Ferill 559. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 950 – 559. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Verðlagsnefnd búvara, skipuð sex mönnum, ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu.
    Samtök launþega tilnefna tvo fulltrúa í nefndina. Skal annar þeirra tilnefndur af stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og hinn af stjórn Alþýðusambands Íslands. Noti annar aðilinn ekki tilnefningarrétt sinn færist réttur hans til hins.
    Stjórn Bændasamtaka Íslands og stjórnir búgreinasamtaka, sem hlotið hafa viðurkenningu skv. 4. gr. og starfa fyrir búgreinafélög þeirra afurða sem verðlagðar eru hverju sinni, tilnefna tvo fulltrúa í nefndina sameiginlega. Skal annar þeirra tilnefndur til að fjalla eingöngu um verðmyndun til framleiðenda. Skal hann víkja úr nefndinni fyrir fulltrúa samtaka afurðastöðva í nefndinni þegar fjallað er um verðmyndun hjá afurðastöðvum.
    Samtök afurðastöðva fyrir búvörur tilnefna tvo fulltrúa í nefndina. Skulu þeir tilnefndir þannig að í nefndinni starfi hverju sinni fulltrúar frá þeirri vinnslugrein sem um er rætt hverju sinni. Annar þessara fulltrúa skal tilnefndur til að starfa aðeins í nefndinni þegar nefndin fjallar um verðmyndun hjá afurðastöðvum og kemur í stað fulltrúa framleiðenda sem víkur sæti.
    Landbúnaðarráðherra tilnefnir einn fulltrúa í nefndina og er hann formaður hennar.
    Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt og aðalmenn. Ákvarðanir í nefndinni skulu teknar með einföldum meiri hluta atkvæða. Komi upp jöfn staða atkvæða sker atkvæði formanns úr um niðurstöðu.
    Tilnefningu fulltrúa í verðlagsnefnd skal lokið 15. júní ár hvert. Nú notar einhver aðili ekki rétt sinn til tilnefningar og skal landbúnaðarráðherra þá tilnefna mann í nefndina í stað samtaka framleiðenda og samtaka afurðastöðva en félagsmálaráðherra á sama hátt í stað samtaka launþega. Nefndin skal fullskipuð 1. júlí ár hvert.
    Hagstofustjóri og forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins skulu vera verðlagsnefnd til aðstoðar.

2. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Verðlagsnefnd ákveður við upphaf hvers verðlagsárs, í fyrsta sinn 1. september 1998, lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda sem miðast við 1. flokks mjólk með skilgreindu efnainnihaldi. Hverri afurðastöð er heimilt að greiða framleiðendum hærra verð en lágmarks verð. Verðlagsnefnd ákveður leyfileg afföll af verði mjólkur sem ekki stenst kröfur sem 1. flokks mjólk. Ákvörðun um lágmarksverð mjólkur skal byggjast á gerð verðlagsgrundvallar fyrir bú af hagkvæmri stærð, með framleiðsluaðstöðu þar sem tekið er mið af opinberum heilbrigðis- og aðbúnaðarkröfum og hagkvæmum framleiðsluháttum. Áætlað vinnuframlag skili endurgjaldi hliðstæðu og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni. Ákvörðun verðlagsnefndar um lágmarksverð skal tekin til endurskoðunar innan verðlagsársins komi fram um það ósk í nefndinni. Framleiðslukostnaður á nautgripakjöti til framleiðenda skal metinn og skráður af verðlags nefnd við ákvörðun á lágmarksverði mjólkur. Heimilt er verðlagsnefnd að ákveða að skráning á verði nautgripakjöts falli niður. Landssambandi kúabænda er þá heimilt að gefa út við miðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka nautgripakjöts.
    Verðlagsnefnd metur við upphaf hvers verðlagsárs framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú, í fyrsta sinn 1. september 1998. Miða skal við kostnaðarútreikninga er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstrargjöld, launakostnað og afurðir meðalbús sem er rekið við eðlilegar framleiðsluaðstæður. Tilgreina skal ársvinnu á sauðfjárbúi af stærð sem miðað er við og virða endurgjald fyrir vinnuframlag til samræmis við kjör þeirra sem vinna sambærileg störf og hafa svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð í starfi á almennum vinnu markaði. Mat verðlagsnefndar skal taka til endurskoðunar innan verðlagsársins komi fram um það ósk í nefndinni. Landssamtökum sauðfjárbænda er heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka kindakjöts.
    Til ákvörðunar á framleiðendaverði annarra búvara en afurða sauðfjár og nautgripa skal verðlagsnefnd semja um verðlagsgrundvöll er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstrargjöld, launakostnað og afurðir bús sem næst meðalbúi að stærð, sem er rekið við eðlilegar framleiðsluaðstæður, komi fram um það óskir frá Bændasamtökum Íslands og viður kenndum samtökum búvöruframleiðenda í viðkomandi grein skv. 2. mgr. 4. gr. Tilgreina skal ársvinnu á búinu og virða endurgjald fyrir vinnuframlag til samræmis við kjör þeirra sem vinna sambærileg störf og hafa svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð í starfi á almennum vinnumarkaði. Verðlagsgrundvöllurinn gildir fyrir tvö ár í senn frá byrjun verðlagsárs og skal hann vera tilbúinn fyrir þann tíma ár hvert nema annað sé ákveðið með samkomulagi í verðlagsnefnd. Nefndinni er hvenær sem er heimilt að taka mið af verðlagsbreytingum vegna fjármagns- og reksturskostnaðar svo og launabreytingar á tímabilinu, komi fram um það óskir í nefndinni. Verðlagsgrundvöllur hvers tímabils framlengist sjálfkrafa um tvö ár í senn ef honum er ekki sagt upp af fulltrúum samningsaðila með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Nefndin getur þó komið sér saman um annan frest.
    Við kostnaðarútreikninga skulu beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda teljast til tekna og koma til lækkunar á verði þeirra afurða sem beinar greiðslur taka til.

3. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Hagstofa Íslands skal afla fullnægjandi gagna fyrir verðlagsnefnd um framleiðslukostnað búvara, tekjur annarra stétta og verð og verðbreytingar á einstökum kostnaðarliðum verðlags grundvallar. Verðlagsnefnd skal í samráði við Hagstofu Íslands setja reglur um öflun gagna.
    Hagþjónusta landbúnaðarins skal árlega afla rekstursreikninga frá bændum, nægilega margra að dómi Hagstofu Íslands, er sýni raunverulegan framleiðslukostnað hinna ýmsu búvara. Skulu þeir vera tilbúnir og uppgerðir fyrir 15. júní ár hvert fyrir næsta ár á undan. Reikningar þessir skulu vera til afnota fyrir Hagstofu Íslands og verðlagsnefnd. Stjórn Hag þjónustu landbúnaðarins, ásamt Hagstofu Íslands, skipuleggur þetta starf hennar í samráði við verðlagsnefnd.
    Verðlagsnefnd getur ákveðið að efna til sérstakra rannsókna í því skyni að fá betri upplýsingar um þau atriði er máli skipta fyrir verðlagningu búvara. Skylt er að stofna til slíkra rannsókna ef þrír nefndarmenn eða fleiri krefjast þess. Skal nefndin í því efni leita samstarfs við Hagstofu Íslands, Hagþjónustu landbúnaðarins og aðrar opinberar stofnanir, svo og Framleiðsluráð landbúnaðarins, að því leyti sem rannsóknirnar snerta starfssvið viðkomandi stofnana. Telji umræddar stofnanir sig ekki geta látið í té starfslið til þess að gera þær rannsóknir er verðlagsnefnd hefur ákveðið að fram skuli fara er nefndinni heimilt að ráða til þess nauðsynlegt starfslið, enda komi samþykki landbúnaðarráðherra til.
    Skylt er einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum að láta þeim er rannsóknir gera í té nauðsynlegar upplýsingar að viðlögðum dagsektum sé upplýsingaskyldu ekki sinnt.

4. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Verðlagsnefnd ákveður heildsöluverð búvara sem verðlagðar eru skv. 8. gr., að teknu tilliti til afurðaverðs til framleiðenda og rökstuddra upplýsinga um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara, nema annað sé tekið fram í samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 30. gr. laganna. Nefndin getur ákveðið að efna til sérstakra rannsókna í því skyni að fá betri upplýsingar um þau atriði er máli skipta fyrir ákvörðun heildsöluverðs á búvörum með hlið stæðum hætti og segir í 11. gr.
    Verðlagsnefnd er, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., heimilt í samkomulagi um heildsöluverð að gera tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur til afurðastöðva, enda sé það samhljóða ákvörðun nefndarinnar.
    Verðlagsnefnd getur, að fengnum tillögum afurðastöðva eða samtaka þeirra, heimilað af urðastöðvum að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Samningar þessir skulu hljóta staðfestingu verðlagsnefndar.

5. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er verðlagsnefnd að breyta heildsöluverði á búvörum hafi orðið breytingar á afurðaverði til framleiðenda, sbr. 8. gr., eða rekstrarkostnaði og vinnulaunum við vinnslu búvara, komi fram um það ósk innan nefndarinnar.

6. gr.

    16. gr. laganna orðast svo:
    Verðlagsnefnd getur, að fenginni umsögn Framleiðsluráðs, ákveðið að undanskilja ein stakar vörutegundir verðlagningarákvæðum skv. 13. gr. þegar samkeppni er að mati nefnd arinnar næg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag.

7. gr.

    21. gr. laganna orðast svo:
    Innheimta skal hjá afurðastöð 1,8% verðskerðingargjald af úrvinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts, sem ætlað er til sölu á innlendum markaði, í sama skyni og 20. gr. kveður á um. Ráðherra ákveður viðmiðunarkostnað að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

8. gr.

    22. gr. laganna orðast svo:
    Frá og með 1. september 1998 skal innheimta verðtilfærslugjald hjá afurðastöðvum af hverjum innvegnum mjólkurlítra í afurðastöð innan greiðslumarks. Gjald þetta telst til heild sölu- og dreifingarkostnaðar sé hann ákveðinn af verðlagsnefnd. Verðtilfærslugjaldið skal vera 2,65 kr. á hvern lítra mjólkur. Gjald þetta greiðist út á tilteknar mjólkurafurðir við sölu innan lands eftir ákvörðun verðlagsnefndar.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Við kaup á kindakjöti frá framleiðendum eða samkomulag um að annast sölu þess skal tilgreina hvort kjötið sé til sölu innan lands eða til útflutnings, en greiðslur fyrir kindakjöt skulu vera óháðar greiðslumarki lögbýlisins.
     b.      Í stað orðanna „kjöt af dilkum“ í 6. mgr. kemur: „kjöt af sauðfé“

10. gr.

    Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Um framleiðslu og greiðslumark mjólkur 1998– 2005.

11. gr.

    44. gr. laganna orðast svo:
    Markmið með ákvæðum þessa kafla um framleiðslu mjólkur eru:
     a.      Að skapa rekstrarumhverfi fyrir framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða sem leiði af sér aukna hagkvæmni.
     b.      Að bæta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu svo að nauðsynleg nýliðun og eðlileg endurnýjun fjárfestinga geti orðið.
     c.      Að nýta á sem bestan hátt skilyrði til framleiðslu mjólkur fyrir markað innan lands og aðra þá markaði sem teljast hagkvæmir og viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.

12. gr.

    45. gr. laganna orðast svo:
    Heildargreiðslumark mjólkur er tiltekið magn mjólkur, mælt í lítrum, sem beingreiðslur ríkissjóðs miðast við. Heildargreiðslumark mjólkur skal ákveðið þremur mánuðum fyrir upphaf hvers verðlagsárs. Við ákvörðun þess skal byggt á neyslu innlendra mjólkurvara sem farið hafa um afurðastöðvar undanfarið tólf mánaða tímabil og áætlun Framleiðsluráðs landbúnaðarins fyrir komandi verðlagsár, að teknu tilliti til birgða. Við mat á neyslu og birgðum skal miða við gildandi stuðla um samsetningu mjólkurafurða samkvæmt ákvörðun Framkvæmdanefndar búvörusamninga. Verði sala mjólkurafurða undir heildargreiðslumarki ársins þannig að birgðir aukist kemur mismunur til lækkunar á heildargreiðslumarki næsta árs. Á sama hátt hækkar heildargreiðslumark ef sala eykst. Birgðir sem verða til vegna framleiðslu einstakra mjólkurframleiðenda umfram heildargreiðslumark, sbr. 3. mgr., teljast ekki til birgða við ákvörðun heildargreiðslumarks.
    Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, ákveða heildargreiðslumark mjólkur fyrir hvert verðlagsár og setja í reglugerð nánari ákvæði um skiptingu þess í greiðslumark lögbýla.
    Framleiðsla mjólkur umfram greiðslumark skal fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur þó heimilað sölu þessara vara innan lands ef heildarframleiðsla verður minni en sala og birgða staða gefa tilefni til.

13. gr.

    46. gr. laganna orðast svo:
    Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Framleiðsluráð landbúnaðarins skal halda skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beingreiðslu samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða aðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega.
    Greiðslumark hvers lögbýlis verður við upphaf verðlagsárs 1998–1999 jafnt greiðslumarki þess eins og það verður skráð við lok verðlagsársins 1997–1998, að teknu tilliti til breytinga sem verða á heildargreiðslumarki vegna verðlagsársins 1998–1999, skv. 1. mgr. 45. gr. laganna og að teknu tilliti til aðilaskipta fyrir 20. ágúst 1998. Að þeim tíma liðnum breytist greiðslumark hvers lögbýlis í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki, við aðilaskipti með greiðslumark eða vegna tilfærslna á greiðslumarki milli lögbýla samkvæmt reglum sem landbúnaðarráðherra setur.
    Sé greiðslumark ekki nýtt til framleiðslu að neinu leyti í full tvö ár fellur það niður, enda hafi Framleiðsluráð landbúnaðarins tilkynnt eiganda lögbýlis um rétt til sölu eða geymslu greiðslumarksins. Framkvæmdanefnd búvörusamninga er heimilt að ráðstafa þessu greiðslu marki til frumbýlinga, en að öðru leyti bætist það við greiðslumark annarra lögbýla í hlutfalli við skráð greiðslumark þeirra. Óski framleiðandi eftir að halda greiðslumarki á lögbýlinu án þess að nýta það til framleiðslu getur hann lagt það inn til geymslu hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins, lengst til 1. september 2005. Greiðslumark sem þannig er geymt tekur ekki breytingum á geymslutímanum.

14. gr.

