Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 11:05:23 (3835)

1999-02-18 11:05:23# 123. lþ. 69.2 fundur 523. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[11:05]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður og þær undirtektir sem frv. hefur fengið. Vissulega er rétt að það kemur nokkuð seint fram á þessu þingi en á því eru eðlilegar skýringar. Eins er rétt að hafa það í huga að reynt hefur verið að vanda til undirbúnings frv. og mikilvægt að að því starfi hafa komið fulltrúar allra þingflokka. Áður en frv. kemur fyrir þingið hafa fulltrúar allra þingflokka haft tök á að fjalla um efnisatriði þess.

Umræðan hér gefur ekki tilefni til margra athugasemda. Vegna fyrirspurnar hv. 5. þm. Reykn. get ég sagt að ég hef ekki gert sérstaka könnun á því hvort frávik eru í lögum um kosningar til sveitarstjórna frá þessum lögum. Vegna þess sem hv. þm. nefndi um þriggja vikna frestinn, þá var sú regla komin inn í kosningalögin 1995. Þar var þess vegna verið að samræma sveitarstjórnarlögin að reglu sem komin var í kosningalög.

Hv. 5. þm. Reykn. spurði einnig hvort ákvæði frv. sem lúta að kosningu erlendis fælu í sér að unnt væri að kjósa á fleiri stöðum erlendis. Vissulega opnar frv. fyrir möguleika á því en felur ekki í sér ákvarðanir þar um, um það verður að taka sérstakar ákvarðanir. Þá verður höfð hliðsjón af því hversu margir Íslendingar eiga í hlut. Aðalatriðið er að frv. gefur þarna kost á því að kjósa á fleiri stöðum en verið hefur fram til þessa.

Varðandi spurningu hv. 14. þm. Reykv. þá felur ákvæði 30. gr. um fjölda meðmælenda ekki í sér breytingu frá gildandi reglum. Hins vegar er í frv. ákvæði um fjölgun þeirra sem mæla með lista, til þess að fá listabókstaf. Hins vegar er ekki kveðið á um fjölgun meðmælenda með framboðslistum.

Ég tel að þær skilgreiningar sem eru í þessari grein séu til glöggvunar en ekki á nokkurn hátt til þrengingar á möguleikum manna til framboðs eða því að nefna samtök sín hvaða nafni sem þeir kjósa eða hafa hvert það skipulag sem þeir vilja.

Að svo mæltu, herra forseti, þakka ég fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram.