Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1327 – 478. mál.Nefndarálitum frv. til áfengislaga.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Ólafsson og Kolbein Árnason frá dómsmálaráðuneyti. Þá komu á fund nefndarinnar Samúel M. Karlsson, Stefán Valdimarsson, Jón Sigurðsson og Kristján Andrésson áfengiseftirlitsmenn, Erna Hauksdóttir og Tryggvi Guðmundsson frá Sambandi veitinga- og gistihúsa, Haraldur Johannessen og Jón Bjartmarz frá embætti ríkislögreglustjóra, Signý Sen frá embætti lögreglustjórans í Reykja vík, Höskuldur Jónsson, forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, Regína Ásgrímsdóttir og Þorleifur Óskarsson frá Starfsmannafélagi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og Dögg Pálsdóttir hrl. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Áfengisvarnaráði, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, lögreglustjóranum í Reykjavík, Sambandi veitinga- og gistihúsa, Samtökum iðnaðarins, Matvæla- og veitingasambandi Íslands, Guðbirni Jónssyni, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Vímulausri æsku, Félagi starfsfólks í veitingahúsum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stórstúku Íslands, Samtökum verslunarinnar, Kaupmannasamtökum Íslands, Jóni Sigurðssyni og Reykjavíkurborg.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um áfengi og er frumvarpið liður í umfangsmiklum breytingum sem lagðar hafa verið til í áfengis- og tóbaksmálum hér á landi. Helstu breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér felast í því að sett verði skýrari og heildstæðari ákvæði en samkvæmt gildandi löggjöf um leyfi til að stunda í atvinnuskyni inn flutning, heildsölu, smásölu, veitingar eða framleiðslu áfengis. Er ríkislögreglustjóra í stað fjármálaráðherra ætlað að veita leyfi til innflutnings, heildsölu eða framleiðslu áfengis. Þá er það nýmæli í frumvarpinu að lagt er til að ÁTVR þurfi leyfi til að starfrækja hverja áfengisútsölu. Lagt er til að sveitarstjórn, hver í sínu umdæmi, veiti leyfin og þurfa útsölu staðirnir að fullnægja ákveðnum lágmarksskilyrðum, en viðkomandi sveitarstjórn er síðan heimilt að binda leyfið frekari skilyrðum. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að afnumið verði það skilyrði núgildandi laga að fjöldi íbúa sveitarfélags skuli vera yfir 1.000 til að heimilt sé að starfrækja þar áfengisútsölu. Þá eru í frumvarpinu sett skýrari og ótvíræðari ákvæði um áfengisveitingaleyfi og skilyrði sem leyfishafar þurfa að fullnægja. Skilyrði þessi eiga að auðvelda eftirlitsaðilum að bregðast við brotum leyfishafa á löggjöfinni og skapa þar með öruggari umgjörð um mál þessi en verið hefur. Meðal þeirra skilyrða sem leyfishafar þurfa að uppfylla eru að þeir leggi fram tryggingar fyrir kröfum sem kunna að stofnast á hendur þeim vegna rekstursins og að þeir séu ekki í verulegum gjaldföllnum skuldum við hið opinbera eða lífeyrissjóði. Þá er heimilt að synja um leyfi hafi hlutaðeigandi á síðustu fimm árum verið dæmdur til refsivistar fyrir brot á tilgreindum lögum. Frumvarpið gerir ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu að sveitarstjórnir í stað lögreglustjóra gefi út leyfi til áfengis veitinga hver í sínu sveitarfélagi. Loks er lagt til að sett verði á stofn úrskurðarnefnd um áfengismál, en hlutverk hennar verður að leysa úr ágreiningsmálum vegna ákvarðana sem frumvarpið gerir ráð fyrir að séu í höndum sveitarstjórna.
    Samhliða frumvarpinu er lagt fram frumvarp til breytinga á lögreglulögum, en í því er lagt til að stofnuð verði sérstök deild innan embættis ríkislögreglustjóra sem fari með yfirstjórn og umsjón með eftirliti með meðferð áfengis.
    Nefndin fjallaði nokkuð um áfengisauglýsingar, en í frumvarpinu eru ekki lagðar til breyt ingar á núgildandi reglum þar um. Nokkur misbrestur hefur verið á framkvæmd þessara reglna að undanförnu og deildar meiningar eru um hvort að unnt sé að framfylgja þeim. Bárust nefndinni upplýsingar um að nú væru í gangi í dómskerfinu þrjú mál þar sem ákært hefði verið fyrir brot gegn þessum ákvæðum áfengislaga og væri ætlunin að fá endanlega úr því skorið hvort ákvæðin væru fullnægjandi. Telur nefndin rétt að bíða úrlausnar dómstóla í þessum málum áður en ákvarðanir verða teknar um breytingar á reglum um áfengisaug lýsingar.
