Ferill 641. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1104 – 641. mál.Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)1. gr

    Í stað 1. og 2. mgr. 5. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Kærufrestur til yfirskattanefndar skal vera þrír mánuður frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra eða ríkisskattstjóra.
    Kæra skal vera skrifleg. Kærunni skal fylgja frumrit eða endurrit úrskurðar skattstjóra eða ríkisskattstjóra sem kæran tekur til. Í kærunni skal koma fram hvaða atriði í úrskurðinum sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Gögn, sem ætluð eru til stuðnings kærunni, skulu fylgja í frumriti eða endurriti.
    Ef kæra fullnægir ekki skilyrðum 2. mgr. skal yfirskattanefnd beina því til kæranda að bæta úr annmörkum innan hæfilegs frests. Verði kærandi ekki við því skal yfirskattanefnd vísa kærunni frá.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
a.    Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal ríkisskattstjóri senda viðbótarupplýsingar ef málavextir þykja vera þess eðlis að ástæða sé til þess að afla frekari gagna.     
b.    Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
         Yfirskattanefnd er jafnan heimilt að beina því til skattaðila eða ríkisskattstjóra að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar máli til skýringar ef hún telur málið ekki nægilega upplýst og setja þeim ákveðinn frest í því skyni.
    

3. gr.

    3. og 4. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Sé eigi þörf á sérstökum málflutningi að mati nefndarinnar skal taka mál til uppkvaðningar úrskurðar að fengnum gögnum sem um ræðir í 6. gr. og andmælum kæranda eftir því sem ástæða er til.
    Séu gögn skv. 3. mgr. 6. gr. ekki lögð fyrir yfirskattanefnd innan frests sem þar greinir, er yfirskattanefnd heimilt að kveða upp úrskurð á grundvelli fyrirliggjandi gagna, enda telji hún málið nægilega upplýst.

4. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Yfirskattanefnd skal úrskurða kærur eins fljótt og auðið er og eigi síðar en sex mánuðum eftir að henni hafa borist gögn sem um ræðir í 3. mgr. 6. gr. Ef gögn þessi berast ekki fyrir lok frests sem þar greinir skal sex mánaða fresturinn reiknast frá lokum þess frests.
    Nú fellur úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti og getur yfirskattanefnd þá úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi hann haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða verulegan kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur.
    

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:     
a.     Greinin orðast svo:
         Komi fram í kæru til yfirskattanefndar sem ríkisskattstjóri hefur til umsagnar skv. 6. gr. upplýsingar eða gögn sem ekki hafa legið fyrir skattstjóra við hina kærðu skattákvörðun en ríkisskattstjóri telur að eigi að leiða til verulega breyttrar niðurstöðu í málinu er ríkis skattstjóra heimilt að gefa skattaðila kost á því að honum verði gerður skattur að nýju, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, með þeim áhrifum að kæran til yfirskattanefndar teljist afturkölluð. Í tilkynningu um þetta til skattaðila skal tilgreina þær breytingar sem af endurákvörðun mundi leiða. Veita skal skattaðila 15 daga frest til að fara fram á endur ákvörðun á þessum grundvelli og er hún ekki heimil án samþykkis hans. Fari skattaðili fram á endurákvörðun skal ríkisskattstjóri tilkynna það yfirskattanefnd þegar í stað. Heimilt er ríkisskattstjóra að leggja fyrir skattstjóra að framkvæma endurákvörðun samkvæmt þessari grein.
b.     Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Endurákvörðun vegna kæru.

6. gr.

    Við 15. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Frestur fjármálaráðherra til málshöfðunar í tilefni af úrskurði yfirskattanefndar er sex mánuðir.
    Nú telur ríkisskattstjóri ástæðu til að mæla með því við fjármálaráðherra að höfðað verði mál í því skyni að fá úrskurði yfirskattanefndar hnekkt og getur hann þá jafnframt farið þess á leit við yfirskattanefnd að úrskurðurinn verði ekki látinn hafa fordæmisgildi að svo stöddu. Yfirskattanefnd er heimilt að fallast á slíkt erindi ef sýnt þykir að skattframkvæmd gæti raskast bagalega ef niðurstöðu úrskurðar yrði breytt með dómi. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan frests skv. 2. mgr. eða ef dómari fellst ekki á flýtimeðferð málsins eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála.
    Sé mál höfðað vegna úrskurðar yfirskattanefndar er nefndinni heimilt að fresta afgreiðslu annarra sambærilegra mála sem til meðferðar eru fyrir henni.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.     

