Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 987 – 581. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:     
     a.      F-liður orðast svo: að vera banki innlánsstofnana og stuðla að traustum og heilbrigðum viðskiptum á fjármagnsmarkaði.
     b.      Á eftir f-lið kemur nýr liður, g-liður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: að stuðla að greiðri, hagkvæmri og öruggri greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Seðlabankinn tekur við innlánum frá innlánsstofnunum en til þeirra teljast viðskipta bankar, sparisjóðir, útibú erlendra innlánsstofnana og aðrar stofnanir og félög sem heim ilt er lögum samkvæmt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.
     b.      2. mgr. orðast svo:
             Seðlabankinn má ákveða að taka við innlánum frá öðrum lánastofnunum en bönkum og sparisjóðum og frá fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Seðlabankinn getur veitt þeim aðilum sem fjallað er um í 6. gr. og eiga innlánsviðskipti við bankann lán með kaupum verðbréfa eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn metur gildar. Lánsviðskipti þessi geta verið í innlendri eða erlendri mynt.
     b.      2. mgr. fellur brott.

4. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Seðlabankanum er heimilt með samþykki ráðherra að ákveða að lánastofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum sem nemi tilteknu hlutfalli af ráðstöfunarfé eða innlánsfé þeirra. Þá er bankanum heimilt að ákveða að tiltekinn hluti aukningar innlána eða ráðstöfunar fjár við hverja stofnun skuli bundinn á reikningi í bankanum, enda fari heildarinnlánsfé eða ráðstöfunarfé sem viðkomandi stofnun er skylt að eiga í Seðlabankanum ekki fram úr því hámarki sem sett er skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar. Enn fremur er bankanum heimilt að ákveða að verðbréfasjóðir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum.
    Seðlabankinn setur nánari reglur um grundvöll og framkvæmd bindingar skv. 1. mgr. að fengnu samþykki ráðherra, þar á meðal til hvaða lánastofnana og verðbréfasjóða hún tekur. Í þeim reglum má ákveða að bindihlutfall sé mismunandi eftir eðli lánastofnana og verð bréfasjóða og flokkum innlána og annarra skuldbindinga sem bindingin nær til.
    Seðlabankanum er heimilt að setja reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár lánastofnana sem þeim ber ætíð að hafa yfir að ráða. Í þeim má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lánastofnana. Með lausu fé er átt við peninga í sjóði, óbundnar nettóinnstæður í innlendum og erlendum lánastofnunum, ríkisvíxla og aðrar sambærilegar nettóeignir með skemmri binditíma en 90 daga.
    Seðlabankanum er heimilt að setja lánastofnunum reglur um gjaldeyrisjöfnuð. Í slíkum jöfnuði skal auk gengisbundinna eigna og skulda telja skuldbindingar og kröfur sem tengdar eru erlendum gjaldmiðlum utan efnahags, svo sem framvirka samninga og valréttarsamninga.
    Seðlabankinn getur beitt lánastofnanir og verðbréfasjóði viðurlögum samkvæmt ákvæðum 41. gr. sé ákvörðunum bankans varðandi bindiskyldu, laust fé og gjaldeyrisjöfnuð ekki hlítt.

5. gr.

    2., 3. og 4. mgr. 9. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Í því skyni að vinna að markmiðum sínum í peningamálum er Seðlabankanum heimilt að kaupa og selja ríkisskuldabréf og önnur trygg verðbréf á skipulegum verðbréfa markaði eða í beinum viðskiptum við lánastofnanir.
     b.      2. mgr. orðast svo:
             Seðlabankanum er heimilt að gefa út verðbréf í innlendri eða erlendri mynt til að selja lánastofnunum sem geta átt viðskipti við hann. Óheimilt er að framselja slík verðbréf til annarra en lánastofnana sem geta átt innlánsviðskipti við bankann.

7. gr.

