum þeirra sem eru aðilar að eða standa að mannamótum þeim sem um er að ræða. Skal þá þjóðfáninn vera lengst til vinstri séð frá áhorfanda þegar komið er að fánastað.

Íslenski fáninn með öðrum þjóðfánum.
13. gr.

    Á milliríkjamótum eða öðrum fjölþjóðlegum samkomum má hafa uppi þjóðfána erlendra ríkja ásamt íslenska fánanum.
    Í röð þjóðfána skal íslenski fáninn vera lengst til vinstri séð frá áhorfanda þegar komið er að fánastað en öðrum þjóðfánum raðað til hægri frá honum í stafrófsröð íslenskra heita hlutaðeigandi ríkja.
    Sé þjóðfánum hvirfilraðað má íslenski fáninn vera í miðju milli hinna fánanna.

14. gr.

    Þegar íslenski fáninn er hafður uppi ásamt erlendum þjóðfánum skal leitast við að hafa alla fánana af sömu stærð. Ef fánarnir eru á stöngum og ekki unnt að draga þá alla samtímis að hún eða niður skal íslenski fáninn dreginn fyrstur að hún og síðastur niður.

15. gr.

    Heimilt er, ef heiðra skal við sérstakt tækifæri ákveðna erlenda þjóð eða milliríkjastofnun, að hafa fána slíks aðila milli íslenska fánans og þess þjóðfána sem annars ætti að vera næstur honum.
    Ekki má raða sérfánum eða einkennismerkjum, hvort heldur einkaaðila eða opinberra aðila, inn á milli þjóðfána. Slíkir fánar skulu hafðir í röðum eða þyrpingum aðskildum frá þjóðfánum.

16. gr.

    Aldrei má hafa tvo eða fleiri þjóðfána á sömu stöng.
    Séu íslenski fáninn og erlendur þjóðfáni hengdir á vegg á stöngum sem liggja í kross skal íslenski fáninn vera til vinstri séð frá áhorfanda og stöng hans yfir stöng hins fánans.

Reglur fánanum til verndar.
17. gr.

    Enginn má óvirða fánann, hvorki í orði né verki.
    Engin merki má hafa í fánanum nema heimiluð séu í hinum sérstöku ríkisfánum.
    Sýnishorn af réttum litum og hlutföllum fánans skulu vera til sýnis þar sem forsætis ráðuneytið ákveður og auglýsir, svo og hjá öllum lögreglustjórum.
    Bannað er að hafa á boðstólum, selja eða leigja aðra fána en þá sem gerðir eru með réttum litum og hlutföllum reita og krossa. Óheimilt er að nota fána sem ekki eru gerðir í samræmi við sýnishorn þau er greinir í 3. mgr. Óheimilt er og að draga á stöng fána sem er upplitaður, óhreinn, trosnaður eða skemmdur að öðru leyti og ber jafnan að lagfæra hann strax, að öðrum kosti skal hann ónýttur með því að brenna hann. Má gera slíka fána upptæka ef notaðir eru á stöng eða sýndir á almannafæri utan eða innan húss.
    Óheimilt er að nota fánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða sams konar skilríkjum.
    Óheimilt er einstökum stjórnmálaflokkum að nota fánann í áróðursskyni við kosninga undirbúning eða kosningar.
    Óheimilt er að nota fánann í firmamerki.
    Óheimilt er að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af íslenska fánanum.

Ýmis meðferð fánans.
18. gr.

