Ferill 544. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 929 – 544. mál.



Frumvarp til laga



um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að tryggja neytendum að íslenskar sjávarafurðir séu heilnæmar, standist settar kröfur um gæði, séu unnar við fullnægjandi hreinlætisaðstæður og að merk ingar og upplýsingar um þær séu fullnægjandi.

2. gr.

    Samkvæmt lögum þessum telst:
     Sjávarafli: Öll sjávardýr önnur en spendýr, þar með talin skrápdýr, liðdýr og lindýr.
     Fiskafurðir: Matvæli sem unnin eru að öllu leyti eða að hluta úr sjávarafla.
     Sjávarafurðir: Sjávarafli og fiskafurðir eins og skilgreint er hér að framan, svo og fóðurvörur unnar úr fiski eða fiskúrgangi.
    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     Dreifing: Hvers konar flutningur, framboð og afhending, þar með talinn innflutningur, útflutningur, sala og geymsla.
     Eldisfiskur: Öll lagardýr sem klakist hafa út eða verið alin við stýrðar aðstæður eða afurðir unnar úr þeim. Sjávar- eða ferskvatnsfiskar, skrápdýr, liðdýr, lindýr og aðrir hryggleysingjar, sem teknir eru úr náttúrulegu umhverfi sínu og aldir þangað til þeir hafa náð æskilegri sölustærð til manneldis, teljast einnig til eldisfiska. Fiskar, skrápdýr, liðdýr, lindýr og aðrir hryggleysingjar sem náð hafa sölustærð, teknir hafa verið úr náttúrulegu umhverfi sínu og haldið lifandi til sölu síðar, teljast ekki til eldisfiska ef þeim er aðeins haldið lifandi án þess að reynt sé að auka við stærð þeirra eða þyngd.
     Eldisafurðir: Heill eldisfiskur eins og honum er dreift til neyslu eða afurðir unnar úr honum.
     Fiskmarkaður: Uppboðs- eða heildsölumarkaður fyrir sjávarafla.
     Flutningatæki: Þeir hlutar vélknúinna ökutækja, járnbrautarvagna eða loftfara sem ætlaðir eru fyrir vörur, svo sem lestir skipa og gámar til vöruflutninga á landi, sjó eða í lofti.
     Hollustuhættir: Allar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja öryggi og hollustu sjávarafurða.
     Hreinn sjór: Sjór eða sjóblandað vatn sem ekki er mengað örverugróðri, hættulegum efnum og/eða eitruðu sjávarsvifi að því marki að það geti spillt heilnæmi fiskafurða og sem notaður er við þau skilyrði sem kveðið er á um í lögum þessum.
     Neysluvatn: Vatn sem fullnægir kröfum íslenskra yfirvalda um gæði drykkjarvatns.
     Pökkun: Sú aðgerð að vernda fiskafurðir með umbúðum, ílátum eða öðrum viðeigandi umbúnaði.
     Vinnsluskip: Skip þar sem sjávarafli er unninn um borð, honum pakkað og hann hefur verið flakaður, flattur, sneiddur, roðdreginn, hakkaður, frystur eða verkaður á annan hátt. Fiskiskip þar sem aðeins fer fram frysting fisks um borð eða suða á rækjum og skelfiski teljast ekki vinnsluskip í merkingu laga þessara.
     Vinnslustöð: Hver sú aðstaða þar sem sjávarafurðir eru tilreiddar, verkaðar, unnar, kældar, frystar, pakkaðar eða geymdar. Fiskmarkaðir sem aðeins selja sjávarafla í heildsölu teljast ekki vinnslustöð.

3. gr.

    Lög þessi taka til meðferðar, vinnslu og dreifingar sjávarafurða og jafnframt til eftirlits með vinnslu, dreifingu og pökkun hafbeitar, vatna- og eldisfisks.
    Lögin taka ekki til smásöluverslunar innan lands.

4. gr.

    Fiskistofa annast framkvæmd laga þessara og reglna settra með stoð í þeim.


II. KAFLI
Opinberar kröfur.
5. gr.

    Sjávarafurðir, sem ætlaðar eru til manneldis, skulu vera heilnæmar og ómengaðar.
    Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða skal vera í samræmi við góða framleiðslu- og hollustuhætti.
    Starfsfólk skal gæta fyllsta hreinlætis og skulu öll svæði, búnaður, ílát, áhöld, geymslur og flutningatæki eða annað er kemst í snertingu við sjávarafurðir þrifið og ef við á gerileytt svo þær mengist ekki.
    Meðferð og dreifingu sjávarafurða skal hagað í samræmi við eðli þeirra og eiginleika.
    Halda ber sjávarafurðum við hitastig í samræmi við eðli þeirra, geymslu- og verkunar aðferðir.
    Ráðherra setur frekari reglur um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða sem skulu tryggja heilnæmi og gæði þeirra.

6. gr.

    Hönnun og búnaður skipa, vinnslustöðva, fiskmarkaða, íláta, áhalda, geymslna og flutn ingatækja og annars er kemst í snertingu við sjávarafurðir skal vera með þeim hætti að þrif og gerileyðing, þar sem við á, séu auðveld og unnt að gæta fyllsta hreinlætis svo sjávarafurðir mengist ekki eða gæði þeirra spillist.
    Ráðherra skal setja nánari reglur um hönnun og búnað samkvæmt 1. mgr., þar með talið um kæli- eða frystibúnað, fiskmóttöku, vinnslusvæði, hreinlætisaðstöðu og aðbúnað fyrir starfsfólk og eftirlitsaðila.

7. gr.

    Í sjávarafurðir til neyslu innan lands og á Evrópska efnahagsvæðinu má einungis nota þau aukefni og í því magni sem íslensk yfirvöld leyfa. Í sjávarafurðir, sem ætlaðar eru til útflutnings til annarra landa, má einungis nota þau aukefni og í því magni sem leyft er í viðkomandi markaðslandi.
    Ílát, umbúðir og aðrir fletir, sem sjávarafurðir koma í snertingu við, skulu vera úr efnum sem samþykkt eru af íslenskum yfirvöldum.
    Óheimilt er að nota til þrifa og gerileyðingar önnur efni en þau sem íslensk yfirvöld heim ila.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um notkun hvers kyns efna sem komist gætu í snertingu við sjávarafurðir

8. gr.

    Nota skal neysluvatn eða hreinan sjó til þvotta, þrifa, ísframleiðslu og við vinnslu sjávar afurða eftir því sem ráðherra ákveður með reglugerð.

9. gr.

    Óheimilt er að nýta sjávarafurðir sem mengaðar eru hættulegum efnum til fóðurfram leiðslu.
    Sjávarútvegsráðuneytið getur bannað meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafla af hafsvæð um sem talin eru menguð.
    Ráðherra setur reglur um efni þessarar greinar, þar á meðal um leyfilegt hámark gerla, niðurbrotsefna og mengandi efna í sjávarafurðum.

10. gr.

    Sjávarafurðum skal pakkað við fullnægjandi hreinlæti til að komið verði í veg fyrir mengun afurðanna. Umbúðir og annað sem líklegt er að komist í snertingu við fiskafurðirnar skal fullnægja öllum reglum um hollustuhætti og gæði. Ráðherra setur frekari reglur um pökkun sjávarafurða.

11. gr.

    Sjávarafurðir skulu vera rétt og greinilega merktar þannig að þær upplýsingar, sem fram koma, séu ekki villandi. Á umbúðum skal koma fram nafn Íslands, óstytt eða skammstafað IS, og leyfisnúmer viðkomandi starfs- eða vinnsluleyfishafa þannig að unnt sé að rekja uppruna afurðanna til framleiðandans. Sé afurðin send ópökkuð, búlkuð, skulu sömu upplýsingar koma fram í fylgiskjölum. Merkingar skulu að öðru leyti vera í samræmi við kröfur sem gerðar eru í viðkomandi markaðslandi.

12. gr.

    Ákvæði laga þessara um vinnslu, dreifingu, pökkun og merkingar taka einnig til eldis afurða. Ráðherra getur sett frekari reglur þar um.

13. gr.

    Óheimilt er að vinna, pakka eða dreifa sjávarafurðum og eldisafurðum sem ekki uppfylla settar kröfur um meðferð, flutning, geymslu, gæði, heilnæmi, aukefni, pökkun og merkingar samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum með stoð í þeim. Þetta gildir einnig um afurðir sem líklegt er að uppfylli ekki settar kröfur þegar þær koma á áfangastað.

III. KAFLI
Leyfisveitingar og eftirlit.
14. gr.

    Allar vinnslustöðvar, þar með talin vinnsluskip sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, sbr. lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, skulu hafa tölusett vinnsluleyfi til staðfestingar því að fullnægt sé settum skilyrðum. Sama gildir um fiskimjölsverksmiðjur, framleiðendur dýra fóðurs úr sjávarafurðum og stöðvar þar sem vinnsla eða pökkun hafbeitar- og eldisfisks fer fram.
    Fiskiskip sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, sbr. lög nr. 38/1990, önnur en vinnsluskip, svo og fiskmarkaðir sem aðeins selja sjávarafla í heildsölu, skulu hafa starfsleyfi.
    Fiskistofa veitir vinnsluleyfi og starfsleyfi samkvæmt þessari grein að uppfylltum kröfum um hreinlæti, hönnun og búnað, sbr. 15. gr. ef við á, og samning við faggilta skoðunarstofu, sbr. 16. gr. Vinnsluleyfi skal binda vinnslu tilgreindra afurða.
    Óheimilt er að veiða, vinna eða geyma sjávarafurðir án vinnslu- eða starfsleyfis.
    Fiskistofa heldur skrá yfir vinnslu- og starfsleyfishafa sem skal senda til sjávarútvegsráðu neytis, Eftirlitsstofnunar EFTA og annarra erlendra eftirlitsaðila sem þess óska.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um veitingu leyfa og skráningu þeirra.

15. gr.

    Forsvarsmenn vinnslustöðva bera ábyrgð á því að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með vinnslunni og starfseminni til þess að tryggja að hvort tveggja sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Innra eftirlit fyrirtækisins skal miðast við eðli og umfang vinnslunnar og starfseminnar og byggt á eftirfarandi meginatriðum:
     1.      Að skráð séu með tilliti til eðlis starfseminnar þau atriði sem farið geta úrskeiðis eða valdið skaða á afurðum, svo sem við veiðar, vinnslu, flutning eða geymslu.
     2.      Að á staðnum sé starfsmaður með sérþekkingu á viðkomandi vinnslu og fyrir hendi séu skráðar vinnureglur, lýsing á skiptingu ábyrgðar í viðkomandi fyrirtæki og til hvaða að gerða grípa skuli sé aðstæðum ábótavant eða ef sjávarafurðir uppfylla ekki settar kröfur.
     3.      Að tekin séu reglulega sýni í framleiðslunni til greiningar á viðurkenndri rannsóknastofu til að sannprófa að aðferðir við þrif og gerileyðingu séu fullnægjandi.
     4.      Að haldin sé aðgengileg skrá um afla, vinnslu og birgðir.
     5.      Að teknar séu upp skráðar vinnureglur til að fylgjast með og hafa stjórn á þeim atriðum sem getið er í 1.– 4. tölul.
    Niðurstöður eftirlits, rannsókna og prófana skal varðveita a.m.k. einu ári lengur en geymsluþol vörunnar segir til um, þó aldrei skemur en í tvö ár.


16. gr.

