Ferill 578. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 983 – 578. mál.Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76 25. júní 1970, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 3. og 4. mgr. kemur: veiðimálastjóri.
     b.      Í stað orðsins „veiðimálastjóra“ í 3. mgr. kemur: veiðimálanefndar.
     c.      Orðin „og veiðimálastjóri“ í 4. mgr. falla brott.

2. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ hvarvetna í 13. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli: veiðimálastjóri.

3. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 7. og 8. mgr. 14. gr. laganna kemur: veiðimálastjóra.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      3. og 4. málsl. 2. mgr. orðast svo: Rétt er veiðimálastjóra að takmarka stangaveiði á friðuðu svæði við ós og setja reglur um veiðitæki og möskvastærð neta við slíka ósa. Þó getur veiðimálastjóri að fenginni umsögn Fiskistofu leyft ádrátt fyrir síld og loðnu á friðuðu svæði tiltekinn tíma ársins.
     b.      Fyrri málsliður 3. mgr. orðast svo: Til verndunar villtra laxastofna er veiðimálastjóra rétt að friða tiltekin svæði í sjó í nágrenni mikilvægra veiðivatna þar sem ekki verði heimiluð starfsemi á sviði fiskeldis og hafbeitar með laxfiska.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 3. mgr. kemur: Veiðimálastjóri.
     b.      Orðin „eftir tillögum veiðimálastjóra“ í 3. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 4. mgr. kemur: Veiðimálastjóra.
     d.      Orðin „og eftir tillögum veiðimálastjóra“ í 4. mgr. falla brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Nú telst sannað að fiskur hrygni í veiðivatni í september og er veiðimálastjóra þá rétt að fenginni umsögn veiðimálanefndar að ákveða að veiðitíma ljúki fyrr í því vatni.
     b.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Rétt er veiðimálastjóra að setja nánari reglur um veiðitíma í vatni hverju að fengnum tillögum hlutaðeigandi veiðifélags og veiðimálanefndar.
     c.      3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Þá er sérstaklega stendur á getur veiðimálastjóri að fenginni umsögn veiðimálanefndar leyft að göngusilungur sé veiddur utan þess tíma í lagnet, á stöng, á dorg og færi.

7. gr.

    Í stað orðsins „Ráðherra“ í 2. mgr. 19. gr. laganna kemur: Veiðimálastjóra.


8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Ráðherra“ kemur: Veiðimálastjóra.
     b.      Orðin „eftir tillögum veiðimálastjóra og“ falla brott.

9. gr.

    21. gr. laganna orðast svo:
    Veiðimálastjóra er rétt að friða heilt vatn gegn allri veiði eða einstökum veiðiaðferðum, enda sé sú friðun nauðsynleg til verndar fiskstofni þess vatns, en leita skal hann samþykkis hlutaðeigandi veiðifélags og veiðimálanefndar.

10. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Veiðimálastjóri gefur út veiðiskírteini.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Orðin „með samþykki ráðherra“ í 3. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 4. mgr. kemur: Veiðimálastjóri.
     c.      Við greinina bætast átta nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             5. Við fiskrækt í ám og vötnum skal einungis nota stofn úr viðkomandi veiðivatni.
             6. Hvers konar flutningur á laxfiskum úr náttúrulegu veiðivatni, hafbeitar- eða eldisstöð í annað náttúrulegt veiðivatn til stangaveiði er óheimill.
             7. Veiðimálastjóri getur veitt undanþágu frá ákvæðum 5. og 6. mgr. að fengnu sérstöku mati á áhrifum framkvæmdarinnar á lífríki veiðivatnsins og aðliggjandi veiðivatna skv. 8. og 12. mgr.
             8. Til þess að fá undanþágu frá banni 5. og 6. mgr. þarf veiðifélag eða eigandi veiðivatnsins sem áformar fiskrækt með framandi stofni eða flutning framandi stofns í veiðivatn að sækja um það til veiðimálastjóra. Undanþágu má að hámarki veita til tveggja ára í senn. Með umsókn skal fylgja greinargerð um framkvæmdina, umsögn dýralæknis fisksjúkdóma um fisksjúkdóma og Veiðimálastofnunar um önnur hugsanleg áhrif fram kvæmdarinnar á lífríkið, þar með talda erfðamengun. Framkvæmdaraðili ber kostnað af gerð umsagna. Veiðimálastjóri setur almennar reglur um slíkar umsagnir.
             9. Innan tveggja vikna frá móttöku birtir veiðimálastjóri með opinberri auglýsingu umsókn framkvæmdaraðila og kallar eftir umsögnum veiðifélaga á viðkomandi vatna sviði um framkvæmdina. Frá og með þeim tíma skal hverjum sem er vera heimill að gangur hjá veiðimálastjóra að umsögnum skv. 8. mgr. Athugasemdum skal skilað til veiðimálastjóra innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar. Innan átta vikna frá því að veiðimálastjóri hefur birt umsókn framkvæmdaraðila skal hann kveða upp rökstuddan úrskurð um það hvort fallist sé á umsókn eða henni hafnað. Veiðimálastjóra er heimilt að binda undanþágu skilyrðum.
             10. Þegar ákvörðun veiðimálastjóra liggur fyrir skal hún kynnt framkvæmdaraðila og þeim sem hlut eiga að máli, þar á meðal öðrum veiðifélögum á viðkomandi vatnasviði. Jafnframt skal birta hana opinberlega.
             11. Ráðherra er heimilt að ákveða með sérstakri reglugerð að innheimt skuli gjald af framkvæmdaraðila vegna kostnaðar embættis veiðimálastjóra af málsmeðferð samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
             12. Úrskurð veiðimálastjóra skv. 9. mgr. má kæra til landbúnaðarráðherra innan fjög urra vikna frá birtingu. Ráðherra skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan átta vikna frá því er beiðni barst honum.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
             2. Veiðimálastjóra er rétt að ákveða allt að tveggja sólarhringa friðun á viku hverri.
     b.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ef beitt er ákvæðum 1. mgr. um friðun í vatni er veiðimálastjóra rétt að leyfa lagnetaveiði til heimilisnota á friðunartímanum.
     c.      4. mgr. orðast svo:
             4. Veiðimálastjóri getur sett reglur um friðun vatnasilungs þar sem hann hrygnir að sumarlagi.

13. gr.

    25. gr. laganna orðast svo:
    Nú telst rétt að uppræta fisk úr veiðivatni, svo sem vegna sjúkdóma eða til þess að rækta aðrar fisktegundir en þær er fyrir voru í vatninu, og skal veiðimálastjóra þá heimilt að fenginni umsögn viðkomandi veiðifélags, Veiðimálastofnunar og Náttúruverndar ríkisins og með sam þykki Hollustuverndar ríkisins að leyfa notkun sérstakra efna við eyðingu fiskstofns vatns með þeim skilyrðum sem þurfa þykir.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 3., 4. og 6. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli: veiðimálastjóri.
     b.      Orðin „eftir tillögum veiðimálastjóra“ í 3. mgr., „og veiðimálastjóri“ í 4. mgr. og „eftir tillögum veiðimálastjóra og“ í 6. mgr. falla brott.

15. gr.

    4. málsl. 1. mgr. 35. gr. laganna orðast svo: Veiðimálastjóra er rétt að veita undanþágu frá ákvæði þessarar málsgreinar þegar sérstaklega stendur á.

16. gr.

    2. málsl. 37. gr. laganna orðast svo: Þó getur veiðimálastjóri leyft að leggja veiðivél út í miðja kvísl, ef eigi er lagt nema í eina.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. og 3. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli orðið: veiðimálastjóri.
     b.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Veiðimálastjóra er þó rétt að veita viðkomandi veiðifélagi undanþágu frá ákvæði þessu, enda mæli veiðimálanefnd með því.
     c.      Orðin „að fengnum tillögum veiðimálastjóra“ í 3. mgr. falla brott.

18. gr.

    Í stað orðsins „Ráðherra“ í 1. mgr. 39. gr. laganna kemur: Veiðimálastjóra.


19. gr.

    58. gr. laganna orðast svo:
    Veiðimálastjóra er rétt með samþykki veiðimálanefndar að veita veiðifélagi undanþágu frá ákvæði 1. mgr. 31. gr. um hlið á girðingum, 1. mgr. 34. gr. um lengd fastra veiðivéla út í vatn og 4. mgr. 34. gr. um fjölda veiðitækja við garð og binda undanþágu þeim skilyrðum sem þurfa þykir.

20. gr.

    2. mgr. 61. gr. laganna fellur brott.     

