Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1456 – 479. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um áfengis- og vímuvarnaráð.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Engum dylst að þörfin á raunverulegu átaki til að sporna gegn vaxandi neyslu vímuefna af margvíslegum toga er mjög brýn. Óhrekjandi staðreyndir úr nýlegum könnunum sýna að fíkniefnaneysla er að aukast og hefur illu heilli færst niður í yngri aldurshópa. Einungis þrauthugsuð og vel útfærð stefna af hálfu stjórnvalda er líkleg til að ná árangri í baráttunni gegn þessum vágesti sem líklegur er til að verða mesta samfélagsmein komandi aldar. Þá stefnu er ekki að finna í frumvarpi til laga um áfengis- og vímuvarnaráð. Ákvæði frumvarps ins eru óljós, markmiðssetning loðin og illa útfærð og á fundum með nefndinni kom berlega í ljós að starfsmönnum ráðuneytisins var ekki fyllilega ljóst hvaða tilgangi á að ná með því.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á stofn sérstakt áfengis- og vímuvarnaráð. Af óljós um ákvæðum um markmið frumvarpsins má ráða að því er ætlað að samhæfa varnir gegn fíkniefnum. Valin er sú leið í frumvarpinu að setja á stofn ráð sem sjö ráðherrar eiga að til nefna fulltrúa sinn í. Samband íslenskra sveitarfélaga fær þann áttunda, og formaður er skip aður af heilbrigðisráðherra úr hópi áttmenninganna. Af sjálfu leiðir að í ráðið munu því fyrst og fremst veljast embættismenn ráðuneytanna. Minni hlutinn telur að þessi leið sé ekki vel fallin til að samhæfa varnir gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna, enda sýnir reynslan að það starf sem ráðuneyti hafa innt af höndum til þessa hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Átak allrar þjóðarinnar þarf til að raunverulegur árangur náist. Þess vegna er farsælla að Al þingi skipi ráðið og hafi þar með forustu fyrir því þjóðarátaki sem nú er þörf á. Sá háttur er sömuleiðis líklegri til að tryggja að í ráðið veljist sérfræðingar í vímuvörnum fremur en emb ættismenn úr ráðuneytunum.
    Í 3. gr. er verkefnum ráðsins lýst í átta töluliðum. Þeir eru vægast sagt afar óljósir og svör um merkingu einstakra liða fengust ekki. Nefndin óskaði eftir því við starfsmenn ráðuneytis ins að skriflegar skýringar bærust á einstökum liðum þar sem fram kæmi hvað í þeim fælist. Þar var m.a. sérstaklega innt eftir merkingu 1. tölul. þar sem segir að verkefni ráðsins sé m.a. að „hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé fram fylgt“. Jafnframt var skýringa óskað á öðrum liðum í verkefnagrein frumvarpsins. Skemmst er frá því að segja að skrifleg svör bárust aldrei.
    Athygli vekur að tóbaksvarnanefnd á samkvæmt frumvarpinu ekki að vera hluti af hinu nýja ráði. Minni hlutinn telur að það hljóti að koma til álita að verksvið nefndarinnar verði fellt undir ráðið. Ástæðurnar eru þríþættar: Í fyrsta lagi blandast engum hugur um að nikótín er ávanabindandi fíkniefni eins það er þegar skilgreint af öðrum þjóðum. Í öðru lagi hefur tóbaksvarnanefnd mikla reynslu af baráttu gegn tóbaksneyslu sem á köflum hefur verið ákaf lega árangursrík. Sú reynsla og þekking á heppilegum forvörnum gæti því nýst hinu nýja ráði afar vel í baráttunni gegn öðrum fíkniefnum. Í þriðja lagi er nú sannað að sterk fylgni er á milli tóbaksreykinga unglinga og fíkniefnaneyslu þeirra síðar í lífinu. Barátta gegn tóbaks neyslu er því um leið barátta gegn neyslu annarra fíkniefna og því æskilegast að hvort tveggja sé á sömu hendi. Að öðrum kosti er ekki hægt að tala um samhæfðar varnir.
    Minni hlutinn er sömuleiðis þeirrar skoðunar að eins og staðið hefur verið að úthlutun styrkja úr Forvarnasjóði sé ekki líklegt að hann nái þeim árangri sem til var ætlast. Því hefði verið æskilegt að áður en nýju áfengis- og vímuvarnaráði yrði í raun falin úthlutun úr sjóðn um hefði reynslan af honum verið könnuð, ekki síst þær ábendingar sem komu fram á fundi nefndarinnar hjá fulltrúum samtaka sem berjast gegn áfengisvandanum.
    Í ljósi framangreinds leggur minni hlutinn því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 28. maí 1998.



Össur Skarphéðinsson,


frsm.


Margrét Frímannsdóttir.



Ásta R. Jóhannesdóttir.