Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 10:48:15 (188)

1998-10-08 10:48:15# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[10:48]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kvartar yfir því að ég tali um sérstöðu. Auðvitað höfum við sérstöðu. Það kemur fram í Kyoto-bókuninni að við höfum þá sérstöðu að fá 10% svigrúm umfram flesta aðra. Í því felst ákveðin viðurkenning á starfi hv. þm. á sínum tíma þegar hann var iðnrh. og annarra eftir hans tíma í ráðuneytinu.

Auðvitað höfum við sérstöðu. Ég er ekki að segja að við þurfum ekki að taka til. Menn eru að því. Ég hef sjálfur flutt hér tillögu um að nýta metangas á strætisvagna í höfuðborginni og opinber tæki þannig að hægt sé að draga úr mengun í andrúmsloftinu. Ég styð það heils hugar. Ég styð að sjálfsögðu heils hugar að reynt verði að nýta vetni. En því miður er ljóst að við nýtum ekki vetni, t.d. á skipaflotann, fyrr en eftir langan tíma. Þetta er of dýr aðgerð eins og er og ekki eins aðgengileg og menn vildu vera láta. Þess vegna mun ekki verða hægt að nota slíkan orkugjafa á fiskiskipaflotann fyrr en eftir nokkuð langan tíma.

Ef við getum ekki dregið úr mengun skipaflotans og ekki frekar úr bílaflotanum þá er ekki svo mjög margt eftir. Það sem við höfum gert er viðurkennt og ég held að sjálfsagt sé að halda því á lofti, hv. þm. Ég tek að sjálfsögðu undir það að við eigum að gera betur. En við eigum ekki að eyðileggja fyrir okkur þá möguleika í atvinnuuppbyggingu sem við augljóslega höfum og við þurfum ekki endilega að ganga á auðlindir okkar á hálendinu til þess. Til eru margir aðrir virkjunarkostir, eins og komið hefur fram, svo sem virkjun háhitasvæða og aðrir möguleikar sem til eru og við þekkjum.