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um yfirskattanefnd sem ætlað er að miða að skilvirkari málsmeðferð fyrir nefndinni og tryggja að unnt verði að standa við lögákveðna málsmeðferðarfresti. Samhliða frumvarpi þessu verður lagt fram frumvarp til laga um bindandi álit í skattamálum. Frumvarpið er samið í fjármálaráðuneytinu. Unnið hefur verið að gerð þess í samráði við nefnd sem skipuð var af fjármálaráðherra og í eiga sæti fulltrúi Lögmannafélags Íslands og fulltrúi Félags löggiltra endurskoðenda ásamt ríkisskatt stjóra og fulltrúum ráðuneytisins. Hefur nefndin fjallað ítarlega um efni frumvarpsins á nokkrum fundum sínum og komið með tillögur og ábendingar. Hlutverk þessarar nefndar er jafnframt að skoða hugmyndir um umboðsmann skattgreiðenda og almenn atriði um skipulag skattkerfisins, sjónarmið um greiðslu vaxta vegna gjaldfallinna skattkrafna og viðurlaga ákvæði skattalaga. Er gert ráð fyrir að lagðar verði fram breytingar á lögum á yfirstandandi þingi eða haustþingi sem snerta þessi atriði og nefndin telur nauðsynlegar.
    Meginhlutverk yfirskattanefndar er að fjalla um stjórnsýslukærur vegna skatta og gjalda sem skattstjórar og ríkisskattstjóri leggja á og úrskurða um. Fer nefndin með æðsta úrskurð arvald í þessum málum í stað ráðherra. Samkvæmt gildandi lögum er gangur mála fyrir yfir skattanefnd í stuttu máli sá að móttekin kæra er send ríkisskattstjóra til gagnaöflunar og fram lagningar kröfugerðar í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda. Að lögum er ríkisskattstjóra ætlaður einn og hálfur mánuður til að afla gagna frá skattstjóra og leggja fram kröfugerð sína. Frestur yfirskattanefndar til að úrskurða í málinu er almennt þrír mánuðir frá því kröfugerð ríkisskatt stjóra og málsgögn berast nefndinni. Þessi frestur reiknast frá lokum áðurnefnds frests ríkis skattstjóra og tekur því að líða þótt ríkisskattstjóri leggi gögnin ekki fram á réttum tíma.
    Fjöldi móttekinna og afgreiddra mála hjá yfirskattanefnd á tímabilinu 1. júlí 1992 til 31. desember 1997 hefur verið sem hér segir:

Tímabil               Móttekin mál     Úrskurðir     Önnur afgr.*     Óafgr. í lok
                                  tímabils


1.7.92–31.12.93     3.453**     1.975     68     1.410
Árið 1994               1.299     1.383     33     1.293
Árið 1995               1.011     1.136     15     1.153
Árið 1996               987     1.122     16     1.002
Árið 1997               1.020     1.085     15     922
                        
Samtals               7.770     6.710     147     

Aths:
*     Í flokkinn „önnur afgreiðsla“ falla einkum mál sem kærandi afturkallar eða þegar fleiri en eitt mál (kæra) sama aðila er tekið til afgreiðslu með einum úrskurði.
**     Þar með talin 1.154 mál sem yfirskattanefnd tók við frá ríkisskattanefnd 1. júlí 1992.

