Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 931 – 546. mál.


Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 117/1994 .

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Í stað 9.–17. gr. laganna (III. kafli, Almennar ferðaskrifstofur) koma 15 nýjar greinar, 9.–23. gr., sem orðast svo, og breytast greinatölur og tilvísanir samkvæmt því:
    
    a. (9. gr.)
    Ferðaskrifstofa merkir í lögum þessum fyrirtæki sem tekur að sér að veita í atvinnuskyni, að einhverju eða öllu leyti, eftirgreinda þjónustu fyrir almenning:
     a.      Upplýsingar um ferðir innan lands og erlendis.
     b.      Hvers konar umboðssölu farmiða með skipum, bifreiðum, flugvélum eða járnbrautum.
     c.      Útvegun gistihúsnæðis.
     d.      Skipulagningu og sölu hópferða, innan lands eða erlendis, starfrækslu sætaferða og móttöku erlendra ferðamanna.
     e.      Starfrækslu bókunarþjónustu fyrir ferðir og gistingu, sbr. b-, c- og d-liði, og afþreyingu, þar með talinnar tölvubókunarþjónustu.
    Í reglugerð skulu sett nánari ákvæði um með hvaða hætti skuli hafa eftirlit með þjónustu ferðaskrifstofa.
    Samgönguráðuneytið sker úr ef ágreiningur verður um hvort starfsemi telst falla undir a–d-lið hér að framan, svo og um það hvort um ferðaskrifstofustarfsemi sé að ræða í skilningi laga þessara.

    b. (10. gr.)
    Hver sá sem vill reka ferðaskrifstofu skal hafa til þess leyfi samgönguráðuneytis. Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skal veita í fyrsta sinn til tveggja ára en síðan til fimm ára í senn.
    Erlend ferðaskrifstofa, sem hyggst opna starfsstöð á Íslandi, skal sækja um leyfi og leggja fram tryggingu fyrir starfsemi sinni svo sem nánar er fyrirmælt í lögum þessum.
    Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skiptast í tvo flokka eftir umfangi:
     1.      Ferðaskrifstofa: Ferðaskrifstofa merkir í lögum þessum fyrirtæki, félag eða einstakling sem tekur að sér að veita í atvinnuskyni alla almenna þjónustu við ferðamenn, þar með talin skipulagning og miðlun ferða, þar með talin alferð, gisting og frístundaiðja, og selur almenna farseðla.
     2.      Ferðaskipuleggjandi: Ferðaskipuleggjandi merkir í lögum þessum fyrirtæki, félag eða einstakling sem skipuleggur ferðir hópa eða einstaklinga innan lands, einnig fyrirtæki sem annast móttöku hópa eða einstaklinga og skipuleggur fyrir þá dvöl og frístundariðju eða fundi og ráðstefnur og þjónustu tengda þeim innan lands. Ferðaskipuleggjandi ann ast enga almenna farseðlaútgáfu til útlanda, hvorki með leiguflugi né áætlunarflugi.
    Óheimilt er að stunda þau störf sem greind eru í þessum lögum, svo og að nota í nafni eða auglýsingum einstaklinga, félaga eða fyrirtækja orðið ferðaskrifstofa eða ferðaskipuleggjandi eða hliðstæð erlend orð, nema hafa til þess leyfi samgönguráðuneytisins.
    Ferðaskrifstofa skal hafa leyfi sitt til ferðaskrifstofureksturs sýnilegt á starfsstöð sinni.
    Ráðuneytið ákveður einnig hvaða íslensk ferðafélög eru undanþegin ákvæðum laga þess ara að því er lýtur að ferðum innan lands.

    c. (11. gr.)
    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Alferð, sbr. lög um alferðir, nr. 80/1994, er fyrir fram ákveðin samsetning ekki færri en tveggja eftirfarandi atriða, þegar ferð er seld eða boðin til sölu á heildarverði og þegar þjónustan tekur til lengri tíma en 24 klst. eða í henni felst gisting:
       a.      flutnings,
       b.      gistingar,
       c.      annarrar þjónustu við ferðamenn sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar.
         Það telst alferð þótt reikningar sé gerðir sérstaklega fyrir hvert atriði.
     2.      Leiguflug er annað flug en reglubundið áætlunarflug til flutnings á farþegum með loftförum til og frá Íslandi þegar aðili, þar með talin ferðaskrifstofa, hefur tekið farrými loftfars að hluta eða öllu leyti á leigu hjá flugrekanda.
     3.      Tryggingarskyld starfsemi er sala alferða innan lands og utan og leiguflugs til útlanda.
     4.      Viðskiptavinur er sá sem kaupir alferð eða leiguflug hjá ferðaskrifstofu. Framselji viðskiptavinur alferð eða leiguflug til þriðja manns fær sá kröfu á ferðaskrifstofu stöðvist rekstur hennar eða verði hún gjaldþrota. Kaup á alferð eða sæti með leiguflugi til endursölu fellur ekki undir þessa skilgreiningu.
    Í lögum þessum er orðið ferðaskrifstofa bæði notað um ferðaskipuleggjanda og ferðaskrif stofu nema annað sé tekið fram.


