Ferill 607. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1029 – 607. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Árni Johnsen, Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson, Hjálmar Jónsson,


Egill Jónsson, Tómas Ingi Olrich, Sigríður Anna Þórðardóttir,
Guðjón Guðmundsson, Einar Oddur Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir,
Kristján Pálsson, Magnús Stefánsson.

1. gr.

    Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Skipulagðar útihátíðir. Úti hátíð merkir í lögum þessum skipulagða skemmtun sem haldin er utandyra á afmörkuðu svæði, stendur eigi skemur en einn sólarhring og aðgangur er seldur að.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á lögum um virðisaukaskatt að skipulagðar útihátíðir verði undanþegnar virðisaukaskatti.
    Nokkrar skipulagðar útihátíðir eru haldnar hér ár hvert, í flestum tilvikum um verslunar mannahelgina í byrjun ágúst. Hefð er komin fyrir slíku samkomuhaldi víðs vegar og nægir í því sambandi að nefna þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum og bindindismótið í Galtalæk sem áratugahefð er fyrir. Á skipulögðum útihátíðum er yfirleitt fjölbreytt dagskrá í tali og tónum í þrjá til fjóra daga.
    Tilgangur þessa frumvarps er einkum tvíþættur. Í fyrsta lagi að tryggja jafnræði milli aðila en borið hefur á því á undanförnum árum að sumar útihátíðir hafa ekki þurft að greiða virðisaukaskatt en hann hefur verið innheimtur af þátttökugjaldi hjá öðrum. Í öðru lagi má nefna að þeir aðilar, sem greitt hafa virðisaukaskatt af útihátíðum, eru í mörgum tilvikum félagasamtök, t.d. Stórstúka Íslands eða íþróttafélög, sem halda slíkar útihátíðir í fjáröflunarskyni. Mundi sú breyting, sem hér er lögð til, verða til þess að styrkja stöðu slíkra félagasamtaka verulega en tekjutap ríkissjóðs yrði óverulegt.
    Útihátíðir hafa verið haldnar í öllum kjördæmum landsins um langt árabil en þeim hefur oft fylgt mikill kostnaður vegna óvissu um veður og aðsókn. Í flestum tilvikum hafa móts aðilar, sem nær undantekningarlaust hafa verið íþróttafélög eða önnur félög sem standa fyrir unglingastarfi, gefist upp við að halda útihátíðir reglulega. Miðað við aukinn áhuga á um hverfismálum og hlut fjölskyldunnar í þeim efnum er æskilegt að skapa hvetjandi aðstæður til útihátíða en virðisaukaskattur er síður en svo til þess. Til að mynda hefur verið lagður virðisaukaskattur á guðsþjónustur, íþróttir barna, kirkjukóra og margt fleira sem löggjafinn hefur aldrei ætlað að innheimta skatt af. Útihátíðir síðustu áratuga hafa verið haldnar á Húsafelli á Vesturlandi, Hólmavík á Vestfjörðum, Vindheimamelum á Norðurlandi vestra, í Vaglaskógi og á Melgerðismelum á Norðurlandi eystra, á Eiðum og í Atlavík á Austurlandi og á Kirkjubæjarklaustri, í Þjórsárdal og Vestmannaeyjum á Suðurlandi.
    Reyndin hefur verið sú að stærstu sveitarfélög landsins hafa getað boðið upp á útihátíðir sem sveitarfélögin greiða að fullu og enginn aðgangseyrir er að en sveitarfélög og aðilar íþrótta- og æskulýðsstarfs úti á landsbyggðinni hafa ekki haft bolmagn til slíks. Afnám virðisaukaskatts af skipulögðum útihátíðum mundi auka jafnræði í þessum efnum til mikilla muna og vera hvatning fyrir aukið félagsstarf úti á landsbyggðinni þar sem byggð á nú víða undir högg að sækja.