    Á þeim fimm og hálfu ári, sem yfirlitið tekur til, hafa uppkveðnir úrskurðir því verið 1.220 á ári að jafnaði. Undanfarin ár hafa uppkveðnir úrskurðir verið um 1.100 á ári. Á síðustu 5,5 árum fyrir gildistöku laga um yfirskattanefnd voru úrskurðir að meðaltali 982 á ári og urðu flestir árið 1991 eða 1.151. Samkvæmt þessu hefur það markmið náðst að nokkru leyti, sem að var stefnt með lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, að auka skilvirkni í úrskurðastörf unum. Óloknum málum í lok árs hefur jafnframt fækkað verulega eða úr 1.410 málum í 922 mál í lok síðasta árs. Að sama skapi hefur náðst að stytta málsmeðferðartíma. Þó er enn langt í land með að nefndinni hafi tekist að standa við lagafyrirmæli um afgreiðslufrest. Kemur þar bæði til að ríkisskattstjóri hefur í mörgum tilvikum ekki staðið skil á málsgögnum og um sögnum fyrir hönd gjaldkrefjenda innan þess frests sem honum er veittur og að málsmeðferð fyrir nefndinni sjálfri hefur tekið lengri tíma en þá þrjá mánuði sem til þess eru ætlaðir. Raunar eru mörg dæmi þess að sá tími sé liðinn þegar málsgögn berast nefndinni.
    Mikilsvert er að ágreiningsmál á sviði skattamála séu leyst á skilvirkan og einfaldan hátt. Þrátt fyrir þann árangur, sem að framan er rakinn, er ekki viðunandi að meðferð þessara mála sé ekki í samræmi við þær reglur sem kveðið er á um í lögum. Að þessu hefur ítrekað verið fundið, m.a. í álitum umboðsmanns Alþingis.
    Helstu vandamál og ástæður fyrir seinvirkri málsmeðferð, sem varða störf yfirskatta nefndar og lagafrumvarpi þessu er ætlað að ráða bót á, eftir því sem unnt er með breytingum á málsmeðferðarreglum, eru eftirfarandi:
1.    Fjöldi kærumála sem berast nefndinni er mjög mikill þótt þeim hafi nokkuð fækkað á síðustu þremur árum frá því sem mest var. Ætla má að unnt sé að fækka málum, sem yfir skattanefnd fjallar um, með eftirfarandi breytingum samkvæmt frumvarpi þessu og frum vörpum sem samhliða eru lögð fram:
          Heimild til endurákvörðunar vegna kæru. Sum þeirra mála, sem skotið er til yfirskattanefndar, má telja veigalítil og þess eðlis að engin ástæða sé til að um þau sé fjallað af æðri úrskurðaraðila. Er hér einkum litið til kærumála sem rísa af því að gjaldendur hafa ekki lagt nauðsynleg gögn fyrir skattstjóra til að skattmeðferð verði með þeim hætti sem þeir krefjast, en leggja slík gögn fyrst fram með kæru til yfirskattanefndar. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir heimild til þess að ríkisskattstjóri geti að kæruefninu athuguðu og að fengnu samþykki kæranda endurákvarðað honum skatt að nýju ef talið er að nægilegar skýringar og gögn hafi komið fram í kærunni til yfirskattanefndar til að krafa eigi að ná fram að ganga. Er yfirskattanefnd þannig leyst undan því að fjalla um öll hin einföldustu af greiðslumál, auk þess sem slík mál munu þá fá mun skjótvirkari lausn en ella.
         Bindandi álit í skattamálum. Með frumvarpi sem lagt er fram samhliða þessu er lagt til að tekið verði upp kerfi bindandi álita í skattamálum. Þess er að vænta að slíkt fyrirkomu lag geti leitt til nokkurrar fækkunar mála fyrir yfirskattanefnd.
2.    Verulegra árstíðabundinna sveiflna gætir í því hvenær kærur berast til yfirskattanefndar. Um helmingur allra mála á hverju ári berast nefndinni á þriggja mánaða tímabili frá 15. október til 15. janúar. Reynslan hefur leitt í ljós að ekki er hægt að ætlast til þess að leyst verði úr öllum málum, sem berast á þessu tímabili, innan lögákveðinna tímamarka, nema með mjög auknum mannafla í störfum hjá nefndinni sem þá yrði verkefnalítill utan anna tímans. Slík lausn er ekki talin viðunandi.
3.    Kærur eru í sumum tilvikum ekki þannig úr garði gerðar að þær séu tækar til efnismeðferðar, m.a. af þeim sökum að ekki verður ráðið af kærunni hvert kæruefnið er og hvaða kröfur eru gerðar í málinu. Þrátt fyrir það reiknast frestur nefndarinnar til afgreiðslu málsins frá komudegi kæru. Er hér m.a. um að ræða mál sem skotið er til nefndarinnar ein göngu í því skyni að rjúfa kærufrest, en áskilnaður gerður um framlagningu kröfugerðar síðar (bráðabirgðakærur). Ráða má af þessu að kærufrestur til nefndarinnar sé of skammur, m.a. að teknu tilliti til annatíma fagmanna á sviði reikningsskila og framtals gerðar sem einnig aðstoða við rekstur kærumála.
         Vegna þessara atriða er eftirfarandi lagt til með frumvarpinu:
          Lenging kærufrests. Kærufrestur til yfirskattanefndar verði lengdur úr 30 dögum í þrjá mánuði. Með þessu móti er í fyrsta lagi þess að vænta að kærur til nefndarinnar dreifist á nokkuð lengra tímabil en nú og álag verði jafnara. Í öðru lagi má með slíkri breytingu reikna með því að mál komi í ríkari mæli fullburða til nefndarinnar og að kerfi „bráða birgðakæra“ verði óþarft. Í þriðja lagi er breytingin til samræmis við hina almennu reglu stjórnsýslulaga um kærufrest, sbr. 27. gr. þeirra laga.