    Öllum starfs- og vinnsluleyfishöfum, sbr. 14. gr., er skylt að hafa samning við faggilta skoðunarstofu. Ráðherra er þó heimilt að veita undanþágur frá þessu skilyrði mæli sérstakar ástæður með því.
    Fiskistofa veitir skoðunarstofum starfsleyfi hafi þær sótt um eða hlotið faggildingu frá faggildingarsviði Löggildingarstofu eða öðrum viðurkenndum faggildingaraðila á Evrópska efnahagssvæðinu og að uppfylltum skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.
    Skoðunarstofur skulu vera óháðar öllum hlutaðeigandi aðilum. Skoðunarstofa og starfsfólk hennar má ekki taka þátt í störfum sem geta haft áhrif á sjálfstæði dómgreindar eða ráðvendni þeirra varðandi skoðunarstarfsemina. Allir hagsmunaaðilar skulu geta sótt þjónustu til skoðunarstofa. Ekki skulu vera óréttlát skilyrði fjárhagslega eða af öðrum toga. Starfsemi stofunnar skal hagað með þeim hætti að viðskipavinum sé ekki mismunað.
    Skoðunarstofur skulu fylgjast reglulega með húsnæði, ástandi skipa, hreinlæti, búnaði og innra eftirliti vinnsluleyfishafa.
    Skoðunarstofur rækja eftirlit sitt á vegum Fiskistofu sem fylgist með starfi þeirra og sann reynir að þær ræki skyldur sínar á fullnægjandi hátt enda skulu þær veita Fiskistofu upp lýsingar um starfsemi og ástand fyrirtækja á þann hátt sem Fiskistofa ákveður.
    Verði misbrestur á að skoðunarstofur ræki skyldur sínar, vanræki þær upplýsingaskyldu sína eða gefi rangar upplýsingar, veitir Fiskistofa áminningu eða sviptir þær starfsleyfi ef sakir eru miklar.
    Ráðherra setur nánari reglur um innra eftirlit og starfsemi skoðunarstofa. Ráðherra getur meðal annars sett reglur um framkvæmd skoðana til að tryggja samræmi þeirra.

17. gr

    Forsvarsmönnum starfs- og vinnsluleyfishafa, sbr. 14. gr., er skylt að veita Fiskistofu og samningsbundinni skoðunarstofu allar þær upplýsingar og þá aðstoð sem nauðsynleg er við framkvæmd eftirlits og skoðunar, þar með talinn aðgang að hverjum þeim stað þar sem sjávarafurðir eru unnar eða geymdar. Fiskistofa og skoðunarstofur fara með upplýsingar þær sem leynt eiga að fara sem trúnaðarmál.
    Starfsmönnum Eftirlitsstofnunar EFTA er heimilt í samráði við Fiskistofu að gera vett vangskannanir hjá þeim aðilum sem falla undir ákvæði þessara laga og reglugerða settra með stoð í þeim til þess að ganga úr skugga um að ákvæði þeirra séu virt. Fiskistofa getur heimilað erlendum eftirlitsaðilum sambærilegar vettvangskannanir. Íslensk yfirvöld skulu veita þessum eftirlitsmönnum alla nauðsynlega aðstoð við að gegna skyldum sínum.
    Skylt er að láta skoðunarstofu og Fiskistofu í té án endurgjalds sýni af sjávarafurðum til rannsókna.

18. gr.

    Fiskistofa gefur út opinber útflutningsvottorð fyrir sjávarafurðir sé þess krafist.

19. gr.

    Fiskistofu er heimilt að láta stöðva vinnslu og dreifingu sjávarafurða, eldisafurða og afurða vatna- og hafbeitarfisks sem brjóta í bága við ákvæði II. kafla laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt honum. Enn fremur er heimilt að láta innkalla afurðir sem dreift hefur verið enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að þær brjóti í bága við ákvæði laga þessara og reglna settum samkvæmt þeim.
    Eigandi sjávarafurða ber allan kostnað af nauðsynlegum ráðstöfunum til að framfylgja ákvæðum þessarar greinar.

20. gr.

    Ákvarði Fiskistofa að sjávarafurðir séu óhæfar til manneldis eða fóðurs ber eiganda vinnslunnar eða útflytjanda að eyða vörunni innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar þar um.
    Fiskistofu er þó heimilt í sérstökum tilvikum að ákveða að hagnýta megi sjávarafurðirnar til annarrar framleiðslu.

IV. KAFLI
Innflutningur sjávarafurða.
Innflutningur frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
21. gr.

    Innflytjandi sjávarafurða, sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum innan Evrópska efnahags svæðisins, skal tilkynna Fiskistofu um komu sendinga með hæfilegum fyrirvara.
    Vinnsluleyfishafi, sbr. 14. gr., eða annar viðtakandi þessara sjávarafurða skal halda dag bók yfir mótteknar sendingar og ganga úr skugga um að samræmi sé milli þeirra og meðfylgj andi skjala. Varðveita skal vottorð og önnur skilríki þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu eftirlitsaðila.
    Fiskistofu er heimil skyndiskoðun á þessum sjávarafurðum og sýnataka til rannsókna.
    Fiskistofa skal tilkynna viðkomandi ef hún óskar eftir að skoða vöruna eða taka sýni af henni til rannsókna. Berist viðtakanda ekki slík tilkynning áður en losun hefst er honum heim ilt að ráðstafa sendingunni til vinnslu eða umpökkunar hjá viðurkenndum vinnsluleyfishafa. Afla fiskiskipa frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem landað er hér á landi, skal skoða á sama hátt og afla íslenskra skipa.
    Fiskistofa skal leggja áætlun um fjölda skyndiskoðana og nánari tilhögun þeirra fyrir Eftirlitsstofnun EFTA.

Innflutningur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
22. gr.

    Allur innflutningur lifandi fisks og fiskafurða, að meðtöldu fiskimjöli, frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skal fara um landamærastöðvar eða hafnir sem heimild hafa fyrir innflutningi, sbr. V. kafla þessara laga. Heimilt er að landa afla fiskiskipa utan landa mærastöðva og skal skoða hann á sama hátt og afla íslenskra skipa.
    Sjávarútvegsráðuneytið getur veitt undanþágu frá 1. mgr. ef sérstakar ástæður réttlæta slíkt eða ef fram kemur rökstudd beiðni þar að lútandi frá yfirvöldum í ríkjum innan EES.
    Innflutningur á sjávarafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins er aðeins heim ill frá þeim framleiðendum, verksmiðjuskipum og frystiskipum sem hlotið hafa viðurkenningu þess efnis að framleiðsla og eftirlit með sjávarafurðum uppfylli kröfur Evrópska efnahagssvæðisins.

23. gr.

    Sjávarútvegsráðuneytið heldur skrá yfir þá aðila sem hlotið hafa viðurkenningu, sbr. 3. mgr. 22. gr. Birta skal þessa skrá í Stjórnartíðindum.
    Einnig skal birta mánaðarlega þær breytingar sem verða á henni.

Öryggisákvæði.
24. gr.

