Ferill 619. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1050 – 619. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á orðskilgreiningum 1. mgr. 1. gr. laganna:
a.    Í stað orðanna „sbr. viðauka II við lög þessi“ í skilgreiningu orðsins Tollabinding kemur: sbr. viðauka IIA og IIB við lög þessi. Einnig hámark tolla samkvæmt ráðherrayfirlýsingu um viðskipti með vörur á sviði upplýsingatækni, sem undirrituð var í Singapore 13. desember 1996, sbr. viðauka IIC við lög þessi.
b.    Orðin „Póst- og símamálastofnunarinnar eða annað sambærilegt gagnaflutningsnet“ í skilgreiningu orðsins Gagnaflutningsnet falla brott.

2. gr.

    Í stað orðanna „IIA og IIB“ í 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: IIA, IIB og IIC.

3. gr.

    Í stað orðsins „sölugengi“ í 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: viðmiðunargengi.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
a.    4. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ábyrgð umboðsaðila eða rekstraraðila frísvæðis eða tollvörugeymslu fellur þó niður hafi aðflutningsgjöld verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda vöru hjá tollstjóra, nema umboðs- eða rekstraraðili hafi ekki haft heimild frá innflytjanda eða viðtakanda til skuldfærslunnar eða ef umboðs- eða rekstraraðili vissi eða mátti vita að upplýsingar sem veittar voru í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi.
b.     Í stað tilvísunarinnar „17. gr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 16. gr.
c.    Orðin „enda ábyrgist umboðsaðilar og innflytjendur eða viðtakendur vara in solidum greiðslu aðflutningsgjalda“ í 3. málsl. 3. mgr. falla brott.
d.    6. mgr. orðast svo:
                   Þeir sem koma fram gagnvart tollyfirvöldum vegna SMT-tollafgreiðslu skulu varðveita öll tölvutæk gögn er varða tollafgreiðsluna. Þeir skulu halda fullkomna skrá eða gagna dagbók í réttri tímaröð og geyma óbreytt öll rammaskeyti sem þeir senda tollstjórum eða móttaka frá þeim. Þegar gagnadagbók er haldin á tölvutæku formi skal á auðveldan hátt vera unnt að nálgast rammaskeyti og endurmynda þau á læsilegan hátt og prenta þau ef þess er óskað.
e.     7. mgr. orðast svo:
                   Ef innflytjandi eða viðtakandi vöru er bókhaldsskyldur skal hann varðveita skrifleg gögn er varða innflutning og tollafgreiðslu í samræmi við ákvæði bókhaldslaga, nr. 145/1994, og fyrirmæli sett samkvæmt þeim lögum. Ef innflytjandi eða viðtakandi vöru er ekki bókhaldsskyldur skulu tollstjóra afhent öll skrifleg gögn er snerta tollmeðferð vöru.
f.    Í stað orðsins „póststofnunar“ í 9. mgr. kemur: póstþjónustuaðila.

5. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 31. gr. laganna orðast svo: Fjármálaráðherra skipar yfirtollverði, aðal deildarstjóra og deildarstjóra til fimm ára í senn. Ríkistollstjóri skipar aðra tollverði og ræður aðra starfsmenn við embætti sitt, sbr. 39. gr.


6. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 35. gr. laganna orðast svo: Ríkistollstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun innan 30 daga frá lokum þess frests sem hann veitti aðila til að tjá sig um fyrirhugaða breytingu .


7. gr.

    4. mgr. 36. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra skipar yfirtollverði, aðaldeildarstjóra og deildarstjóra til fimm ára í senn. Tollstjóri skipar aðra tollverði og ræður aðra starfsmenn við embætti sitt, sbr. 39. gr.


8. gr.

    Við 38. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Um kærur til ríkistollanefndar og störf hennar fer eftir ákvæðum 101. og 102. gr.

9. gr.

    39. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo :

Skipun tollvarða og ráðning tollstarfsmanna.

