Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1175 – 588. mál.



Svar



utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um Schengen-samstarfið.

     1.      Hver er staða samningaviðræðna Íslands við Evrópusambandið og/eða Schengen- ríkin um aðild Íslands að Schengen-samstarfinu?
    Í kjölfar ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins í Amsterdam sumarið 1997 var settur á fót vinnuhópur ráðherraráðs ESB þar sem fulltrúar ESB-ríkjanna hafa rætt samkomulag um áframhaldandi þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu. Formlegar samninga viðræður hafa ekki hafist við Ísland og Noreg. Þrátt fyrir það hafa Ísland og Noregur átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif á hvaða forsendur verði lagðar til grundvallar samningsumboði ESB. Bretar, sem nú gegna formennsku í ESB, hafa lagt fram sínar hugmyndir varðandi aðild Íslands og Noregs að Schengen-samstarfinu. Á þessu stigi er ekkert hægt að fullyrða um niðurstöðu en ljóst er að breska formennskan hefur í undirbúningi sínum tekið tillit til sjónarmiða Íslands og Noregs um fulla þátttöku í umræðum og jafnframt að samstarfið byggist á hefðbundnum þjóðréttarsamningi án yfirþjóðlegra ein kenna. Í ljósi framvindu mála að undanförnu eru vonir bundnar við að viðunandi lausn verði fundin.

     2.      Hverjir fara með þessar samningaviðræður fyrir Íslands hönd og hvernig er háttað samstarfi við Norðmenn í þessum samningum?

    Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Brussel, er aðalsamningamaður Íslands og nýtur hann aðstoðar embættismanna í utanríkisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu. Í samningaviðræðunum hafa Íslendingar átt mjög gott samstarf við Noreg, enda falla samn ingsmarkmið ríkjanna í öllum meginatriðum saman. Ríkin hafa komið sameiginlegum samningsmarkmiðum á framfæri við Evrópusambandið, auk þess sem aðalsamningamenn ríkjanna hafa farið sameiginlega til yfirvalda í höfuðborgum sumra Schengen-ríkjanna til að kynna og reyna að tryggja fylgi við málstað Íslands og Noregs. Enn fremur hefur verið gott samstarf og samráð við fulltrúa annarra Norðurlanda um framvindu samningaviðræðnanna.

     3.      Hvaða atriði eru það efnislega sem talið er að breyta þurfi frá samstarfssamningnum við Schengen-ríkin frá 19. desember 1996, einkum vegna tilkomu Amsterdam-sáttmála Evrópusambandsins
?
    Með Amsterdam-sáttmálanum var staðfest að haldið skyldi áfram samstarfi við Ísland og Noreg á grundvelli samstarfssamningsins og að gengið yrði frá nýjum samningi um þau efni milli Schengen-ríkjanna annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar. Slíkur samningur er nauðsynlegur til að takast megi að viðhalda norræna vegabréfasambandinu og koma í veg fyrir að eftirlit á ytri landamærum verði tekið upp á milli Íslands og Noregs og norrænu ríkjanna sem eru í ESB. Afstaða Íslands og Noregs er sú að aðildarríkjum ESB beri að stuðla að lausn þessa máls á grundvelli ákvæða Amsterdam-sáttmálans um að Schengen-samstarfið skuli byggjast á samstarfssamningnum frá því í desember 1996.

     4.      Hvernig er gert ráð fyrir að ganga frá þeim atriðum sérstaklega sem snúa að dómstólaþættinum, í tilvikum þar sem Evrópudómstólnum er ætluð lögsaga innan ESB um Schengen-málefni?

    Það hefur verið afdráttarlaus afstaða Íslands og Noregs að ríkin munu ekki lúta lögsögu EB-dómstólsins og á því hefur verið fullur skilningur af hálfu ESB. Rétt er að minna á að Danmörk er undanþegin lögsögu EB-dómstólsins hvað málefni Schengen varðar.

     5.      Hvernig er í einstökum atriðum gert ráð fyrir að framkvæma hérlendis ákvæði 3. gr. Schengen-samningsins að því er varðar umferð um ytri landamæri og í því sambandi nánari reglur um sjóumferð, svo sem umferð lystisnekkja og fiskibáta?