    Í þeim tilfellum þegar sjúkdómur eða annað, sem kann að stofna heilbrigði almennings eða heilbrigði dýra í alvarlega hættu, kemur upp eða breiðist út á yfirráðasvæði annars ríkis eða ef einhver önnur alvarleg ástæða er varðar heilbrigði manna og dýra réttlætir slíkt getur ráðuneytið án fyrirvara stöðvað innflutning frá viðkomandi ríki eða sett sérstök skilyrði fyrir innflutningi.

V. KAFLI
Landamærastöðvar.
25. gr.

    Eftirlitsmenn Fiskistofu eða aðrir þar til bærir eftirlitsaðilar annast eftirlit með innflutningi sjávarafurða frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í því skyni skal setja á fót landamærastöðvar þar sem starfi eftirlitsmenn sem eru sérþjálfaðir til þessara starfa og séu ábyrgir fyrir nauðsynlegum skoðunum á sjávarafurðum sem um stöðvarnar fara.
    Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um slíkan innflutning þar sem getið er um magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sending berist.

26. gr.

    Á landamærastöðvum eða í þeim höfnum sem heimild hafa fengið fyrir innflutningi skal fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað og að sendingin sé frá vinnslustöð, vinnsluskipi eða frystiskipi sem er á skrá ráðuneytisins yfir viðurkennda aðila, sbr. 23. gr. þessara laga.
    Eftirlitsmaður skal kanna ástand afurðanna og taka sýni til rannsókna á rannsóknastofu. Skal hann í þeim efnum fylgja gildandi reglum um tíðni skoðana og um sýnatökur. Komi í ljós við skynmat eða rannsókn að þær séu óhæfar til manneldis skal eyða þeim. Heimilt er þó að endursenda afurðina að fengnu leyfi yfirvalda í framleiðslulandi eða að nýta hana í fiskimjöl enda sé hún laus við eiturefni.
    Innflytjandi er ábyrgur fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.
    Í tollvörugeymslu skal aðeins fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu.

27. gr.

    Innflytjandi eða annar viðtakandi sjávarafurða sem koma frá ríkjum utan Evrópska efna hagssvæðisins skal tilkynna Fiskistofu með hæfilegum fyrirvara hvert afurðirnar verða sendar og tilgreina magn, tegund og hvenær áætlað er að þær berist.

Um gjaldtöku fyrir landamæraeftirlit.
28. gr.

    Fiskistofa skal innheimta gjald til að bera uppi kostnað af eftirliti með sjávarafurðum frá viðurkenndum framleiðendum, verksmiðjuskipum og frystiskipum utan Evrópska efnahags svæðisins.
    Fyrir hvert tonn af fyrstu 100 tonnum af innfluttum sjávarafurðum úr sömu sendingu skal greiða 405 kr. Fyrir hvert tonn þar umfram skal lækka gjaldið í 202 kr. Þó skal gjald af heil frystum fiski sem aðeins hefur verið slægður lækka í 121 kr. fyrir hvert tonn. Fyrir hverja sendingu skal þó aldrei greiða minna en 2.460 kr.
    Heimilt er að breyta framangreindum gjöldum með tilliti til breytinga á meðalgengi Evrópumyntar (ECU). Grunngjaldið er miðað við gengi Evrópumyntar í mars 1997 eða 81 kr. Gjaldið greiðist af innflytjanda afurðanna og greiðist þar sem eftirlitið fer fram eða á landamærastöð.
    Ráðherra er heimilt að hækka gjöld skv. 2. mgr. ef í ljós kemur að kostnaður Fiskistofu af eftirliti með innfluttum sjávarafurðum er meiri en sem nemur þessum gjöldum. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur raunverulegum kostnaði við eftirlitið.
    Innflytjanda sjávarafurða eða öðrum aðila sem óskar eftir aðgangi að tollvörugeymslu ber að greiða fyrir eftirlit þar. Heimilt er að innheimta gjaldið áður en afurðir eru fluttar í toll vörugeymslu.

29. gr.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um fjölda landamærastöðva, staðsetningu þeirra, rekstur, búnað, útgáfu vottorða, tíðni skoðana, sýnatökur og rannsóknir. Með reglu gerð skal einnig kveðið á um hvaða sendingar séu undanþegnar skoðunum og um nánara fyrir komulag við gjaldtöku, þar á meðal um lækkunarheimildir og innheimtu.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
30. gr.

    Uppfylli vinnslu- eða starfsleyfishafi ekki ákvæði II. kafla, 15. gr. um innra eftirlit og 16. gr. er Fiskistofu heimilt að svipta þau vinnsluleyfi eða starfsleyfi og jafnframt að loka við komandi fyrirtæki með innsigli. Fái skip ekki vinnsluleyfi eða starfsleyfi, sbr. 14. gr., eða sé svipt því er Fiskistofu heimilt að svipta það veiðileyfi.
    Áður en til sviptingar kemur samkvæmt þessari málsgrein skal gefa viðkomandi kost á að skýra mál sitt og veita honum sanngjarnan frest til úrbóta.
    Veiti starfs- eða vinnsluleyfishafi Fiskistofu eða skoðunarstofu ekki nauðsynlegar upplýs ingar eða aðstoð við framkvæmd eftirlits eða skoðun, sbr. 17. gr., getur Fiskistofa svipt viðkomandi starfs- eða vinnsluleyfi.

31. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um efni þessara laga og að ákveða gjald fyrir þjónustu sem Fiskistofa veitir á grundvelli þeirra.
    Gjald Fiskistofu fyrir viðurkenningu á skoðunarstofu skal vera 200.000 krónur.
    Ráðherra er heimilt að hækka gjaldið er nemur hlutfallslegri hækkun vísitölu byggingar kostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar. Grunntaxti gjaldsins er miðaður við byggingarvísitölu í ágúst 1993, þ.e. 192,5 stig.

VII. KAFLI
Viðurlög.
32. gr.

    Fyrir brot á ákvæðum laga þessara eða reglugerða settra með stoð í þeim sem framin eru af ásetningi eða gáleysi skal refsa með sektum eða varðhaldi ef miklar sakir eru.

33. gr.

    Rannsókn brota á lögum þessum fer að hætti opinberra mála.

34. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og um leið falla niður lög nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Einnig falla þá úr gildi eftirfarandi lög um breytingu á þeim lögum, nr. 58/1994, 85/1995, 89/1997 og 114/1997.
    Þrátt fyrir 1. mgr. taka IV. og V. kafli þessara laga um innflutning sjávarafurða og landa mærastöðvar gildi 1. nóvember 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Tilskipanir EBE nr. 91/493, 92/48 og 91/492 fela í sér ítarlegar kröfur um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða sem fella verður inn í íslenska löggjöf. Mikilvægt er að reglur sem settar eru í þeim tilgangi byggi á traustum lagagrunni og að lagagrunnurinn geri stjórnvöldum kleift að framfylgja þeim kröfum sem gerðar eru í framangreindum tilskipunum. Nauðsynlegt þykir að gera breytingar á gildandi lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra til að svo megi verða.
    Lög nr. 93/1992 hafa tekið verulegum breytingum frá því þau voru lögfest árið 1992. Veigamesta breytingin átt sér stað með lögum nr. 89/1997, sem sett voru í framhaldi af sam komulagi EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins árið 1996 um að fella inn í EES-samninginn samræmdar heilbrigðisreglur um dýr og dýraafurðir. Í ljósi þeirra breytinga sem þegar hafa verið gerðar á gildandi lögum og þeirra breytinga sem nauðsynlegt er að gera með frumvarpi þessu hefur í sjávarútvegsráðuneytinu verið samið frumvarp til nýrra heildarlaga um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til veigamiklar efnisbreytingar frá gildandi lögum en helstu form- og efnisbreytingar eru eftirfarandi:
    Leitast er við að samræma hugtakanotkun tilskipunum EBE nr. 91/493, 91/492 og 92/48. Er því í frumvarpinu að finna mun fleiri skilgreiningar á hugtökum en í gildandi lögum og er hugtakanotkun í ákvæðum frumvarpsins í samræmi við þær. Í II. kafla frumvarpsins um opinberar kröfur eru ítarlegar reglur um hreinlæti, hönnun og búnað og sérstök ákvæði um pökkun og vinnslu, dreifingu og pökkun eldisfisks.
    Lítils háttar efnisbreytingar frá gildandi lögum eru nauðsynlegar til að unnt sé að samræma íslenska löggjöf framangreindum EBE tilskipunum. Samkvæmt tilskipun EBE nr. 91/493 þurfa aðeins þeir aðilar sem vinna sjávarafurðir vinnsluleyfi. Er því í frumvarpinu lagt til að fiskiskip, önnur en vinnsluskip, og fiskmarkaðir sem aðeins selja sjávarafla í heildsölu skuli hafa starfsleyfi. Þá er nauðsynlegt að gera reglur sem gilda um notkun á neysluvatni og hreinum sjó til þvotta, þrif, ísframleiðslu og vinnslu sveigjanlegri. Í tilskipun EBE nr. 91/493 er ýmist gerð sú krafa að einungis megi nota neysluvatn eða að nota megi bæði neysluvatn og hreinan sjó og í undantekningartilfellum er heimilt að nota annan vökva. Samræmist 9. gr. laga nr. 93/1992 því ekki framangreindri tilskipun. Lagt er til í frumvarpinu að ráðherra verði falið að ákveða með reglugerð hvernig þessu skuli háttað.
    Ólíkt gildandi lögum nær gildissvið frumvarpsins ekki til eftirlits með slátrun eldisfisks. Er það eðlilegt þar sem slíkt eftirlit er á valdsviði embættis yfirdýralæknis en ekki sjávar útvegsráðuneytisins. Á sama hátt er eðlilegt að upprunareglur sem nú er að finna í 6. gr. laga nr. 93/1992 verði felldar niður þar sem eftirlit með þeim er ekki á valdsviði sjávarútvegs ráðuneytisins.
    Afar mikilvægt er að skoðunarstofur, sem skulu samkvæmt 14. gr. gildandi laga fylgjast með hreinlæti, búnaði og innra eftirliti fyrirtækja og skipa, starfi faglega og með samræmdum hætti. Er því í frumvarpinu lagt til að skoðunarstofur þurfi faggildingu og að þær séu hlutlaus þriðji aðili. Hluteysisregla er til þess fallin að treysta trúverðugleika skoðunarstofa og auðvelda Fiskistofu eftirlit með þeim.
    Í 29. og 30. gr. gildandi laga var gert ráð fyrir að skipuð yrði málskotsnefnd. Málskots nefndinni var sem óháðum úrskurðaraðila ætlað að auka réttaröryggi, skilvirkni og öruggari málsmeðferð. Frá því að lög nr. 93/1992 tóku gildi hafa verið sett stjórnsýslulög sem ætlað er að tryggja örygga og skilvirka málsmeðferð innan stjórnsýslunnar. Þykir því ekki ástæða til að hafa sérstaka málskotsnefnd.
    Að lokum gerir frumvarpið ráð fyrir því að Fiskistofa geti heimilað öðrum erlendum eftirlitsaðilum en Eftirlitstofnun EFTA að gera vettvangsskoðanir hjá starfs- og vinnslu leyfishöfum. Er með því verið að tryggja að útflutningur sjávarafurða frá Íslandi stöðvist ekki vegna krafna innflutningslands um vettvangsskoðun hjá starfs- eða vinnsluleyfishafa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Þessi grein er efnislega samhljóða 1. gr. laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.

Um 2. gr.

    Hér er að finna skilgreiningar á hugtökum sem koma fram í frumvarpinu. Skilgreiningar á hugtökunum sjávarafli, fiskafurðir og sjávarafurðir eru samhljóða skilgreiningum þessara hugtaka í 2. gr. laga nr. 93/1992. Rétt þykir að bæta við til skýringar og samræmingar á hug takanotkun öðrum hugtökum sem skilgreind eru í tilskipununum EBE nr. 91/493 og 91/492 og fram koma í frumvarpinu.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er gildissvið frumvarpsins afmarkað. Hugtökin meðferð, vinnsla og dreifing ná til flestra þátta sem 3. gr. laga nr. 93/1992 vísar til og er því ekki um verulega efnis breytingu að ræða. Þó er lagt til að slátrun á hafbeitar-, vatna- og eldisfiski falli utan gildis sviðsins þar eð hún heyrir undir yfirdýralækni. Frumvarpið nær þó til eftirlits með vinnslu, pökkun og dreifingu eldisfisks. Óþarft þykir að taka fram að frumvarpið taki einnig til inn fluttra sjávarafurða sem ætlaðar eru til umpökkunar eða vinnslu hér á landi eins og gert er í 2. málsl. 3. gr. laga nr. 93/1992. Frumvarpið tekur til allra sjávarafurða sem eru til meðferðar, vinnslu eða dreifingar hér á landi, þar með talið umpökkunar og endurútflutnings. Niðurfelling framangreinds málsliðar felur því ekki í sér efnisbreytingu.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 5. gr.