    Í stað 13.–17. gr. laganna (IV. kafli, Bankaeftirlit) kemur nýr kafli, IV. kafli, Öflun upplýsinga, með tveimur nýjum greinum, 13.–14. gr., sem orðast svo, og breytast greinatölur samkvæmt því:

    a. (13. gr.)
    Seðlabankinn getur milliliðalaust aflað upplýsinga frá innlánsstofnunum, öðrum lána stofnunum en bönkum og sparisjóðum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu sem eru í viðskiptum við bankann skv. 6. gr., sbr. 7. gr., auk fyrirtækja í greiðslumiðlun, til þess að auðvelda honum að sinna hlutverki sínu skv. 3. gr.
    Á grundvelli ákvæða 1. mgr. getur Seðlabankinn krafist þess að þargreindar stofnanir og félög veiti upplýsingar um efnahag, rekstur og önnur atriði sem bankinn metur nauðsynlegar. Upplýsingarnar skulu veittar á þann hátt sem óskað er.

    b. (14. gr.)
    Nú er kröfum Seðlabankans um upplýsingar skv. 13. gr. ekki sinnt og getur bankinn þá gripið til viðurlaga gagnvart hlutaðeignadi aðila, sbr. ákvæði 41. gr.

8. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur Seðlabankinn ákveðið að skrá gengi krónunnar eins og þar segir þótt bankastofnanir séu almennt lokaðar til viðskipta.

9. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Seðlabankinn hefur heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri. Um heimildir annarra aðila til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri fer eftir ákvæðum laga um gjaldeyrismál á hverjum tíma.

10. gr.

    22. gr. laganna fellur brott og breytast greinatölur samkvæmt því.

11. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 37. gr. laganna orðast svo: Arðsjóður skal ávaxtaður á bestu fáanlegum vaxta- og verðtryggingarkjörum en helmingur árlegra tekna hans skal renna í Vísindasjóð, sbr. lög um Rannsóknarráð Íslands.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
             Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að eiga gagnkvæm upplýsinga skipti við opinbera aðila erlendis um atriði er lög þessi taka til að því tilskildu að sá sem óskar upplýsinga sé háður samsvarandi þagnarskyldu.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Seðlabanki Íslands skal veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem bankinn býr yfir og nýtast kunna í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Upplýsingar, sem veittar eru samkvæmt þessari grein, eru háðar þagnarskyldu samkvæmt lögum þessum og lögum um Fjármálaeftirlitið. Bankastjórn Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins skulu gera með sér sérstakan samstarfssamning þar sem kveðið er nánar á um framkvæmd þessarar málsgreinar.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði b-liðar 1. gr., 7. gr. og b-liðar 12. gr. öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði ýmsar breytingar á lögunum sem miða að því að færa þau betur í takt við aðstæður á fjármagnsmarkaði. Gildandi lög um Seðlabanka Ís lands eru frá árinu 1986. Síðan þá hefur innlendur fjármagnsmarkaður gerbreyst og um leið starfsumhverfi og starfsaðferðir Seðlabankans. Á undanförnum árum hafa verið sett lög um íslenskan fjármagnsmarkað og um starfsemi flestra stofnana sem á honum starfa aðrar en Seðlabanka Íslands. Við smíði frumvarpsins hefur verið tekið mið af ýmsum skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ákvæði gildandi laga eru sum hver orðin úrelt. Í vissum tilvikum takmarka þau svigrúm bankans til þess að sinna sjálfsögðum skyldum á innlendum fjármagnsmörkuðum. Þá má nefna að á sumum sviðum er nauðsynlegt að breyta ákvæðum gildandi laga þannig að þau styðji notkun á stjórntækjum bankans betur en gildandi lög gera.
    Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp til laga um opinbert eftirlit með fjármála starfsemi. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir að komið verði á fót nýrri stofnun, Fjármála eftirlitinu, sem annast skal þá starfsemi sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands og Vátrygg ingaeftirlitið hafa nú með höndum. Vísast til þess frumvarps um rökstuðning fyrir þessari breytingu.
    Eins og fyrr segir mun bankaeftirlit Seðlabankans leggjast niður verði frumvarp um opin bert eftirlit með fjármálastarfsemi að lögum. Af þeim sökum er nauðsynlegt að fella niður þau ákvæði laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1996, með síðari breytingum, sem lúta að starfsemi bankaeftirlitsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í a-lið er lagt til að tekið verði út úr lögunum að Seðlabankinn hafi eftirlit með banka starfsemi. Er það í samræmi við frumvarp um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem flutt er samhliða frumvarpi þessu. Þá er lagt til að breytt verði orðalagi núgildandi laga þannig að það samræmist betur raunverulegu hlutverki Seðlabankans, þar með talin viðskipti á gjald eyrismarkaði.
    Í b-lið er lagt til að Seðlabankinn fái það hlutverk að stuðla að greiðri, hagkvæmri og öruggri greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Í gildandi lögum er Seðlabankanum vart ætlað nokkurt hlutverk á sviði greiðslumiðlunar og er það í ósamræmi við það sem víðast gerist. Seðlabankinn hefur nú þegar beitt sér fyrir umfangsmikilli endurskoðun á innlendri greiðslumiðlun. Þessi endurskoðun var hafin í framhaldi af því að í Seðlabankanum var tekin saman viðamikil skýrsla um innlenda greiðslumiðlun þar sem m.a. var bent á ýmsar brotalamir í henni. Þá liggur fyrir að á vettvangi Myntbandalags Evrópu verður komið á laggirnar greiðslumiðlunarkerfi (TARGET) sem líklegt er að Seðlabankinn muni eiga kost á aðild að. Til þess að svo geti orðið þarf að laga fyrirkomulag innlendrar greiðslumiðlunar að þeim reglum sem gilda munu í myntbandalaginu, t.d. varðandi öryggi og meðferð stórra greiðslna. Nauðsynlegt er því að kveða í lögum á um að Seðlabankinn hafi hlutverki að gegna á sviði greiðslumiðlunar.