    Tollstjórar og ríkistollstjóri skipa tollverði til fimm ára í senn og ráða aðra tollstarfsmenn ótímabundið og skipta með þeim störfum. Hver sá sem skipaður er til starfa sem tollvörður skal hafa lokið prófi frá tollskóla. Tollverðir og aðrir tollstarfsmenn starfa í umboði og á ábyrgð viðkomandi tollyfirvalds.
    Tollstjórum og ríkistollstjóra er heimilt að setja mann tímabundið til starfa sem tollvörð vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa tollvarða. Jafnframt er tollstjóra og ríkistollstjóra heimilt að setja mann tímabundið til starfa sem tollvörð meðan tekin er ákvörðun um hvort rétt sé að skipa tollvörð að fullu skv. 1. mgr. eða meðan hann stundar nám við tollskólann.


10. gr.

    Orðin „sem ákveður um framhald málsins“ í 3. málsl. 1. mgr. 50. gr. laganna falla brott.

11. gr.

    Í stað orðsins „Póststjórnin“ í 68. gr. laganna kemur: Póstþjónustuaðili.

12. gr.

    1. málsl. 4. mgr. 99. gr. laganna orðast svo: Tollstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun innan 30 daga frá lokum þess frests sem hann veitti aðila til að tjá sig um fyrirhugaða breytingu .

13. gr.

    Orðin „eða innan 60 daga frá póstlagningardegi tilkynningar um endurákvörðun tollstjóra á aðflutningsgjöldum skv. 99. gr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 100. gr. laganna falla brott.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
a.              Á eftir orðunum „Innflytjandi getur skotið endurákvörðun ríkistollstjóra skv. 35. gr.“ í 1. mgr. kemur: úrskurði tollstjóra um endurákvörðun skv. 99. gr.
b.              2. mgr. orðast svo:
         Ríkistollstjóri getur kært úrskurð tollstjóra um endurákvörðun skv. 99. gr., úrskurð tollstjóra skv. 100. gr. og ákvörðun tollstjóra skv. 142. gr. til ríkistollanefndar innan sama frests og greindur er í 1. mgr.
c.              Við 5. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Úrskurðir nefndarinnar skulu rökstuddir þannig að aðilar megi sjá á hvaða kæruatriðum og heimildum tollflokkun, tollverð eða álagning sé byggð.
d. 11. mgr. fellur brott.
    

15. gr.

    Í stað orðanna „Póst- og símamálastofnun“ og „hún“ í 1. mgr. 107. gr. kemur: Póst þjónustuaðili, og: hann.

    16. gr.

    1. og 2. mgr. 111. gr. laganna orðast svo:
    Ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda hvílir á innflytjanda eða viðtakanda vöru.
    Nú kemur annar en innflytjandi eða viðtakandi vöru fram gagnvart tollyfirvöldum vegna tollmeðferðar vöru og ber hann þá ásamt innflytjanda in solidum ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda. Ábyrgð umboðsmanns fellur brott hafi aðflutningsgjöld verið skuldfærð á inn flytjanda eða viðtakanda, sbr. þó 4. málsl. 1. mgr. 14. gr.

17. gr.

    Í stað orðanna „afhent farmflytjanda eða öðrum vörsluaðila til útflutnings“ í 1. mgr. 121. gr. laganna kemur: flutt úr landi.

18. gr.

    Eftirfarandi breyting verður á 122. gr. laganna:
a.     5. málsl. 2. mgr. fellur brott.
b.     Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr. og orðast svo:
         Sé útflytjandi framleiðsluvara annar en framleiðandi þeirra skal auk upprunavottorðs útflytjanda liggja fyrir yfirlýsing framleiðanda sem staðfesti að framleiðsluvörurnar uppfylli skilyrði um fríðindameðferð samkvæmt fríverslunar- eða milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að.

19. gr.

    Við viðauka II með lögunum bætist nýr kafli, Viðauki IIC, Tollabindingar, er orðast svo:

(Viðauki IIC 14 síður myndaðar.)


20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að lögfestur verði sem viðauki við tollalög listi sem tilgreinir tilteknar vörur á sviði upplýsingatækni sem tollur falli niður af og óheimilt verði að leggja tolla á. Þar er um að ræða vörur sem tollar skyldu falla niður af samkvæmt ráðherrayfirlýsingu sem gerð var í Singapore 13. desember 1996, um viðskipti með vörur á sviði upplýsingatækni. Auk þess eru lagðar til breytingar á ákvæðum tollalaga er kveða á um solidariska ábyrgð flutn ingsmiðlana og farmflytjenda á greiðslu aðflutningsgjalda ásamt innflytjendum, breytingar á ákvæðum tollalaga um geymsluskyldu gagna, auk annarra smávægilegra breytinga á ákvæð um tollalaga.