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. kemur: veiðimálastjóra.
     b.      Í stað orðsins „veiðimálastjóra“ í 1. mgr. kemur: veiðimálanefndar.
     c.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Veiðmálastjóri skal leita umsagnar Veiðimálastofnunar um fyrirhugaða hafbeit ef náttúrulegar aðstæður á svæðinu gefa tilefni til hættu á erfðablöndun.
     d.      Í stað orðsins „ráðherra“ hvarvetna í 3. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli orðið: veiðimálastjóri.
     e.      Orðin „og veiðimálastjóra“ í 3. mgr. falla brott.
     f.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             5. Flutningur seiða í hafbeitarstöð er óheimill fyrr en fullgilt rekstrarleyfi er fengið. Veiðimálastjóri getur þó veitt undanþágu til flutnings á seiðum í hafbeitarstöð hafi stöðin fengið heimild til starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga er varða slíkan atvinnurekstur.

22. gr.

    67. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 66. gr. skal veiðimálastjóri, með samþykki veiðimálanefndar, setja regl ur um töku á laxi er kemur úr sjó í hafbeitarstöð og um merkingar og sýnatöku úr fiskinum.

23. gr.     

    71. gr. laganna orðast svo:
    Veiðimálastjóra er rétt að fenginni umsögn veiðimálanefndar að ákveða friðunarsvæði í sjó framan við frárennsli fiskeldis- og hafbeitarstöðva á sama hátt og kveðið er á um í 7. og 8. mgr. 14. gr.

24. gr.     

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 86. gr. laganna:
     a.      A-liður orðast svo: hann fer með stjórn veiðimála og er ráðherra til aðstoðar um þau mál eins og kveðið er á um í lögum þessum.
     b.      D-liður orðast svo: hann gefur leyfi til merkinga vatnafiska með skilyrðum sem hann setur.
     c.      E-liður orðast svo: hann ber ábyrgð á söfnun skýrslna um veiði, fiskrækt og fiskeldi; hann má fela öðrum aðila söfnun og úrvinnslu gagna.
     d.      F-liður orðast svo: hann skipar veiðieftirlitsmenn.

25. gr.     

    Eftirfarandi breytingar verða á 87. gr. laganna:
     a.      Orðin „og veiðimálastjóra“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðsins „veiðimálastjóri“ í 2. mgr. kemur: framkvæmdastjóri Veiðimálastofnunar.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. og 2. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli orðið: veiðimálastjóri.
     b.      2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Kostnaður við störf þeirra greiðist úr ríkissjóði.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 92. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, f-liður, svohljóðandi: 3‰ af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu vegna sölu á raforku samkvæmt sérsamningum til nýrra stórnotenda.
     b.      2. mgr. orðast svo:
             2. Með stjórn Fiskræktarsjóðs fer veiðimálanefnd. Ákvarðanir um styrki og lán úr sjóðnum skulu háðar samþykki ráðherra.

28. gr.     

    Í stað orðanna „eða 38. gr.“ í f-lið 1. mgr. 98. gr. laganna kemur: 38. eða 62. gr.

29. gr.     

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 24/1997, um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, var stjórnsýsla veiðimála samkvæmt lögunum skilin frá rannsóknum í veiðimálum. Á grundvelli þessara laga var sérstakur framkvæmdastjóri skipaður fyrir Veiðimálastofnun en áður hafði veiðimálastjóri veitt stofnuninni forstöðu. Með frumvarpi þessu, sem samið er að tilhlutan landbúnaðarráðherra, eru lagðar til mikilvægar og aðkallandi breytingar á núgildandi lögum um lax- og silungsveiði. Þær hafa eftirfarandi markmið:
     a.      að færa stjórnsýsluverkefni frá landbúnaðarráðherra til veiðimálastjóra,
     b.      að treysta lagaákvæði er varða verndun og viðhald náttúrulegra stofna laxfiska,
     c.      að efla Fiskræktarsjóð.

