Ferill 593. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1005 – 593. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, með síðari breytingum, og siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



I. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35 30. apríl 1993,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. 1. gr. orðast svo: Lögin gilda þó um öll skip sem flytja farþega í atvinnuskyni á sjó, ám eða vötnum án tillits til stærðar.
     b.      Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Farþegaflutningar í atvinnuskyni, þar með taldar skoðunar- og veiðiferðir ferða manna, með skipum sem lög þessi gilda um eru háðir leyfi Siglingastofnunar Íslands. Skal slíkt leyfi gefið út þegar leitt er í ljós að fullnægt er ákvæðum laga þessara og reglugerða settum samkvæmt þeim, svo og ákvæðum annarra laga og reglugerða sem gilda um skip í farþegaflutningum. Fyrir slík skip skal fjöldi í hverri áhöfn ákveðinn af Siglingastofnun Íslands með hliðsjón af gerð skips, fyrirkomulagi þess og búnaði, svo og farsviði þess og útivist, þannig að fjöldi í áhöfn og skipting starfa fullnægi skilyrðum um að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi farþega, skipverja og skips. Skipstjóri skal varðveita um borð í skipi skjal er sannar gildi leyfisins. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um útgáfu og skilyrði leyfis samkvæmt þessari málsgrein, svo og um gjald fyrir útgáfu leyfisins.

II. KAFLI
Breyting á siglingalögum, nr. 34 19. júní 1985, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 145. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Farsala sem sjálfur annast flutninginn er skylt að kaupa vátryggingu hjá tryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi gegn tjóni sem hann ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Nú annast farsali ekki flutninginn og er þeim sem flutninginn annast þá skylt að kaupa vá tryggingu hjá tryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi gegn tjóni sem verða kann og hann ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Vátryggingarfjárhæðir skulu nægja til greiðslu bóta eftir ákvæðum laga þessara um takmörkun ábyrgðar. Skipstjóri skal varðveita um borð í skipi skjal er sannar gildi vátryggingarinnar og framvísa því þegar löggæslumaður eða starfsmaður Siglingastofnunar Íslands krefst þess.

III. KAFLI

Gildistaka.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Hafi Siglingastofnun Íslands fyrir gildistöku laga þessara áritað á haffærisskírteini skips að heimilt sé að stunda farþegaflutninga með skipinu skal slíkt leyfi, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., halda gildi sínu til þess tíma er gildistími haffærisskírteinisins rennur út. Eftir þann tíma eru farþegaflutningar með skipinu háðir leyfi skv. 1. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. er þeim sem skylt er að kaupa vátryggingu samkvæmt þeirri grein veittur frestur til þess að kaupa trygginguna til 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpi þessu er ætlað að stuðla að auknu öryggi í farþegaflutningum með skipum og bátum á sjó, ám eða vötnum. Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að í lög um eftirlit með skipum verði tekið ákvæði um að farþegaflutningar með skipum verði háðir sérstöku leyfi og hins vegar að í siglingalög verði tekið ákvæði um skyldutryggingu í farþegaflutningum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Framboð á ýmiss konar skemmti- og útsýnisferðum með skipum á sjó, ám og vötnum hér lendis hefur aukist ár frá ári. Þótt ákvæði í ýmsum lögum og reglugerðum nái til skipa í far þegaflutningum hefur nokkuð þótt skorta á eftirlit með þessari starfsemi. Því er æskilegt að lögfest verði ákvæði um hvernig haga skuli samræmdu eftirliti með farþegaflutningum með skipum.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildissviði laganna verði breytt þannig að þau taki til allra skipa sem flytja farþega í atvinnuskyni á sjó, ám eða vötnum án tillits til stærðar. Skiptir þar ekki máli hvort skipið er skráð á skipaskrá sem farþegaskip, hversu marga farþega það má flytja og hvar og hvenær það siglir með farþega. Með reglugerð getur ráðherra ákveðið að erlend skip í farþegaflutningum falli undir ákvæðið, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.
    Þá er lagt til að í lög um eftirlit með skipum verði sett ákvæði um að farþegaflutningar með skipum séu háðir leyfi. Af slíku ákvæði leiðir að farþegaflutningar með skipum yrðu óheimilir án slíks leyfis. Tilgangurinn með ákvæðinu er að lögfesta skýran grundvöll fyrir samræmdu eftirliti með smíði og búnaði skipa í farþegaflutningum, aðbúnaði og öryggi farþega, mönnun skipanna, atvinnuréttindum og þjálfun skipverja og öðrum öryggisþáttum í starfseminni. Lagt er til að sækja þurfi um leyfi til farþegaflutninga með skipi og að Siglingastofnun Íslands gefi út slíkt leyfi þegar sýnt hefur verið fram á að uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða sem um skipið og starfsemi þessa gilda. Átt er við lög um eftirlit með skipum og reglugerðir sem settar hafa verið með stoð í þeim lögum, en einnig önnur lög og reglugerðir sem gilda um skip í farþegaflutningum. Sem dæmi um slík lög má nefna siglingalög og atvinnuréttindalög.
    Enn fremur er lagt til að Siglingastofnun Íslands ákveði fjölda í áhöfn þeirra skipa sem leyfi þurfa samkvæmt þessari grein, en fyrir íslensk farþegaskip sem flytja farþega milli landa er fjöldi í áhöfn þó ákveðinn af mönnunarnefnd kaupskipa í samræmi við lög um áhafnir íslenskra kaupskipa, nr. 59/1995, með síðari breytingum.
    Gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um útgáfu og skilyrði leyfisins, og gjaldtöku fyrir leyfið. Í reglugerð verður þannig heimilt að setja m.a. ákvæði um gildistíma leyfisins, takmörkun farsviðs, hámarksfjölda farþega og önnur atriði sem lúta að öryggi farþega, t.d. að keypt hafi verið vátrygging fyrir tjóni farþega, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
    