    d. (12. gr.)
    Sækja skal um leyfi til reksturs ferðaskrifstofu a.m.k. tveimur mánuðum áður en fyrirhug uð starfsemi skal hefjast. Leita skal umsagnar ferðamálastjóra um allar slíkar umsagnir.
    Til að öðlast leyfi til reksturs ferðaskrifstofu þarf umsækjandi að uppfylla eftirtalin skilyrði:
     a.      eiga lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. eitt ár; ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eru undanskildir skilyrði um ríkisfang samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið,
     b.      vera fjárráða og hafa forræði á búi sínu.
    Enn fremur skal einn eða fleiri af starfsmönnum ferðaskrifstofunnar á hverjum tíma hafa að baki staðgóða reynslu við almenn ferðaskrifstofustörf.
    Leyfi má veita félagi eða öðrum lögaðila sem á heimili hér á landi, enda sé forsvarsmaður slíks lögaðila fjárráða og hafi forræði á búi sínu. Sé um erlendan aðila að ræða eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í er leyfisveiting þó háð því að fullnægt sé skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    Hafi umsækjandi um ferðaskrifstofuleyfi haft leyfi til slíkrar starfsemi á síðustu fimm árum og hafi sú ferðaskrifstofa orðið gjaldþrota eða rekstur hennar stöðvast með þeim afleiðingum að nauðsynlegt hafi verið að grípa til tryggingar skal umsókn um leyfi til ferðaskrifstofu reksturs hafnað.

    e. (13. gr.)
    Áður en leyfi til ferðaskrifstofureksturs er veitt skal ferðaskrifstofa eða samtök slíkra fyrir tækja leggja fram sönnun þess að hún hafi nægilega tryggingu til heimflutnings farþega erlendis frá auk þess sem skylt er að gera farþega kleift að ljúka alferð, hvort sem um er að ræða alferð innan lands eða utan, í samræmi við upphaflega áætlun hennar. Enn fremur skal tryggja endurgreiðslu þess fjár er viðskiptavinur hefur þegar greitt vegna alferðar sem enn er ófarin komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofu.

    f. (14. gr.)
    Þeim viðskiptavinum viðkomandi ferðaskrifstofu sem þegar eru í alferð, hvort sem um er að ræða alferð innan lands eða utan, skal gert kleift að ljúka ferð sinni. Í því felst að allt það sem viðskiptavinur hefur þegar greitt og er í samræmi við fyrir fram ákveðna alferð, hvort sem um flutning, gistingu eða aðra fyrirframgreidda hluta ferðar er að ræða, skal greiða af trygg ingarfé svo að honum sé gert kleift að ljúka ferð sinni. Hins vegar er ekki skylt að greiða það sem viðskiptavinur kaupir aukalega, þ.e. hluta ferðar sem ekki teljast til fyrir fram ákveðinnar alferðar.
    Hafi viðskiptavinur gengið til samnings við ferðaskrifstofu um að hefja alferð og greitt innborgun inn á ferð í því skyni en endanlegur samningur ekki komist á skal engu að síður greiða það fé sem viðskiptavinurinn hefur þegar reitt af hendi enda leggi hann til fullnægjandi sönnunargögn þar að lútandi.
    Þeir sem hafa greitt alferð að hluta eða öllu leyti en ekki hafið ferð skulu fá endurgreitt það fé sem þeir hafa reitt af hendi.
    Hafi verið gripið til tryggingar og viðskiptavini verið gert kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflegan samning eru frekari kröfur ekki teknar til greina.
    Þegar um heimflutning farþega er að ræða fyrir milligöngu ráðuneytis vegna rekstrarstöðv unar ferðaskrifstofu áður en alferð er lokið skal aðeins greiddur sá hluti alferðarinnar er viðskiptavini tókst ekki að ljúka.
    Hafi viðskiptavinur aðeins keypt sér far með leiguflugi er heimflutningur hans tryggður af tryggingarfé ferðaskrifstofu.
    Einungis beint fjárhagslegt tjón af alferð skal greitt af tryggingarfé ferðaskrifstofa en ekkert tjón sem rekja má til hugsanlegra óþæginda eða miska.