Breyting á stjórnsýsluframkvæmd.
    Í núgildandi lögum um lax- og silungsveiði er landbúnaðarráðherra ætlað að veita ýmis leyfi og undanþágur, langoftast að fenginni umsögn eða eftir atvikum tillögum veiðimála nefndar og veiðimálastjóra. Yfirstjórn lax- og silungsveiðimála er í höndum landbúnaðar ráðherra og fer hann því með æðsta stjórnsýsluvald samkvæmt lögunum. Óeðlilegt verður að telja að æðsta stigi stjórnsýslu sé að lögum falin svo víðtæk lagaframkvæmd eins og dæmi eru um í lax- og silungsveiðilögum. Má í þessu sambandi nefna undanþágu til að veiða loðnu til beitu (15. gr.), heimild til að stunda veiði göngusilungs utan hefðbundins veiðitíma (18. gr.), útgáfu veiðiskírteina (22. gr.), ákvarðanir er varða friðun vatnasilungs og um veiði í lagnet til heimilisnota (24. gr.), ákvarðanir um veiðitæki (27. og 38. gr.), veitingu rekstrarleyfa til fiskeldis og hafbeitar (62. gr.), ákvörðun um friðunarsvæði í sjó framan við frárennsli fiskeldis- og hafbeitarstöðva (71. gr.) og skipan veiðieftirlitsmanna (91. gr.). Slík tilhögun leiðir til þess að ekki er til eðlileg málskotsleið innan stjórnsýslunnar, vilji aðili stjórnsýslumáls ekki sætta sig við málsmeðferð og ákvörðun ráðherra í tilteknu máli.

Vernd og viðhald náttúrulegra laxastofna.
    