Um 2. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði siglingalaga um takmörkun ábyrgðar má gera ráð fyrir að skaðabætur samkvæmt lögunum vegna tjóns farþega á skipum geti numið svo háum fjárhæðum að bæt urnar fáist ekki í öllum tilvikum greiddar. Í frumvarpinu er því lagt til að skylt sé að kaupa vátryggingu hjá tryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi gegn tjóni sem farsali eða sá sem annast flutninginn ber skaðabótaábyrgð á eftir ákvæðum laganna. Ætla verður að slík skyldu trygging sé til þess fallin að auka öryggi farþega og aðhald með starfsemi skipa í farþega flutningum. Þess má geta að í norsku siglingalögunum er ákvæði sem veitir heimild til þess að krefjast þess að keypt sé vátrygging gegn tjóni farþega. Þá er að finna í íslenskum lögum um landflutninga og loftflutninga ákvæði um tryggingar gegn tjóni farþega. Eðilegt er að samræmis sé gætt í þessum efnum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að vátryggingarskyldan nái til allra skipa sem falla undir lög in og stunda farþegaflutninga, án tillits til þess hvort skip er skráð sem farþegaskip á skipaskrá eða ekki og þess hversu marga farþega skipið má flytja. Gildissvið ákvæðisins afmarkast að öðru leyti af samanburðarskýringu við ákvæði siglingalaga, einkum ákvæði V. og IX. kafla. Varðandi skilgreiningu á hugtökunum farsali og farþegi má þannig vísa til 120. gr. laganna. Í frumvarpinu er lagt til að þegar farsali annast sjálfur flutninginn sé honum skylt að kaupa vátryggingu gegn tjóni sem hann ber ábyrgð á, sbr. 137.–140. gr. laganna. Þegar annar en farsali annast flutninginn, sbr. 145. gr., ber flutningsaðilanum að kaupa vátryggingu gegn því tjóni sem hann ber ábyrgð á eftir ákvæðum laganna og er farsala þá ekki skylt að kaupa vátrygginguna. Þegar ferðaskrifstofa selur ferðir með skipi sem gert er út af öðrum aðila hvílir skyldan til þess að kaupa vátrygginguna þannig á þeim sem annast flutninginn en ekki á ferðaskrifstofunni. Við ákvörðun vátryggingarfjárhæða ber að miða við ákvæði V. og IX. kafla laganna um takmörkun ábyrgðar. Stundi skip farþegaflutninga hluta úr ári er ekki skylt að halda vátryggingunni við þann hluta árs sem sú starfsemi liggur niðri. Skipstjóri ber ábyrgð á því að um borð í skipi í farþegaflutningum sé skjal er sanni að vátrygging hafi verið tekin og að tryggingin sé í gildi.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Siglingastofnun Íslands hefur áritað á haffærisskírteini hluta þeirra skipa og báta sem flytja farþega að slíkir flutningar séu heimilir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Því er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða sé kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 1. gr. frumvarpsins skuli far þegaflutningar með þeim skipum vera heimilir fram til þess tíma er haffærisskírteini rennur út. Frá þeim tíma eru farþegaflutningar með þeim hins vegar háðir leyfi skv. 1. gr. frumvarps ins.
    Nauðsynlegt er að þeir sem leggja stund á farþegaflutninga með skipum og bátum hérlendis fái nokkurn tíma til þess að kynna sér efni laganna og laga starfsemina að þeim. Þá er trygg ingafélögum einnig nauðsyn að fá tíma til undirbúnings vegna tryggingarskyldunnar. Því er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða sé kveðið á um að frestur sé veittur til 1. janúar 1999 til þess að kaupa vátrygginguna. Fram til þess tíma er því ekki skylt að kaupa hana.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstof a:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með
skipum, nr. 35/1993, með síðari breytingum, og siglingalögum,
nr. 34/1985, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur, annars vegar að farþegaflutningar með skipum verði háðir sérstöku leyfi og hins vegar að í siglingalög verði sett ákvæði um skyldutryggingu í far þegaflutningum.
    Fyrra atriðið mun leiða til aukins eftirlits af hálfu Siglingastofnunar Íslands en í frumvarp inu er að finna ákvæði um gjald fyrir útgáfu leyfisins. Gera má ráð fyrir að gjaldtakan nemi um 1 m.kr. á fyrsta heila árinu og um 0,3 m.kr. á ári eftir það. Seinna atriðið mun hafa einhver áhrif á kostnað þeirra aðila sem gera út skip til farþegaflutninga.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.