    g. (15. gr.)
    Ef til rekstarstöðvunar ferðaskrifstofu eða ferðaskipuleggjanda kemur skulu viðskiptavinir leggja fram skriflega kröfu innan 60 daga frá birtingu áskorunar um kröfulýsingu. Meðfylgj andi skulu vera nauðsynleg sönnunargögn um kröfuna, svo sem farseðlar og kvittanir. Ef sam gönguráðuneytið telur að frekari gögn séu nauðsynleg til sönnunar kröfunni er því heimilt að óska eftir þeim. Ef vafi leikur á um hvort gögn til stuðnings kröfu séu fullnægjandi skal samgönguráðuneytið skera úr.


    h. (16. gr.)
    Ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjandi skulu leggja fram tryggingu samkvæmt a- og b-lið 19. gr. sem nemur 70% af veltu tveggja söluhæstu mánaðanna í röð, 40% af veltu fjögurra söluhæstu mánaðanna í röð eða 20% af heildarveltu á ári vegna tryggingarskyldrar starfsemi og skal sú niðurstaða sem gefur hæstu tryggingu gilda. Trygging skal þó aldrei vera lægri en 2 millj. kr. vegna ferðaskrifstofu og ferðaskipuleggjanda.
    Samgönguráðherra skal setja reglur um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa til að aðskilja tryggingarskylda starfsemi frá annarri starfsemi og til að nauðsynlegar upplýsingar við mat á tryggingarfjárhæð liggi fyrir.
    Samgönguráðherra er heimilt að krefjast hærri tryggingar í þeim tilfellum þegar um sér staklega áhættusaman rekstur er að ræða eða að öðru leyti er ljóst að trygging samkvæmt lögum þessum mun ekki nægja komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu.

    i. (17. gr.)
    Til að meta upphæð tryggingar hjá umsækjanda sem er að sækja um leyfi til reksturs ferðaskrifstofu í fyrsta sinn skal umsækjandi leggja fram ítarlega áætlun um rekstur, greiðslu streymi og efnahag fyrir yfirstandandi og næsta ár. Áætlunin skal vera brotin niður á mánuði og áætluð tryggingarskyld velta sérgreind. Áætluninni skal fylgja staðfesting endurskoðanda á að áætlunin sé rétt miðað við gefnar forsendur. Samgönguráðuneytið leggur mat á forsendur áætlunarinnar og er því heimilt að óska eftir samningum og öðrum gögnum er það telur nauðsynleg við mat á áætluninni.
    Leyfishafar með tryggingu skv. a- og b-lið 19. gr. skulu fyrir 31. mars ár hvert senda sam gönguráðuneytinu endurskoðaðan ársreikning og önnur gögn sem áskilin eru í reglum, sbr. 2. mgr. 16. gr., auk áætlunar um fyrirhuguð umsvif á starfsárinu. Ráðuneytið tekur ákvörðun á grundvelli þeirra upplýsinga um hvort tryggingarfjárhæð skuli breytt að fenginni umsögn löggilts endurskoðanda.
    Ef endurskoðað ársuppgjör hefur ekki borist 30. apríl er ráðuneytinu heimilt að fella leyfi til reksturs ferðaskrifstofu úr gildi.
    Ef leyfishafi hefur ekki sinnt ákvörðun ráðuneytis um hækkun tryggingarfjárhæðar innan mánaðar frá því að honum var tilkynnt ákvörðun um hækkun hennar fellur leyfi til reksturs ferðaskrifstofu úr gildi.
    Telji samgönguráðuneytið að rekstur ferðaskrifstofu gangi erfiðlega er því heimilt að kveðja til löggiltan endurskoðanda til að leggja mat á fjárhagsstöðu hennar. Tilkvöddum endurskoðanda er í þessu skyni heimill aðgangur að starfsstöð ferðaskrifstofunnar til að gera þær kannanir á bókhaldi og bókhaldsgögnum hennar sem hann telur nauðsynlegar.
    Telji samgönguráðuneytið nauðsynlegt að fella leyfi til reksturs ferðaskrifstofu úr gildi vegna brota á þessari grein skal ráðuneytið tilkynna viðkomandi ferðaskrifstofu um það skriflega. Skal ferðaskrifstofan hafa 14 daga frest til að bæta úr þeim atriðum er ráðuneytið telur ábótavant.