I. Niðurfelling tolla og tollabindingar á vörur á sviði upplýsingatækni.

    Helsta breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er að lögfestur verði viðauki við tollalög þar sem tilgreindar verði ýmsar vörur á sviði upplýsingatækni sem ekki verði heimilt að leggja tolla á. Jafnframt falli niður tollar af þeim vörum sem falla undir viðaukann og bera tolla nú.
    Á ráðherraráðstefnu í Singapore í desembermánuði 1996 gerðust 28 ríki Alþjóðaviðskipta stofnunarinnar aðilar að ráðherrayfirlýsingu um niðurfellingu tolla í þrepum fyrir árið 2000 af ýmsum vörum á sviði upplýsingatækni. Auk Íslands gerðust meðal annars ríki Evrópusam bandsins, Bandaríkin, Kanada, Japan, Ástralía, Noregur, Sviss, Indónesía, Kórea, Hong Kong og Tyrkland aðilar að yfirlýsingunni. Síðar hafa fleiri ríki gerst aðilar að yfirlýsingunni þar á meðal Indland, Ísrael, Rúmenía, Tékkland og Slóvakía. Alls eru nú 43 ríki aðilar að yfir lýsingunni, sem stunda um 93% heimsviðskipta með vörur á sviði upplýsingatækni. Í yfir lýsingunni er því lýst yfir að aðildarríki hennar skuli þróa viðskiptahætti sína þannig að það auki möguleika fyrir markaðsaðgang vara á sviði upplýsingatækni. Jafnframt skuli aðildar ríkin afnema tolla, svo og önnur gjöld í samræmi við ákvæði GATT 1994, af vörum sem til greindar eru í viðaukum við yfirlýsinguna. Niðurfelling og binding tolla af þessum vörum átti samkvæmt yfirlýsingunni að gerast í tilteknum áföngum og skyldi vera að fullu lokið 1. janúar 2000, en þó er hvatt til örari niðurfellingar.
    Í framhaldi af gerð yfirlýsingarinnar fóru fram samningaviðræður á milli aðila hennar um nánari útfærslu hennar. Hvert ríki fyrir sig lagði síðan fram skuldbindingaskrá yfir þær vörur sem féllu undir ákvæði yfirlýsingarinnar og tollar skyldu afnumdir af. Á listanum sem var lagður fram af Íslands hálfu eru vörur sem tilgreindar eru í lista sem lagt er til að verði hluti af viðauka II við tollalög og beri heitið viðauki IIC. Þar er að mestu leyti um að ræða vörur sem engir tollar eru á í dag.
    Vörur sem tollar falla niður af og óheimilt verður að leggja á tolla samkvæmt yfirlýsingunni eru meðal annars tæki og búnaður fyrir sjálfvirka gagnameðferð, þar á meðal óáteknir miðlar (segulbönd, myndbönd og diskar), hálfleiðarar og samrásir, hugbúnaður, rafmyndasímtæki, hljóðnemar og hátalarar, símsvarar, svo og fjarskiptabúnaður .
    Ráðherrayfirlýsingin frá Singapore er pólitísk viljayfirlýsing og sem slík ekki bindandi að þjóðarrétti fyrir aðila hennar. Hún verður fyrst skuldbindandi við afhendingu sérstakrar skuldbindingaskrár til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar yfir þær vörur sem tollar verða felldir brott af og óheimilt verður að leggja tolla á. Íslensk stjórnvöld hafa eins og áður segir þegar afhent stofnuninni slíka skrá, þó með fyrirvara um samþykki Alþingis á breytingunum. Þar er um að ræða vörur sem tilgreindar eru í viðauka við frumvarp þetta og gert er ráð fyrir að verði viðauki IIC við tollalög. Verði frumvarpið að lögum verður íslenska ríkið þar með skuldbundið til niðurfellingar tolla af þeim vörum sem þar eru tilgreindar og jafnframt verður óheimilt að leggja á þær tolla og önnur gjöld í skilningi GATT-samningsins á ný.
    Fæstar þeirra vara sem falla undir ákvæði ráðherrayfirlýsingarinnar bera tolla nú og hefur Ísland reyndar þegar skuldbundið sig til að leggja ekki tolla á margar þeirra. Þó eru tilteknar vörur sem falla undir yfirlýsinguna sem bera tolla nú og tollar munu því falla niður af. Þar ber helst að nefna rafmyndasímtæki, hljóðnema og hátalara, símsvara og óátekna miðla, þ.e. segulbönd, myndbönd og diska.
    Í yfirlýsingunni er gert ráð fyrir að afnám tolla eigi sér stað í fjórum jöfnum skrefum fram til ársins 2000, en þó er hvatt til örara afnáms tolla. Í frumvarpi þessu er lagt til að tollar verði felldir niður frá og með þeim tíma er ákvæði frumvarpsins öðlast lagagildi og þannig komið til móts við viljayfirlýsingu um örara afnám tolla. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að skammur tími er þar til tollar eiga að hafa fallið niður að fullu og að lækkun tollabindinga á þegar að hafa komið til framkvæmda að hluta. Þá bera fæstar þær vörur sem falla undir ákvæði yfirlýsingarinnar nokkra tolla í dag.
    Erfitt er að áætla hvert árlegt tekjutap ríkissjóðs verði við niðurfellingu tolla þar sem niðurfellingin nær í mörgum tilvikum eingöngu til hluta af þeim vörum sem falla undir einstök tollskrárnúmer og kallar því á nýja uppskiptingu tollskrárnúmera. Í heild má þó ætla að tekjutapið verði vart meira en 25 millj. kr. á ári. Á móti kemur að afnám tolla af þessum vörum auðveldar útflutning á ýmsum vörum á sviði upplýsingatækni sem framleiddar eru hérlendis.