    Sé fáni á stöng við altari, ræðustól eða ræðuborð, leiksvið eða annan sambærilegan stað skal hann vera vinstra megin séð frá áhorfanda. Séu fánarnir tveir skulu þeir vera sinn til hvorrar handar.
    Sé fáni hengdur á vegg skal hann liggja slétt við vegginn og minni reiturinn vera ofan til eða lengst til vinstri frá sjónarhorni áhorfanda.
    Eigi má nota fánann til að sveipa með honum styttu eða annan hlut og enginn má nota hann sem klæði á sjálfan sig eða hlífðarfat, borðdúk eða gólfábreiðu.
    Þegar um burðarfána er að ræða, þ.e. þjóðfána á burðarstöng, má naglfesta jaðar hans á stöngina.
    Brjóta skal fánann saman í þrennt að endilöngu og síðan leggja hann saman í þríhyrnu eða vefja hann upp þannig að eingöngu blái liturinn snúi út. Fáninn skal ávallt geymdur á öruggum stað. Fáni, sem hefir blotnað, skal eigi brotinn saman til geymslu fyrr en hann hefur þornað.

Sérheimild til notkunar fánans.
19. gr.

    Heimilt er að nota fánann í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða í auglýsingu á vöru eða þjónustu með leyfi forsætisráðuneytis enda sé fánanum ekki óvirðing gerð.
    Með umsókn um slíka heimild skal fylgja yfirlýsing umsækjanda um að rekstur, framleiðsla eða þjónusta sem í hlut á fylgi tilteknum íslenskum stöðlum um gæðastjórnun og stjórnun umhverfisáhrifa.
    Ef ráðuneytið metur umsóknina fullnægjandi heimilar það íslenskum lögaðila, fyrirtæki eða einstaklingi þá notkun fánans sem sótt er um.

20. gr.

    Ef skrásett hefur verið af misgáningi vörumerki þar sem þjóðfáninn er notaður án heimildar skal afmá það úr vörumerkjaskrá samkvæmt kröfu forsætisráðuneytisins. Ef maður setur án heimildar þjóðfánann á söluvarning, umbúðir hans eða í auglýsingu á þjónustu skal fenginn dómsúrskurður um að honum sé óheimilt að nota fánamerkið eða hafa vörur til sölu sem auðkenndar eru með því. Auk þess má skylda hann til þess, ef nauðsyn krefur, að ónýta vörurnar eða umbúðir þeirra svo framarlega sem þær eru þá í vörslum hans eða hann á annan hátt hefur umráð yfir þeim.

Fánar á skipum og bátum.
21. gr.

    Almennar reglur um notkun og meðferð fánans gilda jafnt á sjó sem á landi eftir því sem við á og við verður komið.

22. gr.

    Öll skip skulu vera búin fánanum. Hann skal vera hæfilega stór með tilliti til stærðar skipsins og skal hann líta óaðfinnanlega út.

23. gr.

    Á skipum skal fánastöng komið fyrir í skut eða á ráarenda aftur af því siglutré sem aftast er. Sé um smáskip eða báta að ræða má draga fánann að hún á siglutré eða aftasta siglutré ef fleiri eru en eitt.

24. gr.

    Skip má hafa fánann uppi utan reglulegs fánatíma ef nauðsyn krefur.

25. gr.

    Skip á að jafnaði að hafa fánann uppi á fánatíma.

26. gr.

    Þegar skip sigla þétt hvort fram hjá öðru í höfn eða á hafi úti og heilsa í kurteisis- og viðurkenningarskyni skal það gert þannig:
    Skip það, sem frumkvæði á, dregur sinn fána niður með hægum og jöfnum hraða þannig að neðri jaðar fánans nemi við borðstokk eða, ef um rá er að ræða, við þrjár til fjórar fánabreiddir undir ráarenda. Í þessari stöðu er svo beðið með fánann þar til skipið, sem heilsað er, hefur svarað kveðjunni til fullnustu.
    Það skip svarar kveðjunni með því að draga sinn fána niður með hægum og jöfnum hraða þannig að neðri jaðar fánans nemi við borðstokk eða, ef um rá er að ræða, við þrjár til fjórar fánabreiddir undir ráarenda og án tafar aftur upp.
    Skipið sem frumkvæði átti lýkur nú kveðjunni með því að draga sinn fána að hún með hægum og jöfnum hraða.