Um 2. gr.

    Í a-lið er lagt til að heimild til innlánsviðskipta í Seðlabankanum fyrir Lánastofnun spari sjóðanna í 1. mgr. 6. gr. laganna falli brott. Í gildandi lögum eru innlánsviðskipti við Seðla bankann takmörkuð við innlánsstofnanir og Lánastofnun sparisjóðanna auk þess sem Seðlabankanum er heimilt þegar sérstaklega stendur á að eiga innlánsviðskipti við aðrar peningastofnanir að fengnu samþykki ráðherra. Lánastofnun sparisjóðanna hefur nú verið breytt í Sparisjóðabanka Íslands hf. sem hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki og því er óþarft að tiltaka heimild til innlánsviðskipta fyrir Lánastofnun sparisjóðanna. Auk þess er lagt til að 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. verði breytt til að taka mið af breyttum aðstæðum.
    Í b-lið er lagt til að í stað þess að með reglugerð megi ákveða þegar sérstaklega stendur á að Seðlabankinn taki við innlánum frá öðrum peningastofnunum en greinir í 1. mgr. 6. gr. komi ákvæði um að Seðlabankinn megi ákveða að taka við innlánum frá öðrum lánastofnunum en bönkum og sparisjóðum og frá fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu. Þetta kemur til af því að orðið peningastofnanir er óskilgreint í íslenskri löggjöf og því óljóst hvað það merkir. Jafnframt hafa verið sett lög um aðrar lánastofnanir sem kveða á um sambærilegar starfsheimildir til þeirra og viðskiptabanka og sparisjóða, aðrar en móttöku innlánsfjár frá almenningi. Með hliðsjón af Evrópurétti og þeim starfsaðferðum sem eru að mótast á vettvangi myntsamstarfs ESB-ríkja er eðlilegt að þessi fyrirtæki hafi heimild til innlánsviðskipta við Seðlabankann. Enn fremur hefur verið ákveðið með lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, sem verða reikningsstofnanir í væntanlegri verðbréfamiðstöð, hafi uppgjörsreikninga í Seðlabankanum. Af þessum sökum er hér lagt til að Seðlabankinn megi ákveða að taka við innlánum frá öðrum lánastofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu, auk innlánsstofnana, eins og fram kemur í 1. mgr. greinarinnar.

Um 3. gr.

    Lagt er til að í stað orðsins peningastofnanir í 1. mgr. 7. gr. laganna, sem hefur enga skýra merkingu í íslenskri löggjöf, komi bein tilvísun til þeirra aðila sem Seðlabankinn á innláns viðskipti við skv. 6. gr. Ákvæði um heimild Seðlabankans til viðskipta í erlendum gjaldmiðli er flutt yfir í þessa málsgrein og 2. mgr. greinarinnar því óþörf.

Um 4. gr.