    j. (18. gr.)
    Trygging gildir jafnlengi og leyfi til ferðaskrifstofureksturs. Ef trygging verður ófull nægjandi á leyfistímanum skal afturkalla leyfi til ferðaskrifstofureksturs þar til bót hefur orðið á. Trygging skal vera tiltæk í allt að sex mánuði eftir niðurfellingu leyfis nema um uppsögn tryggingar sé að ræða. Ef fullnægjandi sönnur eru færðar á að allar kröfur vegna rekstrar stöðvunar ferðaskrifstofu hafi verið greiddar er samgönguráðuneytinu heimilt að fella þann hluta tryggingar sem eftir stendur úr gildi áður en lögbundnir sex mánuðir eru liðnir.
    Samgönguráðuneytið ákvarðar hvort greiða skal af tryggingarfé skv. 13. gr. Eigi er heimilt að fella tryggingu úr gildi eða skerða tryggingarfé nema leyfi ráðuneytisins komi til. Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu fellur niður ef grípa þarf til tryggingarfjár vegna rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofunnar.

    k. (19. gr.)
    Trygging, sbr. 13. gr., getur verið:
     a.      Fé í vörslu samgönguráðuneytis, sbr. 1. mgr. 16. gr.
     b.      Fé sem lagt er inn í viðurkennda banka- eða peningastofnun í nafni samgönguráðuneytis, sbr. 1. mgr. 16. gr.
     c.      Yfirlýsing um tryggingu frá banka eða tryggingafélagi.
    l. (20. gr.)
    Samgönguráðherra er heimilt að tilnefna tilsjónarmann til að sjá um uppgjör tryggingar fjár. Hann skal þá hafa með höndum umsýslu vegna heimflutnings farþega og endurgreiðslu af tryggingarfé ferðaskrifstofu. Kostnaður við störf tilsjónarmanns skal greiddur af trygg ingarfé.

    m. (21. gr.)
    Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu fellur niður:
     a.      ef leyfishafi verður gjaldþrota eða sviptur fjárræði,
     b.      ef trygging sú, sem sett er skv. 13. gr., fellur niður eða fullnægir ekki þeim reglum sem ráðuneytið setur,
     c.      ef leyfishafi hættir að hafa búsetu á Íslandi.
    Ef félag er leyfishafi eða annar en leyfishafi veitir daglegum rekstri ferðaskrifstofunnar forstöðu fellur leyfið niður ef einhverra þeirra skilyrða er misst sem uppfylla ber samkvæmt lögum þessum eða er forstöðumaður andast, enda sé ekki ráðinn nýr forstöðumaður sem uppfyllir skilyrði laga þessara innan þess frests sem ráðuneytið setur.

    n. (22. gr.)
    Nú andast leyfishafi og er þá eftirlifandi maka hans, ef hann situr í óskiptu búi, heimilt að halda áfram rekstrinum í fimm ár, enda sé fullnægt almennum skilyrðum um ábyrgð og ekki ástæða til afturköllunar leyfis skv. 21. gr.