II.
Ríkisfáninn (tjúgufáninn).
27. gr.

    Reglur um notkun og meðferð hins almenna þjóðfána gilda um ríkisfánann eftir því sem við á.

28. gr.

    Ríkisfánann nota Alþingi, ríkisstjórn, Hæstiréttur, dómstólar, ráðuneyti, stjórnsýslu stofnanir ríkisins og fulltrúar utanríkisráðuneytisins erlendis, sendiráð og ræðisskrifstofur.
    Forsætisráðuneytið getur heimilað stofnun ríkisins, þó að ekki fari með stjórnsýslu, að flagga með ríkisfánanum ef slík notkun styðst við venju.

29. gr.

    Ríkisfánann má aðeins nota á húsum og við hús sem notuð eru að öllu eða mestu leyti í þágu ríkis eða ríkisstofnana, nema um sé að ræða heimili eða embættisskrifstofu fulltrúa utanríkis ráðuneytisins erlendis.
    Þótt hús sé eign ríkisins eða ríkisstofnana má ekki nota ríkisfánann á því ef leigt er að mestu leyti eða öllu einstaklingum, einkafyrirtækjum eða einkastofnunum. Hins vegar má nota ríkisfánann á húsi sem er í einkaeign ef ríkið eða ríkisstofnanir hafa húsið á leigu að öllu eða mestu leyti til sinna þarfa.

30. gr.

    Draga skal ríkisfánann á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, á fánadögum skv. 5. gr.

31. gr.

    Póst- og símafáni er eingöngu notaður á byggingum og farartækjum í þágu Póst- og símamálastofnunarinnar.

32. gr.

    Tollgæslufáni er eingöngu notaður á byggingum og farartækjum í þágu tollgæslunnar.

33. gr.

    Á skipi má aðeins nota ríkisfánann ef það er í eigu ríkisins eða ríkisstofnunar og notað í þágu stjórnsýslu ríkisins.
    Ef ríkið tekur skip á leigu vegna stjórnsýslu, svo sem strandgæslu eða annarrar löggæslu, má nota ríkisfánann.

III.
Ýmis ákvæði.
Smáfánar og fánaveifur.
34. gr.

    Um borðfána, skrautfána, bílfána og aðra smáfána fer, að því er varðar liti og stærðar hlutföll reita og krossa, samkvæmt almennum reglum um þjóðfánann, ákvæðum fánalaga og auglýsingu um fánaliti.

35. gr.

    Eigi hafa aðrir íslenska ríkisfánann á bifreiðum en forseti Alþingis, forsætisráðherra og forseti Hæstaréttar sem geta notað hann þegar þeir ferðast í bifreið í embættiserindum.
    Fulltrúar utanríkisráðuneytisins erlendis, sendiherrar og ræðismenn mega nota ríkisfánann á bifreiðar sínar.

36. gr.

    Hinar almennu reglur um þjóðfánann gilda ekki um fánaveifur, fánaoddveifur og fánaborða að öðru leyti en því að ætíð skal nota rétta fánaliti. Breidd hvítu randanna skal vera helmingur af breidd hinnar rauðu.
    Rísi ágreiningur um gerð eða notkun á fánaveifum, fánaborðum eða öðrum fánamerkjum skal leita leiðbeiningar forsætisráðuneytisins.

Mynd og merki með fánanum.
37. gr.

    Hönnun mynda og merkja af fánanum skal fylgja í einu og öllu litum og hlutföllum krossa og reita svo sem mælt er fyrir um gerð fánans.

Hlutverk forsætisráðuneytisins.
38. gr.

    Forsætisráðuneytið fer með mál sem varða þjóðfánann.
    Ráðuneytið sér um að almenningur hafi jafnan greiðan aðgang að reglum og fyrirmælum um rétta gerð fánans, notkun hans og meðferð.
    Rísi ágreiningur um rétta notkun þjóðfánans sker forsætisráðuneytið úr.
    Forsætisráðuneytið setur frekari reglur um notkun og meðferð fánans svo sem þörf kann að krefja.