    Þær breytingar, sem gerðar eru á 8. gr. laganna, eru fjórþættar: Í fyrsta lagi er lagt til að heimild til beitingar bindiskyldu verði ekki bundin við sérstakar aðstæður enda hefur Seðla bankinn þrátt fyrir það orðalag beitt bindiskyldu óslitið frá setningu laganna árið 1986. Ljóst er jafnframt að heimild til beitingar bindiskyldu er í löggjöf um Seðlabanka Evrópu og líklegt að henni verði beitt og því líklegt að bindiskyldu verði almennt beitt í nágrannalöndum. Al mennt verður að líta svo á að mikilvægt sé að bindiskylda hér á landi verði sem líkust því sem gerist í nágrannalöndum til að sem jöfnust samkeppnisskilyrði séu á milli innlendra og erlendra lánastofnana. Sérstaklega verður að líta til bindiskyldu í evrópska seðlabankakerfinu. Í öðru lagi er lagt til að í stað ákvæðis um kaupskyldu verðbréfasjóða á öruggum verðbréfum komi heimild til bankans til að leggja bindingu á verðbréfasjóði og er því fyrst og fremst ætlað að ná til skammtímaverðbréfasjóða, svokallaðra peningamarkaðssjóða, sem stunda í raun hliðstæða starfsemi og innlánsstofnanir. Í þriðja lagi er gerð breyting á ákvæðum um laust fé þannig að skilgreining á lausu fé er samræmd því sem er í lögum um viðskiptabanka og sparissjóði. Að lokum eru heimildir Seðlabankans til beitingar bindiskyldu og reglna um laust fé og gjaldeyrisjöfnuð almennt útvíkkaðar þannig að þær gildi um lánastofnanir og er það í samræmi við gildandi Evrópurétt og ákvæði laga um aðrar lánastofnanir, sbr. 3. mgr. laga nr. 123/1993, með áorðnum breytingum.

Um 5. gr.

    Lagt er til að 2., 3. og 4. mgr. 9. gr. laganna verði felldar brott, enda samrýmast ákvæði þeirra á engan hátt þeim aðstæðum og umhverfi sem skapast hefur á innlendum fjármagns markaði. Eftir afnám hamla á flutningi fjármagns á milli Íslands og annarra landa er opinber íhlutun í vaxtaákvarðanir stofnana á fjármagnsmarkaði óhugsandi, enda mundi hún hafa afdrifaríkar afleiðingar. Einnig má minna á að öflug samkeppni ríkir á innlendum fjármagns markaði, ekki aðeins á milli lánastofnana sem starfa á líkan máta, heldur einnig á milli tegunda lánastofnana. Síðast en ekki síst ríkir samkeppni við erlendar fjármálastofnanir sem jafnframt veitir innlendum stofnunum aðhald.

Um 6. gr.

    Ýmis atriði í 1. mgr. 11. gr. núgildandi laga eru úrelt. Þannig hefur verðbréfaþing eða kauphöll þegar verið sett á stofn og aðild Seðlabankans að rekstri þess ákveðin með sérstökum lögum, þ.e. lögum nr. 11/1993. Nú liggur fyrir Alþingi nýtt frumvarp til laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða þar sem ekki er gert ráð fyrir aðild Seðlabankans að stjórn kauphalla, enda lagt til að einkaréttur Verðbréfaþings Íslands til reksturs kauphallar verði afnumin. Ákvæði um að Seðlabankinn hafi heimild til að taka þátt í stofnun og starfrækslu verðbréfaþings eru því óþörf. Jafnframt setur Seðlabankinn Verðbréfaþingi ekki lengur reglur um starfsemi þess, sbr. núgildandi lög, né er það fyrirhugað í framlögðu frumvarpi um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Þessi ákvæði falla því brott úr greininni. Áfram stendur hins vegar heimild til Seðlabankans til að eiga viðskipti með örugg verðbréf á skipulögðum verðbréfamarkaði (kauphöll) og eiga bein viðskipti með slík bréf við lánastofnanir.
    Gildandi 2. mgr. 11. gr. laganna heimilar bankanum að gefa út verðbréf í erlendri mynt. Ástæða er til að víkka þá heimild út og kveða ótvírætt á um heimild bankans til útgáfu verð bréfa, hvort sem þau eru í innlendum eða erlendum gjaldmiðli. Ekki er ástæða til þess að slík verðbréf séu seld öðrum en lánastofnunum vegna samkeppnissjónarmiða, sbr. ákvæði 12. gr. laganna. Af þeim sökum er ástæða til að kveða á um takmarkanir á sölu og framsali slíkra verðbréfa til annarra en lánastofnana.

Um 7. gr.