    Meginregla Schengen-samningsins er að afnumið skuli persónueftirlit á innri landamærum aðildarríkjanna. Aftur á móti er tekið upp samræmt eftirlit á ytri landamærum svæðisins auk annarra stuðningsaðgerða af ýmsu tagi. Þetta á bæði við um eftirlit með flugförum og skipum.
    Eftirlit á ytri landamærum hvað Ísland varðar mun byggjast á þeim samræmdu leiðbein ingum sem samþykktar hafa verið innan Schengen-samstarfsins. Mun það verða hlutverk lög reglu og eftir atvikum tollgæslu að hafa eftirlit með þessari umferð. Í raun mun eftirlitið beinast að sömu þáttum og það gerir í dag sem í eðli sínu eru hefðbundin atriði, svo sem hvort viðkomandi einstaklingur sé með gild ferðaskilríki eða vegabréfsáritun ef við á, hvort hann sé á skrá yfir einstaklinga sem synja beri um landvist eða skapi hættu fyrir öryggi ríkis ins eða almannahagsmuni.
    Hvað varðar nánari reglur um skipaumferð yfir ytri landamæri þá er með svipuðu móti og í dag gert ráð fyrir að slík umferð fari um þær hafnir sem sérstaklega hafa fengið heimild til að taka á móti henni. Eftirlit með farþegum og áhöfnum skipa mun beinast að þeim sömu þáttum og að framan getur.
    
     6.      Hvað veldur því að samstarfssamningur Íslands og Schengen-ríkjanna frá 19. desember 1996 hefur hvorki verið birtur opinberlega hérlendis né lagður fyrir Alþingi ásamt fylgigögnum í formi viðauka, reglugerða og handbóka sem þegar liggja fyrir í íslenskri þýðingu? Er ríkisstjórnin reiðubúin að veita Alþingi og öðrum aðgang að þessum gögnum nú þegar, áður en samningurinn frá 1996 yrði lagður fram til staðfestingar?

    Á stjórnvöldum hvílir ekki lagaskylda að birta milliríkjasamninga opinberlega áður en þeir hafa verið fullgiltir, enda hefur það ekki tíðkast. Schengen-samstarfssamningurinn, ásamt fylgigögnum í formi viðauka, handbóka og ákvarðana framkvæmdanefndar Schengen, var sendur til allsherjarnefndar Alþingis og utanríkismálanefndar Alþingis í lok janúar 1998 og stefnt er að því að leggja þingsályktunartillögu um fullgildingu samstarfssamningsins fram til kynningar á Alþingi í næstu viku.

     7.      Hvernig er ráðgert að bregðast við áhrifum Schengen-aðildar að því er varðar ólögmætan innflutning fíkniefna hingað til lands, eftir að skoðun persónuskilríkja í flug höfnum og annars staðar á landamærum heyrði sögunni til?

    Samkvæmt samstarfssamningi Íslands og Noregs við Schengen-ríkin frá 19. desember 1996 falla reglur um vöruflutninga ekki undir gildissvið samningsins. Í þessu felst að aðild Íslands að Schengen kemur ekki til með að hafa áhrif á framkvæmd tolleftirlits á landamær um Íslands.
    Það er og mat ríkisstjórnarinnar að aðild að Schengen-samstarfinu komi til með að styrkja lögreglu- og tollyfirvöld í baráttunni gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi, þar með töldum innflutningi fíkniefna, þar sem aðildin mun leiða til nánari samvinnu milli íslenskra lögreglu yfirvalda og lögreglu í aðildarríkjum Schengen, auk þess sem upplýsingastreymi milli þeirra verður með einfaldari og greiðari hætti en nú er.
    Þá er það mat ríkisstjórnarinnar að þær skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið að undanförnu á lögreglu hér á landi styrki íslensk yfirvöld enn frekar í baráttunni gegn um ræddri brotastarfsemi.