Verkefni löggæslunnar.
39. gr.

    Lögregluyfirvöld skulu hafa eftirlit með að lögum og reglum um notkun og meðferð fánans sé fylgt. Ágreiningi um réttan skilning á fyrirmælum ber að vísa til úrskurðar forsætisráðu neytisins ella verði komið fram ábyrgð á hendur þeim sem hlut eiga að máli.

Viðurlög.
40. gr.

    Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum og málsmeðferð eftir því sem við á skv. 14. gr. laga um þjóðfána Íslendinga, sbr. 10. gr. og 5.–7. mgr. 12. gr.

41. gr.

    Með reglugerð þessari fellur úr gildi forsetaúrskurður um fánadaga og fánatíma, nr. 5 23. janúar 1991.

42. gr.

    Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Skýringar við einstakar greinar.
Um 1. gr.

    Greinin kveður í raun og veru ekki á um annað en það sem liggur í hlutarins eðli. Í henni felst hvatning til almennings um að notkun fánans verði gerð að sem víðtækastri venju jafnframt því að honum sé sýnd tilhlýðileg virðing.

Um 2. gr.

    Hér er mælt fyrir um fánastengur og hvernig þeim skuli komið fyrir.

Um 3. gr.

    Þessi grein kveður á um samræmi milli lengdar fánastanga og stærðar fána, bæði þegar fánastöng er reist á jörðu og þegar hún er á húsi, hvort heldur er uppi á þaki eða skáhallt út frá húsi.

Um 4. gr.

    Hér er um að ræða leiðbeiningar um hvernig með skuli fara þegar fáni er dreginn á stöng eða niður. Tilgangurinn er sá að við þá athöfn sé fánanum sýnd virðing.

Um 5. gr.

    Fánadagar eru óbreyttir frá 1. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma 23. janúar 1991. Mælst er til þess að almenningur dragi fána á stöng þessa daga en fyrirmæli til opinberra aðila um slíkt eru í 30. gr.

Um 6. gr.

    Þessi grein um aðra fánadaga er óbreytt frá 2. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma.

Um 7. gr.

    Grein þessi um fánatíma er óbreytt frá 3. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma.

Um 8.–9. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Í grein þessari eru skýr ákvæði um hvernig með skuli farið þegar fáni er hylltur. Þykir mikils um vert að ekkert fari úrskeiðis þegar slíkur virðingarvottur er sýndur.

Um 11. gr.

    Hér er kveðið á um stöðu þjóðfánans gagnvart sérfánum. Ekki er heimilt að hafa þjóðfánann á stöng meðal slíkra fána eða einkennismerkja. Ef þjóðfánanum er flaggað á staðnum skal hann standa sér og aðskilinn frá þessum fánum nema sérfánunum sé hvirfilraðað með þjóðfánann í miðju.

Um 12. gr.

    Hér er um að ræða undanþágu frá aðalreglunni í 11. gr. Á samkomum eða mannamótum má hafa þjóðfánann meðal sérfána ef þeir eru einkennismerki þeirra aðila sem hlut eiga að máli. Er mælt fyrir um hvar þjóðfánanum skal skipað þegar svo stendur á.

Um 13. gr.

    Að jafnaði eru erlendir þjóðfánar einungis notaðir hér á landi af opinberum fulltrúum erlendra ríkja. Samkvæmt hlutarins eðli er sú notkun heimil. Í þessari grein er heimilað og kveðið á um hvernig með skuli farið á milliríkjamótum eða öðrum fjölþjóðlegum samkomum þegar uppi eru hafðir þjóðfánar erlendra ríkja ásamt íslenska fánanum.

Um 14. gr.