Á undanförnum árum hafa komið upp vandkvæði við framkvæmd reglugerðar nr. 401/ 1988, um flutning og sleppingu laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna. Við setningu reglugerðarinnar á sínum tíma var haft samráð við hagsmunaaðila, en á þeim tíma voru nokkrar líkur á umtalsverðri hafbeit og fiskeldi í kvíum með ströndum landsins. Á þeim tíma var mönnum ljós sú hætta sem náttúrulegum stofnum getur stafað af fiskeldi, fiskrækt og flutningi fiska milli vatnakerfa til sleppingar. Mest hætta er talin geta stafað af útbreiðslu fisksjúkdóma og óæskilegri blöndun erfðaefnis milli stofna sem þróast hafa aðskildir í þúsundir ára. Sátt náðist um þær takmarkanir og skorður sem settar voru í reglugerðinni við starfsemi fiskeldisfyrirtækja og veiðifélaga. Til stóð, og þess var getið sérstaklega í reglugerðinni, að endurskoða hana fyrir 1. júlí 1990. Af þessari endurskoðun hefur ekki orðið. Með þessu frumvarpi er m.a. lögð til endurskoðun á nokkrum ákvæðum lag anna sem reglugerðin vísar til og í kjölfar þess, ef að lögum verður, gefi landbúnaðarráðherra út nýja reglugerð. Auk þess verður lögfest ótvíræðari lagaheimild fyrir þau ákvæði reglugerðarinnar sem sátt hefur verið um. Þá eru lögð til ný ákvæði sem hvorki eru í lögum né reglugerð.
    Helstu vandkvæði í framkvæmd laganna eru tengd þeirri starfsemi að sleppa fullvaxta fiski (hafbeitarfiski) í ár og vötn til endurveiða, starfsemi hafbeitarstöðva í nálægð við laxveiðiár með náttúrulegum stofnum, að nokkur ákvæði reglugerðar nr. 401/1988 þurfa ótvíræðari lagaheimildir og að önnur eru ekki í takt við það sem nú tíðkast þegar teknar eru ákvarðanir stjórnvalds, samkvæmt stjórnsýslulögum.
    Óumdeilanlegt er að flutningur á lifandi fiski til endurveiði eykur hættu á útbreiðslu fisksjúkdóma. Eftir að kýlaveiki fannst í laxi í Elliðaánum og í hafbeitarstöðinni í Kollafirði árið 1995 var árið 1996 hvergi á landinu veitt undanþága fyrir flutningi á hafbeitarfiski milli vatnasvæða til endurveiði. Undanþágur höfðu verið gefnar undangengin ár skv. 5. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar en þar segir: „Óheimilt er að sleppa fiski í ár eða vötn til endurveiða nema notaður sé stofn af viðkomandi vatnasvæði. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá ákvæði þessu, að fengnu samþykki fisksjúkdómanefndar og viðkomandi veiðifélags.“ Ráðherra (fisksjúkdómanefnd) hefur samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði heimildir til þess að banna þess konar flutning sem hér um getur og vísast þar til 79. gr. laganna en þar segir: „Nú kemur upp næmur sjúkdómur í veiðivatni eða í klak- og eldisstöð eða grunsamlegt þykir, að næmur sjúkdómur leynist í fiski á slíkum stöðum, og er ráðherra rétt að fengnum tillögum fisksjúkdómanefndar að gera hvers konar ráðstafanir, sem taldar eru nauðsynlegar til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.“ Ekki fékkst samþykki hjá fisksjúkdómanefnd fyrir undanþágu árið 1996 eins og áður segir en samþykki fékkst árið1997 með ströngum skilyrðum. Ráðherra gaf undanþágur í kjölfar þess með þeim skilyrðum sem fisksjúkdómanefnd setti.
    Ekki er deilt um það hlutverk sem fisksjúkdómanefnd er fengið í þessu ákvæði reglugerðar innar heldur það að ráðherra er fengið ákvörðunarvald til að veita undanþágu frá banni sem ekki er óyggjandi stoð fyrir í lögum. Vandkvæðin felast í því að telji ráðherra sig ekki geta veitt undanþáguna, þrátt fyrir samþykki fisksjúkdómanefndar og viðkomandi veiðifélags, og byggir hann það á öðrum sjónarmiðum en fram koma í áliti þeirra (t.d. erfðablöndunarhættu eða óæskilegum vistfræðilegum áhrifum), hefur hann ekki til þess nægilega trygga laga heimild. Einnig hafa komið upp deilur um hvaða viðkomandi veiðifélag það sé sem gefa þarf samþykki sitt auk fisksjúkdómanefndar áður en ráðherra megi veita undanþáguna. Í land búnaðarráðuneytinu hefur þetta verið túlkað þannig að átt sé við veiðifélagið fyrir ána eða vatnið sem fyrirhugað er að sleppa fiski í en ekki veiðifélag á aðliggjandi svæði eða félög sem kunna að hafa samtengt vatnakerfi.