    47. gr. laganna orðast svo:
    Heimil eru aðilaskipti greiðslumarks á milli lögbýla, enda séu uppfyllt skilyrði þau sem ráðherra setur í reglugerð. Öll viðskipti með greiðslumark skulu fara um einn markað sem Framleiðsluráð landbúnaðarins eða annar aðili annast samkvæmt ákvörðun ráðherra.
    Aðilaskipti með greiðslumark taka ekki gildi fyrr en staðfesting Framleiðsluráðs landbún aðarins liggur fyrir. Sé ábúandi lögbýlis annar en eigandi þess þarf samþykki beggja fyrir flutningi greiðslumarks frá lögbýli.
    Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýli og skal það sérstaklega skráð á nafn hans. Nú vill leiguliði selja slíkt greiðslumark og skal jarðareigandi þá eiga forkaupsrétt að greiðslumarkinu á markaðsverði sem síðast liggur fyrir skv. 1. mgr.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um markaðssetningu og aðilaskipti með greiðslumark og skráningu þess.

15. gr.

    48. gr. laganna orðast svo:
    Beingreiðsla er framlag úr ríkissjóði til framleiðenda mjólkur og skal svara til 47,1% af verði mjólkur eins og það er ákveðið skv. 8. gr. laganna. Greiðslu til hvers lögbýlis samkvæmt greiðslumarki þess er heimilt að skipta á þann veg að hluti greiðslunnar verði óháður fram leiðslu, að því tilskildu að framleiðsla lögbýlis sé ekki minni en tilskilið lágmark sem hlutfall eða heild af greiðslumarki, hluti greiðist eftir framleiðslu og hluti greiðist þannig að það stuðli að sem jafnastri dreifingu innleggs eftir mánuðum. Beingreiðsla skal greiðast mánaðarlega og skal framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveða nánar greiðslutilhögun og fráviksmörk beingreiðslu fyrir upphaf hvers verðlagsárs, að fengnum tillögum Landssambands kúabænda.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð, að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga, nánari reglur um beingreiðslur, m.a. um framkvæmd þeirra, greiðslutil högun, fráviksmörk og ráðstöfun beingreiðslna vegna ónýtts greiðslumarks.

16. gr.

    Í stað orðsins „fimmmannanefnd“ í 1. mgr. 19. gr., 1. mgr. 26. gr. og 2. mgr. 64. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli: verðlagsnefnd búvöru. Orðin „og fimmmannanefnd“ í 2. málsl. 66. gr. laganna falla brott.

17. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr stafliður, K, svohljóðandi:     Heimilt er landbúnaðarráðherra, að fengnum tillögum verðlagsnefndar búvara, að verja til eftirfarandi verkefna eftirstöðvum af verðmiðlunargjöldum skv. C-lið ákvæða til bráðabirgða sem ekki hefur verið ráðstafað:
     1.      Rannsókna- og þróunarverkefna í framleiðslu og vinnslu mjólkur.
     2.      Endurmenntunar er leiði til meiri gæða og hagræðingar í framleiðslu mjólkur.
     3.      Hagrannsókna vegna verðlagningar og úttekta á stöðu framleiðslu og/eða vinnslu mjólkur.
     4.      Lækkunar á tilteknum mjólkurafurðum.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi felldar 9.–10., 12., 14., 17., 18. og 56.–58. gr., 2.–4. málsl. 59. gr., 60. og 61. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Fram til 1. september 1998 skulu verðákvarðanir fyrir búvörur fara eftir þeim ákvæðum sem í gildi eru fyrir gildistöku þessara laga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan landbúnaðarráðherra og í samráði við Bændasamtök Íslands. Tilgangur frumvarpsins er að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, vegna ákvæða í samningi frá 17. desember 1997, um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands, en sá samningur tekur við af samningi um stjórnun mjólkur framleiðslu frá 15. ágúst 1992 sem byggðist á samningi sömu aðila um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt sem undirritaður var 11. mars 1991.
    Samningurinn um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar byggist á áliti sjömannanefndar frá 4. nóvember 1997 um framleiðslu og vinnslu mjólkur. Sjömannanefnd sem er skipuð aðil um vinnumarkaðarins, fulltrúum bænda og ríkisins var falið af landbúnaðarráðherra í sept ember 1996 að vinna að stefnumörkun í málefnum landbúnaðarins. Verkefni nefndarinnar fólust í að athuga rekstrarskilyrði landbúnaðarins hérlendis í samanburði við nágrannalöndin, athuga verðlagningu búvara og samkeppnislöggjöf, innflutningsvernd fyrir búvörur, hagræðingu við framleiðslu og vinnslu búvara og smásöluverslun og verðlagslöggjöf um viðskipti með búvörur. Álit nefndarinnar um framleiðslu og vinnslu mjólkur, sem samn ingurinn um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar byggist á, inniheldur úttekt á þróun í framleiðslu og vinnslu mjólkur á síðustu árum, hvaða áhrif samningur um stjórnun mjólkurframleiðslunnar frá 1992 hefur haft og tillögur um hvert beri að stefna á næstu árum í málefnum mjólkurframleiðenda og mjólkuriðnaðar og í markaðsmálum greinarinnar.
    Með búvörusamningnum sem gerður var í ágúst 1992 voru gerðar grundvallarbreytingar á starfsskilyrðum mjólkurframleiðslunnar. Útflutningsbætur voru aflagðar, framleiðslu skilyrði voru þrengd og niðurgreiðslur voru færðar af heildsölustigi yfir í beingreiðslur til bænda. Heildargreiðslumark mjólkur við upphaf samningsins var lækkað úr 104,5 milljón lítrum í 100 milljón lítra og leyfð var sala á greiðslumarki milli framleiðenda. Gerð var tiltekin krafa til mjólkurframleiðenda og mjólkurbúa um hagræðingu sem leiddi til lækkunar á raunverði mjólkur til bænda og neytenda. Til að ná því fram var m.a. ráðstafað fjármunum úr verðmiðlunarsjóði til úreldingar á mjólkurbúum og í hagræðingarverkefni meðal bænda. Markmið samningsins frá 1992 um stjórnun mjólkurframleiðslunnar hafa að flestu leyti gengþið eftir. Helst hefur orðið eftir að ná fram þeirri hagræðingu sem að var stefnt ásamt því að afkomumöguleikar mjólkurframleiðenda hafa versnað samanborið við almenna afkomu fólks í líkum störfum. Athuganir Hagþjónustu landbúnaðarins fyrir sjömannanefnd gefa þá þróun til kynna, þó svo að ekki hafi farið fram nákvæm úttekt eða samanburður. Af þessari ástæðu m.a. hefur eiginfjárstaða mjólkurframleiðenda, sem könnun Hagþjónustunnar náði til, versnað verulega árin 1992–1996.
    Samningur sá, sem nú liggur fyrir og undirritaður var 17. desember sl., spannar tímabilið 1998–2005. Um efni hans vísast til fylgiskjala I og II með frumvarpinu.
    Í samningnum er byggt á þessum markmiðum:
     1.      Að skapa rekstrarumhverfi í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða sem leiði af sér aukna hagkvæmni í vaxandi samkeppni við innfluttar búvörur.
     2.      Að bæta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu svo að nauðsynleg nýliðun verði og eðlileg endurnýjun fjárfestinga geti orðið.
     3.      Að nýta á sem bestan hátt skilyrði til framleiðslu mjólkur fyrir markað innan lands og aðra þá markaði sem teljast hagkvæmir og viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.
    Meginbreytingarnar, sem ákvæði samningsins fela í sér, verða tíundaðar hér á eftir.

Aukið frjálsræði og sveigjanleiki í verðlagningu mjólkur og mjólkurafurða.
    Samið er um að ákvörðun mjólkurverðs til bænda breytist í skráningu lágmarksverðs í stað fastrar verðlagningar og að skráning á heildsöluverði mjólkur og mjólkurafurða verði aflögð eigi síðar en 30. júní 2001. Vinnan við verðlagningu verði einfölduð með því að í stað þess að verðlagsnefnd búvara, svonefnd sexmannanefnd, ákveði verð til bænda og fimmmannanefnd ákveði heildsöluverð mjólkur og mjólkurafurða verði allar verðlagsákvarðanir á hendi verð lagsnefndar búvara og fimmmannanefnd hætti störfum. Sú breyting komi til framkvæmda eftir að yfirstandandi verðlagsári lýkur þann 31. ágúst 1998. Jafnframt er skipun á fulltrúum í verðlagsnefndina breytt með tilliti til þess að nefndin taki fullnaðarákvarðanir og að ekki verði unnt að skjóta ágreiningsefnum til yfirnefndar ef upp koma.

Endurskoðun og mat á hagkvæmni framleiðslustjórnunar.
    Samið er um að fyrirkomulag framleiðslustjórnunar haldist óbreytt fyrst um sinn og komi til endurskoðunar á samningstímanum. Fram er sett það markmið að auka beri sveigjanleika núgildandi framleiðslustjórnunar, auðvelda eigi tilfærslu á greiðslumarki milli framleiðenda, auðvelda nýliðun og stuðla að raunhæfu verðlagi á greiðslumarki. Í samningnum er kveðið á um að könnun á mögulegum leiðum að þessu markmiði fari fram fyrir 1. júní 1998. Þá eru ákvæði um að öll kvótaviðskipti fari um einn markað og að þegar liðin eru fjögur ár af samningstímanum verði lagt sérstakt mat á stöðu framleiðslustjórnunar og hvort, hvernig og þá hvenær hana eigi að leggja niður og hvað taki við.

Hagræðing og stuðningur.
    Samið er um að fjármunum, sem eftir verða í verðmiðlunarsjóði mjólkur þegar lögbundnum verkefnum lýkur, verði ráðstafað til rannsókna- og þróunarverkefna fyrir mjólkurframleiðsl una, endurmenntunar til að auka hagræði og gæði framleiðslunnar, hagrannsókna í þágu mjólkurframleiðslunnar og til lækkunar á tilteknum mjólkurafurðum. Landbúnaðarráðherra taki ákvörðun um ráðstöfun fjármunanna, að fengnum tillögum verðlagsnefndarinnar. Enn fremur leggi ríkissjóður fram á þremur árum 22,5 millj. kr. til rannsókna, þróunarverkefna og endurmenntunar í mjólkurframleiðslu og til að stuðla að þróun á starfsemi afleysingahringa hjá mjólkurframleiðendum.

Önnur atriði.
    Samið er um að skráning og útreikningur á greiðslumarki lögbýla verði með sama hætti og er í gildandi samningi frá 1992. Jafnframt að heildargreiðslumark mjólkur, sem kemur til skipta milli framleiðenda, skuli fara eftir neyslu innlendra mjólkurvara á sama hátt og í gildandi mjólkursamningi og að stuðningshlutfall haldist óbreytt, eða 47,1% af framleiðslu kostnaði mjólkur. Sú breyting er þó gerð þar á að stuðninginn skal miða við lágmarksverð mjólkur til bænda. Samkvæmt gildandi samningi skal hann miðast við svokallað verðlags grundvallarverð sem er skráð verð til framleiðenda. Framleiðslu umfram innanlandsþörf skal á sama hátt og áður ráðstafa á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Verksvið verðlagsnefndar búvara er víkkað þannig að það nái til verðlagningar í heildsölu, til viðbótar því að verðleggja til framleiðenda. Það er gert með því að fimmmannanefnd er lögð niður og verkefni hennar færð til verðlagsnefndar búvöru. Þá er skipan nefndarinnar breytt nokkuð. Fulltrúum neytenda í nefndinni fækkar úr þrem í tvo við það að stjórn ASÍ til nefni einn fulltrúa í stað tveggja. Fulltrúum framleiðenda fækkar á sama hátt úr þremur í tvo og jafnframt er gert ráð fyrir að stjórn Bændasamtaka Íslands og stjórnir viðurkenndra sam taka búgreinafélaga, í þeim greinum sem verðlagt er fyrir, tilnefni fulltrúana í sameiningu.
    Nýmæli er að gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra tilnefni fulltrúa í nefndina og sé hann formaður nefndarinnar. Enn fremur er það nýmæli að gert er ráð fyrir fulltrúum frá samtökum afurðastöðva í nefndina er komi frá þeirri vinnslugrein sem verðlagt er fyrir hverju sinni. Þetta er sama fyrirkomulag og er gildandi fyrir fimmmannanefnd, en í henni taka sæti fulltúar afurðastöðva í þeirri vinnslugrein sem fjallað er um hverju sinni. Fulltrúar frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði taka því þátt í verðlagningu þegar fjallað er um verðlagsmál mjólkur og fulltrúar Landssamtaka sláturleyfishafa þegar fjallað er um verðlags mál sláturafurða. Gert er ráð fyrir að samtök afurðastöðva eigi einn fulltrúa í nefndinni þegar fjallað er um verðlagningu til framleiðenda, en tvo þegar fjallað er um verðlagningu á vinnslu- og heildsölustigi. Annar fulltrúi framleiðenda víki þá úr nefndinni sem verður sem áður sex manna. Komi ekki tilnefning frá samtökum launþega í nefndina tilnefnir félagsmálaráðherra í þeirra stað en landbúnaðarráðherra í stað samtaka afurðastöðva. Sama á við ef samtök afurðastöðva eru ekki starfandi.
    Með þessari breytingu laganna hverfur hlutverk sáttasemjara ríkisins við verðlagningu búvara komi upp ágreiningur. Á sama hátt fellur niður verkefni þriggja manna úrskurðar nefndar sem skal skera úr ágreiningi um verðlagningu búvara reynist sáttaumleitanir árangurs lausar.
    Ákvarðanir í verðlagsnefnd búvöru verða teknar með einföldum meiri hluta atkvæða. Til að tryggja meiri hluta í nefndinni, komi upp ágreiningur, fær atkvæði formanns tvöfalt vægi komi upp jöfn staða atkvæða.

Um 2. gr.


    Greinin felur í sér nýmæli er varðar fyrirkomulag um verðlagningu á afurðum nautgripa. Í stað þess að miða verðlagningu á mjólk og nautgripakjöti við afurðir meðalbús skal miða verðlagninguna við bú af hagkvæmri stærð, með framleiðsluaðstöðu þar sem tekið er mið af opinberum heilbrigðis- og aðbúnaðarkröfum. Með þessu fyrirkomulagi eru verðlagsnefnd gefnar frjálsari hendur við mat á því hvernig verðlagsgrundvallarbú fyrir mjólk er fundið, þar sem nefndinni er ekki skylt að miða við reikningsleg meðaltöl. Verðlagsnefnd skal ákvarða lágmarksverð til framleiðenda fyrir mjólk, sem hverri afurðastöð ber að greiða að lágmarki, í stað þess að skrá fast verð. Í áliti sjömannanefndar frá 4. nóvember 1997 er lagt til að verðskráningu á nautgripakjöti verði hætt eigi síðar en 1. september 1998. Verðlagsnefnd skal samt sem áður meta framleiðslukostnað nautgripakjöts við gerð verðlagsgrundvallar fyrir mjólkurframleiðsluna við ákvörðun lágmarksverðs. Því er gert ráð fyrir að tillögur nefndarinnar um fyrirkomulag á verðlagningu á nautgripakjöti komi til framkvæmda eigi síðar en 1. september 1998.
    Nýmæli er að viðurkenndum samtökum skv. 4. gr. laganna er heimilað að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir nautgripakjöt og kindakjöt. Það á sér hliðstæðu í að verðlagsnefnd búvara hefur skráð annað verð á einstökum flokkum nautgripakjöts og kindakjöts en hefur numið áætluðum framleiðslukostnaði. Það hefur verið gert í samræmi við tillögur frá landssamtökum þessara búgreina hverju sinni. Verð þetta hefur hins vegar verið fast verð en ekki viðmiðunarverð eins og hér er lagt til, þar sem í gildandi löggjöf er einungis gefinn kostur á að verðlagsnefnd búvara ákveði fast verð fyrir afurðir einstakra búgreina til framleiðenda eða gefi það frjálst og þá falli það undir ákvæði samkeppnislaga, nr. 8/1993.
    Í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að breyting verði gerð á fyrirkomulagi verð ákvörðunar verðlagsnefndar búvöru fyrir afurðir annarra búgreina en sauðfjár og nautgripa.