    Hér er kveðið á um jafnræði þjóða að því er varðar fánastærð í fánaröð og sérstöðu íslenska fánans þegar þjóðfánar eru dregnir að hún og niður aftur.

Um 15. gr.

    Grein þessi heimilar að raða fánum með afbrigðilegum hætti þegar heiðra skal við sérstakt tækifæri ákveðna erlenda þjóð eða milliríkjastofnun, til dæmis Sameinuðu þjóðirnar eða Evrópuráðið. Hér er um að ræða frávik frá aðalreglu um röðun þjóðfána skv. 2. mgr. 13. gr.
Þá er hér svo mælt fyrir að ekki megi raða á milli þjóðfána öðrum fánum, hvorki opinberra aðila né einkaaðila. Mælt er fyrir um hvernig fyrir skuli komið slíkum fánum sem kunna að vera á vettvangi.

Um 16. gr.

    Í grein þessari er tekið fram að ekki megi hafa tvo eða fleiri þjóðfána á sömu stöng svo sem kann að vera gert um merki eða aðra fána.
    Þá er hér að finna leiðbeiningu um hvernig með skuli fara í tilteknu tilfelli þegar saman fara íslenski fáninn og erlendur þjóðfáni.

Um 17. gr.

    Þessi grein kveður á um grundvallarreglur til verndar fánanum.
    Í 1. mgr. er að finna hina almennu reglu að enginn megi óvirða fánann, hvorki í orði né verki, sbr. 12. gr. laganna.
    Í 2. mgr. er lagt bann við að hafa í fánanum önnur merki en þau sem heimiluð eru í hinum sérstöku ríkisfánum, þ.e. póst- og símafána og tollgæslufána, sbr. 4. gr. laganna.
    Með 3. mgr. er mælt fyrir um sýnishorn af réttum litum og hlutföllum fánans. Framkvæmd og umsjón þessa er fengin forsætisráðuneyti og lögreglustjórum landsins, sbr. 9. gr. laganna.
    Samkvæmt 4. mgr. er bannað að hafa á boðstólum til sölu eða leigu aðra fána en þá sem eru réttir að formi og litum, sbr. 9. gr. laganna. Sömuleiðis er óheimilt hvorutveggja að nota fána sem ekki er rétt til búinn svo og fána sem er úr sér genginn. Eftirlit með þessu er í höndum lögreglu og heimild til að gera fána upptækan ef út af settum reglum er brugðið, sbr. 10. gr. laganna.
    Í 5. mgr. er að finna óbreytta 2. mgr. 12. gr. laganna. Kveðið er á um að óheimilt sé að nota fánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða sams konar skilríkjum. Eðlilegt er að heimfæra undir sams konar skilríki t.d. nafnspjöld og bréfsefni. Hins vegar gegnir öðru máli um notkun fánans sem ekki er í hagsmunaskyni eða af stærilæti en líta má heldur á sem virðingarvott í einhverju formi við það þjóðartákn sem fáninn er. Þannig verður þetta bann ekki heimfært upp á fánann í barmmerkjum sem menn bera eða á límmiðum á bifreiðum svo að eitthvað sjálfsagt sé nefnt. Bannið getur ekki heldur átt við notkun fánans til auðkennis á íslenskum mönnum og munum á alþjóðamótum, fundum, íþróttaviðburðum og vöru- og listsýningum né í prentuðum heimildum til að aðskilja það sem íslenskt er frá hinu erlenda.
    Í 6. mgr. er tekin upp óbreytt 3. mgr. 12. gr. laganna um að óheimilt sé einstökum stjórnmálaflokkum að nota þjóðfánann í áróðursskyni við kosningaundirbúning eða kosn ingar. Þetta bann varðar einnig bandalag tveggja eða fleiri stjórnmálaflokka. Sama gildir og um félög og einstaklinga í kosningabaráttu, svo sem við kjör forseta Íslands, sbr. 5. mgr. um bann við að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga og félaga.
    Samkvæmt 7. mgr. má ekki nota fánann í firmamerki. Hér er óbreytt það sem verið hefur þó að breyting verði í þessu efni með vörumerki enda ólíku saman að jafna.
    Í 8. mgr. er lagt bann við að selja erlenda vöru merkta fánanum. Er þetta nýtt ákvæði sem ætlað er samkvæmt frumvarpi því sem fram er lagt að komi í 7. mgr. 12. gr. laganna.