II. Solidarisk ábyrgð umboðsaðila eða rekstraraðila frísvæðis eða tollvörugeymslu.

    Í tollalögum er kveðið á um að þegar annar aðili en innflytjandi kemur fram fyrir hans hönd við tollafgreiðslu vöru beri sá aðili ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda ásamt innflytjanda. Þannig er meginreglan skv. 1. mgr. 111. gr. laganna sú að ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda hvíli á þeim sem kemur fram gagnvart tollyfirvöldum vegna tollmeðferðar á vöru, en kveðið á um það í 2. mgr. sömu greinar að sé innflytjandi eða viðtakandi vöru annar aðili en sá sem kemur fram gagnvart tollyfirvöldum ábyrgist þeir in solidum greiðslu aðflutningsgjalda. Í 3. málsl. 1. mgr. 14. gr., svo og 3. málsl. 3. mgr. 14. gr. er jafnframt tekið fram að rekstraraðilar frísvæðis og tollvörugeymslna og umboðsaðilar sem koma fram gagnvart tollyfirvöldum við SMT-tollafgreiðslu (þ.e. tollafgreiðslu sem á sér stað með skjalasendingum milli tölva) ábyrgist ásamt innflytjendum eða viðtakendum vara in solidum greiðslu aðflutningsgjalda. Þessi solidariska ábyrgð umboðsaðila og rekstraraðila tollvörugeymslna og frísvæða nær þó ekki til þess tilviks er þessir aðilar hafa sent tölvuskeyti eða aðflutningsskýrslu sem byggist á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum frá innflytjanda eða viðtakanda vöru, nema viðkomandi hafi vitað eða mátt vita að upplýsingarnar væru rangar eða ófullnægjandi.
    Á síðasta ári var gerð sú breyting á tölvukerfi tollyfirvalda að aðilum sem heimild hafa til þess að koma fram fyrir hönd innflytjenda við tollafgreiðslu, t.d. flutningsmiðlunum, hraðflutningsfyrirtækjum og rekstraraðilum tollvörugeymslna og frísvæða, var gert kleift að skuldfæra aðflutningsgjöld beint á þá innflytjendur sem njóta greiðslufrests á aðflutn ingsgjöldum í tolli. Fram að þeim tíma höfðu aðflutningsgjöld að jafnaði verið skuldfærð á umboðsaðilann sjálfan. Auk þess voru möguleikar innflytjenda til að fá aðflutningsgjöld skuldfærð (tollkrít) rýmkaðir. Þessar breytingar stuðla að einfaldari tollafgreiðsluháttum og eru jafnframt nauðsynleg skref í átt að því markmiði að tekin verði upp alsjálfvirk SMT-tollafgreiðsla vegna alls inn- og útflutnings í atvinnuskyni fyrir árið 2000, eins og gert er ráð fyrir í tollalögum.
    Telja verður að sú ríka ábyrgð sem lögð er á þá aðila sem koma fram fyrir hönd innflytjenda gagnvart tollyfirvöldum sé of víðtæk, meðal annars í ljósi umræddra breytinga á tölvukerfi og tollafgreiðsluháttum. Verður ekki séð að rök séu til þess að aðila, sem annast í atvinnuskyni tollmeðferð vara fyrir innflytjendur, verði gert að greiða aðflutningsgjöld innflytjenda sem öðlast hafa greiðslufrest á aðflutningsgjöldum í þeim tilvikum er innflytjandi greiðir ekki áfallin gjöld á gjalddaga. Af þeim sökum er lagt til að ábyrgð umboðsaðila falli brott við skuldfærslu aðflutningsgjalda á innflytjanda. Þó er gert ráð fyrir að ábyrgð umboðsmanns falli ekki brott í þeim tilvikum er umboðs- eða rekstraraðili hefur ekki haft heimild frá innflytjanda til skuldfærslunnar eða ef umboðs- eða rekstraraðili vissi eða mátti vita að upplýsingar sem veittar voru við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi.

