Ferill 702. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1282 – 702. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996, sbr. lög nr. 35/1998.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


         

1. gr.

    1. tölul. 3. gr. laganna orðast svo: Fyrirtækið sé hlutafélag. Þó er heimilt að starfrækja verðbréfamiðlun skv. 9. gr. sem einkahlutafélag. Sé um að ræða verðbréfafyrirtæki sem stundar starfsemi skv. 8. gr. skal innborgað hlutafé nema að lágmarki 65 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en sem nemur 730.000 ECU miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Sé um að ræða verðbréfamiðlun sem stundar starfsemi skv. 9. gr. skal innborgað hlutafé nema að lágmarki 4,5 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en sem nemur 50.000 ECU miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, sbr. þó 2. mgr. 9. gr., en þá skal innborgað hlutafé nema að lágmarki 10 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en sem nemur 125.000 ECU miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu er óheimilt að hefja starfsemi fyrr en hlutafé hefur verið greitt að fullu í reiðufé.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á haustþingi 1997 var lagt fram frumvarp til laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Því frumvarpi fylgdi frumvarp sem breytti lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996. Frumvörpin urðu að lögum í byrjun apríl sl. Með framangreindri breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti var 2. málsl. 1. tölul. 3. gr. laganna felldur brott en ákvæðið kvað á um að heimilt væri að starfrækja verðbréfamiðlun skv. 9. gr. laganna sem einkahlutafélag. Þar sem ekki var ætlunin að fella þennan málslið brott er frumvarp þetta lagt fram til leiðréttingar.