Ferill 544. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1278 – 544. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Pétur Þorsteinsson og Kristínu Haraldsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Íslenskum sjávarafurðum hf. og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði heildarlög um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða sem leysi af hólmi eldri lög, nr. 93/1992, um sama efni. Með breytingunum er íslenskum stjórnvöldum gert kleift að fella efni tilskipana EBE nr. 91/493, 92/48 og 91/492 inn í íslenska löggjöf.
    Nefndin vill taka fram að þó að uppboðs- og heildsölumarkaðir þurfi ekki lengur vinnslu leyfi heldur starfsleyfi verði frumvarpið að lögum sé ekki ætlunin að slaka á kröfum um hreinlæti og meðferð sjávarafurða á þeim. Í því sambandi vill nefndin taka fram að gerðar verða strangari kröfur til uppboðs- og heildsölumarkaða en verið hefur um að rekja megi feril þess sjávarfangs sem þar er til sölu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að bætt verði inn orðunum „til sölu“ í 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins en óbreytt gefur ákvæðið til kynna að það sé í höndum íslenskra stjórnvalda að ákveða hvaða auk efni verði notuð á Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvæðið tekur einungis til íslenskra sjávarafurða.
     2.      Lagt er til að felld verði út orðin „eftir því sem ráðherra ákveður með reglugerð“ í 8. gr. frumvarpsins. Ekki felst í þessu nein efnisleg breyting. Þar sem einungis skal heimilt að nota neysluvatn eða hreinan sjó er ekki þörf á reglugerðarheimildinni. Nefndin vill taka fram að rangt er farið með í athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu um að heimilt sé í vissum tilvikum að nota annan vökva en neysluvatn eða hreinan sjó.
     3.      Lagt er til að orðið „búlkuð“ í 11. gr. falli brott en ákvæðinu er ætlað að taka til allrar vöru sem send er ópökkuð óháð því hvort hún er búlkuð eða ekki.
     4.      Þá er lagt til að orðið „aðeins“ í 4. mgr. 26. gr. falli brott. Ákvæðinu er einungis ætlað að leggja ákveðnar skyldur á eftirlitsaðila en ekki að takmarka athugun og meðferð sjávarafurða í tollvörugeymslu. Um slíkt eiga að gilda almennar reglur, meðal annars tollalög.
     5.      Lagt er til að 4. mgr. 28. gr. falli brott. Þegar reynsla er komin á framkvæmd laganna, verði frumvarpið að lögum, kann að vera nauðsynlegt að taka gjaldtökuheimildir lag anna til endurskoðunnar.
     6.      Lagt er til að 1. mgr. 31. gr. verði gerð skýrari svo að ljóst megi vera að um þjónustugjöld sé að ræða. Þá er lagt til að 3. mgr. greinarinnar verði felld brott. Nefndin telur að vísitölubinding sú er þar kemur fram eigi engan rétt á sér. Smám saman hefur verið horfið frá vísitölubindingu í löggjöf og er það af hinu góða.
     7.      Þá er lagt til að í stað orðsins „varðhaldi“ í 32. gr. komi „fangelsi“ en slíkt er í samræmi við þá stefnumörkun að fella brott hugtakið varðhald úr íslenskri löggjöf, sbr. 522. mál þessa þings um afnám varðhaldsrefsingar.
     8.      Að lokum leggur nefndin til að bætt verði við lögin ákvæði til bráðabirgða. Bráðabirgðaákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 93/1992. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi og að um leið falli niður lög nr. 93/1992, um meðferð sjávar afurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Fjórða og fimmta kafla frumvarpsins er hins vegar ekki ætlað að öðlast gildi fyrr en 1. nóvember 1998 og því er nauðsynlegt að bæta bráðabirgðaákvæðinu við lögin.

Alþingi, 24. apríl 1998.



Steingrímur J. Sigfússon,


form., frsm.


Árni R. Árnason.



Einar Oddur Kristjánsson.




Vilhjálmur Egilsson.



Svanfríður Jónasdóttir.



Hjálmar Árnason.



Guðmundur Hallvarðsson.



Stefán Guðmundsson.



Lúðvík Bergvinsson.