    Í 23. gr. gildandi laga, sem fjallar um fiskrækt í ám og vötnum, segir einungis til um hvernig bera skuli sig að við samþykkt áætlunarinnar en hvergi er þess getið að einungis skuli nota viðkomandi stofn árinnar eða vatnsins eins og segir í reglugerðinni. Það er viðurkennt meðal erfða- og vistfræðinga er stunda rannsóknir á laxfiskum að eitt það mikilvægasta fyrir sjálfbæra nýtingu náttúrulegs stofns sé að varðveita sérkenni sem stofninn hefur og eru niðurstaða aðlögunar í þúsundir ára. Þetta hefur lengi verið ráðlagt af alþjóðastofnunum á borð við Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) og Atlantshafslaxverndunarstofnunina (NASCO) sem fjalla um laxfiska og nýtingu þeirra. (Sjá t.d. Guidelines to minimise the threats to wild salmon stocks from salmon aquaculture, útgefið af NASCO 1991.) Ráðstefna í Bath 18.–23. apríl 1997, sem haldin var á vegum þessara stofnana, NASCO og ICES, um áhrif eldislax á náttúrulega laxastofna, færði mönnum enn frekari upplýsingar um hversu frábrugðnir stofnar eru milli tveggja vatna og ekki síður hversu hinn kynbætti lax sem notaður er í fiskeldinu er orðinn frábrugðinn þeim sem enn þá lifir við náttúrulegar aðstæður.
    Í frumvarpi þessu er einnig lagt til að skerpt verði á þeim ákvæðum er varða hafbeit svo að tryggt verði í framtíðinni að við veitingu rekstrarleyfa verði nægilegt tillit tekið til þeirra sjónarmiða er varða erfðamengun.
    Af því sem hér að framan greinir má ljóst vera að illframkvæmanlegt er að notast við þau ákvæði sem eru í núgildandi lögum og reglugerðum sem varða verndun og viðhald þeirrar auðlindar sem hér um ræðir. Enn fremur má benda á Ríósáttmálann um viðhald líffræðilegs fjölbreytileika og sjálfbæra þróun, en með frumvarpinu, ef að lögum verður, er stuðlað að því að ekki sé stefnt í óþarfa hættu þeim fjölbreytileika sem er enn þá í stofnum íslenskra laxfiska.
    Atlantshafslax á mjög undir högg að sækja. Útbreiðsla tegundarinnar og stærð stofna hennar hafa minnkað mjög á þessari öld og einkum síðustu árin eins og gögn Alþjóðahafrann sóknaráðsins sýna og ítrekað hefur verið bent á, t.d. af Alþjóðalaxakvótasjóðnum. Ástæðnanna er bæði að leita í náttúrulegum breytingum á umhverfi en ekki síður vegna að gerða mannsins. Svo er komið að lax er horfinn af stórum svæðum og honum hefur fækkað mjög á öðrum þar sem bæði búsvæðum laxins og laxastofnum hefur verið spillt. Því er afar brýnt að vel sé á málum haldið hér á landi svo að þessi mikilvæga auðlind spillist ekki eða tapist.
    Með frumvarpinu er einnig tekið á veigamiklu atriði er varðar framkvæmd laganna og varðar aðra en þá sem sækja um undanþágu frá banni en telja sig málið varða. Ef litið er á stangaveiði á laxfiskum sem hverja aðra nýtingu á landsins gæðum má segja að ekki hafi gilt sömu sjónarmið um láð og lög. Með skipulags- og byggingarlögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum er þess gætt að þeim sem málið varðar sé gefinn kostur á að koma með athugasemdir um fyrirhugaða landnýtingu. Skipulagsyfirvöld og umhverfisráðherra geta þannig haft úrskurðarvald um fyrirhugaða landnýtingu, sett um hana skilyrði og komið í veg fyrir hana ef hún er ótæk með tilliti til náttúruverndar eða annarra landnýtingarsjónarmiða. Í öllu því ferli er þess gætt að aðilar máls hafi tök á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
    Á síðastliðnum vetri sóttu þrjú veiðifélög um undanþágu til sleppingar á hafbeitarfiski til endurveiði. Gegn tveimur þessara umsókna komu mjög hörð viðbrögð veiðifélaga sem nýta sama eða aðliggjandi vatnakerfi. Helst var bent á aukna hættu á útbreiðslu fisksjúkdóma, erfðamengun og yfirtöku lax á svæðum þar sem bleikja og urriði eru aðaltegundir. Í þriðja tilvikinu var veitingu undanþágu ekki mótmælt enda ekki sýnilegir hagsmunir á borð við þá sem voru í þeim fyrrnefndu.
    Með frumvarpinu er lagt til að með lögum sé báðum aðilum máls tryggð sanngjörn málsmeðferð og að ákvarðanir stjórnvalds séu byggðar á faglegum grunni. Með umsókn til veiðimálastjóra, en henni ber að fylgja álitsgerð dýralæknis fisksjúkdóma og Veiðimálastofn unar, eru stjórnvaldi tryggðar faglegar úttektir óháðra aðila auk greinargerðar þess sem sækir um leyfi til framkvæmda. Þeir sem telja hagsmunum sínum ógnað geta gert athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir. Sætti aðilar máls sig ekki við úrskurð veiðimálastjóra um höfnun umsóknar eða undanþágu frá banni, með eða án skilyrða, úrskurðar landbúnaðarráðherra í málinu sem æðsta stjórnvald.

Fiskræktarsjóður.
    
Fiskræktarsjóður var á sínum tíma settur á laggirnar með það að markmiði að efla fiskrækt í landinu, m.a. með fiskvegagerð og seiðasleppingum. Síðar var bætt við lögin ákvæði sem heimilar styrki til annarra verkefna sem stuðla að aukningu og viðhaldi íslenskra laxfiska. Mikilvægi sjóðsins hefur aukist eftir því sem áhrif manna á náttúru landsins verða meiri. Nú er svo komið að Ísland er eina landið við Norður-Atlantshaf sem ekki hefur orðið fyrir stórfelldu hruni í laxastofnum. Miklu fé er nú varið í öðrum heimkynnum laxins til viðhalds hans og verndunar svo að auðlindin tapist ekki fyrir fullt og allt. Ýmsar ástæður eru fyrir þessu hruni, sumar þekktar en aðrar ókunnar. Áhyggjur manna af að brátt fari á sömu leið með íslenska stofna eiga að vera hvatning til þess að gera sem mögulegt er til þess að efla allar aðgerðir sem bætt geta lífsskilyrði laxastofna okkar. Af þessum sökum er nauðsynlegt að efla Fiskræktarsjóð. Það er unnt að gera með því að að breyta því ákvæði laganna sem kveður á um að aðeins skuli greiða til sjóðsins af raforkusölu til almennings.
    Telja verður að auknar tekjur til Fiskræktarsjóðs samrýmist þeim hugmyndum sem Lands virkjun hefur sett fram í umhverfisstefnu sinni en þar kemur fram að Landsvirkjun mun í framtíðinni þurfa að starfa enn nánar með þeim sem stunda rannsóknir á veiði og gefa leið beiningar um veiðimál. Miðað við meiri áherslu á umhverfissjónarmið í ákvarðanatöku við undirbúning og gerð orkumannvirkja en áður er enn frekar en fyrr þörf á öflugum rannsóknum á vistkerfi vatna.
    Allar rannsóknir á lífríki vatna sem ríkið styrkir með framlögum á fjárlögum eru grunnur að skynsamlegri nýtingu fallvatna. Fiskræktarsjóður með markmiðum sínum eflir einnig þann grunn þekkingar sem við þurfum á að halda til viðhalds þeim auðlindum sem eru í vötnum landsins. Sérstaða sjóðsins er sú að í hann hafa greitt þeir sem hafa haft tekjur af því lífríki sem er í vötnum landsins og fallorkunni sem í þeim er. Sjálfsagt má færa fyrir því rök að veiðiréttareigendur ættu líka að greiða meira til sjóðsins, starfsemi þeirra í kringum sölu á veiðileyfum og þjónustu við veiðimenn er talin velta um 1,0–1,5 milljarði kr. ár hvert. Á þetta hefur verið bent í landbúnaðarráðuneytinu nú hin síðari ár í kjölfar aukins sparnaðar í ríkisrekstri. Veiðiréttareigendur segja á móti að til rannsókna og leiðbeininga í veiðimálum séu einungis veittar um 30 millj. kr. á fjárlögum og finnst þeim það lítið miðað við þá auðlind sem hér er rætt um. Ekki skal útilokað að komast megi að samkomulagi við veiðiréttareigendur um að þeir greiði meira til sameiginlegs sjóðs til viðhalds auðlindarinnar, en á það hefur ekki reynt enn sem komið er.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að vatnsaflsstöðvarnar greiði einnig í sjóðinn af óskírum tekjum sínum vegna sölu á raforku samkvæmt sérsamningum til nýrra stórnotenda sem gerðir verða í framtíðinni. Sé tekið mið af greiðslum í Fiskræktarsjóð árið 1997 af óskírum tekjum vegna sölu raforku til almennings árið 1996 voru tekjur sjóðsins 7,7 millj. kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1.–3. gr.

    Lagt er til að ýmis stjórnsýsluverkefni verði færð frá landbúnaðarráðherra til veiðimála stjóra. Um ástæður þess er vísað til almennra athugasemda með frumvarpinu.

Um 4. gr.

    Auk þess að hér er lagt til að stjórnsýsluverkefni verði færð frá landbúnaðarráðherra til veiðimálastjóra er kveðið á um samráð við Fiskistofu við veitingu leyfa til ádráttar á friðuð um ósasvæðum til veiða á loðnu og síld til beitu. Þetta er talið eðlilegt þar sem um er að ræða veiði á þessum tegundum en um stjórn þeirra er farið samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða og Fiskistofa tekur þátt í framkvæmd þeirra laga.

Um 5.–10. gr.

    Í greinum þessum eru lagðar til breytingar á núgildandi lögum um lax- og silungsveiði sem hafa það að markmiði að færa afgreiðslu stjórnsýslumála frá landbúnaðarráðherra til veiðimálastjóra, af ástæðum sem áður eru nefndar.

Um 11. gr.

    Í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu er fjallað ítarlega um þá breytingu sem hér er lögð til. Í nýjum 5. og 6. mgr. eru bannákvæði en í 7.–12. mgr. er lýst undanþáguferli varðandi leyfi til að nota annan stofn en er á viðkomandi vatnasvæði til fiskræktar og slepp ingar hafbeitarfisks til endurveiði. Þessi ákvæði byggjast á nýjum viðhorfum sem rutt hafa sér rúms með tilkomu m.a. stjórnsýslulaga og laga um mat á umhverfisáhrifum. Að fá undanþágu hjá veiðimálastjóra getur að hámarki tekið 10 vikur frá því sótt er um hana, en að lágmarki 5–6 vikur sé umsóknin birt strax og veiðimálastjóri kveður upp úrskurð sinn að loknum lögmæltum fresti til athugasemda. Komi til þess að miklar athugasemdir séu gerðar við hina áformuðu fiskrækt eða sleppingu til endurveiði og kært sé til ráðherra, sem noti allan sinn tíma til úrskurðar, getur tekið allt að 22 vikum að fá endanlega niðurstöðu í málið. Ekki er talið rétt að gefa aðilum máls lengri tíma til umfjöllunar og úrskurðar en hér er lagt til þar sem algengt er að um not eða leigu á veiðivatni séu teknar ákvarðanir að hausti fyrir komandi veiðitímabil. Með löngu ferli til að taka ákvarðanir í þessum málum væri því verið að takmarka mjög nýtingarmöguleika þar sem sala veiðileyfa fer venjulega fram að vori.

