Ferill 368. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1324 – 368. mál.Nefndarálitum frv. til búnaðarlaga.

Frá landbúnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Sigþórsson og Jón Erling Jónasson frá landbúnaðarráðuneyti. Þá komu til fundar Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasam tökunum, Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Guðmundur Lárusson, Guðbjörn Árnason og Guðmundur Þorsteinsson frá Landssambandi kúabænda.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Búnaðarsambandi Skagfirðinga, Veiðimála-stofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Sambandi garðyrkjubænda, Bændasamtökum Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, Búnaðarsambandi Vestfjarða, Búnaðarsambandi Vestur-Húnavatnssýslu, Sambandi íslenskra loðdýraræktenda, Félagi ferðaþjónustubænda, Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, Landssambandi kartöflubænda, Búnaðarsambandi Strandamanna, Davíð Þór Björgvinssyni, prófessor við Háskóla Íslands, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Landssambandi kúabænda, Alþýðusambandi Íslands og búnaðarþingi.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ný lög sem leysi af hólmi jarðræktarlög og lög um búfjárrækt. Ákvæði jarðræktarlaga eru undirstaða þess skipulags sem gilt hefur hér á landi á meginhluta þessarar aldar um stuðning ríkisins við jarða- og húsabætur í sveitum. Á sama hátt eru búfjárræktarlögin undirstaða þeirra framfara í búfjárrækt sem orðið hafa hér á landi síðustu áratugina. Þessi lög eru einnig meginundirstaða þeirrar ráðunautaþjónustu sem rekin hefur verið á vegum landbúnaðarins og er þar að finna ákvæði um stuðning ríkis valdsins við þá starfsemi. Þessi nýju búnaðarlög verða rammalög sem gera ráð fyrir samn ingum milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands um verkefni á sviði jarðabóta, búfjárræktar, leiðbeininga og hagræðingar sem notið geta fjárstuðnings ríkisvaldsins.
    Nefndin ræddi sérstaklega ákvæði 3. gr. frumvarpsins með hliðsjón af ákvæðum 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Nefndin telur rétt að taka það sérstaklega fram að við gerð samn inga skv. 3. gr. frumvarpsins þarf að gæta að ákvæðum 2. mgr. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, en þar segir meðal annars að einkaaðila verði ekki með samningi skv. 1. mgr. falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur manna nema sérstök heimild sé til þess í lögum. Séu slíkir samningar gerðir skulu ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga, sem og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar, gilda um þá stjórnsýslu sem verktaki tekur að sér að annast. Af þessu ákvæði leiðir að við framkvæmd valds síns samkvæmt búnaðarlögum eru Bændasamtök Íslands bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga og upp lýsingalaga, sem og almennum meginreglum stjórnsýsluréttarins að því er varðar þá stjórn sýslu sem Bændasamtökin taka að sér að annast fyrir ríkisvaldið á grundvelli samninga skv. 3. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagðar eru til nokkrar breytingar á 1. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að bætt verði við skilgreiningu á búfé. Í III. kafla frumvarpsins er sérstaklega fjallað um ræktun búfjár og því þykir rétt að búfé sé hér skilgreint. Skilgreiningin er samhljóða skilgreiningu á búfé sem er að finna í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Í öðru lagi er lögð til orða lagsbreyting á skilgreiningu á búnaðarfélagi og í þriðja lagi er lagt til að bætt verði við skilgreiningu á héraðsráðunaut og er það í samræmi við aðrar breytingar á frumvarpinu, sbr. 6. lið.
     2.      Lagðar eru til breytingar á 3. gr. Annars vegar eru lagðar til orðalagsbreytingar en hins vegar er lagt til að í stað þess að eingöngu verði kveðið á um að Bændasamtökin annist framkvæmd þeirra verkefna sem um er samið skv. 1. mgr. greinarinnar annist samtökin slíka framkvæmd nema öðruvísi sé um samið eða ákveðið með lögum. Með þessu er verið að undirstrika að Framleiðnisjóður landbúnaðarins, sbr. 1. mgr., verði ekki settur undir Bændasamtökin.
     3.      Lögð er til sú breyting á 4. gr. um fagráð að kveðið verði á um að sérfróðir aðilar skuli starfa með og sitja í fagráðum en ekki skuli tilgreint nákvæmlega að hverju slíkir aðilar skuli vinna.
     4.      Lögð er til sú breyting á 7. gr. að í stað þess að miða við að framlög til jarðabóta geti náð til allra jarðeigna sem teljast lögbýli, með nokkrum undantekningum, verði miðað við að framlög til jarðabóta geti náð til allra jarðeigna þar sem landbúnaður er stundað ur, með undantekingum þó sem raktar eru í greininni.
     5.      Lögð er til breyting á 8. gr. um eftirlit. Gert er ráð fyrir að eftirlit með því að jarðabætur séu unnar í samræmi við fyrirliggjandi áætlun og aðrar reglur sem gilda um slíkar fram kvæmdir geti jafnt verið í höndum búnaðarsambanda sem og leiðbeiningarmiðstöðva.
     6.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 9., 11., 13. ,17. og 18. gr. meðal annars með hliðsjón af því að leiðbeiningar samkvæmt frumvarpinu skulu ýmist vera í höndum búnaðar sambanda eða leiðbeiningarmiðstöðva og í stað þess að tala um ráðunauta verði notað hugtakið héraðsráðunautar.
     7.      Lögð er til sú breyting á 12. gr. að gjald það sem búnaðarsamböndum eða öðrum félagasamtökum bænda sem viðurkennd eru af Bændasamtökum Íslands er heimilt að inn heimta hjá mjólkurframleiðendum af allri innveginni mjólk í afurðastöð vegna sæðinga mjólkurkúa skuli nema 1,7% í stað 1,5% af afurðastöðvarverði mjólkur eins og það er á hverjum tíma.
     8.      Lagt er til að fellt verði brott úr ákvæði 16. gr. að erfðanefnd búfjár skuli fylgjast með og halda skrá um erfðabreytileika og þróun hans hjá villtum landdýrum en lög um slík dýr heyra undir umhverfisráðuneytið.
     9.      Loks er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins og við það miðað að lögin taki gildi þegar í stað. Til samræmis eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða.

Alþingi, 28. apríl 1998.Guðni Ágústsson,


form., frsm.


Egill Jónsson.Árni M. Mathiesen.Guðjón Guðmundsson.Hjálmar Jónsson.     


Magnús Stefánsson.     


Sigríður Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Ágúst Einarsson,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.