Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 18:12:50 (102)

1998-10-05 18:12:50# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[18:12]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þetta síðasta atriði lýsti hæstv. heilbrrh. því yfir á aðalfundi Tryggingastofnunar að til stæði að draga úr tekjutengingunni þannig að það er afar eðlilegt að við þingmenn skulum spyrja að því hvenær þetta eigi gerast og hvernig. En ég held að hæstv. heilbrrh. hafi misskilið mig þegar hún vitnaði í eitthvað sem ég hafði sagt um nefndir ráðuneytisins. Ég var eingöngu að tala um stóru sjúkrahúsin og að þar hefði þurft að setja nefndir á laggir ár eftir ár til þess að reyna að stoppa í götin sem þar hafa verið skilin eftir aftur og aftur. Ég veit svo sem ekkert um það hvernig nefndir starfa annars staðar. En mér er mjög annt um málefni stóru sjúkrahúsanna.

Í tengslum við það sem fram kom í ræðu hæstv. heilbrrh. þar sem hún nefndi að þær aðgerðir og þau auknu framlög sem nú koma til heilbrigðismála yrði hægt að stytta biðlista og því vil ég fá að spyrja hæstv. heilbrrh.: Stendur til að setja reglur um biðlista eins og nefnd um forgangsröðun í heilbrigðismálum lagði til, þ.e. að hreinlega verði ekki heimilt að fólk sé á biðlistum lengur en ákveðinn tíma?