         Lenging úrskurðarfrests yfirskattanefndar. Frestur yfirskattanefndar til að kveða upp úrskurð verði lengdur í sex mánuði, en það er sami frestur og í gildi var vegna ríkisskatta nefndar fyrir gildistöku laga um yfirskattanefnd. Að viðbættri þeirri breytingu sem vænta má að leiði af lengingu kærufrests og gerð er grein fyrir að framan, svo og með öðrum aðgerðum sem ráðist verður í samhliða þessu, m.a. fjölgun starfsfólks hjá nefndinni, má telja víst að unnt verði að virða frest þennan í öllum tilvikum nema mjög sérstakar ástæður liggi að baki.
         Til viðbótar þeim atriðum, sem rakin hafa verið að framan, er í frumvarpinu að finna nýmæli sem lýtur að réttaráhrifum úrskurða yfirskattanefndar. Gert er ráð fyrir að í undan tekningartilvikum verði heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að málskot til dómstóla fresti ekki réttaráhrifum úrskurða nefndarinnar. Þá er lögfestur ákveðinn frestur fjármálaráð herra til að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Þessi breyting er lögð til í tilefni af áliti umboðsmanns Alþingis (SUA 1994:276). Þá er lagt til að fellt verði úr lögum sér stakt ákvæði um rökstuðning úrskurða yfirskattanefndar, enda nýtur nú almenns ákvæðis í stjórnsýslulögum um rökstuðning slíkra úrskurðaraðila.
         Að lokum er gert ráð fyrir að tekin verði upp greiðsla málskostnaðar. Um skýringar vísast til athugasemda við 4. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir lengingu á kærufresti til yfirskattanefndar úr 30 dögum í þrjá mánuði. Jafnframt er gert ráð fyrir að upphaf kærufrests allra þeirra aðila, sem skotið geta skattákvörðun til yfirskattanefndar, miðist við sama tímamark, þ.e. póstlagningu úrskurðar skattstjóra eða ríkisskattstjóra, en samkvæmt gildandi lögum byrjar kærufrestur ríkisskatt stjóra að líða er honum berst úrskurður skattstjóra. Samkvæmt tillögugreininni er um að ræða sama kærufrest og almennt gildir samkvæmt stjórnsýslulögum og má um ýmsar skýringar varðandi kærufrest vísa til þeirra laga og skýringa við þau.
    Þótt ástæða sé til þess að ágreiningsmálum um skatta og gjöld sé ráðið til lykta svo fljótt sem verða má hefur reynslan leitt í ljós að kærufrestur til yfirskattanefndar er of skammur í mörgum tilvikum, svo sem rakið er í almennum athugasemdum. Með lengingu kærufrests er bæði dregið úr líkum á því að skattaðilar glati kæruheimild til nefndarinnar vegna fjarveru, misskilnings á kærufresti eða af öðrum ástæðum og þeim gefið aukið ráðrúm til þess að færa kæruna í endanlegan búning af sinni hálfu.
    Með 2. mgr. eru sett ítarlegri skilyrði en nú eru í lögum um form og efni kæru. Nauðsynlegt er að skýrt liggi fyrir hvaða úrskurður skattstjóra sætir kæru. Er því ætlast til að úrskurðurinn eða ljósrit hans fylgi kærunni. Þá er kveðið á um það að í kæru skuli koma fram hvaða atriði í úrskurðinum sæta kæru og hvaða rök eru færð fram þeim til stuðnings. Er hér litið til þeirra tilvika þegar úrskurður skattstjóra varðar fleiri en eitt atriði í skattskilum og skattaðili unir sumum breytinganna en öðrum ekki. Má ætlast til að skýrt komi fram í kæru til yfirskatta nefndar hver kæruefnin eru. Þetta ákvæði ber ekki að skilja þannig að með því sé krafist ítarlegri greinargerðar af hálfu skattaðila um kröfur og rökstuðning fyrir þeim en talið hefur verið fullnægjandi í framkvæmd fram að þessu. Ef skattaðili hefur t.d. engu við að bæta frá því sem fram var komið af hans hálfu á skattstjórastigi er nægilegt að vísað sé til þess. Ákvæðið miðar hins vegar að því að kæran sé a.m.k. á þessu stigi endanleg af hálfu kæranda þannig að raunveruleg úrskurðarmeðferð, þar með talin gerð umsagnar af hálfu ríkisskatt stjóra, geti hafist þegar eftir að kæra er komin fram. Er ákvæðinu þannig fyrst og fremst stefnt gegn svonefndum „bráðabirgðakærum“ sem ætlað er það hlutverk eitt að rjúfa kærufrest. Rétt er að taka fram að það leiðir af því að um er að ræða kærumeðferð á stjórnsýslustigi að aðilar, bæði kærendur og fulltrúar gjaldkrefjenda, geta á öllum stigum málsmeðferðarinnar komið að nýjum kröfum, málsástæðum og sönnunargögnum varðandi ágreiningsefni málsins. Kæru efnið sjálft verður hins vegar ekki látið taka til annarra atriða í skattskilum en þeirra sem um er fjallað í viðkomandi úrskurði skattstjóra.
    Ef kæran fullnægir ekki framangreindum skilyrðum, þannig að yfirskattanefnd telji hana ekki tæka til meðferðar eða kæran ber með sér að vera ófullgerð af hendi kæranda, skal nefndin beina því til kæranda að bæta úr annmörkum innan hæfilegs frests. Verði hann ekki við því skal vísa kærunni frá án þess að hafist sé handa um gagnaöflun frá ríkisskattstjóra eða umsagnar hans leitað.
    