Um 12.–20. gr.

    Greinarnar gera ráð fyrir að ýmis stjórnsýsluverkefni verði færð frá ráðherra til veiði málastjóra.

Um 21. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að veiðimálastjóri, að fenginni umsögn veiðimálanefndar, veiti leyfi til rekstrar fiskeldis- og hafbeitarstöðva í stað ráðherra og að hann geti heimilað aukningu á fjölda slepptra seiða í hafbeit. Enn fremur er lagt til að við veitingu leyfa til hafbeitar verði metin hætta á erfðablöndun hafbeitarstofns við náttúrulega stofna. Þá er lagt til það nýmæli í nýrri málsgrein, 5. mgr., að veiðimálastjóri geti veitt undanþágu til flutnings á seiðum í hafbeitarstöð hafi stöðin fengið heimild til starfrækslu samkvæmt ákvæðum annarra laga. Er þá átt við lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Um 22.–26. gr.

    Greinarnar fjalla um tilfærslu stjórnsýsluverkefna frá landbúnaðarráðherra til veiðimála stjóra. Í 24. gr. frumvarpsins eru einnig lagðar til breytingar á hlutverki veiðimálastjóra sem leiðir af breyttu hlutverki hans í kjölfar breytinga sem lögfestar voru með lögum nr. 24/1997 og áður er getið og því sem hér er lagt til í þessu frumvarpi um flutning á stjórnsýsluverkefn um frá ráðherra til veiðimálastjóra.

Um 27. gr.

    Eins og vikið er að í almennum athugasemdum með frumvarpinu er lagt til að Fiskræktar sjóður fái auknar tekjur í framtíðinni af raforkusölu. Í d-lið 1. mgr. 92. gr. laganna er ein vörðungu gert ráð fyrir að sjóðurinn fái hlutdeild í tekjum vatnsaflsstöðva af orkusölu til al mennings, en greinin gerir ráð fyrir að vatnsaflsstöðvar greiði í framtíðinni í sjóðinn einnig af óskírum tekjum sínum vegna sölu á raforku til nýrra stórnotenda samkvæmt sérsamning um sem gerðir verða eftir gildistöku laga þessara.
    Í 2. mgr. er lögð til breytt skipan stjórnar Fiskræktarsjóðs. Með vísan til þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á verksviði veiðimálamálastjóra, auk þeirra sem hér eru lagðar til, get ur ekki lengur talist eðlilegt að veiðimálastjóri eigi sæti í stjórn Fiskræktarsjóðs. Með grein inni er því lagt til að hann eigi ekki lengur sæti í stjórn hans.

Um 28.–29. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki nánari skýringa.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstof a:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði,
nr. 76/1970, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að formleg afgreiðsla ýmissa stjórnsýsluverkefna verði færð frá landbúnaðarráðherra til veiðimálastjóra. Jafnframt er þar að finna ákvæði varðandi verndun og viðhald náttúrulegra stofna laxfiska og eflingu Fiskræktarsjóðs.
    Eftirfarandi ákvæði frumvarpsins hafa fjárhagsleg áhrif:
     a.      Samkvæmt 11. gr. frumvarpsins er ráðherra heimilt að ákveða með sérstakri reglugerð að innheimt skuli gjald af framkvæmdaraðila vegna kostnaðar embættis veiðimálastjóra af málsmeðferð samkvæmt ákvæðum greinarinnar. Gert er ráð fyrir að fullt samræmi verði á milli gjaldtöku og kostnaðar.
     b.      Samkvæmt 27. gr. frumvarpsins er lagt til að Fiskræktarsjóður fái auknar tekjur af raforkusölu. Í núgildandi lögum fær sjóðurinn hlutdeild í tekjum vatnsaflsstöðva af orku sölu til almennings. Með frumvarpinu er lagt til að vatnsaflsstöðvar greiði einnig í sjóðinn af þeim tekjum sem þær hafa af raforkusölu samkvæmt sérsamningum til nýrra stórnotenda frá og með gildistöku laganna. Samkvæmt þessu munu tekjur sjóðsins aukast eitthvað en ekki er hægt að leggja mat á þá aukningu þar sem um er að ræða samninga sem ekki hafa verið gerðir.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.