    Í tilskipunum EBE nr. 91/493, 91/492 og 92/48 er að finna ítarlegar kröfur um meðferð sjávarafurða sem lúta að því að tryggja heilnæmi og gæði þeirra. Í gildandi lögum er að finna almennar reglur sem ætlað er að ná yfir allar þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt framan greindum tilskipunum. Í frumvarpinu er leitast við að tilgreina nánar hvað teljast góðir framleiðslu- og hollustuhættir. Ekki er um tæmandi talningu að ræða enda er ógerningur að gefa hana. Tækni við meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða og rannsóknir á sviði heil brigðis- og gæðamála eru í stöðugri framþróun og því mjög breytilegt frá einum tíma til annars hvað teljast góðir framleiðslu- og hollustuhættir. Það er því eðlilegt að ráðherra geti í reglugerð kveðið nánar á um þetta efni.

Um 6. gr.

    Líkt og í 5. gr. er hér leitast við að greina nánar en í gildandi lögum hvaða kröfur eru gerðar til starfs- og vinnsluleyfishafa. Ekki er um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum. Fjallar þessi grein um hönnun og búnað skipa, vinnslustöðva, fiskmarkaða, flutningatækja, geymslna, íláta og áhalda og annars er komist getur í snertingu við fiskafurðir. Líkt og í 5. gr. er ógerningur að gefa tæmandi lýsingu á þeim kröfum sem gera þarf til að tryggja góða hollustuhætti og lágmarksgæði. Þær kröfur sem gera verður til þeirra sem fara með sjávar afurðir eru mjög breytilegar, bæði frá einum aðila til annars vegna mismunandi hlutverks þeirra svo og frá einum tíma til annars. Er ráðherra því í 2. mgr. falið að kveða nánar á um hönnun og búnað samkvæmt 1. mgr. Almennt má segja að þrif, og gerileyðing ef við á, verði að vera auðveld og á þetta til að mynda við um fiskmóttöku, vinnslusvæði, svo sem gólf og veggi, löndunarbúnað og öll tæki og tól sem snerta fiskafurðir. Til að unnt sé að gæta fyllsta hreinlætis og fullnægja gæðakröfum þarf allur aðbúnaður því til tryggingar að vera til staðar, svo sem dælibúnaður fyrir neysluvatn eða hreinan sjó, fullnægjandi aðstaða til að skilja frá úrgang, hreinlætisaðstaða og fullnægjandi aðstaða fyrir starfsfólk.

Um 7. gr.

    1. mgr. er samhljóða 1. mgr. 8. gr. laga nr. 93/1992 að öðru leyti en því að rétt þykir að kveða skýrar á um að sömu reglur gilda á Íslandi og á Evrópska efnahagssvæðinu.
    2. mgr. er samhljóða 2. mgr. 8. gr. laga nr. 93/1992.
    3. mgr. er efnislega samhljóða 3. mgr. 8. gr. laga nr. 93/1992.

Um 8. gr.

    Samkvæmt tilskipun EBE nr. 91/493 má ekki alltaf nota hreinan sjó í stað neysluvatns. Þá er í undantekningartilfellum heimilt samkvæmt framangreindri tilskipun að nota annað en hreinan sjó eða neysluvatn. Þar sem 9. gr. gildandi laga samræmist ekki tilskipuninni að þessu leyti og um tæknilegt atriði er að ræða er lagt til að ráðherra skuli í reglugerð kveða á um hvenær skuli nota neysluvatn, hreinan sjó eða hvort nota megi annan vökva.


Um 9. gr.

    1. og 2. mgr. greinarinnar eru efnislega samhljóða 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 93/1992. 3. mgr. greinarinnar er frábrugðin 4. mgr. 5. gr. laga nr. 93/1992 að því leyti að ástæða þykir til að fella niður orðið „útflutnings“ enda er reglugerðarheimild ráðherra að þessu leyti ekki bundin við sjávarafurðir sem flytja á út. Þá var orðalagið talið óheppilegt þar sem um þetta efni gilda samræmdar reglur á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Um 10. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um hvernig staðið skuli að pökkun sjávarafurða. Ekki er um efnislega breytingu frá gildandi lögum að ræða þar sem almenn ákvæði 5. og 7. gr. gildandi laga rúma kröfur við pökkun afurða. Greinin er því einungis til skýringar.

Um 11. gr.

    Líkt og í 10. gr. laga nr. 93/1992 segir í þessari grein að sjávarafurðir skuli vera rétt og greinilega merktar þannig að þær upplýsingar, sem fram koma, séu ekki villandi. Þá er í samræmi við tilskipun EBE nr. 95/71 gerð krafa um að nafn Íslands, óstytt eða skammstafað IS, komi fram. Í gildandi lögum segir að fram skuli koma leyfisnúmer vinnslustöðva þannig að unnt sé að rekja uppruna afurðanna til framleiðandans. Í ljósi þess að í frumvarpinu er gerður greinarmunur á starfs- og vinnsluleyfishöfum nægir ekki að gera kröfu um að leyfisnúmer vinnslustöðva komi fram. Því er þess krafist að fram komi leyfisnúmer starfs- og vinnsluleyfishafa.

Um 12. gr.

    Þó að túlkun á gildandi lögum leiði til þess að sömu reglur skuli gilda um sjávarafurðir annars vegar og afurðir hafbeitar-, vatna- og eldisfisks hins vegar þykir skýrara að taka það fram sérstaklega.

Um 13. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 11. gr. laga nr. 93/1992. Orðin „flytja úr landi“ voru felld niður í samræmi við skilgreiningu orðsins „dreifing“ í frumvarpinu. Þá er greinin látin ná til hafbeitar-, vatna- og eldisafurða í samræmi við 12. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.