Um 3. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 11. gr. í gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að verðlagsnefnd búvara ákveði heildsöluverð búvara í stað fimm mannanefndar er verði lögð niður. Fimmmannanefnd hefur verðlagt vinnslu- og heildsölu kostnað afurða nautgripa, sauðfjár og alifugla. Samkvæmt samningi um framleiðslu sauðfjár afurða frá 1. október 1995 var gert ráð fyrir að heildsöluverðlagningu sauðfjárafurða yrði hætt haustið 1997. Þeirri ákvörðun var frestað af fimmmannanefnd til haustins 1998. Í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar frá 17. desember sl. eru ákvæði um að verðlags nefnd búvara sem starfar skv. 8. gr. laganna verðleggi mjólk í heildsölu og jafnframt að þeirri verðlagningu verði hætt ekki síðar en 30. júní 2001. Það er því talið rökrétt að ákvarðanir, sem kunna að verða teknar um opinbera verðlagningu búvara í vinnslu og heildsölu, færist til verðlagsnefndar búvara og að fimmmannanefnd hætti störfum við lok yfirstandandi verðlagsárs, sem lýkur 31. ágúst 1998. Ákvæði er um að verðlagsnefndin geti heimilað afurðastöðvum í mjólkuriðnaði að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli afurða, komi um það tillögur frá samtökunum eða einstökum afurðastöðvum. Það er í samræmi við álit sjömannanefndar frá nóvember 1997 og í samningi um starfsskilyrði mjólkurfram leiðslunnar frá desember 1997. Það er jafnframt í samræmi við núgildandi fyrirkomulag við verðlagningu mjólkur og mjólkurafurða sem fimmmannanefnd ákveður. Sú verðtilfærsla milli afurða á rót sína að rekja til þess tíma er niðurgreiðslum á verði mjólkur var breytt í beinar greiðslur til bænda árið 1992, sbr. skýringar við 8. gr. hér á eftir. Samningur um verðtilfærslu milli afurðastöðva mun ekki binda aðrar afurðastöðvar en þær sem að honum standa. Öllum afurðastöðvum verður frjálst að taka þátt í þessum samningum eða standa utan þeirra. Þeir taka ekki gildi nema með samþykki verðlagsnefndar. Efnislega eru þessi ákvæði samhljóða 59. gr. núgildandi laga sem heimilar samninga milli Framleiðsluráðs landbúnaðarins og afurðastöðva í mjólkuriðnaði er kveði á um verðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda milli mjólkurbúa. Fimmmannanefnd er heimilt að grípa inn í þessa samninga.
    Að öðru leyti fjallar greinin um sama efni og núgildandi 13. og 14. gr.

Um 5. gr.


    Greinin er hliðstæð gildandi ákvæðum í 15. gr. laganna og þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Greinin er hliðstæð gildandi ákvæðum í 16. gr. laganna og fjallar um heimild fyrir verð lagsnefnd búvara til að taka ákvörðun um hvort búvörur skuli verðlagðar til framleiðenda og í heildsölu þegar nefndin telur næga samkeppni á markaði til staðar til að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag.

Um 7. gr.


    Stjórnir Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands gera tillögu um að fella niður innheimtu á gjaldi sem tekið er af kindakjöti við útflutning vegna útflutningsuppgjörs og nemur 30 kr. á kg. Samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 407/1997 um útflutning kindakjöts er því gjaldi, sem ekki er endurgreitt samkvæmt ákvæðum laganna, ráðstafað til að greiða uppbót á skilaverð, þannig að jafnaður verði með sama hlutfalli sá munur sem er á milli meðalverðs fyrir útflutning og verðs þess útflutnings sem ekki nær meðalverði, og til að greiða framlag til jöfnunar á flutningskostnaði sláturfjár sé sláturfé flutt til slátrunar í hús með ESB- eða USA-leyfi. Talið er að með skiptingu á betri útflutningsmörkuðum milli sláturleyfishafa, svo sem gert er samkvæmt heimild í lögunum, sé ekki nauðsynlegt að viðhafa jöfnun á útflutningsverði samkvæmt núgildandi 21. gr. laganna.

Um 8. gr.


    Lagt er til að lögfest verði verðtilfærslugjald af innveginni mjólk í afurðastöð sem er innan greiðslumarks.
    Við lögfestingu ákvæða í búvörusamningnum frá 1992 var niðurgreiðslu á verði mjólkur og mjólkurafurða í heildsölu hætt en jafnvirði þeirra greitt beint til bænda. Niðurgreiðslur voru þá mjög breytilegar sem hlutfall af verði hverrar afurðar. Í hlutfalli af framleiðslu kostnaði voru niðurgreiðslur mestar á smjöri og mjólkurdufti. Til að valda ekki röskun á markaði mjólkurafurða við þessa tilfærslu á fjármunum, var tekin ákvörðun í fimmmanna nefnd um að heimila tilfærslur á milli verðs einstakra afurða sem hefur verið við lýði síðan. Það er gert á þann hátt að við heildsöluverðlagningu er fært af verði einnar afurðar til annarrar þó þannig að summa fjárhæðar til hækkunar vara verði jöfn summu fjárhæða til lækkunar annarra vara. Hér er lagt til að gjald þetta verði bundið í lögum og að það verði ákveðið 2,65 kr. af hverjum lítra mjólkur og notað til að lækka verð tiltekinna afurða. Sé miðað við núverandi markað mjólkur og mjólkurafurða mun gjald þetta nema tæplega 270 millj. kr. á ári. Gjald þetta mun verða til árlegrar endurskoðunar og koma til athugunar hjá verðlagsnefnd búvara þegar nefndin hefur verið skipuð. Innheimta þessa gjalds nemur nú rúmlega 300 millj. kr. og mun því lækka um ríflega 35 millj. kr. Gera má ráð fyrir áframhaldandi lækkun gjaldsins.

Um 9. gr.


    Stjórnir Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands gera tillögu um að undan þiggja allt útflutningsskylt kindakjöt, sem slátrað er utan haustsláturtíðar, útflutningsuppgjöri. Í núgildandi lögum nær undanþágan einungis til dilkakjöts.

Um 10. gr.


    Greinin felur í sér breytingu á fyrirsögn X. kafla laganna og er það í samræmi við gildis tíma hins nýja búvörusamnings.

Um 11. gr.


    Í greininni eru talin upp markmið samningsins um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, hliðstætt og gert var við samning um framleiðslu sauðfjárafurða skv. 36. gr. laganna.

Um 12. gr.


    Greinin fjallar um heildargreiðslumark mjólkur og er efnislega samhljóða ákvæðum í 44. gr. gildandi laga.

Um 13. gr.