    Einnig var rætt um ákvæði 18. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að ungmennum yngri en 18 ára sé óheimil dvöl á veitingastað sem hefur leyfi til áfengisveitinga eftir kl. 20 á kvöldin og fram til lokunar staðarins, nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka. Er ákvæðið óbreytt frá núgildandi lögum og komu fram þau sjónarmið í nefndinni að þörf væri á endurskoðun þess. Þykir réttara að bíða með breytingar á ákvæðinu þar til fyrir liggur niðurstaða nefndar þeirrar sem nefndin leggur til að skipuð verði, en hún á að kanna hvort æskilegt sé að breyta áfengiskaupaaldri hér á landi
    Nokkrar umræður urðu í nefndinni um lagaskil núgildandi áfengislaga og þessara laga, bæði hvað varðar útgáfu leyfa til áfengisveitinga eftir samþykkt laganna og áður útgefin leyfi. Gerir nefndin breytingartillögu við gildistökuákvæðið og leggur til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða til að koma til móts við fyrrnefnd atriðið. Hvað varðar þegar útgefin leyfi til áfengisveitinga er ljóst af ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu að þau halda gildi sínu, en öll leyfi eru tímabundin og munu þau lúta ákvæðum nýrra laga þegar kemur að endurútgáfu. Sum þessara leyfa gilda einungis varðandi veitingar á léttu víni, en í frumvarpinu er ekki að finna skilgreiningu á léttum og sterkum drykkjum, heldur er í öllum tilvikum fjallað um áfengi í heild. Slíka skilgreiningu er hins vegar að finna í frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um gjald af áfengi, sbr. 2. gr. frumvarpsins, og verður nauðsynlegt að notast við þá skilgreiningu þar til umrædd leyfi renna út.
    Þá spunnust umræður í nefndinni um spíra, en með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi ÁTVR til innflutnings á spíra verði fellt niður. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir að spíri falli að hluta til undir áfengislög, þ.e. ef um er að ræða neysluhæfan vökva. Þannig verður innflutningur, sala og framleiðsla slíkra vökva leyfisskyld og er þar t.d. átt við svokallaðan læknaspíra. Hins vegar er gert ráð fyrir að aðrir vökvar sem innihalda vínanda en eru óneysluhæfir verði ekki leyfisskyldir samkvæmt áfengislögum, heldur verði settar sérstakar reglur á viðkomandi sviði þar um.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Helstu efnisatriði breytinganna eru eftirfarandi:
     1.      Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 1. gr. þar sem fram kemur tilgangur laganna. Lagt er til að ákvæðinu verði breytt þannig að tilgangurinn verði að vinna gegn misnotkun áfengis, en það markmið er meira í samræmi við upphafsákvæði núgildandi áfengislaga.
     2.      Lagðar eru til breytingar á 2. gr. varðandi áfengi í duftformi. Nefndinni bárust ábendingar um að vandamál kynnu að skapast ef skilgreining frumvarpsins á áfengi nær ekki til efna sem má leysa sundur í vökva og hafa þá þann áfengisstyrkleika sem er nefndur í frumvarpinu. Því er lagt til að bætt verði við skilgreiningu á áfengi í 1. mgr. 2. gr. ákvæði þess efnis að þau efni, sem unnt er að leysa upp í vökva og hafa áfengisstyrk leika þann sem fram kemur í frumvarpinu, skuli fara með sem áfengan drykk.
     3.      Lagt er til að orðið „smásala“ verði fellt brott úr 2. mgr. 3. gr. þar sem fjallað er um leyfisveitingar til að stunda í atvinnuskyni innflutning, heildsölu eða framleiðslu áfengis. Skv. 10. gr. frumvarpsins hefur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einkaleyfi til smásölu áfengis og því er óþarft að kveða á um smásölu í 3. gr.
     4.      Á 5. gr. eru lagðar til orðalagsbreytingar.
     5.      Á 5. mgr. 13. gr. er lögð til breyting þess efnis að tilkynning um nýjan stjórnanda áfengisveitingastaðar skuli berast til sveitarstjórnar auk lögreglustjóra. Þykir eðlilegt að sveitarstjórn, sem leyfisveitanda, sé einnig tilkynnt um slíka breytingu.
     6.      Tvær breytingar eru lagðar til á 14. gr. Annars vegar á 1. mgr. ákvæðisins þar sem kveðið er á um að sveitarstjórn skuli, áður en hún veitir leyfi til áfengisveitinga á veit ingastað, afla umsagnar heilbrigðisnefndar og leita álits viðkomandi byggingar- og skipulagsnefndar. Lagt er til að viðkomandi lögreglustjóri verði jafnframt umsagnaraðili áður en sveitarstjórn veitir leyfið. Bárust nefndinni ábendingar um þetta atriði og tekur hún undir það sjónarmið að lögregluyfirvöld kunna að búa yfir mikilvægum upp lýsingum um umsækjendur og að til lögreglunnar berast flestar athugasemdir vegna ónæðis frá veitingastöðum. Hin breytingin sem lögð er til á 14. gr. snýr að umsagnar aðilum um reglugerð um áfengisveitingar, en nefndinni bárust margar ábendingar varð andi ákvæðið. Eðlilegast þykir að við ákvörðun um lögbundna umsagnaraðila verði tekið mið af því hvaða aðilar það eru sem sæti eiga í úrskurðarnefnd um áfengismál, en einnig þykir eðlilegt að áfengis- og vímuvarnaráð veiti umsögn. Því er lagt til að lög bundnir umsagnaraðilar um reglugerðina verði áfengis- og vímuvarnaráð, Samband ís lenskra sveitarfélaga og ríkislögreglustjóri.
