Ferill 618. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1049 – 618. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu samnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Marokkós.

(Lögð fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og konungsríkisins Marokkós sem undirritaður var í Genf 19. júní 1997.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og konungsríkisins Marokkós, sem undir­ritaður var í Genf 19. júní 1997. Megintexti samningsins er prentaður á íslensku sem fylgi­skjal I með þingsályktunartillögu þessari, viðauki I er prentaður sem fylgiskjal II og viðauki II sem fylgiskjal III.
    Á þessum áratug hafa EFTA-ríkin lokið gerð fríverslunarsamninga við 13 ríki. Ferli þetta hófst við lok kalda stríðsins 1989 með gerð fríverslunarsamninga við ríki Mið- og Austur Evrópu og síðar við Tyrkland og Ísrael. Á síðustu árum hafa EFTA-ríkin einbeitt sér m.a. að gerð fríverslunarsamninga við ríki Norður-Afríku og Miðausturlanda. Fríverslunarsamn­ingurinn við Marokkó er fyrsti samningurinn sem lokið er í þeirri lotu. Nú standa yfir við­ræður um gerð fríverslunarsamninga við Túnis og við PLO, þ.e. Þjóðarráð Palestínu (Pales­tinian National Authority) sem fer með stjórnvald á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu. Samningaviðræður við Kýpur hefjast innan skamms og væntanlega einnig fljótlega við Líbanon og Jórdaníu. Þá er unnið að gerð samstarfsyfirlýsingar við samstarfsráð Persaflóa­ríkja (Gulf Co-operartion Council), en að því standa Barein, Kúveit, Óman, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádi-Arabía og Katar.
    EFTA-ríkin gera fríverslunarsamninga við ríki utan Evrópu á grundvelli ákvörðunar sem tekin var á ráðherrafundi EFTA-ríkjanna í Bergen í júní 1995. Ástæðan fyrir þessari ákvörð­un ráðherrafundarins var að tryggja að fyrirtæki í EFTA-ríkjum yrðu ekki verr sett en fyrir­tæki í ríkjum Evrópusambandsins í viðskiptum sínum við fyrirtæki í viðkomandi landi.
    Viðræður við Marokkó hófust í kjölfar undirritunar samstarfsyfirlýsingar við Marokkó á ráðherrafundi EFTA-ríkjanna sem haldinn var í Zermatt í Sviss í desember 1995. Tilgang­urinn með gerð fríverslunarsamningsins við Marokkó er að tryggja jafnvægi milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna í viðskiptum við Marokkó. Evrópusambandið og Mar­okkó hafa lokið gerð samnings um fríverslun sín á milli. EFTA-ríkin vilja taka þátt í þeirri viðleitni Evrópusambandsins að stuðla að stjórnmálalegum stöðugleika og atvinnuþróun í löndunum við sunnanvert Miðjarðarhaf í því skyni að skapa eitt allsherjar fríverslunarsvæði milli Evrópusambandsríkjanna og EFTA-ríkjanna annars vegar og Miðjarðarhafslandanna hins vegar eigi síðar en árið 2010. Gerð fríverslunarsamningsins milli EFTA-ríkjanna og Marokkós er skref í þessa átt.
    Fríverslunarsamningurinn við Marokkó er hliðstæður öðrum fríverslunarsamningum sem EFTA-ríkin hafa gert. Meginfyrirmyndir þessa samnings eru fríverslunarsamningar EFTA- ríkjanna við Eystrasaltsríkin sem undirritaðir voru á árinu 1995 og Alþingi samþykkti í desember sama ár. Samningurinn, eins og aðrir fríverslunarsamningar, fjallar m.a. um meðferð tolla og samsvarandi gjalda, upprunareglur og samvinnu um tollaframkvæmd, ríkiseinokun, tæknilegar reglugerðir, greiðslur og yfirfærslur, opinber innkaup, vernd hugverka, samkeppni fyrirtækja, ríkisaðstoð, undirboð og erfiðleika vegna greiðslujafnaðar svo það helsta sé nefnt. Skv. 41. gr. samningsins öðlast hann gildi þegar öll EFTA-ríkin hafa fullgilt hann og afhent fullgildingarskjölin vörsluaðila samningsins sem er ríkisstjórn Noregs.
    Samningurinn kveður á um fríverslun milli EFTA-ríkjanna og Marokkós með iðnaðar­vörur sem taldar eru upp í 25.–97. kafla tollskrárinnar. Samningurinn felur í sér að frá og með gildistöku hans fella EFTA-ríkin og Marokkó niður alla innflutningstolla og gjöld á iðnaðarvörum sem upprunnar eru í aðildarríkjum samningsins. Undantekning er gerð frá þessu varðandi vörur sem upprunnar eru í Efta-ríkjunum og taldar eru upp í töflum A, B, C, D og E í viðauka III við samninginn. Tollar og gjöld á þessar iðnaðarvörur falla hins vegar niður í áföngum á allt að tólf árum eftir gildistöku samningsins.
    Í viðauka II við fríverslunarsamninginn skuldbinda EFTA-ríkin og Marokkó sig til að fella niður alla tolla og samsvarandi gjöld á sjávarafurðir frá og með gildistöku samningsins. Þó hefur Marokkó aðlögunartíma í 4–9 ár til að fella niður tolla á fisktegundum sem taldar eru upp í töflum 2–8 í viðaukanum. Við gildistöku samningsins veitir Marokkó tollfrjálsan innflutningskvóta á fiskimjöli og tollar á ferskvatnsfiski lækka í 2,5% af grunntolli að undanskildum silungi en tollar á honum lækka í 30% af grunntolli eigi síðar en 1. janúar árið 2000.
    Telja verður að verulegur árangur hafi náðst um fríverslun með fisk og fiskafurðir í samningnum við Marokkó, en þetta er í fyrsta sinn sem Marokkó veitir seljendum sjávar­afurða tollfrjálsan aðgang að markaði sínum.
    Varðandi viðskipti með landbúnaðarafurðir lýsa samningsríkin sig reiðubúin, að því marki sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir, að stuðla að samstilltri þróun viðskipta með landbúnaðarafurðir, sbr. 1. mgr. 12. gr. samningsins. Í 2. mgr. 12. gr. samningsins segir: „Til þess að ná þessum markmiðum hefur hvert EFTA-ríki gert tvíhliða samning við Marokkó til að greiða fyrir viðskiptum með landbúnaðarafurðir.“ Bókun um landbúnaðarmál milli lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Marokkós er prentuð á íslensku sem fylgiskjal IV með þingsályktunartillögu þessari, en þessi bókun fjallar fyrst og fremst um innflutning á ávöxtum. Skv. 8. gr. bókunarinnar öðlast hún gildi á sama degi og samningurinn milli EFTA-ríkjanna og Marokkós.
    Viðskipti Íslands og Marokkós hafa ekki verið mikil að vöxtum. Á meðfylgjandi töflu má sjá þróun þessara viðskipta á árunum 1994–1997.

