Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1398 – 524. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



Inngangur.
    Frumvarpið fjallar um breytingar á ákvæðum skattalaga um vaxtabætur. Frumvarpið er hluti af húsnæðisstefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist í þessu frumvarpi en þó aðallega frum varpi til laga um húsnæðismál, 507. máli.
    Frumvarpið um vaxtabætur felur í sér þá meginbreytingu að vaxtabætur verði greiddar fyrir fram hjá þeim sem taka lán eftir að lögin taka gildi. Þetta er gert vegna þess að vextir af lánum til félagslegs húsnæðis verða hækkaðir úr 2,4% í 5,1%.
    Stefna ríkisstjórnarinnar er að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið sem hefur verið mjög mikilvægur stuðningur við láglaunafólk. Útgjaldaauki ríkisins vegna frumvarpsins á næstu sex árum er frá 290 millj. kr. upp í 1.200 millj. kr. en jafnframt fellur niður framlag til Byggingarsjóðs verkamanna sem nú er 275 millj. kr. Gert er ráð fyrir að um 1.000 ein staklingar fái nú rétt til vaxtabóta en þeir fengu áður lán úr félagslega húsnæðiskerfinu.

Stefna stjórnarandstöðunnar.
    Sú stefna ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í þessum tveimur frumvörpum er í fullkom inni andstöðu við sjónarmið stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar. Þannig segir meðal annars í áliti minni hluta félagsmálanefndar um frumvarp til laga um húsnæðismál: „Nú bregður svo við að ríkisstjórnin hefur ákveðið að gjörbylta húsnæðiskerfinu, ekki síst félagslega hlutanum, með þeim rökum að kerfið sé komið í þrot, það hafi valdið sveitarfélög um miklum vanda, of margir reisi sér hurðarás um öxl, húsnæði standi autt o.s.frv. Þegar bet ur er skoðað standast þessi rök ekki.“
    Síðar segir í áliti minni hluta félagsmálanefndar: „Minni hlutinn gerir mjög alvarlegar at hugasemdir við þær breytingar sem verið er að boða á félagslega húsnæðiskerfinu og mót mælir harðlega þeirri atlögu sem gerð er að kjörum láglaunafólks með þessu frumvarpi. Nái frumvarpið fram að ganga mun það fyrst og fremst bitna á tekjulitlu fólki, einstæðum mæðr um, barnmörgum fjölskyldum, námsmönnum og fötluðum. Verði frumvarpið að lögum er ver ið að vísa því fólki sem áður átti kost á 100% lánum út á leigumarkað sem er afar vanþróað ur enda mikill skortur á leiguhúsnæði um land allt. Þá getur nýtt greiðslumat haft þær afleið ingar að allstór hópur sem áður féll undir reglur félagslega kerfisins falli utan eða milli kerfa, en engar áætlanir liggja fyrir um það.“
    Samkvæmt útreikningum Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns, sem voru staðfestir í efnahags- og viðskiptanefnd af hálfu starfsmanna fjármálaráðuneytisins, þyngist greiðslu byrði einstaklinga með 800 þús. kr. til 1,5 millj. kr. í árstekjur um 23–57 þús. kr. ef miðað er við íbúð sem kostar 6,3 millj. kr. Ef einstaklingur með þessar tekjur kaupir íbúð sem er dýrari en 5,5 millj. kr. er greiðslubyrði hans þyngri eftir þessar breytingar en fyrir.
    Ef einstætt foreldri með 800 þús. kr. til 1,9 millj. kr. í árstekjur kaupir íbúð á 7,3 millj. kr., sem er algengt verð á þriggja herbergja íbúð, þyngist greiðslubyrðin um 3–63 þús. kr. á ári. Sé í þessu dæmi keypt íbúð sem kostar meira en 6,5 millj. kr. virkar nýja kerfið íþyngj andi. Hafa ber í huga að þetta er eðlilegt íbúðaverð á markaðnum.
    Ef hjón kaupa 8 millj. kr. íbúð og hafa 1,6–2,1 millj. kr. í árstekjur er greiðslubyrðin ívið léttari í nýja kerfinu.
    Það er ljóst að fyrir mjög marga þýðir nýja kerfið aukna greiðslubyrði. Þannig er rangt sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur haldið fram að nýja kerfið muni leiða til bættrar stöðu fyrir almennt launafólk. Þvert á móti er óöryggið aukið og greiðslubyrðin þyngd. Niður greiddir vextir í félagslega húsnæðiskerfinu eru mun tryggari aðstoð fyrir láglaunafólk en vaxtabótakerfið sé horft til reynslu síðastliðinna ára. Ekki hefur verið ágreiningur um það að fyrir þá sem eru tekjulægstir hafa lán með ívilnandi vöxtum komið sér mjög vel.

Gagnrýnar umsagnir.
    Í fjölmörgum umsögnum um frumvarpið koma fram áhyggjur vegna málsins. Þannig óskar Landssambandið Þak yfir höfuðið að húsnæðismálinu í heild verði frestað og sýnir einnig fram á með dæmum að greiðslur muni aukast í nýja kerfinu. Í mjög ítarlegum athugasemdum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja kemur fram sú skoðun að fyrirframgreiðslur vaxtabóta eigi að renna til allra sem eiga rétt á vaxtabótum en ekki ein ungis til þeirra sem kaupa húsnæði eftir að lögin taka gildi. Þessi stærstu heildarsamtök launafólks telja að félagslega húsnæðiskerfið hafi tryggt fjölda fólks gott, öruggt og viðun andi íbúðarhúsnæði. Það hafi skapað láglaunafjölskyldum möguleika til eignamyndunar í eigin íbúðarhúsnæði sem ekki hefði verið hægt í leiguhúsnæði. Þessi meginstefna verkalýðs hreyfingarinnar er samhljóða stefnu stjórnarandstöðunnar.

Lokaorð.
    Þetta frumvarp, sem er liður í húsnæðisstefnu ríkisstjórnarinnar, er því alls ekki til bóta og ekki fullrætt. Þannig eykst greiðslubyrði hjá ýmsum hópum mun meira en ætlað var. Þótt vissulega sé hægt að finna galla á húsnæðiskerfinu sem ber að bæta úr er það fráleit niður staða að afnema með öllu félagslega húsnæðiskerfið þess vegna.
    Minni hlutinn telur því að tvennt komi til greina, annaðhvort verulegar endurbætur á frum varpi til laga um húsnæðismál og samhliða skoðun á frumvarpi um vaxtabætur og hækkun vaxtabóta áður en af afgreiðslu verður nú í vor eða að báðum frumvörpunum verði frestað og unnið verði betur að málunum í sumar í samráði við samtök launafólks.
    Mikilvægt er að líta á bæði frumvörpin í samhengi. Minni hlutinn telur að úr því sem kom ið er verði þessi mál að skoðast betur og leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Kristín Halldórsdóttir satt fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkt þessu áliti.

Alþingi, 12. maí 1998.



Ágúst Einarsson,


frsm.


Steingrímur J. Sigfússon.


Sighvatur Björgvinsson.