Ferill 707. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1364 – 707. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum.

Frá umhverfisnefnd.



    Alþingi ályktar að mótmæla harðlega aukinni losun og auknum umsvifum kjarnorku- endurvinnslustöðva í Dounreay og Sellafield sem ógnað geta hreinleika hafsins og nýtingu sjávarauðlinda umhverfis Ísland og ganga gegn alþjóðasamningum, m.a. OSPAR-samningnum um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins.
    Alþingi ítrekar jafnframt fyrri mótmæli sín með vísan til þingsályktunar frá 8. febrúar 1988, um mótmæli gegn stækkun endurvinnslustöðvar í Dounreay fyrir úrgang frá kjarnorkuverum, og þingsályktunar frá 17. desember1993, um viðbrögð vegna starfsleyfis fyrir THORP-endurvinnslustöðina í Sellafield.

Greinargerð.


    Alþingi hefur tvívegis ályktað að mótmæla starfsemi breskra kjarnorkuendurvinnslustöðva. Þann 8. febrúar 1988 var samþykkt á Alþingi ályktun um mótmæli gegn stækkun endurvinnslustöðvar í Dounreay fyrir úrgang frá kjarnorkuverum og 17. desember 1993 samþykkti Alþingi ályktun um viðbrögð vegna starfsleyfis fyrir THORP-endurvinnslustöðina þar sem mótmælt var harðlega þeirri ákvörðun breskra stjórnvalda að veita endurvinnslustöð fyrir geislavirkan kjarnorkuúrgang starfsleyfi og ganga þannig gegn samþykkt aðildarríkja Parísarsamningsins um varnir gegn mengun sjávar frá landsstöðvum sem gerð var í Berlín í júní 1993.
    Mengun frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum hefur ítrekað verið mótmælt á norrænum vettvangi og þegar fréttir bárust um aukna mengun við Noregsstrendur í ársbyrjun hvatti forsætisnefnd Norðurlandaráðs ríkisstjórnir Norðurlanda til að taka höndum saman og mótmæla. Í framhaldi af þessu sendu norrænir umhverfisráðherrar í febrúar sl. sameiginlegt bréf til að mótmæla losun frá stöðvunum.
    Nýlega voru flutt 5 kg af geislavirkum úrgangi frá Georgíu til endurvinnslu í Dounreay í Skotlandi. Utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að þessi flutningar séu óviðunandi fyrir hagsmuni Íslendinga og hefur hann kallað sendiherra Breta og Bandaríkjamanna, sem annast flutningana, á sinn fund vegna málsins.
    Þann 24. apríl sl. samþykkti Evrópuráðsþingið í Strassborg einróma ályktun um meðferð á geislavirkum úrgangi. Þar kemur fram sú grundvallarregla að ríki sem framleiða geislavirkan úrgang bera ábyrgð á því að honum sé komið fyrir á öruggan hátt og að almennt skuli slíkum úrgangi komið fyrir í því landi þar sem hann verður til svo fremi sem það uppfyllir skilyrði fyrir öruggri meðhöndlun slíkra efna. Auk þess er í ályktuninni mikilvæg umfjöllun um tengsl kjarnorkuúrgangs og sjávar, m.a. eru ríki hvött til að tryggja að flutningar á geislavirkum úrgangi á sjó verði í lágmarki og að leitað verði allra ráða til að lágmarka losun geislavirkra efna í sjó með það markmið í huga að koma í veg fyrir, minnka og stöðva mengun sjávar og strandsvæða af völdum geislavirkra efna. Ályktun Evrópuráðsþingsins verður send ráðherranefnd Evrópuráðsins til umfjöllunar. Vert er að minna á að í nóvember 1998 taka Íslendingar við varaformennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins og gegna þar formennsku á næsta ári þegar Evrópuráðið fagnar því að hálf öld er liðin frá stofnun þess.
    Á fundi Sameinuðu þjóðanna sumarið 1997 var m.a. samþykkt ályktun um að lönd sem bera ábyrgð á geislavirkum úrgangi eigi eftir því sem kostur er að leysa þau mál heima fyrir en ekki flytja úrganginn annað til vinnslu.
    Samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, OSPAR, tók gildi 23. mars 1998 á ári hafsins. Í samræmi við ákvæði OSPAR-samningsins skulu samningsaðilar gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir og útrýma mengun og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda hafsvæðið gegn skaðlegum áhrifum af völdum mannlegra athafna í því skyni að standa vörð um heilsu manna, varðveita vistkerfi hafsins og, þegar hægt er, lagfæra hafsvæði sem orðið hafa fyrir skaðlegum áhrifum. Ljóst er að rekstur endurvinnslustöðvanna samrýmist ekki þessum markmiðum samningsins. Í byrjun apríl var haldinn hér á landi fyrsti fundur innan OSPAR eftir að samningurinn öðlaðist gildi. Fundurinn var í svonefndri PRAM-nefnd sem fjallar um aðgerðir til að draga úr mengun. Á þeim fundi komu fram miklar áhyggjur af mengun frá geislavirkum úrgangi frá endurvinnslustöðvum, einkum af völdum teknesíum 99 frá stöðinni í Sellafield en líklegt er að það efni berist inn á íslenskt hafsvæði innan skamms. Frekari umræður og ákvarðanir verða teknar á á aðalfundi OSPAR og ráðherrafundi aðildarríkjanna sem haldinn verður í Lissabon í júlí 1998 samhliða heimssýningunni.