    
8.      Hvenær er ráðgert að þjóðþing norrænu ESB-ríkjanna hvert um sig hafi lokið umfjöllun um:
            a.      Schengen-samstarfið,
            b.      tillögu um staðfestingu Amsterdam-sáttmálans?

    a.     Meðferð aðildarsamninga vegna Schengen er lokið í Danmörku. Meðferð samstarfssamnings Íslands og Noregs er lokið í Danmörku og Noregi. Í Finnlandi er áætlað að um fjöllun um Schengen-aðildarsamning og samstarfssamninginn ljúki vorið 1998. Í Svíþjóð er áætlað að fjalla um aðildarsamning að Schengen og samstarfssamninginn í apríl 1998.
    b.     Í Svíþjóð er áætlað að fjalla um Amsterdam-sáttmálann í maí eða júní 1998. Áætlað er að umfjöllun um Amsterdam-sáttmálann ljúki í Finnlandi vorið 1998. Í Danmörku fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um Amsterdam-sáttmálann hinn 28. maí nk.
    
     9.      Hvenær er fyrirhugað að ráðast í framkvæmdir í flugstöðinni í Keflavík að því er varðar Schengen-umferð og að ljúka þeim framkvæmdum?
    Mikil aukning hefur orðið á flugumferð um Keflavíkurflugvöll undanfarin ár og bendir allt til að sú þróun haldi áfram. Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að flugstöðin annar vart lengur farþegafjölda ákvað ríkisstjórnin 5. desember 1997 að ráðast í stækkun flugstöðvar innar á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga stækkunarinnar sumarið 1998 og ljúka honum í ársbyrjun árið 2000.

     10.      Hver er áætlaður kostnaður Íslands af Schengen-þátttöku skipt á einstaka þætti, svo sem núverandi áheyrnaraðild, samningaviðræður, stofnframkvæmdir í flughöfninni í Keflavík og annars staðar á landamærum að meðtöldum hönnunarkostnaði, kaup á tölvubúnaði vegna Schengen Information System, aðildargjöld, árlegan rekstrar kostnað í heild nú og síðar ef af þátttöku verður?
    Miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir nemur áætlaður byggingarkostnaður við fyrsta áfanga stækkunar flugstöðvarinnar í Keflavík um 1.100 millj. kr. Sérstök kostnaðaráætlun vegna Schengen-aðildar liggur ekki fyrir, en ljóst er að meginhluti kostnaðarins við stækkun ina fellur til án tillits til þátttöku í Schengen-samstarfinu.
    Áætlaður rekstrarkostnaður skrifstofu Schengen í ár er 550.000 kr. og hefur sá kostnaður lækkað umtalsvert frá síðasta ári. Áætluð útgjöld 1998 vegna miðlæga upplýsingakerfisins (C.SIS) eru 2.380.000 kr.
    Fundarsetu vegna áheyrnaraðildar og samningaviðræðna sinna starfsmenn sendiráðs Íslands í Brussel að mestu leyti, en þó sækja fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu einnig fundi af Íslands hálfu. Ferðakostnaður ráðuneytisins af þeim sökum var 3,3 millj. kr. á árinu 1997.
    Varðandi íslenska hluta upplýsingakerfis (N.SIS) þá er undirbúningur þess á byrjunar stigi. Uppsetning á slíku kerfi hefst með þarfagreiningu en hún verður síðan grundvöllur að þeim kröfum sem íslensk yfirvöld gera til kerfisins. Þessi vinna stendur nú yfir í náinni sam vinnu milli Norðurlandanna og er ekki unnt að svo stöddu að gefa marktækar kostnaðartölur í þessu sambandi. Hins vegar má geta þess að upplýsingakerfið fellur að mörgu leyti vel að því tölvuumhverfi sem byggt hefur verið upp innan þeirra stofnana dómsmálaráðuneytisins sem koma munu að framkvæmd Schengen-samstarfsins. Því er ástæða til að ætla að sú uppbygging komi til með að nýtast fyrir upplýsingakerfið, en það mun draga úr kostnaði við rekstur þess. Einnig eru bundnar vonir við að náið samstarf Norðurlandanna við undirbúning þátttöku í samstarfinu muni leiða til hagkvæmari lausna en ella.
    Varðandi kostnað að öðru leyti vegna framkvæmdar samningsins gildir það sama og um upplýsingakerfið. Á þessari stundu stendur yfir þarfagreining á vegum dómsmálaráðuneytis ins sem miðar að því að skilað verði innan tíðar greinargerð um flesta þá þætti sem huga þarf að vegna framkvæmdar samningsins. Að því loknu mun ráðuneytið vinna fjárfestingar- og kostnaðaráætlanir vegna þátttöku Íslands í samstarfinu.