Ferill 654. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1449 – 654. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997.

(Eftir 2. umr., 28. maí.)



1. gr.

    5. tölul. 2. gr. laganna orðast svo: Hafa í upphafi bótatímabils verið skráðir sem atvinnu lausir í þrjá daga samfellt. Ákvæði þetta gildir ekki um starfsfólk í fiskvinnslu sem ekki hefur rétt til að gera kauptryggingarsamning samkvæmt kjarasamningi VMSÍ og VSÍ/VMS.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Sá sem uppfyllir skilyrði um bótarétt en hverfur af innlendum vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila af launum hans tryggingagjaldi heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði, frá því að hann hvarf af vinnumarkaði, þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum fellur réttur hans samkvæmt þessari grein að fullu niður. Með sama hætti skal farið með þann sem tekur að stunda hlutastarf eða hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs. Ákvæði þetta gildir ekki um þá sem fara í atvinnuleit til annars EES-ríkis í allt að þrjá mánuði og fá á þeim tíma greiddar at vinnuleysisbætur samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Ef sá sem hefur áunnið sér rétt til bóta verður óvinnufær af völdum sjúkdóms eða slyss og verður að hverfa frá vinnu heldur hann þeim bótarétti þegar hann verður vinnufær á ný, enda sanni hann að hann hafi verið óvinnufær með læknisvottorði þegar hann sækir um at vinnuleysisbætur að loknum veikindum. Sama rétt til geymslu bótaréttar á sá sem sviptur hefur verið frelsi sínu með dómi.


4. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, sem orðast svo:
    Hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur misst starf sitt að hluta og haldið fastráðningu í hlutastarfi eða ráðist í fast hlutastarf, sem að starfshlutfalli er minna en bótaréttur hans, er úthlutunarnefnd heimilt að ákvarða honum bætur sem nema mismun bótaréttar hans og þess starfshlutfalls sem hann gegnir.
    Ef samanlagðar tekjur af hlutastarfi og atvinnuleysisbótum umsækjanda, sbr. 1. mgr., eru hærri en fullar bætur samkvæmt bótarétti hans að viðbættu frítekjumarki, sbr. 4. mgr. 7. gr., skal skerða atvinnuleysisbætur hans um það sem umfram er.
    Leiði ákvæði 2. mgr. til þess að umsækjandi verði fyrir skerðingu bóta skal farið með bótarétt hans eins og um geymdan bótarétt væri að ræða skv. 3. gr.
    Heimilt er að greiða bætur á móti hlutastarfi í allt að tuttugu og fjóra mánuði á hverju bótatímabili. Að þeim tíma liðnum getur ekki komið til greiðslu hlutabóta samkvæmt þessari grein fyrr en að loknum tólf mánuðum í starfi sem gefur rétt til hærra bótahlutfalls en heildarhlutfall þess sem umsækjandi átti áður rétt til.
    Kjósi umsækjandi að segja starfi sínu lausu, innan tuttugu og fjögurra mánaða tímabilsins, fremur en að missa hinn skerta bótarétt sinn, eiga ákvæði 4. tölul. 5. gr. laga þessara ekki við.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað „2.433 kr.“ í 1. mgr. kemur: 2.752 kr.
     b.      4. mgr. orðast svo:
             Atvinnuleysisbætur þess sem nýtur elli- eða örorkulífeyris, svo og örorkustyrks frá Tryggingastofnun ríkisins, skulu skerðast, á mánaðargrundvelli, um það sem umfram er frítekjumark tekjutryggingar einstaklings vegna almennra tekna eins og það er ákveðið á hverjum tíma. Sama gildir um elli- og örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum og tekjur af hlutastarfi.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
             Úthlutunarnefnd starfar í umboði sjóðstjórnar og undir eftirliti hennar.
     b.      6. mgr. orðast svo:
             Úthlutunarnefnd ákveður fyrirkomulag á afgreiðslu bóta í samráði við sjóðstjórn.


7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998.