Utanhússviðgerðir á Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:24:21 (3811)

1999-02-17 19:24:21# 123. lþ. 68.18 fundur 517. mál: #A utanhússviðgerðir á Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:24]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að vekja máls á þessu brýna málefni. Ég fagna svörum hæstv. menntmrh. um þær áætlanir sem eru í gangi um viðgerðir á húsinu. Það er rétt, eins og hæstv. ráðherra sagði, það vekur furðu hve viðhald þessa húss hefur verið lítið og sannast sagna hefur það verið nánast ekki neitt frá því að húsið var byggt á sínum tíma. Þetta var og er afskaplega glæsileg bygging að sjá að utan en þegar inn kemur er allt míglekt og gluggar halda hvorki vatni né vindum. Það er því löngu tímabært að fara út í þessar viðgerðir og ég fagna því að það skuli vera komin áætlun sem miðar að því að framkvæmdum og viðgerðum utan húss verði lokið eigi síðar en eftir þrjú ár.