Ferill 668. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1251 – 668. mál.



Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um sýslur.

     1.      Hver er stjórnskipuleg staða sýslna samkvæmt gildandi lögum?
    Orðið sýslumaður í 10. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, vísar ekki til landfræðilegs umdæmis heldur til þeirra athafna sem sýslumaður hefur með höndum. Sýslumenn fara hver í sínu umdæmi með stjórnsýslu ríkisins eftir því sem lög og reglugerðir kveða á um. Skv. 11. gr. i.f. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði skiptist landið í 26 stjórnsýsluumdæmi auk Reykjavíkurumdæmis og mörk umdæma sýslumanna eru ákveðin með reglugerð, sbr. reglugerð nr. 57/1992, um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna, sbr. og reglugerðir nr. 500/1996 og 74/1998. Mörk og heiti sveitarfélaga eru þar notuð til að skilgreina stjórnsýsluumdæmi sýslumanna. Stjórnskipuleg staða einstakra sýslna er því mismunandi eftir því hvort mörk þeirra falla saman við mörk stjórnsýsluum dæmis einstaks sýslumanns.

     2.      Í hvaða lögum er nú að finna ákvæði sem byggjast á sýsluskipan?
    Nöfn á sýslum og sýslumörk eru nefnd í ýmsum lögum. Má þar nefna stjórnarskrá lýð veldisins Íslands, nr. 33/1944, lög um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, o.fl. Í þessum tilvikum er yfirleitt átt við afmarkað landsvæði og/eða skil á milli ein stakra landsvæða en þessi landsvæði mynda síðan umdæmi varðandi einstaka málaflokka, t.d. kjördæmi, lögsagnarumdæmi héraðsdómstóla, skattumdæmi o.s.frv.

     3.      Eru umdæmi sýslumanna á einhvern hátt formlega tengd sýslum? Í hvaða tilvikum eru mörk þeirra umdæma nú önnur en sýslumörk voru fyrir setningu sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986?
    Fram til 1. júlí 1992 sátu sýslumenn yfir landfræðilegum sýslum og bæjarfógetar í bæjum með kaupstaðarréttindi og borgarfógeti í Reykjavík. Með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989 var felldur niður greinarmunurinn á embættisheitum eftir umdæmum sem sýslumenn sátu í og þar með féllu niður embættisheitin bæjarfógeti, borgar fógeti og lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli. Sýslumaður er samkvæmt þeim lögum kenndur við þann stað þar sem aðsetur hans er. Núverandi mörk stjórnsýsluumdæma sýslu manna eru í mörgum tilvikum í ósamræmi við landfræðileg mörk einstakra sýslna svo sem algengast er að skilgreina landfræðileg mörk þeirra. Umdæmi eftirtalinna sýslumanna eru önnur en sýslumörk voru fyrir setningu sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, en leitast er við að skýra að hvaða leyti umdæmin falla ekki að landfræðilegum sýslum.

          Sýslumaðurinn í Reykjavík: Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær, Kjalarneshreppur og Kjósarhreppur.
          Sýslumaðurinn á Akranesi: Akraneskaupstaður.
          Sýslumaðurinn í Stykkishólmi: Skógarstrandarhreppur í Snæfells- og Hnappadalssýslu sameinaðist Dalabyggð í Dalasýslu í eitt sveitarfélag 1. janúar 1998, en Dalabyggð á undir sýslumanninn í Búðardal.
          Sýslumaðurinn í Búðardal: Skógarstrandarhreppur í Snæfells- og Hnappadalssýslu sameinaðist Dalabyggð í Dalasýslu í eitt sveitarfélag 1. janúar 1998.
          Sýslumaðurinn í Bolungarvík: Bolungarvíkurkaupstaður.
          Sýslumaðurinn á Ísafirði: Nauteyrarhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu sameinaðist Hólmavíkurhreppi í Strandasýslu í eitt sveitarfélag 11. júní 1994, en Hólmavíkurhreppur á undir sýslumanninn í Hólmavík.
          Sýslumaðurinn í Hólmavík: Nauteyrarhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu sameinaðist Hólmavíkurhreppi í Strandasýslu í eitt sveitarfélag 11. júní 1994.
          Sýslumaðurinn á Siglufirði: Siglufjarðarkaupstaður.
          Sýslumaðurinn á Ólafsfirði: Ólafsfjarðarkaupstaður.
          Sýslumaðurinn á Akureyri: Svalbarðsstrandarhreppur og Grýtubakkahreppur í Þingeyjarsýslu eiga hér undir samkvæmt reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna, nr. 57/1992.
          Sýslumaðurinn á Húsavík: Svalbarðsstrandarhreppur og Grýtubakkahreppur í Þingeyjarsýslu eiga undir embætti sýslumannsins á Akureyri samkvæmt reglugerð um stjórnsýslu umdæmi sýslumanna, nr. 57/1992.
          Sýslumaðurinn á Seyðisfirði: Skriðdalshreppur, Vallahreppur, Eiðahreppur og Egilsstaðabær úr Suður-Múlasýslu eiga hér undir samkvæmt reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna, nr. 57/1992.
          Sýslumaðurinn í Neskaupsstað: Neskaupstaðabær. Norðfjarðarhreppur úr Suður-Múlasýslu á hér undir samkvæmt reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna, nr. 57/1992, en hreppurinn var síðan sameinaður Neskaupstað 11. júní 1994.
          Sýslumaðurinn á Eskifirði: Skriðdalshreppur, Vallahreppur, Eiðahreppur og Egilsstaðabær úr Suður-Múlasýslu eiga undir sýslumanninn á Seyðisfirði samkvæmt reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna, nr. 57/1992. Norðfjarðarhreppur úr Suður-Múlasýslu á undir embætti sýslumannsins á Neskaupstað samkvæmt reglugerð um stjórnsýsluum dæmi sýslumanna, nr. 57/1992, en hreppurinn var síðan sameinaður Neskaupstað 11. júní 1994.
          Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum: Vestmannaeyjabær.
          Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli: svæði á Suðurnesjum sem eru varnarsvæði og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951 tekur til.
          Sýslumaðurinn í Hafnarfirði: Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær og Bessastaðahreppur. Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær, Kjalarneshreppur og Kjósarhreppur eiga undir sýslumanninn í Reykjavík samkvæmt reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna, nr. 57/1992.
          Sýslumaðurinn í Kópavogi: Kópavogskaupstaður.

     4.      Hvaða stöðu og þýðingu hafa landfræðileg mörk sýslna? Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða þau mörk eða setja nýjar reglur að því er varðar sýsluskipan í landinu?
    Eins og að framan er lýst er það aðeins í nokkrum tilvikum sem landsvæði stjórnsýslu umdæma sýslumanna falla saman við landsvæði einstakra sýslna, svo sem umdæmi sýslu mannsins í Borgarnesi tekur til Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, umdæmi sýslumannsins í Stykkishólmi tekur til Snæfells- og Hnappadalssýslu og umdæmi sýslumannsins í Búðardal tekur til Dalasýslu. Það eru ekki sýslumörk sem notuð eru til að skilgreina stjórnsýsluum dæmi sýslumanna heldur mörk og heiti sveitarfélaga, sbr. reglugerð um stjórnsýsluum dæmi, nr. 57/1992, ásamt síðari breytingum. Ekki eru áform um að breyta þeirri tilhögun. Umdæmi sýslumanna munu því í framtíðinni taka mið af stækkun og sameiningu sveitar félaga eins og gert hefur verið með reglugerðunum nr. 500/1996 og 74/1998 sem lutu að breytingum á fyrrnefndri reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna.