Beiðni um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 10:46:02 (4483)

1999-03-09 10:46:02# 123. lþ. 82.91 fundur 333#B beiðni um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), MagnM
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[10:46]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að taka til máls um lögreglumál í Grindavík í víðu samhengi en ekki störf þingsins og ég vona að ég syndgi ekki mikið upp á náðina í þeim efnum.

Ég kom með fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um daginn um löggæslumál í Kópavogi þar sem ástandið er þannig að þar eru 25 lögreglumenn í 22 þúsund manna bæjarfélagi og fjöldi þeirra hefur staðið í stað síðustu 10 árin. Þau svör sem ég fékk voru þau að nóg væri af lögreglumönnum í Reykjavík. Þeir gætu þá komið lögreglunni í Kópavogi til aðstoðar ef í harðbakkann slægi.

Af því að menn eru að tala um löggæslumál á Reykjanesi, þá vildi ég benda á þetta svar og vekja athygli á því að þarna er um tvö kjördæmi að ræða. Ef leysa á löggæslumál í Reykjaneskjördæmi með því að senda lögreglulið úr öðru kjördæmi, þá er spurning hvert þessi umræða er að fara. Það er a.m.k. afar nauðsynlegt að öll þessi mál séu tekin til gagngerðrar endurskoðunar. En ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér er.