Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1139 – 207. mál.



Nefndarálit



um till. til þál. um flugmálaáætlun árin 1998–2001.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorgeir Pálsson flugmálastjóra og Hauk Hauksson frá Flugmálastjórn Íslands, Þórð Ægi Óskarsson frá utanríkisráðuneyti og Pétur Guðmundsson, flugvallarstjóra á Keflavíkurflugvelli.
    Frá því að tillaga til þingsályktunar um flugmálaáætlun árin 1998–2001 var lögð fram hefur samgönguráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna áætlunarinnar sem leiðir til þess að gera þarf breytingar á tillögunni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eldsneytisgjald verði ekki lengur innheimt og er það gert til að jafna samkeppnis skilyrði í flugi. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að breytingarnar munu hafa í för með sér að áætlaðar tekjur samkvæmt flugmálaáætlun fyrir árin 1998–2001 lækka um 45 millj. kr. á árinu 1998, 65 millj. kr. árið 1999, 67 millj. kr. árið 2000 og 69 millj. kr. árið 2001, eða samtals 246 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir að fjárveitingar til flugvalla lækki um þá fjárhæð þar sem framlag til rekstrar flugvalla og til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar munu lækka um 28 millj. kr. á árinu 1998 og 35 millj. kr. árlega á árunum 1999–2001. Framlag til framkvæmda á flugvöllum samkvæmt flugmálaáætlun lækkar því um 17 millj. kr. á árinu 1998, 30 millj. kr. árið 1999, 32 millj. kr. árið 2000 og 33 millj. kr. árið 2001. Jafnframt segir í athugasemdunum að samhliða lögfestingu frumvarpsins verði lendingargjöld í innan landsflugi hækkuð sem nemur tapi vegna niðurfellingar á eldsneytisgjaldi í innanlandsflugi og að yfirstjórn Keflavíkurflugvallar hafi lýst því yfir að sértekjur flugvallarins muni hækka um 18 millj. kr. ár hvert til ársins 2001 og komi á móti lækkun á framlagi til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar samkvæmt flugmálaáætluninni.
    Í bréfi samgönguráðherra til samgöngunefndar Alþingis, dags. 26. mars 1998, kemur fram að flugvallagjald verði hækkað um 2,5% frá og með 1. janúar nk. Mun þessi hækkun skila um 15 millj. kr. til tekjustofna flugmálaáætlunar. Jafnframt leggur ráðherra til að framlag af flugmálaáætlun til rekstrar Flugmálastjórnar Íslands lækki um 13 millj. kr. á yfirstandandi ári, 17 millj. kr. árið 1999, 19 millj. kr. árið 2000 og 21 millj. kr. árið 2001 en þetta eru þær upphæðir sem gert er ráð fyrir að vanti svo endar nái saman og ekki þurfi að skerða fram kvæmdaliði flugmálaáætlunar á gildistíma hennar umfram það sem gert er ráð fyrir í tillög unni.
    Gert er ráð fyrir að framlag úr ríkissjóði til reksturs Flugmálastjórnar Íslands verði hækk að sem nemur lækkuðu framlagi af flugmálaáætlun til rekstrarins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:



Prentað upp.

1.      Lagðar eru til breytingar á einstökum liðum áætlunarinnar sem eru afleiðing breytingar á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum. Ekki þarf að rekja einstakar breytingar á fjárhæðum heldur vísast til breytingartillagnanna þar um.
2.      Lagt er til að gerð verði sú breyting á flokkun flugvalla að Patreksfjarðarflugvöllur verði settur í flokk 3.2 Áætlunarflugvellir II í stað 3.4 Aðrir flugvellir og lendingarstaðir. Þegar tillagan var lögð fram hafði áætlunarflugi til Patreksfjarðar verið hætt en hefur nú hafist að nýju og verður því að telja eðlilegt að þessi breyting verði gerð.

Alþingi, 1. apríl 1998.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.



Guðmundur Árni Stefánsson,


með fyrirvara.



Egill Jónsson.



Stefán Guðmundsson.



Ragnar Arnalds,


með fyrirvara.



Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Kristján Pálsson.



Árni Johnsen.