Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1081, 122. löggjafarþing 605. mál: Verðlagsstofa skiptaverðs.
Lög nr. 13 27. mars 1998.

Lög um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.


I. KAFLI
Verðlagsstofa skiptaverðs.

1. gr.

     Hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs er að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

2. gr.

     Sjávarútvegsráðherra skipar forstöðumann Verðlagsstofu skiptaverðs til fimm ára í senn. Forstöðumaður ræður annað starfsfólk. Sjávarútvegsráðherra getur samið við aðrar ríkisstofnanir um að annast rekstur skrifstofu Verðlagsstofu skiptaverðs eftir því sem hagkvæmt þykir. Þá er ráðherra og heimilt að semja við fagaðila um almenna öflun og úrvinnslu gagna skv. 3. gr.

3. gr.

     Verðlagsstofa skiptaverðs skal afla ítarlegra gagna um fiskverð. Skal hún með skipulegum hætti vinna úr upplýsingunum sundurliðuð yfirlit um fiskverð miðað við einstök landsvæði, tiltekna viðskiptahætti og stærðar- og gæðaflokka. Stofan skal reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum, sjómönnum og fiskkaupendum sem best. Þá skal stofan afla gagna um afurðaverð og horfur um þróun þess.

4. gr.

     Til að Verðlagsstofa geti sinnt hlutverki sínu skv. 3. gr. ber Fiskistofu og þeim aðilum sem fyrir hennar hönd safna og vinna úr upplýsingum að veita Verðlagsstofu skiptaverðs aðgang að öllum upplýsingum um ráðstöfun afla og fiskverð. Þá er útgerð skips skylt að senda Verðlagsstofu án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar.

5. gr.

     Við athugun einstakra mála getur Verðlagsstofa skiptaverðs krafið sjómenn, útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila, fiskmarkaði, umboðsmenn og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu á afla um allar nauðsynlegar upplýsingar. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem Verðlagsstofa setur. Þá getur stofan krafið framangreinda aðila um að afhenda gögn til athugunar innan hæfilegs frests.
     Verðlagsstofa skiptaverðs getur við athugun einstakra mála krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, sem og bönkum og sparisjóðum, óháð þagnarskyldu þeirra.
     Verðlagsstofa skiptaverðs getur einnig lagt skyldur á þá aðila sem um ræðir í 1. mgr. að upplýsa stofuna reglulega um atriði er máli skipta við framkvæmd laga þessara.
     Við upplýsingaöflun samkvæmt þessari grein skal gæta meðalhófsreglu og að kröfur um upplýsingar séu í samræmi við tilefni. Upplýsingar má einungis nýta vegna úrskurðar í einstökum málum eða almennum tilgangi skv. 3. gr.

6. gr.

     Verðlagsstofa skiptaverðs skal m.a. með úrtakskönnun fylgjast með því að við uppgjör á aflahlut áhafnar sé lagt til grundvallar raunverulegt söluverðmæti afla með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum á hverjum tíma. Telji Verðlagsstofa misræmi milli gagna um söluverðmæti afla og þess verðs sem uppgjör við áhöfn hefur miðast við og framkomnar skýringar ekki fullnægjandi skal hún tilkynna það álit útgerð og áhöfn viðkomandi skips. Skal álit Verðlagsstofu rökstutt og skulu því fylgja nauðsynleg gögn.

7. gr.

     Víki fiskverð við uppgjör á aflahlut áhafnar í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða skal Verðlagsstofa skiptaverðs taka málið til sérstakrar athugunar. Skal stofan afla allra gagna um ráðstöfun afla viðkomandi skips og verðlagningu hans, upplýsinga um samninga útgerðar og áhafnar skips um fiskverð, umsagna útgerðar og áhafnar um málið og annarra gagna er máli skipta.
     Telji Verðlagsstofa ekki fram komnar fullnægjandi skýringar skal hún skjóta málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skv. II. kafla laga þessara með kröfu um að úrskurðarnefnd ákveði fiskverð er nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar þess skips er í hlut á. Skulu fylgja kæru öll gögn sem aflað hefur verið um uppgjör á aflahlut áhafnar skips skv. 1. mgr., svo og nauðsynlegar upplýsingar um verðlagningu sambærilegs afla í hliðstæðum viðskiptum.