Um 18. gr.

    Í þessari grein kennir ýmissa grasa um notkun og meðferð fánans. Þar er að finna reglur sem eiga það sammerkt að stuðla að því að fánanum sé ekki gerð óvirðing.

Um 19. gr.

    Grein þessi fjallar um mikilvægustu breytinguna sem lögð er til í frumvarpi því sem lagt er fram og er breyting á 4. mgr. 12. gr. laganna.
    Í 1. mgr. er heimilað að nota fánann í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða í auglýsingu á vöru eða þjónustu með skilyrðum. Enginn má nota sér þessa heimild nema með leyfi forsætisráðuneytisins. Sú krafa er gerð að fánanum sé ekki óvirðing gerð. Er þá ekki einungis átt við að sómi sé að vöru og þjónustu sem í hlut á heldur og að notkun fánans sé smekkleg svo sem að því er varðar staðsetningu og stærð hans á umbúðum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hvernig varið skuli umsókn til forsætisráðuneytisins um heimild skv. 1. mgr. Með umsókn skal vera yfirlýsing umsækjanda um að rekstur, framleiðsla eða þjónusta sem um ræðir fylgi tilteknum íslenskum stöðlum um gæðastjórnun og stjórnun umhverfisáhrifa.
    Þeir sem leita eftir heimild til þessarar notkunar fánans eiga hér greiða leið. Staðlar eru til frjálsra afnota. Hægt er að snúa sér til Staðlaráðs Íslands þar sem er að fá allar upplýsingar um staðla og lýsingar á hinum einstöku stöðlum sem velja má úr eftir því sem við á um þá starfsemi sem í hlut á. Hér er ekki átt við gæðastaðla eða staðla um gæði tiltekinnar vöru eða þjónustu heldur gæðastjórnunarstaðla — gæðakerfi eða umhverfisstjórn. Gæðastjórnunar staðall segir fyrir um þær stjórnunaraðferðir sem ráða vinnubrögðum og verklagi sem á að tryggja gæðin og staðall um stjórnun umhverfisáhrifa miðar að vistvænni framleiðslu.
    Þegar umsækjandi leggur fram yfirlýsingu um að hann fylgi tilteknum gæðastjórnunarstaðli rekur forsætisráðuneyti ekki nauður til að gera sérstaka könnun á gæðum þeirrar vöru eða þjónustu sem í hlut á. Gæðastjórnunarstaðall á að vera trygging fyrir gæðum. Ráðuneytið á að geta tekið umsækjanda á orðinu. Enginn ábyrgur maður gerir sér leik að því að fá heimild til að nota fánann á röngum forsendum. Of mikið er í húfi. Slíkt fæli í sér refsingu og afturköllun leyfisins og væri það ekki góð markaðssetning. Annað mál er ef ráðuneytið sér einhverja meinbugi eða annmarka á umsókn um notkun fánans, þá er málið athugað eftir því sem efni standa til.
    Heimildin til að nota fánann þarf ekki að vera bundin við tiltekinn staðal ef fylgt er jafngildum reglum. Hér er átt við rekstur sem lýtur ströngu gæðamati, svo sem er um fisk- og landbúnaðarafurðir, eða fylgir sambærilegu stjórnkerfi sem er þá gerð grein fyrir. Slíkir aðilar þyrftu ekki að tiltaka ákveðna staðla sem þeir fylgdu. Svo er og um þá sem hafa fengið sérstaka gæðaviðurkenningu, hvort sem er frá Vottun hf. eða öðru viðurkenndu vott unarfyrirtæki.
    Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki skýringar.

