Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:32:41 (3849)

1999-02-18 12:32:41# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:32]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Vandamálið er ekki að iðnrh. sé með óskýra stefnu. Vandamálið er hins vegar það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur ekki kynnt sér stefnuna (Gripið fram í.) og það kom best fram í --- það er síður en svo og það eru orð þingmannsins sjálfs --- það kom best fram í því að hann fór hvað eftir annað í einstök mál sem liggja fyrir þinginu. Ég tek sem dæmi orkusparnað af því að hv. þm. spurði um orkusparnaðinn. Þar er skýr afstaða. Hér liggur fyrir í þinginu frv. um orkunýtnikröfur. Sérstakt átak er í gangi á vegum iðnrn. og Orkustofnunar í orkusparnaði í samvinnu við sveitarfélögin. Sérstakt jarðhitaleitarátak er í gangi, og þannig gæti ég haldið áfram að telja.

Stefnan er skýr frá rannsóknum til nýtingar. Gleggsta dæmið um rannsóknirnar er sjóður eða breytingar á orkulögum um stofnun sérstaks orkusjóðs til að takast á við rannsóknirnar.

Hv. þm. þarf að kynna sér stefnuna áður en hann kemur upp í þennan stól og fer að kvarta undan stefnuleysi.