II. KAFLI
Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

8. gr.

     Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hefur það hlutverk að ákveða fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar einstakra skipa svo sem nánar er kveðið á um í þessum kafla.
     Í nefndinni eiga sæti sjö menn, einn tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, einn af Sjómannasambandi Íslands, einn af Vélstjórafélagi Íslands, þrír af Landssambandi íslenskra útvegsmanna og formaður sem sjávarútvegsráðherra skipar að höfðu samráði við framangreind samtök sjómanna og útvegsmanna. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.
     Nýti samtök ekki tilnefningarrétt sinn skv. 2. mgr. skal sjávarútvegsráðherra skipa þá nefndarmenn og varamenn þeirra sem á vantar til að nefndin verði fullskipuð.
     Verðlagsstofa skiptaverðs skal annast upplýsingaöflun og skrifstofuhald fyrir úrskurðarnefnd.

9. gr.

     Verðlagsstofa skiptaverðs getur skotið málum til úrskurðarnefndar, sbr. 7. gr.
     Takist ekki samningar milli útgerðar og áhafnar fiskiskips um fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut þegar afli skipsins er afhentur eða seldur aðila sem telst skyldur útgerðinni geta þau heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna sem standa að tilnefningu úrskurðarnefndar skv. 8. gr. hver um sig skotið málinu til úrlausnar nefndarinnar, í samræmi við ákvæði kjarasamninga aðila þar að lútandi.
     Á sama hátt geta heildarsamtök sjómanna skotið til nefndarinnar ákvörðun fiskverðs í viðskiptum útgerðar við aðila sem ekki telst skyldur útgerðinni ef samningar um slíkt verð hafa ekki tekist innan fimm daga frá því að áhöfn skips óskaði slíkra samninga.
     Útgerð og viðskiptaaðili hennar teljast skyld í þessu sambandi ef þau eru í eigu eða rekstri sama aðila eða ef sami aðili á meiri hluta beggja fyrirtækjanna, svo sem meiri hluta stofnfjár eða hlutafjár, eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar í þeim báðum eða hefur með öðrum hætti raunveruleg yfirráð þeirra beggja. Sama á við ef annað fyrirtækið hefur raunveruleg yfirráð yfir hinu með eignaraðild, atkvæðisrétti eða með öðrum hætti.

10. gr.

     Úrskurðarnefnd skal ákvarða fiskverð til uppgjörs á aflahlut sjómanna í þeim tilvikum sem til hennar er skotið skv. 9. gr. Gildir ákvörðunin eingöngu um fiskverð gagnvart áhöfn þess skips sem málskotið varðar en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa sömu útgerðar. Ákvörðun nefndarinnar um fiskverð í málum sem skotið er til hennar af Verðlagsstofu skiptaverðs gildir um verð í öllum viðskiptum á gildistíma ákvörðunar, sbr. þó 3. mgr. Ákvörðun nefndarinnar um fiskverð í viðskiptum milli óskyldra aðila, sbr. 3. mgr. 9. gr., gildir um verð í öllum slíkum viðskiptum á gildistíma ákvörðunar.
     Ákvörðun nefndarinnar nær til verðs fyrir afla sem landað er eftir að málinu var skotið til hennar ef ákvörðun varðar viðskipti milli skyldra aðila, sbr. 2. mgr. 9. gr., en til verðs fyrir afla sem landað er eftir að ákvörðun nefndarinnar er tilkynnt aðilum, en þó aldrei síðar en sjö dögum eftir að málinu var skotið til hennar, ef hún varðar kæru frá Verðlagsstofu skiptaverðs, sbr. 1. mgr. 9. gr., eða viðskipti milli óskyldra aðila, sbr. 3. mgr. 9. gr. Nefndin ákveður sjálf hversu lengi ákvörðun hennar skuli gilda. Þó skal hún aldrei gilda lengur en í þrjá mánuði.
     Ákvörðun nefndarinnar um fiskverð gildir ekki þegar afli er seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmörkuðum.

11. gr.

     Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa fiskverðs hefur safnað.
     Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Varði ákvörðun nefndarinnar fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og taka tillit til heildarráðstöfunar á afla skips.

12. gr.