III. Aðrar breytingar.

a.    Skipun tollvarða: Lagt er til að ríkistollstjóri og tollstjórar, í stað fjármálaráðherra, skipi tollverði við embætti sín. Þó er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra skipi áfram yfirtollverði, aðaldeildarstjóra og deildarstjóra. Í 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfs manna ríkisins, er kveðið á um að tollverðir teljist embættismenn. Þeir skulu því skv. 1. mgr. 23. gr. laganna skipaðir í embætti til fimm ára í senn. Ekki er kveðið á um það í lögun um að þeir skuli skipaðir af fjármálaráðherra, eins og tíðkast hefur, heldur kveða lögin á um að stjórnvald skipi í embætti. Það fyrirkomulag að ráðherra skipi tollstjóra þykir óþarflega þungt í vöfum og er því breyting þessi lögð til.
b.    Endurákvörðun aðflutningsgjalda: Lagt er til að málsmeðferðarákvæði laganna verði gerð skýrari þannig að ótvírætt verði að endurákvörðun tollyfirvalda, þ.e. ríkistollstjóra og tollstjóra, verði kæranleg beint til ríkistollanefndar án þess að fyrst verði að kæra hana til viðkomandi tollyfirvalds.
c.    Geymsluskylda gagna: Lagt er til að dregið verði úr skyldu þeirra aðila sem annast tollafgreiðslu fyrir hönd innflytjenda til að varðveita gögn. Þannig takmarkist geymsluskylda þessara aðila við tölvutæk gögn varðandi SMT-tollafgreiðslur. Önnur gögn verði hins vegar varðveitt hjá innflytjendum eða viðtakendum sem eru bókhaldsskyldir, í samræmi við ákvæði bókhaldslaga, en hjá tollyfirvöldum ef innflytjandi eða viðtakandi er ekki bókhaldsskyldur.
d.    Annað: Lagðar eru til smávægilegar breytingar á orðalagi einstakra ákvæða tollalaga til samræmis við breytingar sem orðið hafa á póststarfsemi hér á landi á undanförnum árum. Þá eru lagðar til smávægilegar orðalagsbreytingar á einstökum ákvæðum sem miða að því að auðvelda framkvæmd laganna, gera ákvæði þeirra skýrari og leiðrétta ónákvæmt orðalag.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið er lögð til orðalagsbreyting til samræmis við það að nýr viðauki bætist við lögin, en um þá breytingu vísast til almennra athugasemda við fruvmarpið. B-liður þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Gert er ráð fyrir að tilvísun verði breytt til samræmis við það að nýr viðauki bætist við lögin.