    o. (23. gr.)
    Fyrir útgáfu leyfa samkvæmt lögum þessum greiðist gjald til ríkissjóðs samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.
    Samgönguráðherra er heimilt að taka gjöld af ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum sem renna til samgönguráðuneytis til að standa straum af eftirliti samkvæmt lögum þessum. Fjárhæð gjaldanna skal koma fram í reglum sem ráðherra setur skv. 2. mgr. 16. gr. Gjöldin skulu standa undir kostnaði af bókhaldsrannsóknum og öðrum þeim þáttum sem nauðsynlegir eru til að sannreyna fjárhæð tryggingar og með öðrum hætti hafa eftirlit með rekstri ferða skrifstofa.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þó eru starfandi ferðaskrifstofur undanþegnar ákvæðum h-liðar 1. gr. (16. gr.) laga þessara fram til 1. ágúst 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Við samningu frumvarpsins leitaði ráðu neytið aðstoðar til fulltrúa ferðaskrifstofa, tryggingafélaga og endurskoðenda. Þá óskaði ráðu neytið umsagnar Neytendasamtakanna og Félags íslenskra ferðaskrifstofa. Einnig var horft til nágrannalandanna.
    Tilgangur þessa frumvarps er fyrst og fremst að setja skýrari reglur um rekstur ferða skrifstofa hér á landi, svo sem um ferðaskrifstofuleyfi og fjárhæð tryggingar.
    Um ferðaskrifstofur gilda lög um skipulag ferðamála, nr. 117/1994. Í þeim lögum er tilgreint í 13. gr. að ferðaskrifstofa skuli leggja fram tryggingu fyrir heimflutningi farþega og því sem greitt hefur verið komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofunnar. Nánar er fjallað um upphæð tryggingar í reglugerð um ferðaskrifstofur, nr. 281/1995. Þar kemur fram að trygging fyrir svokallað A-leyfi, en það á við um ferðaskrifstofu sem skipuleggur ferðir erlendis og selur farseðla, nemur nú 10 millj. kr. Umrætt ákvæði í lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, kemur til vegna aðildar Íslands að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Ein gerða EES-samningsins fjallar einmitt um ferðapakka, sumarleyfis- og skoðunarpakka, og var efni þessarar tilskipunar lögfest í lögum um alferðir, nr. 80/1994. Í alferðalögunum er fjallað nánar um hvað felst í alferð en hvergi er vikið að tryggingarskyldu vegna hennar.
    Í umræddri tilskipun nr. 90/314/EBE frá 13. júní 1990 er að finna ákvæði um tryggingar skyldu í 7. gr. Ákvæðið er svohljóðandi í íslenskri þýðingu:
    „Skipuleggjandinn og/eða smásalinn sem er aðili að samningnum skulu leggja fram full nægjandi sönnunargögn um tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem greitt hefur verið og fyrir heimflutning neytandans ef til gjaldþrots kynni að koma.“
    Þetta ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins hefur verið túlkað á þann veg að aðildar ríkjum beri að greiða allar innborganir vegna alferðar eða gera umræddum viðskiptavinum kleift að ljúka för sinni auk þess sem það er skylt að flytja farþega til síns heima óski hann ekki eftir að halda áfram för. Enn fremur er ljóst að hér er um tryggingu vegna alferða að ræða og ekki er skylt að endurgreiða neytendum vegna annarra hluta en þeirra sem í alferð felast. Hér er fyrst og fremst um neytendavernd að ræða á ákveðnu sviði ferðaþjónustu. Eins og kunnugt er er BSP-trygging ætíð í gildi hjá þeim aðilum sem selja reglubundnar áætlunarferðir með flugvélum (en ekki reglubundið leiguflug), og farþegum, sem kaupa sæti með áætlunarflugi, er því ávallt tryggð heimkoma.
    Eins og áður sagði var sú leið farin við setningu alferðalaganna að tryggingarákvæði umræddrar tilskipunar Evrópusambandsins var sett inn í lög um skipulag ferðamála þegar þeim var breytt með lögum nr. 81/1994 (endurútefin lög, nr. 117/1994) en ekki haft með í alferðalögunum sjálfum. Undanfarin missiri hafa nokkrar ferðaskrifstofur hér á landi hætt rekstri. Af þeim voru tvær með nokkurn fjölda farþega erlendis þegar reksturinn stöðvaðist. Sú hefð hefur skapast vegna uppgjörs á tryggingarfé hér á landi að greiða heimflutning og inn borganir, bæði vegna alferða og leiguflugs. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins er ekki skylda að greiða innborganir vegna leiguflugs svo sem gert hefur verið hér á landi hingað til. Því er lagt til í frumvarpi þessu að einungis verði greiddur heimflutningur þegar eingöngu er um leiguflug að tefla en bæði innborganir og heimflutningur vegna alferða auk þess sem við skiptavinum ferðaskrifstofu skal gert kleift að ljúka alferð sinni óski þeir eftir því.
    Þá er lagt til að tryggingarfé vegna ferðaskrifstofureksturs verði hækkað verulega. Það er ljóst að 10 millj. kr. trygging hrekkur skammt ef stór ferðaskrifstofa stöðvast í háannatíma. Því er lagt til í frumvarpinu að ákveðið hlutfall af tryggingarskyldri veltu ferðaskrifstofu skuli lagt fram sem trygging. Með því er tryggt að ætíð verði nægjanlegt tryggingarfé þegar og ef til rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu kemur.
    Þá er að finna mun nákvæmari reglur um umsókn til ferðaskrifstofureksturs, svo og um mat á upphæð tryggingarfjár.
    Í frumvarpinu er enn fremur lögfest skipting milli rekstrarforma ferðaskrifstofa og ferða skipuleggjenda. Hér er í raun um A- og B-leyfi að tefla samkvæmt núgildandi reglugerð en nauðsynlegt þótti að binda þessa skiptingu í lög.
    Loks er í frumvarpinu heimild fyrir samgönguráðherra að tilnefna tilsjónarmann til að sjá um uppgjör tryggingarfjár. Þessi heimild er nauðsynleg þar sem uppgjör af þessu tagi er flókið og tímafrekt. Ekki er talið heppilegt að hafa slíka umsýslu á hendi ráðuneytisins og því farsælla að skipa tilsjónarmann fyrir hvert einstakt tilfelli.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

     Um a-lið (9. gr.).
    Greinin er óbreytt frá 9. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringar.