     Úrskurðarnefnd skal fela Verðlagsstofu skiptaverðs að leita upplýsinga hjá útgerð og áhöfn og þeim aðilum er um ræðir í 4. og 5. gr. um öll þau atriði sem máli kunna að skipta varðandi úrlausn í tilteknu máli.

13. gr.

     Þegar eftir að máli er skotið til úrskurðar skulu þeir nefndarmenn, sem tilnefndir eru af heildarsamtökum sjómanna og útvegsmanna, taka málið til umfjöllunar. Nái þeir ekki samkomulagi um ákvörðun fiskverðs innan 14 daga ef málið varðar fiskverð í viðskiptum skyldra aðila en innan sjö daga varði málið kæru Verðlagsstofu skiptaverðs eða viðskipti óskyldra skal málið tekið fyrir í fullskipaðri nefnd og skal hún kveða upp úrskurð innan sjö daga ef málið varðar fiskverð í viðskiptum skyldra en innan fjögurra daga varði málið kæru Verðlagsstofu skiptaverðs eða viðskipti óskyldra.
     Samkomulagi nefndarinnar um fiskverð skulu fylgja forsendur þess en úrskurður fullskipaðrar nefndar skal vera rökstuddur.

14. gr.

     Þegar úrskurður er kveðinn upp ræður afl atkvæða úrslitum í úrskurðarnefnd. Um hæfi nefndarmanna til meðferðar einstaks máls og málsmeðferð að öðru leyti fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eftir því sem við getur átt.

15. gr.

     Ákvörðun úrskurðarnefndar um fiskverð, hvort sem hún byggist á samkomulagi eða úrskurði, er bindandi gagnvart útgerð og allri áhöfn skips á gildistíma hennar og er óheimilt að semja um annað fiskverð við einstaklinga í áhöfn. Skal ákvörðun nefndarinnar lögð til grundvallar fyrir dómi, nema svo sé ástatt sem um er rætt í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma. Hafi skip landað afla hjá aðila er telst skyldur útgerð eftir að máli var skotið til nefndarinnar en áður en úrskurður er upp kveðinn getur nefndin úrskurðað um aflahlut áhafnar vegna þess afla. Er sá úrskurður aðfararhæfur, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 53/1989.

16. gr.

     Stöðvi útgerð rekstur skips eða breyti útgerðarháttum þess í verulegum atriðum á gildistíma úrskurðar skal það tilkynnt áhöfn skriflega með a.m.k. 10 daga fyrirvara. Er útgerð skylt að greiða áhöfn bætur fyrir skertan aflahlut fyrir þann tíma sem eftir lifir af gildistíma úrskurðar. Skulu þær nema áætluðum aflahlut einstakra skipverja miðað við óbreytta útgerðarhætti að frádregnum greiðslum sem í stað aflahlutar kunna að hafa komið.
     Við áætlun aflahluta skv. 1. mgr. skal taka mið af fyrri veiðum skips og afla hliðstæðra skipa sem stunda sambærilegar veiðar á þeim tíma er bæturnar varða.
     Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við ef óviðráðanlegar ástæður valda því að útgerð stöðvar rekstur skips eða breytir útgerðarháttum þess.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.

17. gr.

     Starfsmenn Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um allt er varðar hagi tiltekinna einstaklinga eða fyrirtækja og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að upplýsingar skuli veittar eða að skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskylda gildir þó ekki gagnvart fiskverði sem úrskurðað er skv. II. kafla eða almennum upplýsingum skv. 3. gr.

18. gr.

     Kostnaður af Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna greiðist úr ríkissjóði. Þó skulu heildarsamtök útvegsmanna og sjómanna hver um sig bera kostnað af þeim fulltrúum sem hlutaðeigandi samtök hafa tilnefnt til setu í úrskurðarnefndinni.

19. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1998. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 84 20. júní 1995, um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Sjávarútvegsráðherra skal fyrir lok fiskveiðiársins 1998/1999 láta kanna hvaða áhrif lögin hafi haft á íslenskan sjávarútveg, sérstaklega stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar. Skal ráðherra fyrir árslok 1999 leggja fyrir Alþingi skýrslu þar sem niðurstöður könnunar verði birtar.

Samþykkt á Alþingi 27. mars 1998.