Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1435, 122. löggjafarþing 367. mál: þjóðlendur.
Lög nr. 58 10. júní 1998.

Lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.


I. KAFLI
Skilgreiningar.

1. gr.

     Í lögum þessum merkir:
      Eignarland: Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
      Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.
      Afréttur: Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.

II. KAFLI
Þjóðlendur.

2. gr.

     Íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.
     Forsætisráðherra fer með málefni þjóðlendna sem ekki eru lögð til annarra ráðuneyta með lögum.

3. gr.

     Enginn má hafa afnot þjóðlendu fyrir sjálfan sig, þar með talið að reisa þar mannvirki, gera jarðrask, nýta hlunnindi, vatns- og jarðhitaréttindi, sbr. þó 5. gr., nema að fengnu leyfi skv. 2. eða 3. mgr. og að uppfylltum skilyrðum laga að öðru leyti.
     Leyfi forsætisráðherra þarf til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu nema mælt sé fyrir um annað í lögum. Ráðherra er jafnframt heimilt að leyfa nauðsynleg afnot af landi til hagnýtingar á þessum réttindum.
     Til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greinir í 2. mgr. þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þarf jafnframt samþykki forsætisráðherra. Rísi ágreiningur um veitingu leyfa samkvæmt þessari málsgrein sker forsætisráðherra úr honum.
     Forsætisráðherra er heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald (leigu) fyrir nýtingu réttinda sem hann heimilar skv. 2. mgr. Með sama hætti er sveitarstjórn heimilt að fengnu samþykki forsætisráðherra að semja um endurgjald vegna afnota sem hún heimilar skv. 3. mgr. Tekjum af leyfum til nýtingar lands skv. 2. mgr. skal varið til landbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna, eftir nánari ákvörðun forsætisráðherra. Tekjum af leyfum sem sveitarstjórn veitir skv. 3. mgr. skal varið til hliðstæðra verkefna innan þeirrar þjóðlendu sem leyfið tekur til. Sveitarstjórn skal árlega gera forsætisráðherra grein fyrir ráðstöfun fjárins.
     Forsætisráðherra skal árlega gefa Alþingi skýrslu um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi. Ríkisendurskoðun endurskoðar reikninga um innheimtu og ráðstöfun tekna af þjóðlendum.
     Heimildir skv. 2. og 3. mgr. taka ekki til réttinda sem eru háð einkaeignarrétti eða fengin öðrum með lögum. Leiði afnot til skerðingar á eignarréttindum sem aðrir eiga í þjóðlendunni getur viðkomandi krafist bóta úr hendi leyfishafa. Náist ekki samkomulag um greiðslu bóta skal skorið úr þeim ágreiningi samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
     Frá og með gildistöku laga þessara er ekki unnt að öðlast eignarréttindi innan þjóðlendna fyrir nám eða hefð.

4. gr.

     Á vegum forsætisráðherra skal starfa samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna er í eiga sæti fulltrúar forsætisráðherra, félagsmálaráðherra, iðnaðarráðherra, landbúnaðarráðherra, samgönguráðherra og umhverfisráðherra og tveir fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúi forsætisráðherra er formaður nefndarinnar. Nefndin skal vera forsætisráðherra til aðstoðar við stjórn og ráðstöfun réttinda innan þjóðlendna. Þá skal nefndin árlega gera tillögur til forsætisráðherra um ráðstöfun tekna af réttindum innan þjóðlendna.
     Heimilt er forsætisráðherra að setja í reglugerð nánari reglur um meðferð og nýtingu þjóðlendna samkvæmt lögum þessum, þar með talið um skilyrði fyrir leyfum sveitarstjórna til afnota af þjóðlendum.

5. gr.

     Þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skulu halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.
     Sama gildir um önnur réttindi sem maður færir sönnur á að hann eigi.

III. KAFLI
Óbyggðanefnd.

6. gr.

     Óbyggðanefnd skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum varamönnum.
     Forsætisráðherra skipar nefndarmenn. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðalmanna. Nefndarmenn skulu fullnægja skilyrðum til að gegna embætti héraðsdómara.
     Forfallist aðalmaður við meðferð máls skal formaður ákveða hver úr hópi varamanna taki sæti hans. Með sama hætti getur formaður ákveðið að varamaður taki sæti aðalmanns við meðferð máls telji hann þess þörf vegna fjölda eða umfangs mála sem nefndin fjallar um. Sé mál munnlega flutt skal þess jafnan gætt að sami maður taki þátt í meðferð þess frá því að aðilum er gefinn kostur á að tjá sig fyrir nefndinni og þar til hún kveður upp úrskurð í málinu.
     Telji formaður þörf sérkunnáttu við úrlausn máls getur hann kvatt til mann eða menn sem hafa slíka sérkunnáttu. Sé ekki talin þörf á fleiri en einum sérfróðum manni skal varamaður taka sæti samkvæmt ákvörðun formanns þannig að nefndin verði skipuð fimm mönnum.
     Óbyggðanefnd skal heimilt að ráða starfsfólk sér til aðstoðar að höfðu samráði við forsætisráðherra. Hið sama gildir um skrifstofuaðstöðu fyrir hana.
     Kostnaður vegna starfa óbyggðanefndar greiðist úr ríkissjóði.