     Um b-lið (10. gr.).
    Hér er lagt til að skipting leyfa til ferðaskrifstofureksturs verði skilgreind í lögunum sjálfum en ekki í reglugerð eins og nú er gert. Nokkurs misskilnings hefur þótt gæta um skipt ingu í A- og B-leyfi í reglugerð um ferðaskrifstofur og er því farin sú leið hér að skipta ferða skrifstofum í annars vegar ferðaskrifstofur og hins vegar ferðaskipuleggjendur. Megin munurinn á flokkunum felst í því að ferðaskrifstofa hefur leyfi til farseðlaútgáfu, þ.e. henni er heimilt að selja farseðla með áætlunarflugi og leiguflugi. Ferðaskipuleggjanda er hins veg ar aðeins heimilt að skipuleggja ferð með áætlunarflugi, þ.e. að útvega gistingu og annað það sem viðskiptavinir kunna að óska eftir og afhenda farseðla sem gefnir eru út af flugfélagi í áætlunarflugi.
    Enn fremur er í þessari grein kveðið á um að erlend ferðaskrifstofa sem hyggst opna starfs stöð hér á landi þurfi að sækja um leyfi. Þetta gildir líka um ferðaskrifstofur innan EES. Þrátt fyrir að þær kunni að hafa tryggingar í heimalandi sínu verður að telja að sömu reglur skuli gilda um þær og íslenskar ferðaskrifstofur þegar þær starfa hér á landi. Sama gildir þá um íslenska ferðaskrifstofu með starfsstöð erlendis. Slík skrifstofa yrði þá að leggja fram tryggingu í því landi þar sem starfsstöðin er. Reynslan hefur einnig sýnt að oft er óvarlegt að treysta tryggingum erlendra ferðaskrifstofa komi til rekstarstöðvunar hér á landi.

     Um c-lið (11. gr.).
    Hér er verið að skýra hugtök sem koma fyrir í lagatextanum og þarfnast greinin ekki frekari skýringar.

     Um d-lið (12. gr.).
    Í greininni eru talin upp almenn skilyrði fyrir leyfi til reksturs ferðaskrifstofu. Þetta ákvæði er í aðalatriðum í samræmi við gildandi lög en þó er sú nýbreytni hér að hafi umsækjandi um ferðaskrifstofu borið ábyrgð á slíkum rekstri á undanförnum fimm árum með þeim afleið ingum að grípa varð til tryggingar skal synja honum um leyfi til ferðaskrifstofureksturs. Hér er verið að reyna að sporna við því að aðilar sem telja verður að hafi nokkuð vafasama fortíð í ferðaskrifstofurekstri setji á fót ferðaskrifstofur æ ofan í æ.

     Um e-lið (13. gr.).
    Um þetta ákvæði er fjallað í athugasemdum við 14. gr. og er vísað til þeirra.

     Um f-lið (14. gr.).
    Í greininni er skýrt hvað tryggingunni er ætlað að greiða. Eins og fyrr segir er tilskipun Evrópusambandsins nr. 90/314/EBE grunnurinn að breytingu á lögunum og í henni er í mjög grófum dráttum skýrt hvað skuli greiða. Ákvæði tilskipunarinnar er svohljóðandi:
    „Skipuleggjandinn og/eða smásalinn sem er aðili að samningnum skulu leggja fram full nægjandi sönnunargögn um tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem greitt hefur verið og fyrir heimflutningi neytandans ef til gjaldþrots kynni að koma.“
    Eins og ljóst er af þessu eru ekki mjög nákvæmar leiðbeiningar um hvað greiða skuli. Þó er ljóst að heimflutningur er alltaf greiddur. Síðari hluti greinarinnar er vandmeðfarnari. Við samningu þessa frumvarps hefur verið litið til nágrannalandanna og þá ekki hvað síst um þennan þátt þess.
    Allt sem þegar hefur verið greitt áður en lagt er upp í alferð skal endurgreitt komi til rekstrarstöðvunar. Hér er átt við farseðla, gistingu, bílaleigubíla og aðra þætti er lúta beint að upphaflegri alferð. Enn fremur er átt við alls kyns menningarviðburði, svo sem leikhús sýningar eða tónleika, enda séu þeir hluti upphaflegrar alferðar. Hafi farþegi þegar hafið ferð og óski hann eftir að ljúka henni skal honum gert það kleift í samræmi við þann samning sem gerður var. Enginn frekari kostnaður var greiddur. Farþegi, sem greitt hefur fyrir gistingu á fjögurra stjörnu hóteli, getur ekki í ljósi rekstrarstöðvunar fært sig á fimm stjörnu hótel og óskað eftir að slík gisting verði greidd af tryggingarfé. Ef ekki tekst að ná samningum við þá aðila er upphaflegum samningi var beint að skal einungis greiða það hlutfall af ferðinni er á við þann þátt. Fáist ekki miðar í fyrirframákveðið leikhús sem farþegi hefur greitt skal gefa honum kost á að fara í annað leikhús enda sé ekki um ólíka viðburði að ræða svo að kostn aðurinn verði mun meiri.
    Óski farþegi eftir að komast heim strax og ljóst er að ferðaskrifstofa hefur stöðvað rekstur skal það tryggt að honum verði endurgreiddur sá hluti ferðarinnar sem eftir er.