    Greinin fjallar um greiðslumark lögbýla, skráningu þess, handhafa beingreiðslu og til færslu á greiðslumarki milli lögbýla.

Um 14. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða núgildandi 46. gr. Nýmæli eru þau að viðskipti með greiðslumark skuli fara um einn markað. Ákvæðin byggjast á tillögum sjömannanefndar frá 4. nóvember 1997 um viðskipti með greiðslumark. Þær eru settar fram með það að markmiði að viðskipti með greiðslumark valdi sem minnstri hækkun á framleiðslukostnaði mjólkur afurða, sem hátt verðlag á framleiðslurétti hefur leitt af sér og að upplýsingar um þróun við skipta með greiðslumark verði opnari og áreiðanlegri. Þetta viðskiptafyrirkomulag á sér fyrir mynd hjá öðrum þjóðum, svo sem í Danmörku og Kanada þar sem þetta fyrirkomulag er talið gefa góða raun.

Um 15. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 47. gr. núgildandi laga. Betur er skýrt en í gildandi lögum hvernig megi skipta beingreiðslu eftir framleiðsluaðstæðum, m.a. til að tryggja jafnari fram leiðslu mjólkur eftir árstíðum.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 17. gr.


    Samkvæmt C-lið ákvæða til bráðabirgða í gildandi lögum er heimilað að verja allt að 450 milljónum kr. af verðmiðlunargjöldum af mjólk, sem var óráðstafað árið 1992, til að styrkja úreldingu mjólkurbúa eða hagræðingu í mjólkuriðnaði samkvæmt sérstökum reglum sem land búnaðarráðherra setur. Einnig er heimilt að veita styrki af þessu fé til búháttabreytinga á lögbýlum með mjólkurframleiðslu sem liggja fjarri afurðastöð og á lögbýlum þar sem flutn ingskostnaður mjólkur vex verulega vegna niðurlagningar afurðastöðvar. Ráðstafað hefur verið af þessum fjármunum til úreldingar á tveimur mjólkurbúum samkvæmt ákvæðunum og til búháttabreytinga á fimm lögbýlum. Samkvæmt reglum nr. 204 18. mars 1996 um ráðstöfun á verðmiðlunarfé til hagræðingar í mjólkuriðnaði og mjókurframleiðslu, rann frestur til umsókna um framlög til hagræðingar hjá afurðastöðvum og bændum út þann 1. september 1997. Til umfjöllunar eru enn þá umsóknir um hagræðingu í mjólkuriðnaði sem ekki hafa verið teknar til ákvörðunar og því ekki unnt sem stendur að gera sér grein fyrir því um hversu háa fjárhæð er að ræða sem verður til ráðstöfunar samkvæmt nýju bráðabirgðaákvæði frum varpsins. Eftirstöðvar hagræðingarfjárins eru sem stendur 55 millj. kr.
    Ekki er gert ráð fyrir að binda í búvörulögum framlag, alls 22,5 millj. kr., er veitt verði árin 1999–2001 skv. 7. gr. samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 17. desember 1997. Veiting þess verði gerð með fjárlögum hverju sinni.

Um 18. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Verðákvarðanir, sem hafa verið teknar á grundvelli ákvæða í núgildandi lögum, gilda út verðlagsárið sem lýkur 31. ágúst 1998.



Fylgiskjal I.


Samningur
um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu.

    Landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Bændasamtök Íslands gera með sér eftirfarandi samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu á grundvelli 30. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

1. gr.
Markmið samningsins.

    Markmið þessa samnings eru:
         1.1.     Að skapa rekstrarumhverfi í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða sem leiði af sér aukna hagkvæmni.
         1.2.     Að bæta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu svo að nauðsynleg nýliðun verði og eðlileg endurnýjun fjárfestinga geti orðið.
         1.3.     Að nýta á sem bestan hátt skilyrði til framleiðslu mjólkur fyrir markað innan lands og aðra þá markaði sem teljast hagkvæmir og viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.

2. gr.


Um hugtök.


         2.1.      Heildargreiðslumark er tiltekið magn mjólkur, mælt í lítrum, sem ákveðið er skv. 3. gr. og skiptist í greiðslumark lögbýla.
         2.2.      Greiðslumark lögbýla er tiltekið magn mjólkur, mælt í lítrum, sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli, sbr. gr. 4.2. og veitir rétt til beinnar greiðslu úr ríkissjóði.
         2.3.      Bein greiðsla er stuðningur við framleiðslu og markað fyrir mjólkurafurðir, greiddur úr ríkissjóði til greiðslumarkshafa.

3. gr.


Heildargreiðslumark mjólkur.


         3.1.     Heildargreiðslumark mjólkur skal ákveðið þremur mánuðum fyrir upphaf verðlagsárs vegna framleiðslu þess verðlagsárs. Við þá ákvörðun skal byggt á neyslu innlendra mjólkurvara sem farið hafa um afurðastöðvar undanfarandi tólf mánaða tímabil og áætlun Framleiðsluráðs landbúnaðarins um neyslu mjólkurafurða fyrir komandi verð lagsár að teknu tilliti til birgða. Miða skal við gildandi stuðla um samsetningu mjólkur afurða samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndar búvörusamninga. Verði sala mjólkur afurða undir heildargreiðslumarki ársins, þannig að birgðir aukist, kemur mismunur til lækkunar á heildargreiðslumarki næsta árs. Á sama hátt hækkar heildargreiðslumark ef sala eykst. Birgðir sem verða til vegna framleiðslu einstakra mjólkurframleiðenda umfram greiðslumark, sbr. gr. 3.3, teljast ekki með við ákvörðun heildargreiðslumarks.
         3.2.     Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, ákveða heildargreiðslumark fyrir hvert verðlagsár.
         3.3.     Rétthafa greiðslumarks er heimilt að framleiða mjólk umfram greiðslumark og skal sú framleiðsla fara á erlendan markað á ábyrgð hans og viðkomandi afurðastöðvar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur þó heimilað sölu þessara vara innan lands ef heildarframleiðsla verður minni en sala og birgðastaða gefur tilefni til.

4. gr.


Greiðslumark lögbýla.


         4.1.     Greiðslumark er bundið við lögbýli og skal það skráð á eina kennitölu, nema um fleiri sjálfstæða rekstraraðila sé að ræða. Þar sem fleiri aðilar standa saman að búrekstri skal það skráð sérstaklega hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins.
         4.2.     Greiðslumark hvers lögbýlis verður við upphaf gildistíma þessa samnings jafnt greiðslumarki þess eins og það verður skráð hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins við lok verðlagsársins 1997–1998 að teknu tilliti til breytinga sem gerðar kunna að verða á heildargreiðslumarki vegna verðlagsársins 1998–1999 samkvæmt grein 3.1 og að teknu tilliti til viðskipta með greiðslumark fyrir 1. september 1998. Síðan breytist greiðslumark hvers lögbýlis í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki, við breytingar skv. gr. 5.2 og til samræmis við kaup eða sölu á greiðslumarki skv. gr. 5.3 eða á annan þann hátt sem kann að verða ákveðið samkvæmt samningi þessum.
         4.3.     Beinar greiðslur skulu nema 47,1% af lágmarksverði á hverjum tíma sem kveðið er á um í 6. gr. Skal hluti þeirra greiðslna vera óháður framleiðslu að því tilskildu að framleiðsla lögbýlis sé ekki minni en tilskilið lágmark, hluta skal greiða eftir fram leiðslu og hluta skal greiða þannig að það stuðli að æskilegri dreifingu innleggs eftir mánuðum. Beinar greiðslur skulu greiðast mánaðarlega og skal Framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveða nánar greiðslutilhögun og fráviksmörk beinna greiðslna fyrir upphaf hvers verðlagsárs, að fengnum tillögum Landssambands kúabænda.