    Í 1. mgr. er afmarkað hvaða aðilar skuli hafa vinnsluleyfi. Eru það vinnslustöðvar, sem samkvæmt skilgreiningu 2. gr. frumvarpsins er hver sú aðstaða þar sem sjávarafli er tilreiddur, verkaður, unninn, kældur, frystur, pakkaður eða geymdur. Dæmi um vinnslustöðvar eru vinnsluskip, lagmetisiðjur og fiskgeymslur sem ekki eru hlutar af vinnslufyrirtæki. Fiskmark aðir sem aðeins selja sjávarafla í heildsölu og skip sem ekki vinna afla um borð teljast ekki vinnslustöðvar og þurfa því ekki vinnsluleyfi skv. 1. mgr. Er hér um efnislega breytingu frá lögum nr. 93/1992 að ræða til samræmis við tilskipun EBE nr. 91/493. Í athugasemdum með 12. gr. laga nr. 93/1992 segir að lagt sé til að um eina tegund leyfa, vinnsluleyfa, verði að ræða þar sem það sé einfaldara. Eftirlitsstofnun EFTA gerði athugasemd vegna þessa og leit svo á að það samræmdist ekki tilskipun EBE nr. 91/493 að krefjast vinnsluleyfis af aðilum sem ekki vinna afurðir. Var því ákveðið að veita fiskmörkuðum og skipum sem ekki vinna afurðir starfsleyfi, sbr. 2. mgr. Líkt og samkvæmt gildandi lögum þurfa fiskimjölsverksmiðjur, framleiðendur dýrafóðurs úr sjávarafurðum og stöðvar þar sem vinnsla eða pökkun hafbeitar- og eldisfisks fer fram vinnsluleyfi.
    Í samræmi við tilskipun EBE nr. 91/493 gerir 2. mgr. ráð fyrir að fiskiskip önnur en vinnsluskip og fiskmarkaðir sem aðeins selja sjávarafla í heildsölu þurfi starfsleyfi. Til frekari skýringar vísast til athugasemda með 1. mgr. greinarinnar.
    Í 4. mgr. segir að óheimilt sé að veiða, vinna eða geyma sjávarafurðir án starfs- eða vinnsluleyfis.
    Í athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA hefur komið fram að 1. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 684/1995 samræmist ekki a) lið 3. mgr. 3. gr. tilskipunar EBE nr. 91/493 um eldisfisk þar sem í reglugerðinni sé krafist leyfis yfirdýralæknis til slátrunar eldisfisks. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. 12. gr. gildandi laga. Í ljósi athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA og þeirra breytinga sem lagðar eru til í 3. gr. frumvarpsins var ákveðið að fella málsgreinina brott.
    Samkvæmt 3. mgr. er það Fiskistofa sem veitir vinnslu- og starfsleyfi að uppfylltum kröfum um hreinlæti, hönnun og búnað. Vinnsluleyfi er því aðeins veitt að uppfylltar séu kröfur um innra eftirlit, sbr. 15. gr., og viðkomandi hafi samning við faggilta skoðunarstofu, sbr. 16. gr. Skylt er að binda vinnsluleyfi vinnslu tilgreindra afurða. Er með því lagt til að gengið verði lengra að þessu leyti en í lögum nr. 93/1992 þar sem segir í 3. mgr. 12. gr. að vinnsluleyfi megi binda framleiðslu tilgreindra afurða. Er breytingin í samræmi við tilskipun EBE nr. 91/493 sem gerir ráð fyrir að þegar vinnsluleyfi er gefið út skuli meta hvort viðkomandi vinnlustöð uppfylli skilyrði tilskipunarinnar með hliðsjón af þeirri vinnslu sem þar á að fara fram. Ekki er gerð krafa um innra eftirlit þegar um veitingu starfsleyfis er að ræða.
    Ákvæði 5. mgr. er nýmæli. Í samræmi við kröfur tilskipunar EBE nr. 91/493 er Fiskistofu gert að halda skrá yfir vinnslu og starfsleyfishafa en nánar skal kveðið á um skrána í reglugerð. Skrána skal senda til sjávarútvegsráðuneytis og erlendra eftirlitssaðila sem þess óska.

Um 15. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 13. gr. laga nr. 93/1992. Rétt þykir að árétta hver tilgangur innra eftirlitsins sé.

Um 16. gr.