     Um g-lið (15. gr.).
    Hér eru fyrirmæli um hvaða gögn viðskiptavinir þurfi að leggja fram til sönnunar kröfu sinni. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringar.

    Um h- og i-lið (16. og 17. gr.).
    Í greininni er kveðið á um upphæð tryggingar. Hér er um grundvallarbreytingar að ræða frá gildandi lögum þar sem kveðið er á um fasta fjárhæð án tillits til umfangs starfsemi ferða skrifstofa. Umfang ferðaskrifstofa er mjög mismunandi. Stærstu ferðaskrifstofurnar hafa hundruð farþega eða jafnvel þúsundir erlendis í einu meðan þær minnstu eru ekki með nema örfáa. Hér er um mjög áhættusaman rekstur að ræða þar sem almennir neytendur geta tapað miklum fjármunum. Ljóst er að tryggingar þær sem í gildi eru samkvæmt gildandi lögum hrökkva hvergi nærri til ef stór ferðaskrifstofa verður gjaldþrota. Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 90/314/EBE er skylt að tryggja að allir farþegar, sem erlendis kunna að dveljast á vegum ferðaskrifstofu, komist heim komi til rekstrarstöðvunar auk þess sem greiða skal allt það fé sem viðskiptvinur hefur lagt út vegna ferðarinnar. Að núgildandi lögum er ljóst að þessari tilskipun er ekki fullnægt svo viðunandi sé. Því er nú boðuð sú breyting að binda upphæð tryggingar ferðaskrifstofa við veltu þeirra þannig að tryggt sé að trygging sé í samræmi við umfang hennar á hverjum tíma. Ársreikningar skulu lagðir fram svo að ætíð á að vera öruggt að trygging sé nægjanleg.
    Ekki er gerður greinarmunur á tryggingu ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofa. Gert er ráð fyrir að trygging skuli vera 70% af veltu tveggja söluhæstu mánaðanna í röð, 40% af veltu fjögurra söluhæstu mánaðanna í röð eða 20% af veltu af heildarsölu árs miðað við tryggingarskylda veltu. Með tryggingarskyldri veltu er gert ráð fyrir að fyrirtæki kunni að hafa ýmislegt annað á prjónunum en ferðaskrifstofustarfsemi og er því gert ráð fyrir að ferðaskrifstofustarfsemin sé aðgreind í ársreikningum. Í 16. gr. er heimild fyrir samgöngu ráðherra til að gefa út reglur um aðskilnað í bókhaldi ferðaskrifstofa vegna tryggingarskyldrar starfsemi. Vegna ferðaskrifstofa er enn fremur nauðsynlegt að taka tillit til svokallaðrar BSP-tryggingar en hana þurfa allar ferðaskrifstofur, sem gefa út farseðla í reglubundnu áætlunarflugi, að hafa. Slík trygging er fullnægjandi komi til þess að áætlunarflug stöðvist.
    Í 17. gr. er enn fremur kveðið á um að ef ferðaskrifstofa uppfyllir ekki þá lagaskyldu að leggja fram endurskoðaða ársreikninga árlega sé ráðuneytinu heimilt að fella leyfi til reksturs ferðaskrifstofu úr gildi. Í slíkum tilfellum er ferðaskrifstofum gert kleift að bæta ráð sitt innan mjög þröngs frests. Ákvæði af þessu tagi er óhjákvæmilegt eigi að vera unnt að hafa virkt eftirlit með rekstri ferðaskrifstofa á hverjum tíma.
    Þá er ráðuneytinu enn fremur gefin heimild til að grípa inn í rekstur ferðaskrifstofu ef ástæða er til að ætla að rekstur hennar gangi mjög erfiðlega. Þá er heimilt til að fá löggiltan endurskoðanda til að yfirfara bókhald ferðaskrifstofunnar til að ganga úr skugga um hvort rekstur hennar sé í hættu.