Útflutningur
í millj. kr.

Vörutegund. 1994 1995 1996 1997
Fiskvinnsluvélar 0 0 2,0
Aðrar iðnaðarvörur 23,6 0 0,2 63,7
Annað 0 0 0,6
Samtals 23,6 0 2,8 63,7


Innflutningur.
í millj. kr.

Vörutegund 1994 1995 1996 1997
Grænmeti og ávextir 11,2 7,8 14,7 6,9
Korkur og trjáviður 0 0,2 1,5 0,9
Fatnaður 8,6 19,6 23,8 20,7
Samtals 19,8 27,6 40,0 28,5



Fylgiskjal I.


Samningur milli Efta-ríkjanna og konungsríkisins Marokkós.




(20 síður – tölvutexti ekki fyrirliggjandi. Athugið pdf-skjalið.)






Fylgiskjal II.


I. VIÐAUKI
SEM UM GETUR Í A-LIÐ 2. GR.
VÖRUR SEM FALLA EKKI UNDIR SAMNINGINN

(1 síða – tölvutexti ekki fyrirliggjandi. Athugið pdf-skjalið.)




Fylgiskjal III.


II. VIÐAUKI
SEM UM GETUR Í C-LIÐ 2. GR.
FISKUR OG AÐRAR SJÁVARAFURÐIR


(30 síður – tölvutexti ekki fyrirliggjandi. Athugið pdf-skjalið.)





Fylgiskjal IV.


Bókun um landbúnaðarmál milli lýðveldisins Íslands


og konungsríkisins Marokkós.




(16 síður – tölvutexti ekki fyrirliggjandi. Athugið pdf-skjalið.)



..............



    Samningurinn ásamt viðaukum og bókun var einnig prentaður á ensku.