Um 3. gr.

    Ákvæði 13. gr. gildir almennt um ákvörðun tollafgreiðslugengis sem nota skal við umreikning tollverðs vöru í íslenskar krónur en það er miðað við opinbert viðmiðunargengi sem skráð er af Seðlabanka Íslands. Við síðustu breytingu á lagagreininni, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1996, hefur láðst að breyta orðalagi síðasta málsliðar greinarinnar. Því er lagt til að orðinu „sölugengi“ verði nú breytt til samræmis þannig að vísað sé til nefnds viðmiðunargengis Seðlabanka Íslands.

Um 4. gr.

    Í a- og c-liðum greinarinnar eru lagðar til breytingar á ákvæðum 14. gr. er varða solidariska ábyrgð umboðsmanna og flutningsmiðlana á greiðslu aðflutningsgjalda. Þeirri breytingu er lýst ítarlega í almennum athugsemdum við frumvarpið og vísast til þeirrar umfjöllunar.
    Í b-lið er leiðrétt röng tilvísun greinarinnar í lagaákvæði.
    Í d- og e-liðum er lagt til að dregið verði úr kröfum sem gerðar eru um varðveislu á gögnum til þeirra sem koma fram gagnvart innflytjanda vegna tollafgreiðslu. Þessum aðilum er samkvæmt gildandi lögum gert að varðveita í bókhaldi sínu öll gögn sem snerta tollmeðferð vara og sendinga, hvort sem þau eru skrifleg eður ei. Lagt er til að skylda þessara aðila til varðveislu gagna takmarkist við tölvutæk gögn er varða SMT-tollafgreiðslu. Hins vegar verði innflytjanda eða viðtakanda sem er bókhaldsskyldur gert að varðveita öll skrifleg gögn sem varða innflutning og tollafgreiðslu. Sé innflytjandi eða viðtakandi vöru ekki bókhaldsskyldur er gert ráð fyrir því að tollstjóra verði afhent öll skrifleg gögn sem snerta tollmeðferð vöru.
    Orðalagsbreyting sem lögð er til í f-lið þarfnast ekki skýringa.


Um 5., 7. og 9. gr.

    Í þessum greinum eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna sem varða skipun tollvarða og ráðningu annarra tollstarfsmanna.
    Helsta breytingin sem lögð er til í þessum ákvæðum frumvarpsins er sú að að ríkistollstjóri og tollstjórar, í stað fjármálaráðherra, skipi tollverði við embætti sín. Þó er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra skipi áfram yfirtollverði, aðaldeildarstjóra og deildarstjóra. Í 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er kveðið á um að tollverðir teljist embættismenn. Þeir skulu því, skv. 1. mgr. 23. gr. laganna, skipaðir í embætti til fimm ára í senn. Ekki er kveðið á um það í lögunum að þeir skuli skipaðir af fjármálaráðherra, eins og tíðkast hefur, heldur kveða lögin á um að stjórnvald skipi í embætti. Það fyrirkomulag að ráðherra skipi tollverði þykir óþarflega þungt í vöfum og er því breyting þessi lögð til. Þessi tilhögun er í samræmi við það vinnuréttarsamband sem er á milli tollstjóra og þeirra tollvarða sem starfa í umboði hans. Tilfærslur milli starfa innan embættisins verða einnig mun auðveldari, auk þess sem breytingin er í samræmi við þá stefnu ríkisins sem mótuð var með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að færa ákvörðunarvald um kjör starfs manna í auknum mæli til stjórnenda einstakra stofnana.
    Eins og áður segir eru tollverðir lögum samkvæmt embættismenn og skulu samkvæmt því skipaðir til fimm ára í senn. Hins vegar er ekki ljóst af gildandi lögum hvernig haga skuli ráðningarmálum þegar tollverðir eru til reynslu fyrstu mánuðina í starfi, við forföll eða áður en starfsmaður lýkur tollskólanum. Atriði sem þessi valda vandkvæðum í framkvæmd. Æskilegt er að hægt verði að setja mann í starf tollvarðar tímabundið í tilteknum tilvikum áður en hann fær fulla skipun til fimm ára. Af þessum sökum er lagt til að tollstjórum og ríkistollstjóra verði heimilt að setja menn tímabundið til starfa sem tollverði meðan tekin er ákvörðun um hvort rétt sé að skipa þá að fullu á meðan þeir stunda nám við tollskólann, svo og vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa tollvarða.