     Um j-lið (18. gr.).
    Hér er kveðið á um að trygging til ferðaskrifstofureksturs skuli gilda jafnlengi og leyfið sjálft, enn fremur að trygging skuli vera til reiðu í allt að sex mánuði eftir að leyfi hefur verið fellt úr gildi. Á þeim tíma ætti að vera ljóst hvert umfang tjónsins er, þ.e. hvort nauðsynlegt er að grípa til tryggingarinnar. Sé hins vegar ljóst miklu fyrr hvernig lyktir mála verða er þó gert ráð fyrir að heimilt sé að afhenda trygginguna fyrr.

     Um k-lið (19. gr.).
    Í þessari grein er kveðið á um form tryggingar. Umsækjendum er heimilt að leggja trygg ingarféð í reiðufé til ráðuneytisins eða inn í viðurkennda banka- eða peningastofnun auk þess sem þeim er heimilt að leggja fram bankaábyrgð eða yfirlýsingu um tryggingu frá viður kenndu tryggingafélagi.
    Þar sem frumvarp þetta felur í sér umtalsverða hækkun á tryggingum frá því sem nú er er ljóst að ferðaskrifstofur eiga erfitt með að leggja tryggingu fram í reiðufé. Því var sú leið farin að heimila umsækjendum að tryggja sig hjá tryggingafélagi eða kaupa bankaábyrgð þannig að ef til rekstrarstöðvunar kemur verði ráðuneytinu gert kleift að ganga að slíkri tryggingu eða bankaábyrgð.

     Um l-lið (20. gr.).
    Hér er samgönguráðherra veitt heimild til að tilnefna tilsjónarmann til að sjá um uppgjör tryggingar ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu kemur. Þetta er fyrst og fremst gert vegna þess að hér er um sérhæft og tímafrekt verkefni að ræða sem illa samræmist öðrum störfum ráðuneytisins. Hingað til hefur uppgjör vegna tryggingarfjár ferðaskrifstofa verið í höndum starfsmanna ráðuneytisins og reynslan sýnir að eðlilegra væri að hafa utanað komandi aðila í þessu verkefni. Það er líka ljóst að með frumvarpi þessu er umsýsla vegna uppgjörs tryggingarfjár mun meiri en verið hefur svo að þörfin fyrir tilsjónarmann af þessu tagi er brýn komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofu.

     Um m-lið (21. gr.).
    Greinin er samhljóða 15. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringar.

     Um n-lið (22. gr.).
    Greinin er samhljóða 16. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringar.

     Um o-lið (23. gr.)
    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum


um skipulag ferðamála, nr. 117/1994.


    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að setja skýrari reglur en nú gilda um rekstur ferðaskrifstofa hér á landi, einkum um skiptingu ferðaskrifstofuleyfa og fjárhæð trygginga sem nota má til heimflutnings farþega komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrif stofu.
    Í h-lið 1. gr. frumvarpsins er lögð til hærri viðmiðun á tryggingarfjárhæðinni. Í stað þess að miða við 10 m.kr. eins og nú er skulu ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur leggja fram tryggingu sem nemur 70% af veltu tveggja söluhæstu mánaðanna í röð, 40% af veltu fjögurra söluhæstu mánuðanna í röð eða 20% af heildarveltu á ári vegna tryggingarskyldrar starfsemi og skal sú niðurstaða sem gefur hæsta tryggingu gilda. Trygging skal þó aldrei vera lægri en 10 m.kr. vegna ferðaskrifstofu og 2 m.kr. vegna ferðaskipuleggjanda.
    Samkvæmt o-lið 1. gr. frumvarpsins verður samgönguráðherra heimilt að taka gjöld af ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum sem renna til samgönguráðuneytis til að standa straum af kostnaði við eftirlit sem hlytist af samþykk frumvarpsins. Er hér um um að ræða kostnað af bókhaldsrannsóknum og öðrum þeim þáttum sem nauðsynlegir eru til að sannreyna fjárhæð trygginga. Gert er ráð fyrir að árlega yrði innheimt um 30 þús. kr. gjald af um 40 ferðaskrifstofum sem gæfi af sér 1,2 m.kr.
    Ekki verður um kostnaðarauka fyrir ríkissjóð að ræða, verði frumvarpið að lögum.