Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 995 – 588. mál.



Fyrirspurn



til utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra um Schengen-samstarfið.

Frá Hjörleifi Guttormssyni.



     1.      Hver er staða samningaviðræðna Íslands við Evrópusambandið og/eða Schengen-ríkin um aðild Íslands að Schengen-samstarfinu?
     2.      Hverjir fara með þessar samningaviðræður fyrir Íslands hönd og hvernig er háttað samstarfi við Norðmenn í þessum samningum?
     3.      Hvaða atriði eru það efnislega sem talið er að breyta þurfi frá samstarfssamningnum við Schengen-ríkin frá 19. desember 1996, einkum vegna tilkomu Amsterdam-sáttmála Evrópusambandsins?
     4.      Hvernig er gert ráð fyrir að ganga frá þeim atriðum sérstaklega sem snúa að dómstólaþættinum, í tilvikum þar sem Evrópudómstólnum er ætluð lögsaga innan ESB um Schengen-málefni?
     5.      Hvernig er í einstökum atriðum gert ráð fyrir að framkvæma hérlendis ákvæði 3. gr. Schengen-samningsins að því er varðar umferð um ytri landamæri og í því sambandi nánari reglur um sjóumferð, svo sem umferð lystisnekkja og fiskibáta?
     6.      Hvað veldur því að samstarfssamningur Íslands og Schengen-ríkjanna frá 19. desember 1996 hefur hvorki verið birtur opinberlega hérlendis né lagður fyrir Alþingi ásamt fylgi gögnum í formi viðauka, reglugerða og handbóka sem þegar liggja fyrir í íslenskri þýð ingu? Er ríkisstjórnin reiðubúin að veita Alþingi og öðrum aðgang að þessum gögnum nú þegar, áður en samningurinn frá 1996 yrði lagður fram til staðfestingar?
     7.      Hvernig er ráðgert að bregðast við áhrifum Schengen-aðildar Íslands að því er varðar ólögmætan innflutning fíkniefna hingað til lands, eftir að skoðun persónuskilríkja í flug höfnum og annars staðar á landamærum heyrði sögunni til?
     8.      Hvenær er ráðgert að þjóðþing norrænu ESB-ríkjanna hvert um sig hafi lokið umfjöllun um:
       a.      Schengen-samstarfið,
       b.      tillögu um staðfestingu Amsterdam-sáttmálans?
     9.      Hvenær er fyrirhugað að ráðast í framkvæmdir í flugstöðinni í Keflavík að því er varðar Schengen-umferð og að ljúka þeim framkvæmdum?
     10.      Hver er áætlaður kostnaður Íslands af Schengen-þátttöku skipt á einstaka þætti, svo sem núverandi áheyrnaraðild, samningaviðræður, stofnframkvæmdir í flughöfninni í Kefla vík og annars staðar á landamærum að meðtöldum hönnunarkostnaði, kaup á tölvubún aði vegna Schengen Information System, aðildargjöld, árlegan rekstrarkostnað í heild nú og síðar ef af þátttöku verður?


Skriflegt svar óskast.


Prentað upp.