Um 2. gr.

    Í a-lið greinarinnar er ákvæði sem er samhljóða núgildandi 4. mgr. 7. gr. laganna.
    Samkvæmt b-lið greinarinnar er gert ráð fyrir að yfirskattanefnd sé jafnan heimilt að beina því til skattaðila eða ríkisskattstjóra að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar máli til skýringar ef hún telur málið ekki nægilega upplýst. Setja má þessum aðilum ákveðinn frest í þessu skyni. Með þessu fellur niður heimild yfirskattanefndar, sem nú er að finna í lokamálslið 4. mgr. 7. gr. gildandi laga, til að afla sjálf frekari gagna eða upplýsinga máli til skýringar. Þykir eðlilegra að slík gagnaöflun sé í höndum aðila máls, en það leiðir af rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu stjórnsýsluréttarins að nefndinni ber að tilkynna aðila hvaða gögn skorti og leiðbeina honum um það hverjar afleiðingar það hafi ef þau berast ekki.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er að finna efnislega sömu reglu og er nú í 3. mgr. 7. gr. núgildandi laga að því viðbættu að tekið er fram að gefa skuli kæranda kost á að tjá sig um efni umsagnar ríkis skattstjóra ef ástæða er til. Telja verður almenna reglu, sbr. m.a. 13. gr. stjórnsýslulaga, að kærandi á að eiga kost á að tjá sig um greinargerð ríkisskattstjóra. Frá þessu má þó víkja ef yfirskattanefnd telur að ekkert það komi fram í greinargerðinni sem ekki hefur áður komið fram í úrskurði skattstjóra. Er það hliðstæð regla og kemur fram í niðurlagsákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hefur verið misbrestur á því að ríkisskatt stjóri leggi frumgögn skattstjóra fyrir yfirskattanefnd innan þess frests sem kveðið er á um í lögum. Til að forða því að mál dragist af þessum ástæðum, er lögð til sú breyting að yfir skattanefnd geti tekið mál til úrskurðar þrátt fyrir að umsögn ríkisskattstjóra og gögn frá skattstjóra hafi ekki verið lögð fram. Ástæða er til að taka fram að ekki er gert ráð fyrir að yfirskattanefnd taki mál til úrskurðar án frekari fyrirvara þegar þessi gögn skortir, enda leiðir það af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sem yfirskattanefnd ber að fylgja í störfum sínum, að nefndinni er skylt að sjá til þess að málsatvik séu nægilega upplýst áður en úrskurður er lagður á mál. Því er nefndinni rétt að ganga á eftir því við ríkisskattstjóra að hann sinni skyldu sinni að þessu leyti og grípi að öðru leyti til þeirra ráðstafana sem eðlilegar geta talist til þess að nauðsynlegra gagna verði aflað í málinu áður en úrskurður er kveðinn upp á grundvelli þessarar heimildar.
    