     7.      Þá er lögð til sú breyting á 1. mgr. 19. gr. að í stað þess að bannað verði að afhenda og veita bersýnilega ölvuðum manni áfengi verði kveðið á um að heimilt sé að neita að veita eða afhenda manni áfengi ef viðkomandi er áberandi ölvaður.
                  Á 2. mgr. 19. gr. er lögð til breyting þess efnis að í stað orðsins „félagsherbergi“ komi „húsnæði félagasamtaka“ en það þykir samrýmast betur nútímamálnotkun. Þá er einnig lagt til að ákvæði varðandi húsnæði félagasamtaka verði tekið inn í fyrri málslið 2. mgr., en síðari málsliður 2. mgr. felldur brott.
     8.      Lagðar eru til breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins, en jafnframt er lagt til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða (III), þar sem kveðið verði á um að með nýjar umsóknir um áfengisveitingaleyfi skuli fara samkvæmt ákvæðum þessara laga strax frá birtingu þeirra, en gert er ráð fyrir að lögin öðlist að öðru leyti gildi 1. júní nk. Þykir eðlilegt að umsóknir sem berast eftir birtingu laganna verði afgreiddar eftir nýjum reglum.
     9.      Lagt er til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða (II) þar sem kveðið er á um niðurlagningu starfs áfengisvarnaráðunautar, sbr. 26. gr. núgildandi áfengislaga, og um niðurlagningu skrifstofu áfengisvarnaráðs, sbr. 27. og 28. gr. sömu laga. Breyting þessi er lögð til þar sem að nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp heilbrigðisráðherra þar sem kveðið er á um stofnun sérstaks áfengis- og vímuvarnaráðs í þeim tilgangi að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir, sérstaklega meðal barna og ungmenna, og sporna við afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna. Gert er ráð fyrir að áfengis- og vímuvarnaráð taki við verkefnum áfengisvarnaráðunautar og áfengisvarnaráðs ásamt fíkniefnavörnum.
     10.      Loks er lagt til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða (IV) þar sem kveðið er á um skipan nefndar sem hafi það verkefni að kanna hvort æskilegt sé að breyta áfengis kaupaaldri hér á landi. Lagt er til að dómsmálaráðherra skipi nefndina og í henni eigi sæti sex menn. Einn fulltrúi verði tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, einn af áfengiseftirlitsdeild ríkislögreglustjóra, einn af landlæknisembættinu, einn af landssamtökunum Heimili og skóli og einn af Félagi framhaldsskólanema, og er lagt til að dómsmálaráðherra skipi nefndinni formann án tilnefningar. Lagt er til að nefndin vinni í samráði við allsherjarnefnd og að niðurstaða og skýrsla um starf nefndarinnar skuli lögð fyrir Alþingi í upphafi næsta þings. Meðal þátta sem nefndin á að kanna eru kostir og gallar breytinga á áfengiskaupaaldri, reynsla annarra þjóða sem breytt hafa áfengiskaupaaldri, nauðsyn á eflingu forvarnar- og eftirlitsstarfs til að stuðla að jákvæð um áhrifum slíkra breytinga og hvernig standa þyrfti að undirbúningi. Auk þess skal nefndin meta áhrif þess til lengri og skemmri tíma að færa áfengiskaupaaldur niður í 18 ár, meta hvort rétt væri að færa áfengiskaupaaldurinn tímabundið niður í 18 ár til að kanna reynslu slíkra breytinga eða hvort eingöngu verði miðað við að færa aldurinn úr 20 í 18 ár að því er varðar létt vín og bjór og meta hvort rétt væri að skoða samhliða slíkri breytingu að færa aldurinn til ökuleyfis úr 17 í 18 ár og að lækka leyfilegt áfengis magn í blóði 17–20 ára við akstur í 0‰. Gert er ráð fyrir að kostnaður við störf nefnd arinnar greiðist úr ríkissjóði.
    Bryndís Hlöðversdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja og fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma um málið.

Alþingi, 28. apríl 1998.Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.Árni R. Árnason.                        

Kristján Pálsson.Gunnlaugur M. Sigmundsson.Guðný Guðbjörnsdóttir.Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Hjálmar Jónsson.Bryndís Hlöðversdóttir,


með fyrirvara.