Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1098 – 340. mál.



Frumvarp til laga



um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

(Eftir 2. umr., 31. mars.)



1. gr.

    Fiskveiðar og vinnslu sjávarafla um borð í skipum í fiskveiðilandhelgi Íslands, eins og hún er skilgreind í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, mega eftirtaldir aðilar einir stunda:
1.      Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar.
2.      Íslenskir lögaðilar sem að öllu leyti eru í eigu íslenskra aðila eða lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    a.     Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
    b.    Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í lögaðila, sem stundar veiðar eða vinnslu í fisk veiðilandhelgi Íslands, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.
    c.    Eru að öðru leyti í eigu íslenskra ríkisborgara eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
    Með vinnslu sjávarafurða í 1. mgr. er átt við frystingu, söltun, herslu og hverja þá aðra verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjöl vinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki reyking, súrsun, niðursuða, niður lagning og umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
    Til fiskveiða og vinnslu sjávarafla um borð í skipum í fiskveiðilandhelgi Íslands má aðeins hafa íslensk skip og gildir það einnig um vinnslu sjávarafla skv. 2. málsl. 2. mgr. Íslensk skip eru þau skip sem skráð eru hér á landi samkvæmt lögum um skráningu íslenskra skipa.

2. gr.

    Erlendum veiðiskipum og vinnsluskipum er óheimilt að hafast við í fiskveiðilandhelgi Ís lands. Þó er þeim heimil óslitin sigling um fiskveiðilandhelgina, enda hafi þau tilkynnt um veru sína skv. 4. gr. Með ákvæði þessu eru ekki skert þau réttindi sem veitt hafa verið eða kunna að verða veitt öðrum ríkjum með milliríkjasamningum.

3. gr.

    Erlendum skipum er heimilt að landa eigin afla, umskipa afla og selja í íslenskum höfnum og sækja þangað alla þá þjónustu er varðar útgerð skips.
    Erlendum skipum, sem stunda veiðar eða vinnslu á afla úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og sem íslensk stjórnvöld hafa ekki gert milliríkjasamning um nýtingu á, er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. óheimilt að koma til íslenskra hafna. Sama gildir um erlend skip sem stunda veiðar eða vinnslu á afla sem brjóta í bága við samninga um nýtingu og varðveislu lifandi auðlinda hafsins sem Ísland er aðili að. Óheimilt er einnig að veita skipum, sem um ræðir í þessari málsgrein, þjónustu í fiskveiði landhelgi Íslands eða frá íslenskum höfnum og skipum, er flytja afla þeirra eða veita þeim þjónustu utan fiskveiðilandhelgi Íslands, er enn fremur óheimilt að koma til íslenskra hafna.
    Ráðherra getur ákveðið að ákvæði 2. mgr. gildi gagnvart skipum ef fánaríki skipsins er ekki aðili að samningi sem gildir um stjórn þeirra veiða sem viðkomandi skip stundar eða fylgir ekki þeim reglum sem settar eru samkvæmt þeim samningi, enda sé Ísland aðili að honum. Þá getur ráðherra ákveðið að ákvæði 2. mgr. taki til erlendra skipa sé slíkt talið nauðsynlegt til verndar lifandi auðlindum hafsins.
    Ákvæði þessarar greinar takmarka ekki rétt erlendra skipa til löndunar, umskipunar eða þjónustu hér á landi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að eða gildandi þjóða rétti. Ráðherra er heimilt að víkja frá ákvæði 2.–3. mgr. þegar sérstaklega stendur á. Ákvæði þessarar greinar skerða ekki rétt erlendra skipa til að koma til hafnar þurfi þau á neyðar þjónustu að halda og heimilt er þeim að leita vars við strendur landsins, enda verði Land helgisgæslu Íslands tilkynnt um það.

4. gr.

    Erlend veiðiskip og vinnsluskip skulu tilkynna Landhelgisgæslu Íslands með sex klukku stunda fyrirvara um komu sína í og siglingu út úr fiskveiðilandhelgi Íslands og gefa upp stað setningu. Meðan á siglingu þeirra í landhelginni stendur skulu þau á tólf klukkustunda fresti gefa upp staðsetningu, stefnu og hraða. Auk þess skulu þau erlendu skip sem hyggjast leita hafnar hér á landi tilkynna Landhelgisgæslunni um magn afla og tegundir um borð í skipinu, hvaða veiðar skipið hefur stundað og á hvaða svæði og hvaða þjónustu skipið sækir til við komandi hafnar. Landhelgisgæslan skal tilkynna Fiskistofu megi ætla að veiðar skipsins falli undir 2.–3. mgr. 3. gr.

5. gr.

    Um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni skulu, ef ekki er um annað samið í milli ríkjasamningum, gilda ákvæði laga og reglugerða sem gilda um veiðar íslenskra skipa í fisk veiðilandhelginni varðandi veiðarfæri, friðunarsvæði og veiðitíma, sbr. 8.–14. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nýtingu nytjastofna og eftirlit með fisk veiðum, þar með talda færslu afladagbóka, sbr. 2., 9. og 13. gr. laga nr. 57/1996, um um gengni um nytjastofna sjávar, og 15. og 17. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Þá skulu gilda ákvæði laga og reglugerða sem gilda um vigtun sjávarafla í íslenskum höfnum landi erlend veiðiskip afla sínum hér á landi. Að öðru leyti skulu gilda um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni sambærilegar reglur og gilda um veiðar íslenskra skipa, eftir því sem við á, sbr. þó 9. gr.

