Ferill 95. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1506 – 95. mál.



Nefndarálit



um till. til þál. um tilraunaveiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Tillagan er vanhugsuð og byggð á órökstuddum og beinlínis röngum forsendum svo sem staðfest er í umsögnum sérfróðra aðila hjá umhverfisráðuneyti, embætti veiðistjóra, Náttúru vernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun, ráðgjafarnefnd um villt dýr og Náttúruverndarráði, svo og í umsögn Páls Hersteinssonar, prófessors og fyrrum veiðistjóra, sem manna mest hefur unnið að rannsóknum á refum hér á landi. Enn má vitna til greinar í Morgunblaðinu 23. maí sl. eftir Áka Ármann Jónsson, líffræðing og settan veiðistjóra, sem tekur í sama streng.
    Ranghermt er í greinargerð með tillögunni að veiðar á ref og mink í friðlandinu á Horn ströndum hafi legið niðri síðan 1985. Veiðar voru þvert á móti stundaðar þar allt til ársins 1995 og voru þær hvað mestar síðustu fjögur árin þegar veiddir voru að meðaltali 143 refir og 20 minkar ár hvert. Þessi mikla veiði virtist lítil sem engin áhrif hafa á fjölda dýra í frið landinu. Þó er talið líklegt að ref og mink hafi fjölgað eitthvað í friðlandinu eins og víðast annars staðar á landinu undanfarna tvo áratugi. Því miður fóru engar vistfræðilegar rann sóknir fram í friðlandinu á Hornströndum, hvorki fyrir né eftir stofnun þess, og glataðist þannig gullið tækifæri til að staðreyna áhrif friðunar á stofnstærð refa og minka á svæðinu. Þaðan af síður er hægt að fullyrða um breytingar á fuglalífi þar, hvorki um stofnstærð né söng mófuglanna sem ekki hefur verið mældur þar fyrr né síðar. Það er því varlegt að fullyrða eins og gert er í greinargerð með tillögunni: „Skynsamleg veiði á þessum tegundum myndi því auðga lífríkið og söngur mófuglanna hæfist að nýju.“ Fullyrðingar í greinargerð um að hjarðir refa og minka streymi suður Strandir og inn í Djúp styðjast ekki heldur við neinar rannsóknir né gild rök þótt bændur á svæðinu telji að þeirra verði meira vart en áður.
    Þannig er allt á eina bókina lært með forsendur og rök fyrir þessari tillögu. Ljóst er hins vegar að rannsóknir þarf að efla á svæðinu, og væri Alþingi sæmra að stuðla að slíku en að samþykkja svo illa grundaða tillögu sem meiri hlutinn vill styðja þvert á öll vísindaleg og skynsamleg rök. Minni hlutinn hafnar svo ófaglegum vinnubrögðum og leggst gegn samþykkt tillögunnar.

Alþingi, 3. júní 1998.



Kristín Halldórsdóttir,


frsm.


Hjörleifur Guttormsson.





    Eftirfarandi fylgiskjölum er útbýtt með nefndarálitinu:

    Umsögn umhverfisráðuneytis.
    Umsögn veiðistjóraembættisins.
    Umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga.
    Umsögn ráðgjafarnefndar um villt dýr.
    Umsögn Náttúruverndarráðs.
    Umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Umsögn Náttúruverndar ríkisins.
    Umsögn Bændasamtaka Íslands ásamt fylgiskjölum.
    Umsögn Grunnvíkingafélagsins á Ísafirði.
    Umsögn Átthagafélags Sléttuhrepps í Reykjavík.
    Umsögn Indriða Aðalsteinssonar.
    Umsögn Búnaðarsambands Vestfjarða.
    Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Umsögn Páls Hersteinssonar.
    Umsögn Æðarræktarfélags Íslands.
    Umsögn bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.
    Umsögn hreppsnefndar Kaldrananeshrepps.
    Grein Áka Ármanns Jónssonar í Mbl. 23. maí 1998.