Um 4. gr.

    Frestur yfirskattanefndar til að úrskurða um kærur er nú þrír mánuðir nema mál sæti sér stökum málflutningi skv. 2. mgr. 7. gr. laganna, en þá er frestur nefndarinnar sex mánuðir. Lagt er til að fresturinn verði sex mánuðir í öllum málum. Um ástæður fyrir þessari breytingu vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum. Samkvæmt tillögugreininni reiknast frestur nefndarinnar frá þeim tíma þegar frumgögn ásamt umsögn ríkisskattstjóra berast henni eða áttu að hafa borist. Er það hliðstæð regla og nú gildir.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að yfirskattanefnd geti úrskurðað skattaðila málskostnað að upp fylltum tilteknum skilyrðum. Meginskilyrðið er að úrskurðurinn hafi fallið skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, og krafa hafi verið gerð um greiðslu kostnaðar. Annað skilyrði er að skattaðili hafi orðið fyrir verulegum kostnaði sem eðlilegt var að hann stofnaði til og það sé ósanngjarnt að hann beri kostnaðinn sjálfur.
    Gert er ráð fyrir að skattaðilar hafi ekki verulegan kostnað af rekstri mála fyrir skatt yfirvöldum, nema þeir hafi þurft að leita aðstoðar lögmanna eða endurskoðenda við rekstur málsins. Þá má gera ráð fyrir að kostnaður sem má rekja til þess að skattaðili hefur ekki á fyrri stigum málsmeðferðarinnar upplýst mál sitt nægilega, enda þótt honum hafi verið það kleift, fáist ekki úrskurðaður málskostnaður hjá nefndinni. Gera verður kröfu til þess að máls kostnaðarkrafa verði ítarlega rökstudd. Auk þess verður að vera sanngjarnt hlutfall á milli kostnaðar við málareksturinn og þeirra hagsmuna sem í húfi eru.
    Ástæða fyrir efnislega rangri ákvörðun skattyfirvalda á fyrri stigum málsins kann að vera tilkomin vegna atriða sem snerta skattaðila sjálfan, svo sem að skattaðili hafi ekki gert nægi lega grein fyrir staðreyndum málsins. Þegar ákvörðun skattyfirvalda er breytt hjá yfirskatta nefnd í slíkum tilvikum til hagsbóta fyrir skattaðila er ekki ósanngjarnt að líta svo á að skattaðili beri sjálfur málskostnað sem hlýst af meðferð málsins. Þá er einnig gert ráð fyrir að málskostnaður verði fyrst og fremst greiddur í þeim tilvikum þegar skattyfirvöld hafa gert mistök við skattákvörðun, en ekki þegar breyting yfirskattanefndar byggist á upplýsingum og gögnum sem ekki lágu fyrir við úrskurð skattstjóra.

Um 5. gr.

