Samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 13:50:58 (3643)

1999-02-16 13:50:58# 123. lþ. 66.91 fundur 264#B samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[13:50]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Erfiðleikar útgerða sem lenda í aflaskerðingu er mjög alvarlegt vandamál og kemur verst niður á litlum fyrirtækjum og landsbyggðinni allri. Erfitt er með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að bregðast við slíkum vanda þegar allt er niðurnjörvað fyrir fram og sveigjanleiki nánast enginn orðinn í kerfinu. Síðasta neglingin á þessu sviði var þegar heimildir útgerðar til þess að setja aflaheimildir á leigumarkað voru skertar um helming. Þar sem eftirspurn eftir leigukvóta minnkaði ekkert þó svo að þetta væri gert þá hefur leiguverð á þorskkvóta hækkað um 30% á einu ári.

Þessi ráðstöfun sem sett var í lög á síðasta ári hefur komið öllum í koll og ekki hvað síst sjómönnum sjálfum, en samtök þeirra börðust hart gegn leigukvótanum á liðnu ári með þeim afleiðingum að lögunum var breytt, eins og ég talaði um áðan.

Herra forseti. Ég tel mjög brýnt að rýmkað verði aftur um þessar heimildir og aukinn sá fiskur sem settur verður á leigumarkaðinn því það er eina leiðin til þess að hægt sé að lækka leiguverðið að nýju. Það má gera með því að minnka veiðiskylduna niður í sama hlutfall og hún var fyrir ári síðan, þ.e. 50% annað hvert ár, ellegar þá að Kvótaþing hafi heimildir til þess að setja inn á markaðinn ákveðinn tonnafjölda, ég hef nefnt 10 þús. tonn, til að mæta sveiflum á markaðnum. Það mundi einnig mæta þeim erfiðleikum sem eru víða um land þegar skerðing verður á aflaheimildum þannig að útgerðir geti komið inn á leigumarkaðinn og fengið aflaheimildir til að hægt verði þá að sækja sjó með því að veiða aðrar fisktegundir.

Herra forseti. Ég tel því að það þurfi að grípa inn í með róttækum ráðstöfunum og það fljótt.