Ferill 552. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1177 – 552. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um bindandi álit í skattamálum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Þorsteinsdóttur, Ragnheiði Snorradóttur og Indriða Þorláksson frá fjármálaráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Vinnumálasambandinu, Verslunarráði Íslands, Seðlabanka Íslands, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sambandi íslenskra sparisjóða, réttarfarsnefnd, ríkisskattstjóra og Kaupmannasamtökunum.
     Með frumvarpi þessu er lagt til að tekið verði upp það nýmæli að heimila skattyfirvöldum að gefa fyrir fram bindandi álit í skattamálum. Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
1.      Lagðar eru til tvær breytingar á 2. gr. sem m.a. fjallar um formskilyrði sem beiðni um bindandi álit þarf að uppfylla. Annars vegar er lagt til að í stað þess að taka fram að beiðnin skuli vera vel afmörkuð varðandi þau álitaefni sem um er spurt skuli hún vera ítarlega afmörkuð varðandi þau atvik og álitaefni sem um er spurt. Með þessu er lögð áhersla á að í beiðni þurfi að lýsa af ýtrustu nákvæmni þeirri ráðstöfun sem beiðnin lýtur að og þeim atvikum sem að henni snúa. Talið er nauðsynlegt að bindandi álit verði ekki víðtækara en brýnir hagsmunir álitsbeiðanda krefjast. Hins vegar er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 3. mgr. greinarinnar þar sem segir að beiðni um bindandi álit teljist sjálfkrafa fallin úr gildi ef þær ráðstarfanir, sem beiðnin lýtur að, eru gerðar eftir að beiðni er send ríkisskattstjóra og áður en álit liggur fyrir. Þar verði kveðið á um að það sama gildi ef álitsbeiðandi lætur verða af ráðstöfun sinni áður en úrskurður yfirskattanefndar liggur fyrir og eftir atvikum niðurstaða dómstóla. Rétt þykir að gera slíka breytingu þar sem óeðlilegt þykir að sérstakt mál um bindandi álit verði látið ganga til dóms ef hægt er að taka til umfjöllunar þá ráðstöfun sem það snýr að.
2.      Þá er lögð til sú breyting á 3. gr. að kveðið verði nánar á um fresti sem ríkisskattstjóri hefur til þess að láta uppi bindandi álit. Lagt er til að við það verði miðað að geti ríkisskattstjóri ekki látið álit uppi innan fjögurra vikna frá því að beiðni barst skuli hann tilkynna álitsbeiðanda skriflega um frestun og skýra ástæður hennar. Ríkisskattstjóra sé jafnframt ekki heimilt að fresta gerð bindandi álits lengur en í þrjá mánuði frá því að beiðni berst.
3.      Lagt er til að frestur álitsbeiðanda og fjármálaráðherra skv. 2. mgr. 5. gr. til þess að bera úrskurð yfirskattanefndar skv. 1. mgr. greinarinnar undir dómstóla verði styttur úr þremur mánuðum í einn þar sem þriggja mánaða frestur verður að teljast óþarflega langur.
4.      Lagt er til að í stað þess að kveða á um í 6. gr. að álit ríkisskattstjóra sé ekki bindandi fyrir skattyfirvöld að því marki sem forsendur sem álitið byggist á hafi breyst verði miðað við málsatvik sem álitið byggist á. Með þessu er reglan þrengd.
5.      Loks er lögð til breyting á 7. gr. um gjöld fyrir bindandi álit og við það miðað að greiða þurfi sérstakt grunngjald að fjárhæð 10.000. kr. í hvert sinn sem beiðni er lögð inn. Þá sé heimilt að innheimta viðbótargjald er taki mið af umfangi máls, en slíkt gjald geti þó aldrei numið hærri fjárhæð er 40.000. kr.
         Sólveig Pétursdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. apríl 1998.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.



Valgerður Sverrisdóttir.



Pétur H. Blöndal.



Einar Oddur Kristjánsson.



Sighvatur Björgvinsson.



Steingrímur J. Sigfússon.