    Í 13. gr. gildandi laga um yfirskattanefnd er kveðið á um rökstuðning úrskurða nefndar innar. Eftir gildistöku laganna hafa verið sett stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og er þar m.a. að finna fyrirmæli um rökstuðning í úrskurðum í kærumálum. Verður að telja að ákvæði stjórn sýslulaga séu fullnægjandi um þetta. Eru ekki efni til að ætla að gera beri ríkari kröfur til rökstuðnings í úrskurðum yfirskattanefndar en almennt í úrlausnum hliðstæðra úrskurðar aðila. Því er lagt til að núgildandi 13. gr. falli niður.
    Lagt er til að í nýrri 13. gr. verði lögfest sérstök heimild fyrir ríkisskattstjóra til að gera skattaðila skatt að nýju á grundvelli 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981 komi fram ný gögn eða upplýsingar sem ekki lágu fyrir við hina kærðu skattákvörðun. Er með þessu stefnt að því að ýmis smærri mál geti hlotið fljótvirkari afgreiðslu en ella.
    Í 24. gr. stjórnsýslulaga er að finna almenna heimild fyrir stjórnvöld til að taka mál til meðferðar á ný. Endurupptaka er þó ekki heimil hafi mál verið kært til æðra stjórnvalds. Af þessum sökum er sú sérregla nauðsynleg sem hér er lögð til.
    Skilyrði endurákvörðunar er að kærandi samþykki hana, enda felst í þessu að kæran til yfirskattanefndar telst afturkölluð. Það leiðir þó ekki til neins réttindamissis fyrir skattaðila, enda er sú skattákvörðun, sem leiðir af endurákvörðun ríkisskattstjóra, kæranleg til yfir skattanefndar eftir almennum reglum.

Um 6. gr.

    Í 2. mgr. er það nýmæli lagt til að yfirskattanefnd verði heimilt að fresta réttaráhrifum sem af úrskurði nefndarinnar leiðir ef fjármálaráðherra ákveður að bera lögmæti hans undir dómstóla. Svo sem fram kemur í almennum athugasemdum er þetta lagt til í framhaldi af áliti umboðsmanns Alþingis (SUA 1994:276) og er það í öllum höfuðatriðum í samræmi við sjónarmið sem fram koma í álitinu. Úrræðið snýr að þeim tilvikum þegar niðurstaða yfir skattanefndar hefur fallið skattaðila í vil en fjármálaráðherra telur úrskurð nefndarinnar óviðunandi og andstæðan lögum. Fram kemur í nefndu áliti umboðsmanns Alþingis að í slíkum tilvikum geti skattframkvæmd raskast bagalega og sérstaklega þegar tiltekinni skatt framkvæmd hefur verið hnekkt með úrskurði. Skilyrði frestunar eru að 1) mál hafi verið höfðað innan sex mánaða frests, sbr. 1. mgr., 2) að dómari hafi fallist á flýtimeðferð málsins eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála og 3) að ríkisskattstjóri mæli með frestuninni. Með slíkri ákvörðun yrði öllum réttaráhrifum ákvörðunar frestað, þar með talið áhrifum ákörðunar sem fordæmis.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um breyting á


lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um yfirskattanefnd, sem snúa einkum að kærufresti, úrskurðarfresti, upplýsingagjöf málsaðila og ýmsum formskil yrðum. Ekki er talið að breytingar á þeim ákvæðum hafi umtalsverð áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að yfirskattanefnd verði heimilt að ákveða að skattaðila verði greiddur málskostnaður úr ríkissjóði að uppfylltum tilteknum skilyrðum, en slík heimild er ekki fyrir hendi í núgildandi lögum. Talið er þetta gæti átt við um fjórðung þeirra 1.000 mála sem nefndin úrskurðar um árlega. Gert er ráð fyrir að nefndin setji viðmiðunarreglur um málskostnaðinn og að þar verði litið til útlagðs kostnaðar af aðkeyptri þjónustu fremur en til vinnu skattaðilans sjálfs við upplýsingagjöf og málsundirbúning. Að því gefnu er áætlað að útgjaldaauki ríkissjóðs vegna þessa geti legið á bilinu 12,5–25 m.kr. miðað við að úr skurðaður málskostnaður verði metinn að meðaltali á 50–100 þús. kr.