5. gr.


Skráning og viðskipti með greiðslumark.


         5.1.     Framleiðsluráð landbúnaðarins skal, í umboði landbúnaðarráðuneytisins, halda skrá yfir rétthafa greiðslumarks og færa í hana jafnóðum þær breytingar sem á því verða. Rétthafaskipti á greiðslumarki taka gildi þegar staðfesting Framleiðsluráðs land búnaðarins liggur fyrir.
         5.2.     Nýti rétthafi greiðslumarks það ekki til framleiðslu að neinu leyti í full tvö verðlagsár, fellur það niður hjá viðkomandi rétthafa, enda hafi Framleiðsluráð landbúnaðarins kynnt honum rétt hans til sölu eða geymslu greiðslumarksins. Framkvæmdanefnd búvörusamninga er heimilt að ráðstafa þessu greiðslumarki til frumbýlinga, en að öðru leyti bætist það við greiðslumark annarra rétthafa í hlutfalli við skráð greiðslumark þeirra. Óski rétthafi eftir að halda greiðslumarki á jörð sinni án þess að nýta það til framleiðslu, getur hann lagt það inn til geymslu hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins út gildistíma samnings þessa. Greiðslumark þetta breytist ekki meðan það er í geymslu.
         5.3.     Viðskipti með greiðslumark eru heimil. Sé ábúandi annar en eigandi, þarf samþykki hans fyrir sölu. Öll viðskipti með greiðslumark skulu fara um einn markað sem Fram leiðsluráð landbúnaðarins, eða annar aðili sem landbúnaðarráðherra ákveður, annast. Starfsreglur kvótamarkaðar skulu ákveðnar í reglugerð sem landbúnaðarráðherra setur að fenginni umsögn Landssambands kúabænda.
         5.4.     Í þeim tilgangi að auka sveigjanleika núverandi kvótakerfis, auðvelda tilfærslu á greiðslumarki milli framleiðenda, auðvelda nýliðun og stuðla að raunhæfu verðlagi á greiðslumarki, munu samningsaðilar standa að könnun og mati á leiðum til að ná þessum markmiðum. Könnun þessi skal m.a. ná til mats á áhrifum hugsanlegra breyt inga á hag mjólkurframleiðenda, tilkostnað mjólkurframleiðslunnar hjá framleiðendum og afurðstöðvum, nýliðun innan greinarinnar og jafnvægi milli framleiðslu og eftir spurnar eftir mjólkurafurðum. Stefnt skal að því að könnuninni ljúki fyrir 1. júní 1998. Verði niðurstaða könnunarinnar sú að einhver eða einhverjar tillögur á grunni hennar þjóni þeim markmiðum sem fram koma í 1. grein samningsins og þeim sem nefnd eru hér að ofan, mun Framkvæmdanefnd búvörusamninga, í samráði við stjórn Landssambands kúabænda, beita sér fyrir að efni þeirra verði fellt inn í samninginn eða tengt framkvæmd hans.

6. gr.


Afurðaverð.


         6.1.     Verðlagsnefnd búvara annast verðlagningu mjólkurvara. Nefndin skal þannig skipuð:
                 Tveir fulltrúar launþegasamtaka tilnefndir af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambandi Íslands. Noti annar aðilinn ekki tilnefningarrétt sinn færist réttur hans til hins. Noti hvorugur aðilinn tilnefningarrétt sinn tilnefnir félagsmálaráðherra fulltrúa í þeirra stað.
                 Tveir fulltrúar tilnefndir af Bændasamtökum Íslands og Landssambandi kúabænda sameiginlega. Einn fulltrúi tilnefndur af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Noti þau ekki tilnefningarrétt sinn skal landbúnaðarráðherra tilnefna fulltrúa í þeirra stað.
                 Landbúnaðarráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar.
                 Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt. Komi upp jöfn staða atkvæða þegar fjallað er um málefni mjólkurframleiðslunnar, sker atkvæði formanns úr um niðurstöðu.
         6.2.     Verðlagsnefnd ákveður við upphaf hvers verðlagsárs, í fyrsta sinn 1. september 1998, lágmarksverð fyrir mjólk til bænda sem miðast við 1. flokks mjólk. Hverri afurðastöð er heimilt að greiða framleiðendum hærra verð en lágmarksverð. Afurðastöð er heimilt að greiða lægra verð fyrir mjólk sem ekki stenst viðmiðunargæði samkvæmt reglugerð um mjólk og mjólkurvörur. Ákvörðun lágmarksverðs skal miða við bú af hagkvæmri stærð, með framleiðsluaðstöðu þar sem tekin er hliðsjón af heilbrigðis- og aðbúnaðar kröfum og hagkvæmum framleiðsluháttum. Áætlað vinnuframlag skili endurgjaldi hlið stæðu og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni. Ákvörðun verðlagsnefndar um lágmarksverð skal tekin til endurskoðunar innan verðlagsársins komi fram um það ósk í nefndinni.
         6.3.     Verðlagsnefnd ákveður í hvert sinn sem ákvörðun um lágmarksverð til bænda er tekin, heildsöluverð mjólkur og mjólkurafurða. Verðlagning í heildsölu nær til nýmjólkur, rjóma, undanrennu, skyrs (pakkaðs og ópakkaðs), smjörs, osta (26 og 17% í heilum og hálfum stykkjum), undanrennudufts, þ.m.t. undanrennuduft til iðnaðar og nýmjólkur dufts, þ.m.t. nýmjólkurduft til iðnaðar. Verðlagning skal taka mið af þróun almennra rekstrarskilyrða fyrirtækja í líkum rekstri svo og afkomu mjólkurbúanna.
                 Verðlagsnefnd skal strax við upphaf starfs síns hefja aðlögun heildsöluverðs einstakra vörutegunda að breyttu rekstrarumhverfi og viðskiptaháttum. Slíkri aðlögun einstakra vörutegunda skal lokið eigi síðar en 30. júní 2001, en þá skal verðlagsnefnd hætta verð lagningu mjólkur og mjólkurvara í heildsölu.
         6.4.     Afurðastöðvar skulu greiða gjald vegna verðtilfærslu af hverjum mjólkurlítra innan greiðslumarks, sem veginn er inn í mjólkurbú. Gjaldið greiðist út vegna sölu tiltekinna afurða eftir ákvörðun Verðlagsnefndar og samkvæmt reglugerð sem landbúnaðar ráðherra setur.
                 Verðlagsnefnd getur að fengnum tillögum afurðastöðva eða samtaka þeirra, ákveðið frekari verðtilfærslu til niðurfærslu á verði tiltekinna afurða með takmarkað verðþol.
            Fyrirkomulag verðtilfærslna tekur gildi 1. september 1998 og gildir til loka samnings ins.

7. gr.


Hagræðing og stuðningur.


         7.1.     Þeim fjármunum sem eftir verða í verðmiðlunarsjóði þegar lokið er lögbundnum verkefnum hans skal ráðstafa til eftirtalinna verkefna:
            a.    Rannsókna- og þróunarverkefna í framleiðslu og vinnslu mjólkur.
            b.    Endurmenntunar er leiði til meiri gæða og hagræðingar í framleiðslu mjólkur.
            c.    Hagrannsókna vegna verðlagningar og úttektar á stöðu framleiðslu og/eða vinnslu mjólkur.
            d.    Lækkunar á tilteknum mjólkurafurðum.
            Landbúnaðarráðherra skal ráðstafa fjármunum úr sjóðnum til þessara verkefna að fengnum tillögum verðlagsnefndar búvara.

