Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1083 – 201. mál.Nefndarálitum frv. til l. um loftferðir.

Frá minni hluta samgöngunefndar (GÁS, RA, ÁRJ).    Minni hluti samgöngunefndar getur ekki stutt þetta frumvarp til laga um loftferðir og skulu hér tilgreindar nokkrar ástæður þess.
    Í fyrsta lagi er ljóst að í upphaflegu frumvarpi samgönguráðherra var í raun gert ráð fyrir að flugráð yrði lagt niður. Að vísu var við það miðað að það yrði áfram til að nafninu til en völd þess og áhrif yrðu að engu gerð. Var lagt til að samgönguráðherra skipaði það en ráðið hefði í raun engin áhrif á starfsemi Flugmálastjórnar heldur yrði eingöngu samgönguráðherra til ráðuneytis.
    Eftir ítarlega umfjöllun í samgöngunefnd er orðið ljóst að ekki er vilji til þess innan nefndarinnar að skilja þannig við þennan þátt frumvarpsins, þ.e. 8. gr. þess, og því hefur meiri hluti nefndarinnar lagt fram tillögu til breytinga sem breytir eðli greinarinnar. Sam kvæmt þeirri breytingartillögu meiri hlutans verða nokkur verkefni flugráðs skilgreind í sjálfum lögunum og eins við það miðað að Alþingi kjósi þrjá af fimm ráðsmönnum, en sam gönguráðherra skipi formann og varaformann. Þetta er til bóta miðað við upphaflegt frum varp, þótt enn þá vanti nokkuð upp á að greinin sé fullnægjandi. Það er álit minni hlutans að flugráð skuli kosið af Alþingi og einnig sé nauðsynlegt að gerð sé grein fyrir eftirlitshlut verki þess. Auk þess sé eðlilegt að ráðið komi að ráðningu flugmálastjóra, hafi a.m.k. um sagnarrétt.
    Í ljósi reynslunnar telur minni hlutinn mikilvægt að skýrgreina og styrkja stöðu flugráðs frá því sem verið hefur, fremur en veikja hana gagnvart framkvæmdarvaldinu og Flugmála stjórn Íslands. Enn fremur skal á það bent að tæpast eru fordæmi fyrir því að ráðherra skipi formann og varaformann einstakra stjórna eða nefnda en Alþingi aðra. Farið er fram á að bent verði á fordæmi slíks.
    Það er einnig sérkennilegt í ljósi þess að frumvarpið gerir ráð fyrir auknu sjálfstæði Flug málastjórnar gagnvart samgönguráðherra að ráð sé fyrir því gert í 6. gr. frumvarpsins að ráð herra skipi ekki eingöngu flugmálastjóra til fimm ára heldur og framkvæmdastjóra einstakra sviða stofnunarinnar. Það er nokkuð úr stíl miðað við stefnumörkun og verklag núverandi ríkisstjórnar um aukið vald forstöðumanna einstakra undirstofnana ráðuneyta.
    Megingagnrýnisefni minni hlutans lýtur hins vegar að 6. gr. frumvarpsins. Þar er að finna mjög víðfeðmar heimildir til handa Flugmálastjórn með samþykki ráðherra til stofnunar og aðildar að hlutafélögum og fyrirtækjum með öðru rekstrarformi með það að markmiði m.a. að markaðsfæra og selja þjónustu stofnunarinnar, sem og að eiga aðild að fyrirtækjum sem annast framkvæmd og rekstur einstakra þjónustuþátta á starfssviði stofnunarinnar.
    Hér er með öðrum orðum veitt opin heimild til að einkavæða að litlu eða miklu leyti þá starfsemi sem Flugmálastjórn Íslands hefur með höndum. Það er vissulega pólitísk stefnu mörkun sem er í anda núverandi ríkisstjórnar og þarf ekki að koma á óvart. Hins vegar er rétt á benda á í þessu samhengi að rekstur flugvalla, gerð þeirra sem og viðhald og endurbætur hafa verið fjármagnaðar með opinberu fé. Ekki hefur þess sérstaklega orðið vart að einkaaðilar hafi óskað eftir því að taka á sig fjárskuldbindingar á þessum vettvangi. Minni hlutinn vill út af fyrir sig ekki útiloka að hagkvæmt kunni að vera að taka upp samstarf við einkaað ila á sviði flugrekstrar um einstök verkefni á þeim vettvangi þótt tæpast verði séð að virkri samkeppni verði komið á milli einstakra flugvalla hér á landi. Samkvæmt orðskýringu á ákvæði 7. gr. frumvarpsins er ekki girt fyrir að Flugmálastjórn eignist hlut í flugrekstraraðila eða stofni með flugrekstraraðila fyrirtæki í því skyni að vinna að þeim markmiðum sem nefnd eru í ákvæðinu. Minni hlutinn telur að slíkt samstarf við flugrekstraraðila sem á undir eftirlitsvald Flugmálastjórnar geti skarast við eftirlitshlutverk stofnunarinnar, vakið tor tryggni keppinauta og haft í för með sér vissa hættu á samkeppnishömlum, enda hafi umsögn Samkeppnisstofnunar staðfest þetta álit minni hlutans.
    Litið hefur verið á það sem pólitíska stefnumörkun að tryggja öruggar samgöngur vítt og breitt um landið með það að markmiði að treysta byggð í landinu. Það er alkunna að breyting frá opinberum rekstri yfir í einkarekstur byggist á þeirri grundvallarhugmynd að virkri sam keppni verði komið á. Fáir eru talsmenn þess að færa einkaaðilum einokunarstöðu í hendur. Það er því nauðsynlegt að samgönguráðherra og meiri hlutinn geri gleggri grein fyrir hug myndum sínum um þetta áður en frá málinu er gengið og greinin fest í lög eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Í þessu samhengi verður að benda á að Flugmálastjórn Íslands hefur framkvæmdarvald á hendi, sem og eftirlitshlutverk með öryggi flugvalla og loftfara. Það þýðir með öðrum orð um að Flugmálastjórn hefur sumpart eftirlit með sjálfri sér. Að sönnu hefur fyrirkomulag þessara mála verið þannig hingað til, en í ljósi þess að veita á Flugmálastjórn heimildir til að ganga til samstarfs við aðra hagsmunaðila um framkvæmdir og rekstur er það tvíeggjað að skilja ekki skýrt á milli framkvæmdarvalds stofnunarinnar og eftirlitshlutverks hennar.
    Má í þessu sambandi benda á nýlega löggjöf um fjarskipti og breytingar á rekstrarformi Pósts og síma, en þar var talið óhjákvæmilegt að skipa málum þannig að eftirlitshlutverkið yrði fært til sérstakrar stofnunar, Fjarskiptastofnunar, sem hafi með leyfisveitingar að gera svo og eftirlit og úrskurðarvald. Ekki er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi sem er óviðun andi. Mat sérfræðinga er að verði gengið frá lagasetningu um loftferðir á þann hátt sem frumvarpið gerir ráð fyrir verði þess ekki langt að bíða að taka þurfi málið upp og færa lögin í það horf sem að framan er lýst.
    Með vísan til þess sem að framan greinir og fleiri atriða sem fram munu koma við 2. um ræðu málsins mun minni hlutinn ekki styðja frumvarpið heldur sitja hjá við atkvæðagreiðslu um einstakar greinar þess og frumvarpið í heild.

Alþingi, 30. mars 1998.Guðmundur Árni Stefánsson,


frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.Ragnar Arnalds.