Um 20. gr.

    Ákvæði þessarar greinar eru óbreytt frá 5. og 6. mgr. 12. gr. laganna með þeirri breytingu sem lögð er til samkvæmt frumvarpi því sem fram er lagt og leiðir óhjákvæmilega til þess að tekið er tillit til að hægt geti verið að fá heimild fyrir þeirri notkun fánans sem hér eru annars viðurlög við.

Um 21. gr.

    Grein þessi kveður á um það eitt sem liggur í hlutarins eðli. Skal fánanum virðing sýnd og hann má í engu óvirða jafnt á sjó sem á landi.

Um 22. gr.

    Hér er kveðið á um að skip skuli vera búin fánanum og er það ákvæði að finna í reglum um búnað skipa, nr. 189/1994.

Um 23. gr.

    Greinin mælir fyrir um hvar fánastöng skuli komið fyrir og fáni dreginn að hún á skipum og bátum. Er hér farið eftir viðtekinni venju.

Um 24. gr.

    Hér er heimild til undanþágu frá hinum almennu reglum um fánatíma skv. 7. gr. Það getur alltaf borið við á sjó að nauðsyn krefji að fáni sé dreginn að hún á hvaða tíma sólarhringsins sem er, t.d. þegar skip siglir að nóttu til inn í landhelgi erlends ríkis.

Um 25. gr.

    Mælst er hér til að skip hafi fánann uppi á reglulegum fánatíma. Er þetta mikils um vert fyrir allt eftirlit með skipum, svo sem vegna stjórnunar fiskveiða og almennrar löggæslu strandríkis. Á kaupskipum er venja að hafa fánann uppi á fánatíma og fer vel á að svo verði einnig um fiskiskip.

Um 26. gr.

    Hér er að finna viðteknar alþjóðavenjur um kveðjur skipa í kurteisis- og viðurkenningar skyni. Mikils er um vert að ekkert fari úrskeiðis og er því reglum þessum hér nákvæmlega lýst.

Um 27. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 28. gr.

    Í 1. mgr. eru taldir upp þeir aðilar sem nota mega ríkisfánann. Með stjórnsýslustofnun er átt við stofnun sem fer með stjórnsýsluvald. Öðrum stofnunum ríkisins er óheimilt að nota þennan fána. Þannig er skólum, lista- og menningarstofnunum, framkvæmdar- og rekstrar aðilum og viðskiptabönkum eða atvinnufyrirtækjum ríkisins óheimilt að nota ríkisfánann.
    Í 2. mgr. er fjallað um þær stofnanir ríkisins aðrar en stjórnsýslustofnanir sem venja hefur skapast um að noti ríkisfánann. Forsætisráðuneytið getur heimilað þeim stofnunum að nota áfram ríkisfánann. Hér er átt við stofnanir svo sem Háskóla Íslands, Þjóðleikhúsið og Þjóðminjasafnið, svo að eitthvað sé nefnt. Ekki er þó gert ráð fyrir að slíkar stofnanir þurfi að sækja um leyfi fyrir ríkisfánanum heldur sé það framvegis heimilt sem hingað til hefur viðgengist ef forsætisráðuneytið lætur kyrrt liggja. Hins vegar má ráðuneytið ekki heimila neinum notkun ríkisfánans sem ekki fæst við stjórnsýslu ríkisins og ekki hefur haft að venju að nota ríkisfánann.

Um 29. gr.

    Samkvæmt grein þessari er óheimilt að nota ríkisfánann á eða við önnur hús en þau sem eru notuð í þágu ríkisins hvort sem húsið er í eign ríkisins eða einkaeign.
    Sérákvæði er um heimili eða embættisskrifstofu fulltrúa utanríkisráðuneytisins erlendis.

Um 30. gr.