7. gr.

     Hlutverk óbyggðanefndar skal vera:
  1. Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
  2. Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
  3. Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.


8. gr.

     Óbyggðanefnd skal að eigin frumkvæði taka til meðferðar og úrskurða um málefni sem undir hana heyra. Skal hún ákveða og tilkynna fyrir fram hvaða landsvæði ákveðið hefur verið að taka til meðferðar hverju sinni þannig að sá hluti landsins sem starfssvið nefndarinnar tekur til verði tekinn fyrir í áföngum. Stefnt skal að því að nefndin hafi lokið verkinu fyrir árið 2007.

9. gr.

     Sá sem telur til eignarréttinda á ákveðnu svæði og vill fá úrskurð óbyggðanefndar um mál sem heyrir undir hana skal leggja fram skriflega beiðni þar um. Óbyggðanefnd skal taka beiðnina til meðferðar og tilkynna um þá ákvörðun með sama hætti og segir í 1. mgr. 10. gr. Nefndinni er heimilt að ákveða að slík beiðni verði ekki tekin til meðferðar fyrr en kemur að viðkomandi landsvæði eftir ákvörðun skv. 8. gr.

10. gr.

     Þegar nefndin hefur ákveðið að taka afmarkað svæði til meðferðar skal hún birta þá ákvörðun með því að gefa út tilkynningu og láta birta í Lögbirtingablaði. Skal þar skorað á þá er telja til eignarréttinda yfir landi eða annarra réttinda á svæðinu að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan þriggja mánaða frá útgáfudegi þess tölublaðs sem tilkynningin er birt í. Óbyggðanefnd getur samþykkt að veita aðila sem þess óskar viðbótarfrest. Jafnframt skal nefndin láta þinglýsa slíkri ákvörðun á þær eignir sem skráðar eru í þinglýsingabók og eru á viðkomandi svæði. Sama máli gegnir ef mál er endurupptekið skv. 19. gr.
     Jafnframt skal útdráttur úr efni tilkynningar skv. 1. mgr. birtur með auglýsingu í dagblaði.
     Samhliða kröfum sínum skulu aðilar leggja fram þær heimildir og gögn sem þeir byggja rétt sinn á.
     Nefndin skal, þrátt fyrir ákvæði 1. og 3. mgr., hafa frumkvæði að því að afla heimilda og gagna um eignar- og afnotaréttindi yfir því landsvæði sem til meðferðar er og framkvæma rannsóknir og athuganir um staðreyndir og lagaatriði sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu í einstökum málum. Óbyggðanefnd getur heimilað að fram fari munnleg sönnunarfærsla fyrir nefndinni.

11. gr.

     Fjármálaráðherra skal fara með fyrirsvar fyrir hönd ríkisins og stofnana á vegum þess vegna krafna um eignarréttindi innan þjóðlendna og við úrlausn um hvort land teljist til eignarlands eða þjóðlendu.
     Sé um að ræða sameiginlegt upprekstrarland skal beina tilkynningum vegna þeirra sem þar eiga upprekstrarrétt til viðkomandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna eða upprekstrarfélags sem stofnað hefur verið um þessi mál og skulu þau hafa umboð til að ráðstafa málefninu fyrir hönd einstakra rétthafa.

12. gr.

     Óbyggðanefnd skal eftir að hún hefur gefið út tilkynningu skv. 10. gr. og kannað heimildir um viðkomandi landsvæði gera yfirlit yfir lýstar kröfur og láta færa þær inn á uppdrátt. Skal yfirlit þetta ásamt uppdrætti liggja frammi á skrifstofu sýslumanns eða sýslumanna í því eða þeim umdæmum sem svæðið á undir í að minnsta kosti einn mánuð. Athugasemdir skulu hafa borist óbyggðanefnd innan 30 daga frá þeim degi þegar kynningu lauk.

13. gr.