         7.2     Ríkissjóður leggur fram á samningstímanum fjármuni sem framkvæmdanefnd búvörusamninga ráðstafar til verkefna undir a- og b-lið í 1. lið 7. gr. að fengnum tillögum fagráðs í nautgriparækt. Heimilt er að ráðstafa hluta þessara fjármuna til þróunar á starfsemi afleysingahringa hjá mjólkurframleiðendum.

Ár 1999 2000 2001
Upphæð í millj. kr. 10,0 7,5 5,0

8. gr.


Innflutningur mjólkurvara.


         8.1.     Aðilar eru sammála um að ekki verði gripið til lækkunar tollverndar eða annarra ráðstafana sem orsakað gætu ójafnvægi milli framleiðslu og sölu mjólkurvara, umfram þær skuldbindingar sem gerðar verða með alþjóðasamningum.

9. gr.


Endurskoðun samnings.


         9.1.     Samningsaðilar geta hvor um sig farið fram á viðræður um endurskoðun á samningnum eða einstökum atriðum hans.
         9.2.     Að fjórum árum liðnum frá upphafi gildistíma samningsins skulu samningsaðilar kanna framkvæmd hans og í framhaldi af þeirri könnun hefja viðræður um áframhaldandi stefnumótun og gerð nýs samnings. Við þá vinnu skal m.a. lagt sérstakt mat á stöðu kvótakerfisins og hvort, hvernig og þá hvenær leggja á það niður og hvað taki þá við.

10. gr.


Framkvæmd og gildistími.


         10.1.     Samningur þessi gildir frá og með 1. september 1998 til og með loka verðlagsárs árið 2005.
         10.2.     Samningsaðilar skulu hafa reglubundið samráð um framkvæmd samnings þessa. Komi upp ágreiningur um framkvæmd samningsins eru aðilar sammála um að skipaður verði hverju sinni þriggja manna gerðardómur til að skera úr um ágreiningsefni. Aðilar tilnefni hvor fyrir sig einn mann í dóminn. Leitað skal til Hæstaréttar Íslands um að tilnefna formann dómsins, nema aðilar komi sér saman um oddamann. Úrskurður gerðardóms er bindandi fyrir samningsaðila.
                 Samningur þessi er gerður í tveimur samhljóða eintökum. Skulu Bændasamtök Íslands halda öðru en landbúnaðarráðherra hinu.

Reykjavík, 17. desember 1997


F.h. Bændasamtaka Íslands
(Með fyrirvara um samþykki
í almennri atkvæðagreiðslu
mjólkurframleiðenda)


Ari Teitsson





Guðmundur Lárusson





Guðmundur Þorsteinsson





Hjörtur Hjartarson





Pétur Helgason



F.h. ríkisstjórnar Íslands
(Með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis)



Guðmundur Bjarnason


landbúnaðarráðherra




Friðrik Sophusson


fjármálaráðherra





Fylgiskjal II.


Álit sjömannanefndar um framleiðslu og vinnslu mjólkur.



(Myndað. 28 síður.)






Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu,
verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, vegna ákvæða í samningi frá 17. desember 1997 um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands. Sá samningur tekur við af samningi um stjórnun mjólkurframleiðslu frá 15. ágúst 1992. Samningurinn byggist á áliti sjömannanefndar frá 4. nóvember 1997 um framleiðslu og vinnslu mjólkur.
    Eftirfarandi atriði munu hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs:
          Skv. 1. gr. frumvarpsins verður verksvið verðlagsnefndar búvara víkkað þannig að það nái til verðlagningar í heildsölu til viðbótar því að verðleggja til framleiðenda. Skipan nefndarinnar breytist nokkuð og munu sitja í henni 5–6 menn eftir atvikum. Samkvæmt þessu hættir fimmmannanefnd störfum en kostnaður við hana nam um 4,2 m.kr. á árinu 1997. Samkvæmt frumvarpinu kæmi þessi breyting til framkvæmda eftir að yfirstandandi verðlagsári lýkur 31. ágúst 1998.
          Skv. 2. gr. frumvarpsins ákveður verðlagsnefnd búvara lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda og skal nefndin miða verðlagninguna við bú af hagkvæmri stærð í stað þess að miða við afurðir meðalbús. Með þessu eru verðlagsnefnd gefnar frjálsari hendur við mat á því hvernig verðlagsgrundvallarbú fyrir mjólk er fundið þar sem nefndinni yrði ekki lengur skylt að miða við reikningsleg meðaltöl. Þá metur verðlagsnefnd fram leiðslukostnað á kjöti og Landssambandi kúabænda verður heimilt að gefa út viðmiðunar verð til framleiðenda fyrir einstaka flokka nautgripakjöts.
             Skv. 12. gr. frumvarpsins skulu öll viðskipti með greiðslumark fara fram á einum markaði í þeim tilgangi að viðskipti með greiðslumark valdi sem minnstri hækkun á fram leiðslukostnaði mjólkurafurða.
             Loks ber að nefna að skv. 15. gr. frumvarpsins helst beingreiðsluhlutfallið óbreytt eða 47,1% af verði mjólkur eins og það er ákveðið á hverjum tíma.
             Samanlögð áhrif framantalinna breytinga eru talin stuðla að stækkun búa og frekari hagræðingu sem gæti leitt til lægri kostnaðar ríkisins.
          Skv. 8. gr. er lagt til að frá og með 1. september 1998 skuli innheimt verðtilfærslugjald hjá afurðastöðvum af hverjum innvegnum mjólkurlítra í afurðastöð innan greiðslumarks. Verðtilfærslugjaldið skal nema 2,65 kr. á hvern lítra mjólkur og er ætlað til verðlækkunar á tilteknum afurðum. Miðað við óbreytt greiðslumark, þ.e. 102 millj. lítra, mun árleg innheimta gjaldsins nema um 270 m.kr. Ráðstöfun þessa fjár yrði sýnd í fjárlögum á samnefndum tilfærslulið.
          Samkvæmt ákvæði 7.2 í 7. gr. samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 17. desember 1997 skal ríkissjóður á samningstímanum leggja fram fjármuni sem fram kvæmdanefnd búvörusamninga ráðstafar til tiltekinna hagræðingar- og stuðningsverk efna. Samtals er um að ræða 22,5 m.kr. sem áformað er að skiptist þannig að 10 m.kr. séu lagðar fram greiddar árið 1999, 7,5 m.kr. árið 2000 og 5 m.kr. árið 2001. Líta verður svo á að samþykki Alþingi þetta frumvarp felist í því viljayfirlýsing um að veita þessa fjármuni til samræmis við samninginn.
    Samkvæmt forsendum samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 17. desember 1997 er ekki að búast við miklum breytingum á greiðslumarki mjólkur a.m.k. til 30. júní 2001 er verðlagning mjólkur verður gefin frjáls. Hér er því gert ráð fyrir því að greiðslumarkið verði áfram 102 millj. lítra. Samantekið má ætla að áhrif frumvarpsins á ríkissjóð, verði það að lögum, nemi um 5,8 m.kr. árið 1999, allt að 3,3 m.kr. árið 2000 og 0,8 m.kr. árið 2001. Eftir það gæti dregið úr kostnaði ríkissjóðs við mjólkurframleiðslu en það er undir ólíkum þáttum komið eins og árangri bænda, viðbrögðum markaðarins við frjálsri verðlagningu og því hvort þær aðferðir sem nota skal til að draga úr kostnaði við viðskipti með framleiðslurétt skila árangri.