    Hér er lögð sú skylda á herðar þeim sem leyfist að nota ríkisfánann að draga fánann á stöng á hinum ákveðnu fánadögum.

Um 31. gr.

    Grein þessi einskorðar notkun póst- og símafána við hús og farartæki sem notuð er í þágu stofnunarinnar.

Um 32. gr.

    Umsögn um 31. gr. á hér við að breyttu breytanda.

Um 33. gr.

    Samkvæmt þessari grein er notkun ríkisfánans á sjó bundin við skip sem notuð eru í þágu stjórnsýslu ríkisins. Aðeins má nota fánann á skip Landhelgisgæslunnar og þau önnur skip er varða stjórnsýslu að einhverju leyti og gildir þá einu hvort skipin eru í eigu ríkis eða í einkaeign.

Um 34.–36. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 37. gr.

    Hér er að finna ákvæði til varnar gegn því að fáninn sé afskræmdur í myndum og merkjum. Er þá sama hvort heldur mynd fánans er prentuð, greypt, þrykkt eða máluð á málm, tré eða annað efni. Sérstaklega mikilvægt er að þessi fyrirmæli séu virt þegar heimilað er að nota fánann til markaðssetningar, í auglýsingar, á umbúðir og söluvöru. Svo er raunar einnig þegar um er að ræða að fáninn sé á boðstólum sem minjagripur, barmmerki eða þess háttar, en slíkir gripir eru að sjálfsögðu alltaf heimilaðir ef þeir eru ekki áfestir eða hluti af öðrum söluvarningi.

Um 38. gr.

    1. mgr. er í samræmi við auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969, 2. gr.
    2. mgr. mælir fyrir um að forsætisráðuneytið veiti upplýsingar um gerð, notkun og meðferð fánans. Er þá gert ráð fyrir að lög, auglýsing um liti og reglugerð séu höfð aðgengileg fyrir allan almenning og gerðar aðrar þær ráðstafanir sem þörf er á, sbr. 9. gr. laganna.
    3. mgr. er um úrskurðarvald forsætisráðuneytisins, sbr. 8. gr. laganna.
    4. mgr. gerir ráð fyrir að reglugerðin sé til endurskoðunar hvenær sem tilefni er til eða gefnar út sérstakar leiðbeiningar um einstök atriði sem ástæða gæti þótt til.

Um 39. gr.

    Hér er kveðið á um verkefni löggæslunnar sem er þeim mun auðveldara en áður þar sem eftirlitið sem þarf að hafa er fyrst og fremst með því sem fram fer á almannafæri og á því að vera þjónum réttvísinnar jafnaugljóst sem öðrum. Sérstaklega ber lögreglunni að hafa auga með því sem einkum getur óvirt fánann og að verndarákvæði séu virt, svo sem að fáninn sé ekki notaður í heimildarleysi til markaðssetningar.

Um 40. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 41. gr.

    Hér er felldur úr gildi forsetaúrskurður um fánadaga og fánatíma 23. janúar 1991. Efni hans er hins vegar tekið upp í reglugerð þessa nema ákvæðið um að leita skuli leiðbeininga Landhelgisgæslunnar og Siglingamálastofnunar um fána á bátum og skipum. Ákvæði þetta hefur ekkert sjálfstætt gildi þar sem þessar stofnanir hafa jafnan veitt sjófarendum þær upplýsingar og leiðbeiningar um fánann sem beðið er um. Hins vegar var haft samráð við þessa aðila um þann kafla í reglugerðinni sem fjallar um fána á skipum og bátum.

Um 42. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á


lögum nr. 34 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga. Helsta breytingin er þess efnis að notkun fánans er endurskilgreind og leyft verður að nota hann til markaðssetningar undir vissum skilgreindum kringumstæðum. Þá er í tilllögu að reglugerð lagt til að litir fánans verði skilgreindir eftir öðru litakerfi en til þessa hefur tíðkast.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarps þessa hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.