     Óbyggðanefnd getur ákveðið að sameina meðferð og afgreiðslu mála varðandi einstök landsvæði í eitt mál eða fleiri og aðskilja mál óháð því hvernig aðilar kunna að hafa lagt mál fyrir nefndina eða hún tekið mál fyrir að eigin frumkvæði í upphafi.
     Þrátt fyrir ákvarðanir sem óbyggðanefnd hefur tekið skv. 8. gr. getur hún ákveðið síðar að minnka eða stækka það landsvæði sem hún tekur til meðferðar í einstöku máli.
     Komi það fram við meðferð máls að aðili, sem kann að telja til eignarréttinda, hafi ekki lýst kröfum sínum skal nefndin hafa frumkvæði að því að kanna hvort hann falli frá tilkalli, en ella gefa honum kost á að gerast aðili máls.

14. gr.

     Úrlausnum óbyggðanefndar verður ekki skotið til ráðherra sem æðra stjórnvalds.
     Mál sem heyrir undir óbyggðanefnd skv. 7. gr. verður ekki borið undir dómstóla fyrr en eftir að nefndin hefur lokið umfjöllun sinni um það.

15. gr.

     Óbyggðanefnd leitar sátta með aðilum nema telja verði að sáttatilraun verði árangurslaus.
     Telji nefndin að mál, sem borið er upp við hana, falli utan starfssviðs hennar skal hún synja um fyrirtöku málsins með úrskurði, en ávallt skal gefa aðila kost á að tjá sig sérstaklega um þetta atriði áður en úrskurður þar um er kveðinn upp.
     Telji aðili að mál, sem óbyggðanefnd hefur til meðferðar, eigi ekki undir hana getur hann krafist þess að því verði vísað frá nefndinni.

16. gr.

     Um form og efni úrskurða óbyggðanefndar sem fela í sér endanlegar lyktir máls fer eftir reglum stjórnsýslulaga um úrskurði í kærumáli.

17. gr.

     Óbyggðanefnd getur að kröfu aðila úrskurðað gagnaðila í einstöku máli sem rekið er fyrir nefndinni til greiðslu málskostnaðar honum til handa, enda hafi verið færðar fram kröfur, greinargerðir eða sjónarmið fyrir nefndinni, munnlega eða skriflega. Um málskostnað fer að öðru leyti eftir reglum um málskostnað í einkamálum.
     Forsætisráðherra er heimilt að veita aðila að máli fyrir óbyggðanefnd gjafsókn í samræmi við reglur XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en þó að teknu tilliti til þess að mál fyrir óbyggðanefnd kemur í stað málshöfðunar eða málsvarnar fyrir héraðsdómi eða æðra dómi. Umsögn óbyggðanefndar um gjafsókn skal koma í stað umsagnar gjafsóknarnefndar. Þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að veita aðila sem fer með fyrirsvar skv. 2. mgr. 11. gr. laganna, lögaðilum og einkaaðilum gjafsókn, enda hafi úrlausn máls
  1. verulega almenna þýðingu eða
  2. varði verulega miklu um hagsmuni umsækjanda og kostnaður af gæslu hagsmuna hans í málinu hefur fyrirsjáanlega mjög veruleg áhrif á efnahag umsækjanda.

     Hafi aðila verið veitt gjafsókn skal hann gera kröfu um að óbyggðanefnd úrskurði gagnaðila til greiðslu málskostnaðar skv. 1. mgr. þessarar greinar og 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991. Óbyggðanefnd skal í úrskurði sínum í máli þar sem aðili hefur gjafsókn ákveða honum eða umboðsmanni hans þóknun fyrir flutning máls nema slík þóknun hafi verið undanskilin gjafsókn.

18. gr.

     Fullnægja má ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um málskostnað með aðför.
     Birta skal úrskurði óbyggðanefndar fyrir þeim aðilum sem lýst hafa kröfum og þeim sem úrskurðað er að eigi réttindi á viðkomandi svæði. Útdráttur úr úrskurði skal birtur í Lögbirtingablaði ásamt uppdrætti. Óbyggðanefnd skal annast um að úrskurðir hennar verði gefnir út.
     Óbyggðanefnd skal hafa frumkvæði að því að þinglýsa úrskurðum sem fela í sér eignarheimildir. Ekki skal innheimta þinglýsingar- og stimpilgjöld af slíkum skjölum né heldur við þinglýsingar skv. 1. mgr. 10. gr.

19. gr.

     Sá sem ekki vill una úrskurði óbyggðanefndar skal höfða einkamál innan sex mánaða frá útgáfudegi þess Lögbirtingablaðs sem útdráttur úr úrskurði er birtur í skv. 2. mgr. 18. gr. Er þá unnt að leggja til úrlausnar dómstóla hverja þá kröfu sem gerð hefur verið fyrir nefndinni.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

20. gr.

     Hafi mál verið höfðað fyrir dómi þar sem kröfur eru gerðar um efni sem á undir óbyggðanefnd samkvæmt lögum þessum skal þeim málum lokið þar þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 14. gr.

21. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 1998.