    Lagt er til að IV. kafli laganna, sem fjallar um bankaeftirlit Seðlabankans, falli brott. Vísast til frumvarps um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem flutt er samhliða þessu frumvarpi, um rökstuðning fyrir þessari tilhögun. Í stað kaflans kemur nýr kafli sem tryggir Seðlabankanum upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi hans.
     Í 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um samráð og upplýsingaflæði milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Á sama hátt er kveðið á um samráð og upplýsingaflæði milli Fjármála eftirlitsins og Seðlabankans í frumvarpi til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Stofnununum tveimur er ætlað að gera samstarfssamning um þessi samskipti. Tilgangurinn er sá að tryggja að hvor stofnun hafi stuðning af hinni og að koma í veg fyrir tvíverknað við upplýsingaöflun sem íþyngir fyrirtækjum og stofnunum á fjármagnmarkaði. Ekki er þó tryggt að Seðlabankanum nægi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið býr yfir. Því verður að tryggja banknum rétt til milliliðalausrar upplýsingaöflunar. Ákvæði a-liðar (nýrrar 13. gr.) verður að túlka í samræmi við megintilgang 12. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Í 2. mgr. 18. gr. laganna er kveðið á um að bankinn skuli hvern þann dag, sem bankastofn anir eru almennt opnar til viðskipta, skrá gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Hér er um að ræða skráningu á opinberu viðmiðunargengi sem notað er til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin.
    Eins og ákvæði 2. mgr. 18. gr. ber með sér takmarkast skylda bankans til gengisskráningar við það að bankastofnanir séu almennt opnar til viðskipta. Ákvæði þetta takmarkar svigrúm bankans til að skrá gengi krónunnar standi þannig á að bankastofnanir séu almennt lokaðar til viðskipta, t.d. vegna verkfallsaðgerða sem ná til bankakerfisins. Þó slíkar aðgerðir taki til banka er ekki gefið að aðrar stofnanir og félög á fjármálamarkaði séu andlag slíkra aðgerða. Af þessum sökum er talið nauðsynlegt að Seðlabankinn hafi heimild til að skrá opinbert viðmiðunargengi krónunnar, þótt bankastofnanir séu almennt lokaðar til viðskipta, eins og lagt er til í nýrri 3. mgr. 18. gr.

Um 9. gr.

    Í núgildandi 19. gr. eru úrelt ákvæði miðað við gildandi löggjöf um gjaldeyrismál, lög nr. 87/1992. Með tillögunni er efni 19. gr. fært til þess horfs sem nú gildir um heimildir aðila til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og verslun með erlendan gjaldeyri.

Um 10. gr.

    Í núgildandi 22. gr. eru úrelt ákvæði miðað við gildandi löggjöf um gjaldeyrismál, lög nr. 87/1992.     

Um 11. gr.

    Um Vísindasjóð gilda nú ný lög, III. kafli laga nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands. Hér er því lagt til að tilvitnun sé færð í rétt horf.

Um 12. gr.

    Í a-lið er lagt til að ákvæði um gagnkvæm upplýsingaskipti verði færð til samræmis við það sem gerist og gengur á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í b-lið er lagt til að Seðlabanki Íslands skuli veita Fjármálaeftirlitinu allar þær upplýsingar sem bankinn býr yfir og kunna að nýtast eftirlitinu. Þetta ákvæði leiðir af frumvarpi til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem flutt er samhliða þessu frumvarpi.

Um 13. gr.

    Meginhluta frumvarpsins er ætlað að taka gildi þegar í stað. Þau ákvæði sem snerta stofnun Fjármálaeftirlitsins verða þó að taka gildi á sama tíma og Fjármálaeftirlitið tekur til starfa eða 1. janúar 1999.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstof a:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um


Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, með síðari breytingum.


    
Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en það fjallar um að sameina skuli bankaeftirlitið og Vátryggingaeftirlitið í eina stofnun. Með þessu frumvarpi er lagt til að lög um Seðlabanka Íslands verði aðlöguð þeirri breytingu þar af leiðir. Enn fremur eru gerðar nokkrar aðrar breytingar á lögunum í samræmi við kröfur breyttra tíma svo sem gerð er grein fyrir í athugasemdum með frumvarpinu. Sér staklega skal bent á að í 6. gr. er afnumin heimild bankans til að veita ríkissjóði lán. Þar með er staðfest það samkomulag sem í gildi hefur verið milli fjármálaráðherra og bankastjórnar Seðlabankans frá 1992.
    Ekki verður séð að nein umræddra breytinga hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.