    1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 14. gr. laga nr. 93/1992.
    Í 2. mgr. er lagt til að skoðunarstofur fái því aðeins starfsleyfi að þær hafi faggildingu frá faggildingarsviði Löggildingarstofu eða öðrum viðurkenndum faggildingaraðila á Evrópska efnahagssvæðinu og að uppfylltum skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 93/1992 veitir Fiskistofa skoðunarstofum viðurkenningu. Í athugasemdum með greininni kemur fram að fyrirkomulag faggildingar, vottana og prófana sé í örri þróun í heiminum og vænta megi breytinga á löggjöf okkar á næstunni. Því sé ráðherra heimilt að ákveða að annar aðili gangi úr skugga um hæfni skoðunarstofa og veiti þeim viðurkenningu. Lög nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, gera í 7. gr. ráð fyrir að Löggildingarstofa annist faggildingu skoðunarstofa. Lögin taka ekki til eftirlits með heilnæmi og gæða matvæla en eðlilegt þykir að skoðunarstofur á því sviði hafi löggildingu líkt og skoðunarstofur er falla undir framangreind lög.
    Um nýmæli er að ræða í 3. mgr. greinarinnar. Ástæða þykir til að tryggja hlutleysi skoðunarstofa og jafnræði þeirra sem eiga viðskipti við þær. Trúverðugleiki skoðunarstofa og samræmd framkvæmd þeirra eru meginstoðir árangursríks eftirlits og skilyrði þess að unnt sé að fela einkaðilum framkvæmd skoðunar. Greinin byggir á IST EN 45004:1995. Skoð unarstofan skal vera óháð öllum hlutaðeigandi aðilum. Í því felst að skoðunarstofan og þeir starfsmenn hennar sem bera ábyrgð á framkvæmd skoðunar mega ekki vera hönnuðir, framleiðendur, birgjar, uppsetningaraðilar eða notendur þess sem skoðað er né heldur um boðsmenn einhvers þessara aðila. Þá segir í 3. mgr. að skoðunarstofa og starfsfólk hennar megi ekki taka þátt í störfum sem geta haft áhrif á sjálfstæði dómgreindar eða ráðvendni þeirra varðandi skoðunarstarfsemina. Í þessu felst sérstaklega að þau skuli ekki taka beinan þátt í hönnun, markaðsetningu, notkun, rekstri eða viðhaldi þess sem skoðað er, né sambærilegra eininga sem keppa við það á markaði. Að lokum segir að allir hagsmunaaðilar skuli geta sótt þjónustu til skoðunarstofunnar. Ekki skuli vera óréttlát skilyrði fjárhagslega eða af öðrum toga. Starfsemi stofunnar skal hagað með þeim hætti að viðskiptavinum sé ekki mismunað. Þessu ákvæði er ætlað að tryggja viðskiptavinum skoðunarstofa ákveðna vernd gegn ójafnræði og öðrum óréttmætum viðskiptaháttum. Ákvæðið er til áréttingar en felur á engan hátt í sér undantekningu frá gildandi samkeppnislögum.
    Í 4. mgr. er kveðið á um hvert hlutverk faggiltra skoðunarstofa skuli vera. Ekki er um efnis lega breytingu að ræða frá gildandi lögum nr. 93/1992 en orðalag greinarinnar er samhæft orðalagi frumvarpsins.
    Þá er í 5. mgr. kveðið á um með skýrari hætti hvert samband skoðunarstofa og Fiskistofu sé. Segir að skoðunarstofur framkvæmi eftirlit sitt á vegum Fiskistofu. Er með þessu ætlað að árétta að Fiskistofa framselur ekki stjórnvald til skoðunarstofa heldur er skoðunarstofum aðeins ætlað veita Fiskistofu upplýsingar um hvort starfs- og vinnsluleyfishafar framfylgi lögum. Fiskistofa er ábyrg fyrir eftirlitinu eins og tilskipun EBE nr. 91/493 gerir kröfu um. Til þess að Fiskistofa geti sannreynt að skoðunarstofurnar uppfylli skyldur sínar er skoðunar stofum gert skylt að veita Fiskistofu upplýsingar um starfsemi og ástand fyrirtækja á þann hátt sem Fiskistofa ákveður. Fiskistofa ákveður því meðal annars á hvaða formi upplýsingarnar skuli berast og hversu oft.
    6. mgr. og 7. mgr. eru efnislega samhljóða 2. málsl. 3. mgr. og 5. mgr. 14. gr. laga nr. 93/1992. Þó þykir til skýringar ástæða til að taka sérstaklega fram að ráðherra getur sett reglur um hvernig staðið skuli að framkvæmd skoðunar. Slíkar reglur geta verið nauðsynlegar til að tryggja fullt samræmi í framkvæmd. Þá verður að telja að slíkar reglur geti auðveldað eftirlit Fiskstofu með skoðunarstofum.

Um 17. gr.

    1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 15. gr. laga nr. 93/1992.
    Samkvæmt 2. mgr. getur Fiskistofa heimilað erlendum eftirlitsaðilum vettvangskönnun en samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 93/1992 er Eftirlitstofnun EFTA eini erlendi aðilinn sem hefur slíka heimild. Nauðsynlegt var talið að víkka ákvæðið þar sem heimild til vettvangskönnunar getur verið skilyrði þess að íslenskar afurðir verði fluttar inn til annarra landa. Þá er gerð sú krafa til íslenskra stjórnvalda að þau veiti framangreindum eftirlitsaðilum alla nauðsynlega aðstoð við að gegna skyldum sínum. Sú krafa er í samræmi við 1. mgr. 8. gr. tilskipunar EBE nr. 91/493.
    3. mgr. er samhljóða 3. mgr. 15. gr. laga nr. 93/1992.

Um 18. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 1. málsl. 16. gr. laga nr. 93/1992. Til skýringar er tekið fram að um útflutningsvottorð vegna sjávarafurða sé að ræða. Lagt er til að 2. málsl. 16. gr. laga nr. 93/1992 falli niður þar sem víða erlendis eru gerðar kröfur um að opinber aðili gefi vottorðin út.

Um 19. gr.

    Í 17. gr. laga nr. 93/1992 segir að Fiskistofu sé heimilt að stöðva vinnslu og dreifingu sjávarafurða sem brjóta í bága við 10. og 11. gr. laganna. Réttara þótti að vísa til II. kafla í heild, svo og reglugerða settra samkvæmt honum.

Um 20. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 18. gr. laga nr. 93/1992.

Um 21–30. gr.

    Greinarnar eru efnislega samhljóða 19.–28. gr. laga nr. 93/1992.

Um 31. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 31. gr. laga nr. 93/1992.

Um 32. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 32. gr. laga nr. 93/1992. Ekki þótti ástæða til að tiltaka sérstaklega að heimilt sé að refsa stjórnarmönnum félaga og framkvæmdastjóra fyrirtækja vegna brota gegn tilteknum ákvæðum frumvarpsins þar sem almennar reglur refsiréttar gera ráð fyrir að slíkt sé heimilt ef við á.

Um 33. gr.

    Greinin er samhljóða 33. gr. laga nr. 93/1992.

Um 34. gr.

    Lagt er til að önnur ákvæði frumvarpsins en er að finna í IV. og V. kafla öðlist þegar gildi er frumvarpið verður að lögum. IV. og V. kafla er ekki ætlað að öðlast gildi fyrr en 1. nóv ember 1998 og vísast um þá dagsetningu til athugasemda með lögum nr. 114/1997.
    Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, og lög nr. 58/1994, 85/1995, 89/1997 og 114/1997.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstof a:


Umsögn um frumvarp til laga um
meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fyrri lög um meðferð sjávarafurða og eftirlits með fram leiðslu þeirra, nr. 93/1992, verði endurskoðuð. Sú endurskoðun felur í sér nokkrar tæknilegar breytingar sem ekki eiga að valda sérstökum kostnaði fyrir ríkissjóð. Lagt er til að málskotsnefnd verði lögð niður og er það gert með því að fella niður 29. og 30. gr. laga nr. 93/1992. Til að kosta starf þeirrar nefndar er 1,5 m.kr. veitt á um 1998 og mun það fé sparast verði lögin samþykkt.