Ferill 646. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1119 – 646. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd til þess að bæta réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð þannig að uppfylli það ákveðin skilyrði njóti það sömu réttarstöðu og hjón. Nefndin hafi það jafnframt að leiðarljósi að styrkja hina hefðbundnu kjarnafjölskyldu félags lega, efnahagslega og réttarfarslega.

                             G r e i n a r g e r ð .

    Samfélagið er sífellt að breytast og eitt af hlutverkum laga er að endurspegla sem best samfélagsskipan og marka leikreglur þess. Hjónaband er það sambýlisform sem hefur verið viðurkennt í aldanna rás. Undanfarið hefur það sambýlisform að skrá sig í sambúð orðið algengara og í mörgum tilfellum giftast sambýlisaðilar ekki.
    Réttarstaða einstaklinga í skráðri sambúð hefur breyst og í raun verið að festast í sessi með viðurkenningu á ýmsum sviðum. Almannatryggingakerfið skilgreinir einstaklinga í sambúð sem hafa átt lögheimili á sama stað í eitt ár svipað og um gifta einstaklinga væri að ræða. Hjá skattyfirvöldum á sambýlisfólk sama rétt og hjón eftir eins árs sambúð eða ef það á barn saman.
    Ekki er sérstaklega tekið á réttindum hjóna í sérstökum lögum heldur er kveðið á um þau í ýmsum lagabálkum.
    Alvarlegasti munurinn á milli fólks í skráðri sambúð og giftra birtist í erfðalögum, þ.e. um gagnkvæman erfðarétt. Fólk skráð í sambúð á samkvæmt þeim lögum ekki rétt til arfs ef annað þeirra fellur frá. Dæmi eru um að einstaklingar hafi eftir langa sambúð staðið uppi með mjög takmarkaðan erfðarétt við fráfall sambúðaraðila. Einnig þarf að endurskoða trygginga skilmála sem geta mismunað fólki eftir sambúðarformi. Dæmi um slíkt kom fram í fjölmiðlum þegar ungur maður á einu varðskipa okkar lést og sambýliskona hans stóð uppi ásamt tveimur börnum með takmarkaðan rétt gagnvart hans tryggingum.