Ferill 559. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1403 – 559. mál.Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fram leiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem samið er að tilhlutan landbúnaðarráðherra í samráði við Bændasamtök Íslands, er tilgangur þess að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna ákvæða í samningi frá 17. desember 1997, um starfsskilyrði mjólkurfram leiðslunnar milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands, en sá samningur tekur við af samningi sömu aðila um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt sem undirritaður var 11. mars 1991.
    Samningurinn um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar byggist á áliti sjömannanefndar frá 4. nóvember 1997, um framleiðslu og vinnslu mjólkur. Í álitinu er að finna ýmsar gagn merkar upplýsingar. Meðal annars kemur fram að Hagþjónusta landbúnaðarins hafi gert samanburð á afkomu kúabænda árin 1992–96, þ.e. á gildistíma þess samnings sem hinum nýja er ætlað að leysa af hólmi. Í þeirri könnun kemur fram að á umræddu tímabili hafi greiðslumark í mjólk aukist að meðaltali úr 89.871 lítra í 98.171 lítra eða um 8.700 lítra sem er 9,2% aukning. Á þessu sama tímabili hækkuðu meðalskuldir úr 5,7 millj. kr. í 6,9 millj. kr. eða um 22,1%. Á sama tíma jukust eignir aðeins um 0,4%. Eigið fé búanna lækkaði því að meðaltali um 20,8% og var á árinu 1992 50,5% en var orðið 39,8% árið 1996. Lækkandi eiginfjárhlutfall undirstrikar úttekt eigenda úr rekstrinum umfram það sem búin skila í hagn að fyrir laun eigenda. Ýmis fleiri dæmi má rekja úr áliti sjömannanefndarinnar sem öll ber að sama brunni, þ.e. að sú stefna sem mörkuð var með samningum 1991 hafi ekki reynst kúa bændum sem skyldi.
    Með hinum nýja samningi er stefnt að eftirfarandi markmiðum:
     1.      Að skapa rekstrarumhverfi í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða sem leiði af sér aukna hagkvæmni í vaxandi samkeppni við innfluttar búvörur.
     2.      Að bæta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu svo að nauðsynleg nýliðun verði og eðlileg fjárfesting geti orðið.
     3.      Að nýta á sem bestan hátt skilyrði til framleiðslu mjólkur fyrir innanlandsmarkað og aðra þá markaði sem teljast hagkvæmir og viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.
    Þrátt fyrir að ýmis markmið hafi náðst af þeim sem að var stefnt við samningsgerðina 1991 hefur lítið breyst hvað varðar það markmið að hagræðing verði í framleiðslu í greininni auk þess sem afkomutölur sem raktar eru hér að framan og fram koma í áliti sjömannanefnd ar benda eindregið til þess að sú leið sem valin var við samningsgerðina 1991 hafi ekki verið til þess fallin að styrkja rekstur einstakra kúabúa nema síður væri. Minni hlutinn telur að sú leið sem birtist í þessum samningi feli ekki í sér stórvægilegar breytingar frá því sem verið hefur og óttast að með henni takist ekki að ná því markmiði að hagræðing verði í greininni svo að framleiðendur verði í stakk búnir til að takast á við þá samkeppni sem fyrirsjáanleg er vegna innflutnings.
    Áfram verður viðhaldið þeirri aðferðafræði að verðákvörðun í landbúnaði verði að miklu leyti miðstýrð allt til ársins 2001 en þá er fyrirhugað að breyting verði á því hvort sem þær fyrirætlanir ganga eftir eður ei. Það er mat minni hlutans að sú aðferðafræði sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár og ætlunin er að fylgja áfram a.m.k. um sinn hefur ekki reynst sem skyldi eins og fram kemur í tölum sjömannanefndar um eiginfjárstöðu og þróun hennar hjá kúabændum eins og rakið er að framan.
    Þegar landbúnaðarumhverfið er skoðað í heild sinni og borið saman við aðrar þjóðir kem ur fram að Íslendingar styrkja landbúnað sinn meira ef miðað er við landsframleiðslu en flestar aðrar þjóðir. Þrátt fyrir það eru matvæli mun dýrari hér, svo skiptir tugum prósenta, en hjá öðrum þjóðum sem við erum gjörn á að bera okkur saman við. Þetta eru hrópandi stað reyndir sem ekki er hægt að líta fram hjá. Þetta verður enn illskiljanlegra þegar sú staðreynd bætist við að bændur eru ein tekjulægsta stétt þessarar þjóðar. Ekki þarf að leiða fram frek ari vitni um að landbúnaðarstefnan hefur hvorki reynst bændum né neytendum vel. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er ætlunin að halda að mestu leyti áfram á þessari braut með litlum breyt ingum.
    Það er því skoðun minni hlutans að samningurinn breyti ekki miklu að því er lýtur að af komu bænda eða þróun matvöruverðs í landinu. Hann er aðeins liður í því að viðhalda mein gölluðu kerfi í landbúnaði. Minni hlutinn telur að erfitt sé að gera tillögur til breytinga á ein stökum ákvæðum hans sökum þess að um samning er að ræða við heila stétt manna og annað hvort verður hann tekinn upp í heild sinni eða látinn vera eins og hann liggur fyrir. Það er því álit minni hlutans að ríkisstjórnin eigi að taka upp samningsgerð við bændur að nýju í því skyni að ná fram samningi sem leiðir til betri niðurstöðu fyrir bændur og neytendur. Sá samningur sem nú liggur fyrir þjónar hvorki hagsmunum bænda né neytenda. Það er mikið alvörumál ef Alþingi Íslendinga ætlar að samþykkja samning sem er jafn metnaðarlaus og raun ber vitni þar sem markmiðið er það eitt að viðhalda ónýtu kerfi. Minni hlutinn leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 14. maí 1998.Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Ágúst Einarsson.