6. gr.

    Fiskistofa gefur út tímabundin leyfi til erlendra skipa í samræmi við ákvarðanir sjávar útvegsráðuneytisins þar að lútandi. Stjórnvöld í því ríki sem veitt hafa verið réttindi með milliþríkjasamningi skulu sækja til Fiskistofu um leyfi til að stunda veiðar á grundvelli samn ingsins. Erlendum skipum er óheimilt að hefja veiðar innan fiskveiðilandhelginnar nema að fengnu leyfi Fiskistofu.

7. gr.

    Eftirlit með framkvæmd laga þessara er í höndum Landhelgisgæslunnar, Fiskistofu og eftirlitsmanna í hennar þjónustu. Fiskistofu er heimilt að setja veiðieftirlitsmenn um borð í erlend veiðiskip sem stunda veiðar innan fiskveiðilandhelginnar. Skal útgerð skipsins sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru við eftirlitsstörf um borð í veiðiskipinu og enn fremur greiða allan kostnað af veru þeirra um borð í skipinu.
    Telji Landhelgisgæslan eða Fiskistofa að eftirlit skv. 1. mgr. geti ekki farið fram á sjó skal hlutaðeigandi skipi skylt að hlíta fyrirmælum um að halda til nálægrar hafnar þar sem eftirlit getur farið fram.

8. gr.

    Fiskistofa getur svipt erlent skip leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelginnar brjóti útgerð eða áhöfn skipsins eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa gegn lögum þessum, öðrum lögum sem um veiðarnar gilda, reglugerðum settum með stoð í lögum eða ákvæðum milliríkjasamninga.

9. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja frekari reglur um framkvæmd laga þessara og um framkvæmd einstakra milliríkjasamninga í samræmi við reglur um sambærilegar veiðar íslenskra skipa innan fiskveiðilandhelginnar ef ekki hefur verið um annað samið í milliríkjasamningum. Þá er ráðherra heimilt, telji hann slíks þörf, að setja frekari reglur um veiðarfæri, veiðisvæði og veiðitíma og reglur sem lúta að eftirliti með veiðum erlendra skipa, svo sem um vigtun afla, færslu afladagbóka, tilkynningar til stjórnvalda, fjareftirlit og skyldu til að sigla inn í og út úr fiskveiðilandhelgi Íslands á tilteknum athugunarstöðvum.

10. gr.

    Ákvæði 11.–15. gr. eiga við sé brotið gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim nema þyngri refsing liggi við brotinu samkvæmt öðrum lögum eða reglugerðum settum með stoð í þeim.

11. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Sé um stórfellt eða ítrekað ásetningsbrot að ræða gilda ekki sektarhámörk þau sem sett eru í 12. gr. Auk þess skal heimilt í þeim tilvikum að gera allan afla skipsins og öll veiðarfæri um borð í skipinu upptæk. Í stað þess að gera afla og veiðarfæri upptæk samkvæmt þessari grein er heimilt að gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis aflans og veiðarfæranna samkvæmt mati dómkvaddra manna.

12. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim eða ákvæðum leyfisbréfa varða sektum sem eigi skulu nema lægri fjárhæð en 400.000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 4.000.000 kr., eftir eðli og umfangi brots.

13. gr.

    Sektir má jafnt gera lögaðila sem einstaklingi. Ákvarða má sekt þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmann lögaðila, starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Með sama skil orði má einnig gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn, starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.
    Tilraun til eða hlutdeild í brotum á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

14. gr.

    Hafi afli fengist á ólögmætan hátt skulu brot auk refsingar samkvæmt framansögðu varða upptöku afla. Komi í ljós við athugun á afla um borð í erlendu veiðiskipi að aflamagn um borð í skipinu er ekki í samræmi við skráðan afla í afladagbókum eða tilkynningar til stjórn valda er heimilt að gera það aflamagn sem umfram er hinn skráða eða uppgefna afla upptækt. Á sama hátt skal gera þann afla upptækan sem umfram er þær heimildir sem erlendum skipum eru veittar af íslenskum stjórnvöldum. Í stað þess að gera afla upptækan samkvæmt þessari grein er heimilt að gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis aflans samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna.
    Ólögleg veiðarfæri skulu gerð upptæk. Ólögleg eru þau veiðarfæri eða hluti veiðarfæra sem ekki eru í samræmi við þær reglur sem settar eru um veiðarfæri með stoð í lögum þessum eða í samræmi við ákvæði annarra laga sem vísað er til í lögum þessum.

15. gr.

    Heimilt er að kyrrsetja skip sem fært er til hafnar vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Sé slíkt gert er dómara heimilt að láta það laust ef sett er bankatrygging eða önnur jafngild trygging, að hans mati, fyrir greiðslu sektar, sakarkostn aðar og upptöku.
    Til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku skal vera lögveð í skipinu.
    Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta meðferð opinberra mála.
    Sektarfé samkvæmt lögum þessum skal renna í Landhelgissjóð Íslands.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Með lögum þessum eru felld úr gildi lög nr. 13 30. mars 1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, og 10. gr. laga nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.