Um 6. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á málsmeðferðarreglum við endurákvörðun ríkistollstjóra á aðflutningsgjöldum. Um er að ræða sams konar breytingu og lögð er til í frumvarpinu varðandi málsmeðferð við endurákvörðun hjá tollstjórum og vísast til athugasemda við 12. og 13. gr. frumvarpsins um þá breytingu.

Um 8. gr.

    Lagt er til að núgildandi 39. gr. laganna verði málsgrein í 38. gr. laganna í stað þess að vera sjálfstæð lagagrein.

Um 10. gr.

    Lögð er til smávægileg orðalagsbreyting á ákvæði 1. mgr. 50. gr. laganna til þess að færa lagaákvæðið til samræmis við ríkjandi framkvæmd, þ.e. að tollstjórar geti sjálfir tekið ákvörðun um framhald máls, m.a. um það hvort ákært verði í máli.


Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 12. og 13. gr.

    Lagt er til að felld verði út úr 100. gr. heimild til að kæra endurákvörðun tollstjóra aftur til tollstjóra. Misræmis gætir í 99. gr. annars vegar og 100. gr. hins vegar. Í 99. gr. er gert ráð fyrir að í endurákvörðun tollstjóra sé þess getið að heimilt sé að kæra úrskurðinn til ríkis tollanefndar. Aftur á móti er í 100. gr. kveðið á um kærufrest á endurákvörðun tollstjóra aftur til tollstjóra. Til þess að taka af allan vafa í þessum efnum er lagt til að endurákvörðun tollstjóra verði kæranleg beint til ríkistollanefndar en ákvörðun tollstjóra aftur til tollstjóra og svo til ríkistollanefndar. Með þessu fyrirkomulagi eru málsmeðferðarreglur tollalaga aðlagaðar málsmeðferðarreglum skattalaga, en á árinu 1996 var málsmeðferð á skattstjóra stigi stytt um eitt kærustig við endurákvörðun skatta. Þeirri breytingu var ætlað að miða að aukinni skilvirkni á skattstjórastigi án þess þó að skerða réttaröryggi skattaðila. Í athuga semdum með þeim breytingum kom skýrt fram að engar breytingar yrðu á rannsóknar- eða rökstuðningsskyldu stjórnavalda né andmælarétti. Reglur þessar kæmu ýmist fram í skatta lögunum sjálfum eða stjórnsýslulögum. Sömu sjónarmið eiga að sjálfsögðu við um tollalög þó breytingunum sé ætlað að leiða til tíma- og vinnusparnaðar bæði hjá innflytjendum og tollyfirvöldum. Því hefur verið haldið fram að í framkvæmd séu mál nokkuð þung í vöfum eftir endurákvörðun og að við kæruúrskurði verði sjaldnast miklar breytingar þar sem allar málsástæður, lagarök og gögn hafi að jafnaði komið fram þegar endurákvörðun hefur verið boðuð. Sú formlega breyting sem lagt er til að verði á ákvæðinu er að tollstjóra verði gert að kveða upp úrskurð um endurákvörðunina sem síðan sé kæranlegur til ríkistollanefndar.


Um 14. gr.

    Í a- og b-liðum er lagt til að skýrt verði kveðið á um að úrskurður tollstjóra um endur ákvörðun verði kæranlegur til ríkistollanefndar í samræmi við það sem áður hefur komið fram um þá breytingu sem lagt er til að verði á öðrum málsmeðferðarákvæðum laganna.
    Í c- og d-liðum er lögð til breyting á orðalagi 5. mgr. ákvæðisins og brottfall 11. mgr. þess. Skýringin er sú að þessar málsgreinar eru nánast samhljóða og virðist sem láðst hafi að fella brott 11. mgr. við breytingu þá er gerð var á lagagreininni með 27. gr. laga nr. 69/1996.

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæðum 1. og 2. mgr. 111. gr. laganna þar sem kveðið er á um ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda.
    Í núgildandi 1. mgr. 111. gr. kemur fram að ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda hvíli á þeim sem kemur fram gagnvart tollyfirvöldum. Í 2. mgr. er síðan tekið fram að sé innflytjandi eða viðtakandi annar aðili en sá sem kemur fram gagnvart tollyfirvöldum ábyrgist þeir in solidum greiðslu aðflutningsgjalda.
    Lagt er til að þess í stað verði kveðið á um þá meginreglu að innflytjandi, eða eftir atvikum viðtakandi vöru, beri ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda. Komi annar en innflytjandi eða viðtakandi vöru fram gagnvart tollyfirvöldum við tollmeðferð beri sá aðili þó ásamt inn flytjanda in solidum ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda. Ábyrgð þessa aðila falli hins vegar brott þegar aðflutningsgjöld hafa verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda sem nýtur greiðslufrests í tolli (tollkrít). Þó mundi solidarisk ábyrgð ekki falla brott í þeim tilvikum er umboðs- eða rekstraraðili hefur ekki haft heimild frá innflytjanda eða viðtakanda til að óska eftir skuldfærslu gjalda á innflytjanda eða viðtakanda eða ef umboðs- eða rekstraraðili vissi eða mátti vita að upplýsingar sem veittar voru við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægj andi.

Um 17. gr.     

    Lögð er til breyting á ákvæði 1. mgr. 121. gr. laganna á þann veg að nægilegt verði fyrir útflytjendur að veita tollstjórum upplýsingar um útflutninginn áður en varan er flutt úr landi í stað þess að skylda sé lögð á þá að veita þessar upplýsingar áður en vara er afhent til útflutnings.

Um 18. gr.

    Lagt er til að orðalagi og uppsetningu 122. gr. laganna verði breytt lítillega til þess að tvímælalaust verði að greinin eigi almennt við um upprunayfirlýsingu framleiðenda vara sem notið geta fríðinda samkvæmt ákvæðum fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að. Eins og ákvæðið hljóðar nú vísar það eingöngu til almennra upprunareglna sem um ræðir í 1. mgr. 122. gr. og á rætur að rekja til ákvæða í samningnum um stofnun Alþjóðavið skiptastofnunarinnar. Í þeim samningi er gert ráð fyrir að settar verði almennar upprunareglur vegna vöruviðskipta sem samningurinn tekur til og er nú af hálfu Alþjóðlegu tollastofnunar innar (WCO, áður Tollasamvinnustofnunin) unnið að gerð slíkra reglna.
    

Um 19. gr.

    Í greininni er lagt til að bætt verði við lögin nýjum viðauka sem verði hluti af viðauka II við gildandi lög og fái heitið Viðauki IIC. Í honum eru tilgreind tollskrárnúmer vegna vara sem tollar falla niður af og óheimilt verður að leggja tolla á samkvæmt ráðherrayfirlýsingunni í Singapore 1996. Þó eru ekki tilgreind tollskrárnúmer sem falla undir ákvæði ráðherrayfirlýs ingarinnar sem Ísland hefur þegar skuldbundið sig til að leggja ekki tolla á samkvæmt Marakess-bókuninni við hinn almenna samning um tolla og viðskipti 1994 (viðauki IIB við tollalög). Að öðru leyti vísast til skýringa í almennum athugasemdum.

20. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á tollalögum,


nr. 55/1987, með síðari breytingum.


    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á ákvæðum tollalaga nr. 55/1987. Megin breytingin felst í því að lagt er til að lögfestur verði viðauki við lögin er tilgreini ýmsar vörur á sviði upplýsingatækni sem tollar falli niður af og óheimilt verði að leggja tolla á. Þá eru lögð til breyting á reglum um solidaríska ábyrgð umboðsaðila og rekstraraðila frísvæðis eða toll vörugeymslna, um skipun tollvarða og um endurákvörðun aðflutningsgjalda, auk annarra smá vægilegra breytinga.
    Ekki er gert ráð fyrir að breytingar þessar hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.