Stefna í byggðamálum fyrir árin 1999-2001

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 13:40:37 (4260)

1999-03-03 13:40:37# 123. lþ. 76.2 fundur 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 123. lþ.

[13:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hefði í fyrsta lagi talið eðlilegt að tillagan hefði beðið þangað til stjórnskipuð nefnd af hæstv. forsrh. með fulltrúum þingflokka sem hefur nú verið að störfum um tilteknar aðgerðir í byggðamálum tengdar kjördæmabreytingu hefði skilað áliti sínu og þar til ljóst hefði verið hvað gert yrði hér á þingi áður en því lýkur í þeim efnum.

Tillagan er fyrst og fremst samsafn af fallegum hugleiðingum um hvernig menn vildu gjarnan að byggðamál þróuðust á Íslandi. Ég hef líkt því við það að menn settu saman þáltill. um að helst skyldi alltaf vera gott veður. Út af fyrir sig hægt að samþykkja slíkar ályktanir. Það væri hægt að samþykkja hugleiðingar um að æskilegt væri að byggðamál þróuðust jákvæðar en þau hafa gert að undanförnu. En meðan slík ályktunargerð hefur ekkert inntak, engir peningar fylgja og engar ákvarðanir fylgja um slíkar aðgerðir, er ekkert að samþykkja, það er ekki verið að greiða neinu atkvæði, herra forseti. Ég sit því hjá.