Ferill 605. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1059 – 605. mál.Nefndarálitum frv. til l. um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá utanríkisráðuneyti Jóhann Sigurjónsson, frá sjávarútvegsráðuneyti Árna Kolbeinsson og frá forsætisráðuneyti Ólaf Davíðsson. Hólmgeir Jónsson og Sævar Gunnarsson komu frá Sjómannasambandi Íslands og Benedikt Valsson, Guðjón Ármann Einarsson og Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna kom Kristján Ragnarsson, Þórarinn V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Arthur Bogason kom frá Landssambandi smábátaeigenda. Frá Verkamannasambandi Íslands komu Kristján Bragason, Snær Karlsson, Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður fiskvinnsludeildar Verka mannasambands Íslands, og Elínbjörg Magnúsdóttir, varaformaður fiskvinnsludeildar. Einar Svansson, Ágúst Elíasson og Arnar Sigmundsson komu frá Samtökum fiskvinnslustöðva. Óskar Þór Karlsson, Sæmundur Hinriksson, Kristján Guðmundsson, Sturla Erlendsson og Jón Steinn Elíasson komu frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar og Helgi Laxdal frá Vél stjórafélagi Íslands. Þá kom á fundinn Þórir Einarsson ríkissáttasemjari.
    Nefndinni barst umsögn frá Fiskifélagi Íslands.
    Meiri hluti nefndarinnar vekur athygli á því að til tals hefur komið innan nefndarinnar að Verðlagsstofa skiptaverðs verði staðsett á landsbyggðinni og tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í breytingunum felst:
     1.      Lagt er til að við 2. gr. bætist nýr málsliður sem heimili sjávarútvegsráðherra að semja við fagaðila um almenna öflun og úrvinnslu gagna skv. 3.gr. Í greinargerð með frumvarpinu sjálfu var vikið að þeim verkefnum sem Fiskifélagi Íslands hafi verið falin í tengslum við störf úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Af þeim athuga semdum má skilja að ráðgert sé að Fiskifélagið skuli eiga kost á slíkum verksamningi eftirleiðis á grundvelli ákvæða þessa frumvarps. Tekur meiri hlutinn eindregið undir það.
     2.      Lögð er til sú breyting á 3. málsl. 3. gr. að upplýsingar um fiskverð verði birtar þannig að þær gagnist einnig fiskkaupendum auk útvegsmanna og sjómanna.
     3.      Við 5. gr. er lagt til að bætist ný málsgrein sem árétti að meðalhófsreglan skuli gilda við upplýsingaöflun starfsmanna Verðlagsstofu skiptaverðs og að kröfur um upplýsingar séu í samræmi við tilefni hverju sinni. Þá er bætt við ákvæði um að upplýsingarnar megi einungis nýta vegna úrskurðar í einstökum málum eða í almennum tilgangi skv. 3. gr. Nefndin taldi nauðsynlegt að kveðið væri skýrt á um þetta þannig að traust skapaðist milli Verðlagsstofu skiptaverðs og þeirra aðila sem hún mun þurfa að sinna eftirliti með.
     4.      Lagt er til að á eftir 2. mgr. 8. gr. komi ný málsgrein sem kveði á um það með skýrum hætti hvernig skuli fara með ef hagsmunaaðilar einhverra hluta vegna tilnefna ekki aðila samkvæmt greininni.
     5.      Á 2. mgr. 10 . gr. eru lagðar til breytingar sem lúta að því að ákvörðun úrskurðarnefndar nái til verðs fyrir afla sem landað er í síðasta lagi að liðnum sjö dögum frá því að máli óskyldra aðila var skotið til nefndarinnar, í stað þess að hún gildi frá því að hún er tilkynnt aðilum. Það sama er lagt til að gildi um ákvarðanir nefndarinnar um kærur frá Verðlagsstofu skiptaverðs.
     6.      Á 17. gr. eru lagðar til breytingar sem leggja ríkari þagnarskyldu á starfsmenn Verðlagsstofu skiptaverðs en frumvarpið gerir ráð fyrir. Í ljósi þess að starfsmenn Verðlags stofunnar munu fjalla um ýmsar viðkvæmar upplýsingar sem snerta hag og afkomu fyrir tækja í sjávarútvegi almennt séð er nauðsynlegt að hafa skýr ákvæði um þagnarskyldu í frumvarpinu.
     7.      Að síðustu er lagt til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem leggur þá skyldu á sjávarútvegsráðherra að leggja fyrir Alþingi skýrslu fyrir árslok 1999 þar sem gerð sé grein fyrir áhrifum þeirra breytinga sem frumvarpið felur í sér á íslenskan sjávarútveg, sérstaklega hvað varðar stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar. Lagt er til að sambærilegu bráðabirgðaákvæði verði einnig bætt við frumvarp um Kvótaþing og frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Alþingi, 27. mars 1998.Árni R. Árnason,


varaform., frsm.


Vilhjálmur Egilsson.Hjálmar Árnason.
Guðmundur Hallvarðsson.Valgerður Sverrisdóttir.